Fréttir
Aftur er komið á samband við vefmyndavél sem staðsett er á mælaskúr Veðurstofunnar sem fór á hliðina í krapaflóðinu. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands)

Vatnshæð við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum hefur farið lækkandi síðustu daga

Vísbendingar um að krapaþekjan sé að þynnast. Ótakmarkaðri umferð hleypt á brúna.

8.2.2021

Uppfært 08.02. kl. 15.30

Vatnshæð við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum hefur farið lækkandi síðustu daga. Myndir af árfarveginum ofan við brúna sýna að opið rennsli vatns hefur aukist og á radarmyndum eru vísbendingar um að krapaþekjan sé að þynnast. Því er talið að líkur á krapahlaupi líkt og það sem varð 26. janúar hafi farið mjög minnkandi.  Því hefur verið tekin ákvörðun í samráði við Vegagerðina að hleypa ótakmarkaðri umferð yfir brúna við Grímsstaði. Þó eru aðstæður í ánni stöðugt vaktaðar og brugðist við af aðstæður breytast.

Uppfært 05.02. kl. 16.30

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglan á Norðurlandi eystra, Vegagerðin, Veðurstofan og sveitastjóri Skútustaðahrepps funduðu í morgun vegna Jökulsár á fjöllum.

Enn er vatnshæð há í Jökulsá á Fjöllum við brúarstæðið yfir ána, eða um 5 m.  Vatnshæð hefur farið hægt lækkandi frá 1. febrúar en búast má áfram við sveiflum í henni.  Enn er töluverður ís og krapi ofan og neðan við brúna, en frá því í gær hefur opið rennsli um miðjan krapann farið stækkandi, sem er jákvæð þróun. 

Næstu daga verður áfram kalt í verði og því fyllsta ástæða til þess að fylgjast vel með aðstæðum.  Vegagerðin vaktar brúna á opnunartíma, Veðurstofan fylgist með vatnsmælum og sérsveit ríkislögreglustjóra aðstoðar lögregluna á norðurlandi eystra við gagnasöfnun með reglulegu drónaflugi. 

Í ljósi þess að dag lengir og jákvæð teikn eru á lofti hvað varðar krapastífluna hefur verið ákveðið að lengja opnunartíma fyrir umferð.  Vegurinn verður opinn næstu daga á milli 09:00-19:00, en lokaður utan þess tíma. 

Þetta fyrirkomulag verður endurskoðað á mánudaginn 8. febrúar að öllu óbreyttu.


Ljósmynd sem sýnir að Jökulsá á Fjöllum hefur brotið sér farveg í gegnum krapann sem er vísbending um að áin sé að bræða af sér krapann. (Ljósmynd: Lögreglan á Norðurlandi eystra)

Uppfært 03.02. kl. 11.45

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglan á Norðurlandi eystra, Vegagerðin og Veðurstofan funduðu í morgun vegna Jökulsár á Fjöllum. Í gær var veginum um Mývatnsöræfi lokað vegna aukinnar hættu á öðru þrepahlaupi í ánni. 

Sérfræðingar Veðurstofunnar fóru í könnunarflug eftir ánni í gær. Mikill krapi er enn í ánni og heldur ís áfram að safnast upp á meðan kalt er í veðri. Flogið var eftir ánni og farvegurinn kannaður talsvert norðan við brúna og allt suður að Herðubreið. „Það er greinilega mikill krapi ennþá í ánni og nær hann rúma 3 km upp ána frá brúnni. Við sáum þó engar vísbendingar í fluginu í gær um að nýjar stíflur væri að myndast sem gætu framkallað svipað flóð og kom um daginn“, segir Jón Ottó Gunnarsson, sérfræðingur í mælarekstri á Veðurstofunni. „Þessi lækkun á vatnshæð við brúna í gær voru líklega merki um að áin væri að bræða af sér krapa og vatn þannig að finna sér leið undir krapanum. Það er vonandi að veðrið vinni með okkur og áin losni smám saman úr klakaböndum, án þess að það komi til flóðs“, segir Jón Ottó.

Það sem oftast hefur gerst þegar krapastífla myndast á þessum stað er að áin hefur fundið sér farveg og bræðir af sér stífluna jafnt og þétt með hjálp vatnshitans sem getur verið 2 °C og jafnvel meiri ef milt er í veðri. „Við getum í raun ekki útilokað annað flóð og því nauðsynlegt að fylgjast áfram náið með þróun mála“, segir Gunnar Sigurðsson, hópstjóri vatnamælikerfa á Veðurstofunni. Flóðið 26. janúar var í raun mjög sjaldgæfur atburður og ekki hefur orðið slíkur atburður frá því að vatnshæðamælirinn var settur upp árið 1965. Það er því heilmikill lærdómur sem við getum dregið af þessum atburði og eykur skilning okkar á því hvernig áin hagar sér“, segir Gunnar.

Niðurstöður fundarins voru þær að óhætt er að opna veginn aftur með þeim takmörkunum sem áður voru. Vegurinn verður opinn næstu daga á milli 09:00-18:00, en lokaður utan þess tíma.  Þetta fyrirkomulag verður endurskoðað á föstudaginn að öllu óbreyttu.


Úr eftirlitsfluginu í gær. Hér má sjá þann stað í ánni þar sem líklegt er að stífla hafi myndast sem framkallaði hlaupið þann 26. janúar. Talsverður krapi og ís er enn í ánni. Hér að neðan er kort sem sýnir flugleið eftirlitsflugsins. Guli punkturinn táknar þann stað í ánni sem myndin sýnir. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Jón Ottó Gunnarsson)



Uppfært 02.02. kl. 15.30

Vatnshæðamælar við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum sýna að vatnshæð hefur lækkað frá því síðdegis í gær. Sú lækkun getur verið vísbending um að áin sé að bræða krapann ofan af sér og losa þannig hægt og rólega um krapann á yfirborðinu. Vatnshæðin við brúna er ennþá mjög há vegna krapans í ánni, en engu að síður rennur áin undir honum og er vatnsrennsli um 100 m3/s sem er eðlilegt miðað við árstíma. Framvinda þessa atburðar veltur því að miklu leyti á veðurástandi á svæðinu næstu daga, en þar er áfram gert ráð fyrir talsverðu frosti.

Á þessum tímapunkti er þó ekki hægt að útiloka að aðrar krapastíflur séu að myndast sunnar í ánni. Farið verður í eftirlistflug til að kanna betur aðstæður í ánni. Óvissustig er ennþá í gildi og er svæðið er áfram vaktað. Vegurinn er lokaður en gert er ráð fyrir að ákvörðun um vegaopnun verður tekin af lögreglu á Norðurlandi eystra eftir stöðufund viðbragðsaðila í fyrramálið, miðvikudaginn 3. febrúar.


Uppfært 02.02. kl. 12.20

Lögreglan á Norðurlandi Eystra ásamt Vegagerðinni hafa lokað þjóðvegi 1 frá Námaskarði að gatnamótum Vopnafjarðarafleggjara. Hjáleið er um Norðausturströndina, Húsavík, Þórshöfn og Vopnafjörð. Ástæðan fyrir þessari lokun eru vísbendingar eru um að hreyfing sé komin á klakastíflu sunnan við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum. Verið að er að kanna aðstæður og Veðurstofan fylgist vel með mælitækjum í og við ána. Vatnshæð hefur lækkað við brúna sem bendir til klakastíflu í ánni, eins hefur jarðskjálftamælir nemið óróa sem gefur vísbendingar um hreyfingar á ís í ánni.

Uppfært 01.02. kl. 11.30

Enn er mikill krapi og ís í Jökulsá á Fjöllum og vatnsstaða við brúna á þjóðvegi 1 er enn há. Áfram er spáð miklum kulda og því má áfram búast við svipuðum aðstæðum í ánni næstu daga.  Á meðan ástandið varir, er enn yfirvofandi hætta á að krapastíflur bresti ofar í ánni sem geta valdið hættu eða tjóni á og við brúna.

Að þessum sökum verða áfram takmarkanir á umferð, en vegurinn er opinn á milli 09:00-18:00 og verður vakt á staðnum til þess að fylgjast með ef einhverjar breytingar verða.  Þetta fyrirkomulag verður endurskoðað á miðvikudaginn næstkomandi nema aðstæður breytist verulega. 


Uppfært 31.01. kl. 15.25

Vatnshæðamælir við brúna sýnir lítilsháttar lækkun frá því í gærmorgun þegar vatnshæðin náði hámarki. Einnig hafa verið gerðar handvirkar mælingar á staðnum og ber þeim saman við þá lækkun sem mælar Veðurstofunnar sýna. Áfram er þó fylgst náið með þróun mála. Óvissustig almannavarna enn í gildi.


Uppfært 30.01. kl. 14.10

Mælir við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum sýnir að vatnshæð hefur hækkað rólega frá því kl. 15 í gær. Sjáanleg hækkun er einnig í ánni og er stöðugt verið að meta aðstæður við brúna og á veginum í næsta nágrenni. Reglulegir stöðufundir eru haldnir að leggja frekara mat á aðstæður og þróun mála. Áfram verður lokað fyrir umferð um svæðið á þjóðvegi 1 frá kl. 18:00 – kl. 09:00.


Uppfært 29.01. kl. 20.20

Óbreytt ástand er við Jökulsá á Fjöllum. Áfram verður lokað fyrir umferð um svæðið á þjóðvegi 1 frá kl. 18:00 – kl. 09:00 fram á mánudag. Miðað við veðurspá næstu daga er líklegast að ástand árinnar haldist nokkuð stöðugt. Sérfræðingar Veðurstofunnar gera ráð fyrir að fara í vettvangsferð á sunnudag til að meta aðstæður og huga að mælitækjum. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um næstu skref nema að aðstæður breytist í millitíðinni.

Það er ljóst af þeim gögnum og myndum sem Veðurstofan hefur skoðað af svæðinu að mikið hefur gengið á þegar Jökulsá ruddi sig síðdegis á þriðjudag. Sem dæmi um hversu mikil lætin voru og ef til vill einnig hversu næmir jarðskjálftamælar Veðurstofunnar eru, þá sýnir jarðskjálftamælir sem staðsettur er við Grímsstaði á Fjöllum aukningu í óróa um það leyti sem krapahlaupið varð. Mælirinn er staðsettur í um 3,5 km frá brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum. Ekki er þó hægt að staðsetja upptök þessa óróa út frá þessum eina mæli, né að staðfesta að óróinn sem hann nemur sé vegna hlaupsins í ánni. Engu að síður áhugavert og eitthvað sem sérfræðingar Veðurstofunnar muni skoða nánar og meta hvernig þessar upplýsingar mögulega nýtist til að greina þennan atburð betur.

IMG_4226

Óróinn sem jarðskjálftamælirinn við Grímsstaði nam sést hér neðst í þessu grafi. Greinilegur órói sést á grafinu um það leyti sem vatnshæðamælar hafa skráð tímasetningu krapahlaupsins í Jökulsá á Fjöllum sem var milli 15.20 og 15.30.

Uppfært 28.01. kl. 15.39

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra, hefur ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna krapastíflu og flóðahættu í Jökulsá á Fjöllum, á milli Mývatnssveitar og Egilsstaða.

Sérfræðingar Veðurstofunnar vakta ástandið náið og eru aðstæður metnar þannig að ekki er hægt að útiloka að frekari flóð verði í ánni sem geti skapað hættu á svæðinu næst brúnni. Vatnshæð getur aukist við brúna á mjög skömmum tíma og skapað varasamar aðstæður fyrir vegfarendur. Verið er að rýna í fleiri göng m.a. gervihnattamyndir til að meta ástandið í farvegi árinnar ofan við brúna til að sjá hvort stíflur séu að myndast og þá um leið meta líkurnar á frekari flóðum. Eins er verið að kanna hvaða möguleikar eru á uppsetningu mælibúnaðar ofar í ánni svo hægt sé að segja til um hlaup með lengri fyrirvara.

Lokað verður fyrir umferð um svæðið á þjóðvegi 1 frá kl. 18:00 – kl. 09:00 næstu fjóra daga. Umferð um veginn verður stýrt þess utan.

Uppfært 28.01. kl. 11.00

Veðurstofan fylgist grannt með Jökulsá á Fjöllum eftir að áin ruddi sig með látum um miðjan dag á þriðjudag. Vatnsborðið hækkaði um 180 cm á einni mínútu þegar mest var. Veginum var lokað síðdegis sama dag vegna krapa sem ruddist upp og yfir veginn við brúna. Engar skemmdir urðu á brúnni og ekki er vitað til þess að vegurinn sé skemmdur. Umferð var hleypt á veginn undir eftirliti tímabundið í gær, miðvikudag, en var svo lokað kl. 18 í varúðarskyni þar sem ekki var hægt að fylgjast með ánni vegna myrkurs.

Áin hefur ekki rutt sig með þessum hætti svo vitað sé

Það er ljóst að mikið hefur gengið á við brúna. Skúr sem í eru mælitæki Veðurstofunnar virðist hafa lyfst upp og dregist til við bakka árinnar. Liggur hann nú svo til á hliðinni en vatnshæðargögn eru enn sem komið er að berast frá mælistöðinni. „Það sem líklega hefur átt sér stað er að áin hefur rutt sig þegar uppsafnað vatn ofar í farveginum hleypur fram“ segir Jón Ottó Gunnarsson, sérfræðingur í mælarekstri á Veðurstofu Íslands, en hann er einn af þeim sérfræðingum sem fylgst hefur grannt með gangi mála frá því í gær. Vatnhæðamælir Veðurstofunnar nemur flóðatoppinn um kl. 15.20 til 15.30 í gær. Eins og sjá má í grafinu hér að neðan hækkaði vatnsborðið um 180 cm á aðeins einni mínútu en heildarhækkun í atburðinum var 250 cm.


Mælitæki Veðurstofunnar sýna að hlaupið hafi orðið í kringum 15.20 og 15.30 á þriðjudag. Hækkaði vatnsborðið um 180 cm á aðeins einni mínútu en heildarhækkun í atburðinum var 250 cm.

„Hér er um svokallað þrepahlaup að ræða, en slík hlaup geta orðið við vissar aðstæður í ánni“, segir Jón Ottó. Þrepahlaup er þegar ísstíflur bresta hver af annarri og flóðöldur magnast oft þrep af þrepi. „Það að ís hrannist upp á þessum stað er ekki óþekkt í Jökulsá á Fjöllum, en hingað til hefur áin ekki rutt sig með þessum hætti svo vitað sé. Það er mjög mikilvægt að fylgjast grannt með ánni því það geta skapast mjög varasamar aðstæður, eins og til dæmis við þessi þrepahlaup og vatnshæð getur þá aukist við brúna á mjög skömmum tíma“, segir Jón Ottó. Sérfræðingar Veðurstofunnar stefna á að fara á vettvang á næstu dögum og meta aðstæður, en sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist grannt með gangi mála í góðri samvinnu við Vegagerðina og lögregluna á Norðurlandi eystra. 


Krapi er yfir ánni eins langt og augað eygir. Skúr Veðurstofunnar sem hýsir vatnamælingabúnað er nánast á hliðinni en merkilegt nokk sendir vatnshæðamælir ennþá merki til vaktar Veðurstofunnar. Ljósmynd: Lögreglan á Norðurlandi Eystra 

Stórar krapastíflur hafa áður myndast á sömu slóðum 

Krapastíflur í Jökulsá á Fjöllum myndast þegar mjög kalt er í veðri og skafrenningur. Vatnshiti lækkar þá hratt niður að frostmarki. Mikill krapaburður verður í ánni og við stefnubreytingu eða hindranir hrannast krapinn upp og byrjar að frjósa saman. 

Ofarlega á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum rennur lindarvatn í ána, og finnur það sér oftast farveg undir ísnum og getur runnið þar óhindrað. Neðar geta myndast miklar ísrendur eða skarir. Ef rennsli eykst skyndilega, hvort sem er þegar losar um stíflu eins og nú, eða vegna snarprar hlýnunar í veðri og hláku, getur áin rutt sig með miklum látum.  Þá lyftir vatnið undir ísinn, brýtur hann upp og hann flýtur af stað. Stundum brotna upp stórir flekar. Flekarnir berast svo niður ána, stranda á hindrun eða grynningum. Síðan berst krapi og fleiri jakar að þeim sem eru þegar strandaðir og þannig byrjar ís að hrannast upp. Það sem oftast hefur gerst þegar krapastífla myndast á þessum stað er að áin hefur fundið sér farveg og bræðir af sér stífluna jafnt og þétt með hjálp vatnshitans sem getur verið 2 °C og jafnvel meiri ef milt er í veðri.

Þann 20. janúar 2015 byrjaði ís að hrannast upp við brúna við Grímsstaði. Íshellan sem þá lá yfir ánni og bökkunum brotnaði upp og hrannir, og ísruðningur safnaðist fyrir. Það var þá stærsta krapastífla í ánni síðan í desember 2010 og þakti nokkra kílómetra farvegarins. Ekki hefur tekist að meta umfang stíflunnar nú sökum lélegs skyggnis, en sérfræðingar Veðurstofunnar vonast til að geta lagt mat á það þegar þeir komast á staðinn.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica