Fréttir

Jöklabreytingar á Íslandi á COP29

Rætt verður um viðbrögð við hlýnandi loftslagi frá lokum 19. aldar

20.11.2024

Þorsteinn Þorsteinsson, jöklafræðingur á Veðurstofu Íslands, mun flytja erindi á loftslagsráðstefnunni COP29 fimmtudaginn 21. nóvember klukkan 18:00 að staðartíma eða klukkan 14:00 hér á landi. Erindið verður fjarflutt í sérstakri dagskrá ráðstefnunnar um áhrif hlýnunar á ísa og snjóa jarðar (Cryosphere Pavilion) og verður hluti af setu sem ber heitið: "From Global Glacier Monitoring to the Global Glacier Casualty List". Viðburðurinn verður í beinu streymi, og hægt er að fylgjast með honum á þessari vefslóð.

Rýrnun jökla og hækkun sjávarborðs varðar alla jarðarbúa

Þorsteinn mun ræða um jökla á Íslandi og viðbrögð þeirra við hlýnandi loftslagi frá lokum 19. aldar. Greint verður frá breytingum á lengd og flatarmáli jökla landsins og sýndar nýjustu niðurstöður árlegra afkomumælinga. Rýrnun jökla og hækkun sjávarborðs og áhrif þessara breytinga á vistkerfi og samfélög er málefni sem varðar alla jarðarbúa og í erindinu verður stuttlega lýst spám, sem settar hafa verið fram  um afdrif jökla á þessari öld.

Í setunni verður einnig gerð grein fyrir nýlegum og komandi viðburðum í tengslum við alþjóðaár jökla 2025, sem efnt verður til á vegum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Á íslensku hefur alþjóðaárinu verið valið heitið: Jöklar á hverfanda hveli og verða viðburðir hérlendis kynntir á næstunni.

Skjamynd-2024-11-20-190604



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica