Fréttir
Myndin sýnir yfirfarna skjálfta sem hafa mælst í Vatnafjöllum í dag
Myndin sýnir yfirfarna skjálfta sem hafa mælst í Vatnafjöllum í dag

Jarðskjálfti í Vatnafjöllum

11.11.2021

Í dag kl. 13:21 mældist jarðskjálfti af stærð 5,2 á um 5 km dýpi í Vatnafjöllum á Suðurlandi, 8 km suður af Heklu. Veðurstofunni barst fjöldinn allur af tilkynningum um að fólk hefði fundið skjálftann víða á Suður- og Vesturlandi, m.a. á höfuðborgarsvæðinu, í Vestmannaeyjum, á Kirkjubæjarklaustri og í Búðardal. Þegar þetta er skrifað hafa um 150 eftirskjálftar mælst, sá stærsti 2,7 að stærð, og má gera ráð fyrir því að eftirskjálftavirknin haldi eitthvað áfram næstu daga.

Staðsetning skjálftans er austast á Suðurlandsbrotabeltinu sem er um 70 km langt þverbrotabelti sem teygir sig frá Hengli, austur að Vatnafjöllum. Árið 1987 mældist skjálfti á svipuðum slóðum af stærð 5,8 sem hefur verið nefndur Vatnafjallaskjálftinn. Staðsetning og eðli upptakamynsturs skjálftans bendir til þess að hann sé tengdur flekahreyfingum. Þar sem upptök skjálftans eru ekki svo fjarri Heklu mun Veðurstofan vakta virkni í Heklu sérstaklega vel í kjölfar skjálftans. Engar tilkynningar hafa borist Veðurstofunni eða Lögreglunni á Suðurlandi um tjón á svæðinu.

Hægt er að fylgjast með frekari jarðhræringum á landinu hér.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica