Fréttir
Húsavík. Ljósmyndin er fengin af vef Þekkingarnets Þingeyinga.

Jarðskjálftaráðstefna á Húsavík

24.5.2016

Jarðskjálftar á Norðurlandi er nafnið á ráðstefnu sem haldin verður á Húsavík í næstu viku eða dagana 31. maí - 3. júní 2016. Dagskrá ráðstefnunnar og fleiri upplýsingar má finna á heimasíðu Þekkingarnets Þingeyinga; svo og ágrip erindanna. Um 40 erindi verða haldin allt í allt.

Bakgrunnur

Jarðskjálftar allt að 7 að stærð geta orðið við norðurströndina eða úti fyrir henni, allt frá Öxarfirði til Skagafjarðar, á svæði sem kallast Tjörnesbrotabeltið en það teygir sig til norðurs allt að Kolbeinsey.

Markmið ráðstefnunnar er að taka stöðuna á rannsóknum á jarðskjálftum á Norðurlandi, orsökum þeirra, eðli og áhrifum, hagnýtingu rannsóknarniðurstaðna og aðgerðum til að draga úr tjóni á fólki og samfélagslegum innviðum vegna stórra skjálfta sem gætu orðið á svæðinu.

Ráðstefnan

Ráðstefnan verður sett 31. maí kl 16:00. Við opnunina mun Freysteinn Sigmundsson eldfjallafræðingur flytja fræðsluerindi (á ensku) um gliðnunaratburðinn 2014 - 2015, öskjusigið og hraungosið í eldstöðvakerfi Bárðarbungu.

Fjöldi annarra erinda verður fluttur miðvikudaginn 1. júní en föstudaginn 3. júní verða umræður, vinnufundur og vettvangsferðir. Vegna erlendra gesta fer þessi hluti ráðstefnunnar fram á ensku.

Opinn fundur á íslensku

Fimmtudaginn 2. júní kl. 14:30 - 18:00 verður opinn fundur þar sem sérfræðingar í rannsóknum og jarðváreftirliti koma til samræðu við fólk í stjórnsýslu og við almenning. Í stuttum erindum verður sagt frá efni og markmiðum ráðstefnunnar.

Í pallborðsumræðum verður almannavarnafólk, sveitastjórnafólk, verkfræðingar og tæknifræðingar í héraði, sérfræðingar á sviði jarðvísinda og jarðskjálftaverkfræði, aðilar í stórframkvæmdum á Norðurlandi og fulltrúar úr heilbrigðis- og samfélagsgeirum.

Upplýsingar

Ráðstefnan verður haldin í húsakynnum Framsýnar að Garðarsbraut 26, Húsavík.

Hægt er að skrá sig til þáttöku hjá Þekkingarneti Þingeyinga og í síma 464 5100. Þar eru líka veittar allar almennar upplýsingar um ráðstefnuna.

Gestir og fyrirlesarar

Til ráðstefnunnar koma íslenskir og erlendir jarðvísindamenn og verkfræðingar. Einnig margir frá sveitastjórnum svæðisins og almannavarnanefndum, frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og frá Viðlagatryggingu, sem og fólk úr samfélags- og skipulagsfræðum, verk- og tæknifræðingar.

Aðstandendur og styrktaraðilar

Háskólinn á Akureyri, Háskólasjóður KEA, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Veðurstofa Íslands, King Abdullah University of Science and Technology (KAUST), Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði við Háskóla Íslands, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Viðlagatrygging Íslands, Íslenskar Orkurannsóknir (ÍSOR), Þekkingarnet Þingeyinga, Orkustofnun, Innanríkisráðuneytið, Umhverfis- og Auðlindaráðuneytið og Forsætisráðuneytið.

Umsjón

Ragnar Stefánsson, prófessor emeritus við Háskólann á Akureyri, Sigurjón Jónsson, dósent við KAUST stofnunina, Páll Einarsson, prófessor við Háskóla Íslands, Benedikt Halldórsson, vísindamaður við Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði og Kristín Vogfjörð, rannsóknarstjóri Veðurstofu Íslands.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica