Fréttir
mynd
skriðuhætta

Jarðskjálftahrina enn í gangi

2.7.2020

Jarðskjálftahrina sem hófst fyrir norðan land þann 19. júní stendur enn yfir og hafa tæplega 9000 skjálftar mælst í henni en þetta er öflugasta hrinan á Tjörnesbrotabeltinu í ríflega 40 ár. Þrír skjálftar af stærð 5-6 mældust á fyrstu dögum hrinunnar sem hefur verið kröftugust á tveimur stöðum, annarsvegar í Eyjafjarðarálnum um 25-45 km norðnorðaustur af Siglufirði og hinsvegar vestast á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu um 20 km norðaustur af Siglufirði. Virknin hefur færst aðeins austar eftir Húsavíkur-Flateyjar misgenginu þó jarðskjálftar þar séu flestir mjög litlir og finnist ekki í byggð en ekki er hægt að útiloka að þarna geti komið stærri skjálftar. Rannsóknir á misgenginu benda til að enn sé innistæða fyrir stærri skjálfta allt að stærð 7 á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu og meðan að hrinan er í gangi eru auknar líkur á að stærri skjálftar mælist. 

Ef að kæmi til slíks skjálfta er hugsanlegt að hann valdi grjóthruni og skriðum auk þess sem þekkt er að sumir stærri skjálftar valdi flóðbylgjum. Hættan á skriðuföllum er því ekki einungis bundin við norðanverðan Tröllaskaga og Flateyjarskaga eins og áður hefur verið greint frá heldur einnig austur á Melrakkasléttu.

mynd

Á meðfylgjandi mynd má sjá þau svæði sem skriðuföll geta átt sér stað í stórum skjálftum á brotabeltinu norðan við land.
Mikilvægt er að fólk á svæðinu kynni sér leiðbeiningar Almannavarna um viðbrögð í jarðskjálftum og tryggi innanstokksmuni eins og hægt er hið fyrsta. 

Vill Veðurstofan í samráði við Almannavarnir  koma almennum tilmælum til fólks um þessa hættur:

Almenn tilmæli og upplýsingar til Almennings verði jarðskjálfti >6 í nágrenni við Flatey/Húsavík

  • Halda kyrru fyrir meðan að jarðskjálftinn ríður yfir
  • Halda sig frá byggingum sem hafa skemmst
  • Halda sig frá skriðuhlíðum
  • Halda sig frá höfninni og strönd vegna hugsanlegrar flóðbylgju af hafi næstu klukkustundir
  • Búast má við að tugir eftirskjálfta finnist í nærumhverfi skjálftaupptakanna næstu 24 tímana

mynd

Á kortinu má sjá ríflega 2000 yfirfarna jarðskjálfta úr hrinunni sem hófst föstudaginn 19. júní og stendur enn yfir. Jarðskjálftarnir eru litaðir þ.a. að nýjustu skjálftarnir (frá 1. júlí) eru rauðir en þeir elstu bláir.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica