Fréttir
Myndin sýnir skjálfta sem mælst hafa frá miðnætti 21. desember til kl. 11, 28. desemeber.

Jarðskjálftahrina á Reykjanesskaga

Líkön varpa ljósi á stöðu mála við Fagradalsfjall

5.1.2022

Uppfært 7.1. kl15:06

Þeirri jarðskjálftahrinu sem hófst þann 21. Desember við Fagradalsfjall hefur nú slotað. Aflögun hefur ekki átt sér stað síðan þann 28. Desember samkvæmt mælingum úr GPS stöðvum og frá InSAR myndum. Það er því metið sem svo að þessari kviðu sé að líkindum lokið og litlar líkur á því að eldgos muni hefjast að svo stöddu. Vegna þessa hefur Veðurstofan breytt fluglitakóðanum í gulann . Veðurstofan mun halda áfram að fylgjast náið með svæðinu og öllum mögulegum breytingum sem geta orðið.

Uppfært 5.1.

Mikið hefur dregið úr færslum á GPS stöðvunum í nágrenni við Geldingadali. Færslurnar sýna aflögun á yfirborði jarðar, en nánast engar færslur hafa mælst frá því 28. desember. Skjálftavirkni er enn töluverð en hefur þó minnkað umtalsvert frá því að skjálftahrina hófst 21. desember í tengslum við þetta nýja kvikuinnskot í Fagradalsfjalli.

Líkön benda til að kvikuinnskotið sé u.þ.b. helmingi minna en það sem myndaðist í aðdraganda eldgossins í Geldingadölum eða um 18 milljón rúmmetrar og að toppur þess hafi náð upp á um 1,5 km dýpi. Óvissa hefur ríkt um hvort kvikan í þessu innskoti muni ná alla leið til yfirborðs líkt og varð raunin í mars.  Út frá líkönum og nýjustu mælingum er líklegast að kvikan í innskotinu sé byrjuð að storkna og því lengri tími sem líður án breytinga í virkni, því minni líkur eru á að þetta kvikuinnskot endi með eldgosi.

„Vísindamenn hafa bent á samanburð virkninnar við Fagradalsfjall og þeirrar virkni sem sást í Kröflueldum“ segir Michelle Parks, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sem unnið hefur að greiningu gagnanna. „Í Kröflueldum endaði um helmingur kvikuinnskota með eldgosi en önnur ekki og við gætum verið að sjá dæmi um slíka virkni við Fagradalsfjall. Þar hefur það áhrif hversu stór kvikuinnskotin eru og hversu grunnt þau ná“, segir Michelle.

Model-4-

Myndin sýnir líklega staðsetningu á nýja kvikuganginum (rauð lína) út frá líkönum í samanburði við kvikuinnskotið sem átti sér stað i febrúar-mars 2021 (svört lína).  Appelsínugulir hringir tákna jarðskjálfta sem mælst hafa síðan 21. desember og grænir eru jarðskjálftar sem mældust frá 24. febrúar til 21. desember.

Ennþá leynist talsverður varmi í hraunbreiðunni við eldstöðvarnar. Á köldum dögum sést gufa rísa upp frá hraunbreiðunni og er hitauppstreymi sem þéttist vatnsgufu í kuldanum. Slíkt er ekki merki um aukna virkni.

Vísindamenn munu halda áfram að fylgjast vel með svæðinu og eru nýjar gervitunglamyndir væntanlegar síðar í vikunni sem varpa frekara ljósi á gang mála við Fagradalsfjall.


Uppfært 3.1. kl 15:35

Enn er nokkur skjálftavirkni á Reykjanesskaganum en hátt 200 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Hrinan sem hófst 21. desember síðastliðinn er því ennþá í gangi, þau dregið hafi úr tíðni og stærð skjálfta. Von er á greiningu á nýjum gervihnattamyndum í lok dags á morgun sem mögulega gefa betri mynd af stöðunni.


Uppfært 28.12. kl. 11:00

Frá miðnætti hafa um 600 skjálftar mælst á svæðinu við Fagradalsfjall, mun færri en á sama tíma í gær.

Í gær, 27. desember, mældist jarðskjálfti af stærð 3,0 um 2 km vestan Kleifarvatns og kl. 08:25 mældist jarðskjálfti af stærð 3,6 skammt þar frá. Þessir jarðskjálfar eru túlkaðir sem gikkskjálftar og er að orsök þeirra rakin til aukins þrýstings vegna kvikusöfnunar við Fagradalsfjall.

Frá því að hrinan hófst hafa rúmlega 19 þúsund skjálftar mælst, þar af fjórtán af stærð 4,0 eða stærri.


Uppfært 27.12.2021

Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi í dag vegna jarðskjálftahrinu og landbreytinga við Fagradalsfjall.  Frá því að hrinan hófst, 21. desember, hafa rúmlega 18 þúsund skjálftar mælst, þar af 4,0 eða stærri að stærð. Síðasta sólarhringinn hefur aðeins dregið úr skjálftavirkninni og hafa stærstu skjálftarnir orðið utan við það svæði sem talið er að kvikan sé að safnast á. Niðurstöður landmælinga með GPS tækjum og gervitunglamyndum benda til þess að kvika sé ekki á ferðinni utan við það svæði sem gangurinn er á.

Niðurstöður mælinga undanfarna daga eru keimlíkar því sem sáust dagana fyrir eldgosið sem hóst 19. mars síðastliðinn. Því er mikilvægt nú að sýna aðgæslu í nágrenni við gosstöðvarnar. Ef eldgos hefst, þá er tímasetning og staðsetning óviss og því er ekki mælt með því að fólk fari í göngu að gosstöðvum við Geldingadali á meðan að þessi hrina er í gangi. 

Auk þess er varað við því að vegna jarðskjálfta er aukin hætta á grjóthruni í fólkvanginum. Fólki er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum og forðast svæði þar sem grjót getur hrunið.


Uppfært 26.12. kl 15:00

Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga í tengslum við kvikuinnskot við Fagradalsfjall hefur haldið áfram yfir hátíðisdagana. Um og yfir 3000 jarðskjálftar hafa mælst á hverjum degi á svæðinu síðan hrinan hófst síðdegis 21. Desember. Mesta skjálftavirknin er við Fagradalsfjall en gikkskjálftar hafa einnig orðið nærri Grindavík og Kleifarvatni en talið er að orsök þeirra megi rekja til aukins þrýstings við Fagradalsfjall vegna kvikusöfnunar. Engin merki eru um kvikusöfnun annnarsstaðar en við Fagradalsfjall. Mesta gikkskjálftavirknin var skammt norðan við Grindavík á Aðfangadagskvöld en þá mældust þrír skjálftar yfir 4,0 að stærð, sá stærsti 4,8. Jarðskjálftavirknin við Fagradalsfjall hefur verið nokkuð hviðukennd þar sem virkni eykst tímabundið með mjög þéttri skjálftavirkni.

20-26des_is

Myndin sýnir aflögun á yfirborði yfir tímabilið 20. til 26. desember. Myndvinnsla Michelle Parks.

Skýr aflögunarmerki sjást á nýjustu InSAR gervitunglamyndum sem ná yfir tímabilið 20.-26. Desember. Sú aflögun sem er að eiga sér stað núna svipar mjög til aflögunarinnar sem sást í lok febrúar þegar kvikugangur var að myndast undir svæðinu við Fagradalsfjall. Þessar niðurstöður eru í samræmi við GPS mælingar sem sýna aflögun á sama svæði.

Eftir öryggisuppfærslur þann 24. desember hefur aðgengi að Skjálfta-Lísu verið takmarkað eða óstöðugt, en beðist er afsökunar á því og unnið verður að viðgerð við fyrsta tækifæri.


Uppfært 23.12. kl 16:10

Enn er mikil skjálftavikni við Fagradalsfjall  en frá miðnætti hafa um 2000 skjálftar mælst en flestir þeirra eru nærri gosstöðvunum við Fagradalsfjall á 5-8 km dýpi.

Samkvæmt samfeldum GPS mælingum Veðurstofunnar er aflögunarmynstrið í tengslum við núverandi skjálftahrinu mjög líkt því sem sást í aðdraganda eldgossins í Geldingadölum sem hófst 19. mars síðastliðinn. Því bendir allt til að kvika sé að brjóta sér leið í jarðskorpunni með mjög svipuðum hætti og þá. GPS mælingar sýna merki um þenslu sem á sér uppruna á þeim slóðum þar sem skjálftavirknin er mest. Því verður að telja líklegast að ef að til eldgoss kemur verði það þá á mjög svipuðum slóðum og eldgosið í Geldingadölum, en ekki er hægt að útiloka að kvika komi upp einhversstaðar á svæðinu frá Nátthaga að Keili.

Skjálftalísa, gagnvirkri skjálfavefsjá Veðurstofunnar, sýnir alla staðsetta jarðskjálfta.

Uppfært 23.12. kl. 10:00

Um eftirmiðdag í gær dró lítillega úr virkninni við Fagradalsfjall, en um kl. 22:30 jókst hún á ný með hviðu af aukinni skjálftavirkni sem hefur verið túlkuð sem kvikuhlaup. Líklegasta skýring skjálftavirkninnar er merki um að kvikan sé færast til í jarðskorpunni eftir kvikuganginum sem myndaðist í aðdraganda gossins í vor.

Jarðskjálftavirknin hefur gengið upp og niður með u.þ.b klukkutíma löngum þyrpingum á nokkurra klukkustunda fresti. Skjálftavirknin er á svæðinu frá Nátthagakrika að Litla-Hrúti, en flestir skjálftarnir eru staðsettir nærri eldstöðvunum við Fagradalsfjalli á um 5-8km dýpi.

Áfram verður fylgst náið með virkninni en búast má við að hún haldi áfram að vera lotubundin með hviðum sambærilegum þeim og sést hafa síðasta sólarhringinn. Út frá þeim gögnum og mælingum sem liggja fyrir núna eru vísindamenn sammála um að ekki sé hægt að útiloka að kvika geti komist upp á yfirborð með skömmum fyrirvara. Ef horft til virkninnar við upphaf goss í mars er mögulegt að kvika komist upp á yfirborð án þess að slíkt sjáist á mælitækjum heldur mögulega eingöngu á vefmyndavélum.

Trem_24klst_23122021

Grafið sýnir skjálftavirknina í einn sólarhring frá kl. 10, 22. desember eins og hún kemur fram á fjórum mælum. Eftir talsvert mikla virkni í gærmorgun hefur hún gengið upp og niður með u.þ.b klukkutíma löngum þyrpingum á nokkurra klukkustunda fresti frá því um kl. 22:30 í gær. (Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.)


Uppfært 22.12. kl 13:19

Frá því að skjálftahrinan hófst í gær hafa mælst 26 skjálftar af stærð M3 eða stærri. Vísindaráðsfundi lauk rétt eftir kl. 12. Líklegasta skýring skjálftavirkninnar er að kvika sé farin að troða sér inní brotgjarna hluta skorpunnar. M.ö.o. kvikuhlaup er í gangi sem er líklega að færast um sama kvikugang og myndaðist í aðdraganda gossins í vor. Það er ákveðin óvissa um þær sviðsmyndir sem geta orðið en ein sviðsmynd er að kvika geti komið upp á yfirborðið nokkuð hratt. Það er töluverð óvissa varðandi hvenær þetta gæti gerst og eins nákvæmlega hvar þó líklegast sé að kvikan komi aftur upp um sömu sprungur og það hefur þegar gert áður. Það er varhugavert að vera á svæðinu og hafa Almannavarnir lýst yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrinunnar.


Uppfært 22.12. kl 10:47

Alls hafa mælst yfir 1400 skjálftar frá því í gær frá kl 18, en stærsti skjálftinn var 4,9 af stærð kl 09:23 og fannst vel á SV-horninu. Vísindaráð mun funda og fara yfir stöðuna og hefst fundur kl 11.


Uppfært 22.12. kl. 5:45

Í gær um kl. 18 hófst jarðskjálftahrina um 2-4 km norðaustur af Geldingadölum. Virknin jókst svo til muna um kl. 00:30 í nótt og er enn mikil með 1-10 skjálfta á mínútu. Þegar líða tók á nóttina færðist virknin að eldstöðvunum í Geldingadölum. Ekki er ólíklegt að kvikuhlaup sé í gangi sem þýðir að kvikan er að færast lárétt í jarðskorpunni. Engin merki eru um gosóróa.

Eins og nefnt var í frétt frá Veðurstofunni fyrr í vikunni mælist þensla á svæðinu og unnið er að útreikningum og líkangerð svo hægt sé að túlka mælingarnar, en niðurstöður liggja ekki fyrir. Aflögunarmælingar sýna að kvíkusöfnun er í gangi í jarðskorpunni við Fagradalsfjall og erfitt er að spá fyrir um hvert framhaldið verður.

Til þess hafa um 1.100 skjálftar orðið í hrinunni, þar af yfir 90 af stærðinni tveir og þaðan af stærri. Stærsti skjálftinn sem mælst hefur til þessa í hrinunni var af stærð 4,2 og mældist klukkan 04:25 norður af Geldingadölum. Hann fannst víða á Reykjanesi, á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Borgarnesi.

Vegna hrinunnar sem nú stendur yfir hefur Veðurstofan breytt fluglitakóða í appelsínugulan.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica