Jarðhræringar Gríndavík eldri færslur
Mynd_AV22062024

Jarðhræringar Grindavík : jún - júl 2024

31.7.2024

Uppfært 30. júlí kl. 11:45

  • Fjöldi skjálfta á Sundhnúksgígaröðinni á dag fer hægt vaxandi
  • Samkvæmt líkanreikningum er nægur þrýstingur búinn að byggjast upp í kerfinu til að koma af stað nýjum atburði á næstu dögum
  • GPS mælingar sýna að síðustu daga hefur hægt örlítið á landrisinu. Það samhliða jarðskjálftavirkni líkt og mældist í gær, geta það verið vísbendingar um að það styttist í næsta kvikuhlaup og jafnvel eldgos
  • Hættumat óbreytt frá síðustu viku

Í gærmorgun mældist aukin smáskjálftavirkni á Sundhnúkgígaröðinni. Virknin stóð yfir í um 50 mínútur og eru að öllum líkindum merki um að þrýstingur sé að aukast í kerfinu. Síðustu viku hefur fjöldi skjálfta á dag farið hægt vaxandi.

Samkvæmt líkanreikningum sem gerðir hafa verið í tengslum við kvikusöfnunina er nægur þrýstingur búinn að byggjast upp í kerfinu til að koma af stað nýjum atburði á svæðinu.

GPS mælingar sýna að síðustu daga hefur hægt örlítið á landrisinu. Þegar sú þróun í landrisi fer saman við jarðskjálftavirkni líkt og mældist á Sundhnúksgígaröðinni í gær, geta það verið vísbendingar um að það styttist í næsta kvikuhlaup og jafnvel eldgos. Því eru auknar líkur á að það dragi til tíðinda á næstu 7 – 10 dögum.

Hættumat óbreytt

Veðurstofan uppfærði hættumat í ljósi nýjustu gagna. Hættumatið er óbreytt frá því í síðustu viku og gildir til 6. ágúst, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_30juli_2024

Sviðsmyndir sem Veðurstofan gaf út 23. júlí eru óbreyttar

Þetta eru sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar ef til eldgoss kemur. Báðar sviðsmyndir eru taldar álíka líklegar og miðast við að kraftur eldgossins í upphafi verði álíka og í eldgosinu í maí.

 

Sviðsmynd 1 - Eldgos með upptök milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks (Miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024.

  • Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur).
  • Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi við Þorbjörn á innan við 1,5 klukkustundum og á innan við 3 klukkustundum að Grindavíkurvegi við Svartsengi utan varnargarða.

Sviðsmynd 2  - Eldgos með upptök sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli (Syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti og efsti hluti svæðis 4). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024.

  • Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið. Lengri fyrirvari ræðst af því hversu langt til suðurs kvikan brýtur sér leið áður en hún leitar upp á yfirborðið.
  • Hraun gæti náð að Nesvegi og Suðurstrandavegi á innan við 1,5 klukkustund. Hraunflæði gæti mögulega lokað flóttaleiðum á landi út úr Grindavík á um 6 klukkustundum.
  • Í þessari sviðsmynd gæti hraun náð til sjávar austan Grindavíkur á 1,5 til 3 klukkustundum. Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýru (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar.
  • Kvikugangur sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 
  • Í þessari sviðsmynd þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að hraun geti komið upp innan Grindavíkur. Einn möguleikinn er sá að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða við Grindavík geti flætt ofan sprungur og komið svo aftur upp um opnar sprungur innan bæjarmarkanna.
  • Ekki er hægt að útiloka möguleika að gossprunga opnist innan Grindavíkur en í því tilfelli er talið líklegast að gossprunga myndi fyrst opnast norðan við bæinn áður en sprunga opnist innan bæjarmarkanna. Líkur á gosopnun innan Grindavíkur eru metnar „töluverðar“ í núverandi hættumati.






Uppfært 29. júlí kl. 12:00

  • Skjálftavirknin síðustu daga hefur aukist lítillega

  • Aukin smáskjálftavirkni mældist snemma í morgun

  • Kvikusöfnun og landris heldur áfram á jöfnum hraða

  • Áfram gert ráð fyrir nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur vikum.

  • Kvikuhlaup án eldgoss getur skapað hættu og valdið tjóni í Grindavík.

Í morgun upp úr klukkan átta mældist aukin smáskjálftavirkni á Sundhnúkgígaröðinni. Virknin stóð yfir í um 50 mínútur og eru að öllum líkindum merki um að þrýstingur sé að aukast í kerfinu.

Ekki mældust marktækar breytingar á aflögun eða borholuþrýstingi samhliða skjálftavirkninni. Sambærilega kvikuhreyfingar hafa mælst í aðdraganda fyrri atburða á svæðinu.

Veðurstofan mun senda frá sér uppfært hættumat í lok dags á morgun, að öllu óbreyttu.


Uppfært 26. júlí kl. 10:30


  • Skjálftavirknin síðustu daga hefur aukist lítillega en er enn frekar lítil

  • Kvikusöfnun og landris heldur áfram á jöfnum hraða

  • Áfram gert ráð fyrir nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur vikum

  • Kvikuhlaup án eldgoss getur skapað hættu og valdið tjóni í Grindavík

Skjálftavirknin síðustu daga hefur aukist lítillega en er enn frekar lítil. Rúmlega 30 skjálftar hafa mælst í grennd við kvikuganginn í Sundhnjúksgígaröðinni síðastliðinn sólarhring og tæplega 130 síðastliðna viku. Flestir þeirra eru undir einum að stærð og eru á svipuðum slóðum og í fyrri atburðum. Til samanburðar mældust að öllu jöfnu rúmlega 50 skjálftar daglega í aðdraganda síðasta goss.

Skjalftavirkni_Dagleg_Mai_Juli2024

Í aðdraganda gossins í maí fór skjálftavirknin hægt vaxandi dag frá degi eins og sjá má á þessu súluriti, en hver súla táknar fjölda skjálfta á dag. Myndin sýnir fjölda skjálfta á dag frá því í byrjun maí fram að miðnætti 25. júlí. Eins og sjá má er skjálftavirknin síðustu daga umtalsvert minni en í aðdraganda síðasta goss sem hófst 29. maí. Þann dag mældust yfir 300 skjálftar á svæðinu umhverfis kvikuganginn.

Kvikusöfnun og landris heldur áfram á jöfnum hraða

Nýjustu GPS gögn og gervitunglamyndir staðfesta að landris og kvikusöfnun heldur áfram á nokkuð jöfnum hraða ef horft er til síðustu vikna. Ef hraðinn helst óbreyttur, má gera ráð fyrir nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur vikum.

SENG_Plot_25072024

Graf sem sýnir stöðu landriss á GPS stöð staðsettri við Svartsengi. Þarna má sjá að land hefur risið um 20 cm frá 5. júní. Þar á undan seig landið um 5 cm fyrstu dagana eftir að eldgosið hófst 29. maí. (Mynd af aflogun.vedur.is fyrir stöðina SENG).

Kvikuhlaup án eldgoss getur skapað hættu og valdið tjóni

Í fréttafærslu fyrr í vikunni birti Veðurstofan tvær sviðsmyndir ef til eldgoss kæmi. Í seinni sviðsmyndinni var talað um þann möguleika að hraun gæti komið upp innan Grindavíkur, skapað hættu og valdið tjóni. Kvikuhlaup án eldgoss getur þó einnig skapað hættu og valdið tjóni.

„Í þau 7 skipti sem kvika hefur hlaupið úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina höfum við 5 sinnum fengið eldgos. Við verðum því að reikna með þeim möguleika að fá kvikuhlaup án þess að til eldgoss komi“, segir Benedikt G. Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands. Hingað til hefur kvika brotið sér leið úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina rétt austan Sýlingarfells og þaðan í suður í átt að Hagafelli. „Það er mikilvægt að átta sig á því að ef við fáum öflugt kvikuhlaup úr Svartsengi þá er mögulegt að kvikugangur sem þá myndast nái suður fyrir Hagafell og það mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík, jafnvel þó að ekki komi til eldgoss. Mesta tjón á innviðum og eignum í Grindavík er einmitt vegna sprunguhreyfinga í atburðunum 10. nóvember 2023 og 14. janúar 2024“ segir Benedikt.

Heildarhætta metin „mikil“ fyrir Grindavík – líkur á gosopnun þar taldar „töluverðar“

Veðurstofan gaf út uppfært hættumat í byrjun vikunnar og gildir það til 30. júlí að öllu óbreyttu. Veðurstofan vill leggja áherslu á að hættumat fyrir hvert svæði er fengið með því að leggja mat á líkur þess að tiltekin hætta myndist eða muni hafa áhrif á skilgreindum svæðum. 

Lagt mat á líkur fyrir alls 7 hættur á hverju svæði. Þetta mat er lagt saman sem síðan gefur niðurstöðu fyrir „heildarhættu“ á svæðinu. Þetta er sýnt í töflunni hér að neðan. Þar sést til dæmis að þó svo að hættan fyrir allt svæði 4, Grindavík, sé metin „mikil“ eru líkur á „gosopnun“ metnar „töluverðar“. Líkur á hættu vegna „hraunflæðis“ og „gasmengunar“ eru hins vegar metnar „miklar“. 

Í síðustu viku þegar svæðið fyrir Grindavík fór úr appelsínugulu (töluverð hætta) yfir í rautt (mikil hætta) var það vegna þess að auknar líkur voru á hættu vegna hraunflæðis og gasmengunar. Mat fyrir líkur á gosopnun innan Grindavíkur stóð í stað, og er nú metin „töluverð“.

Haettumat_Mat_Svaedi4_23072024

Dæmi um útfyllingu hættumats. Svona hættumatsfylki eru fyllt út við mat á hættu innan hvers svæðis. Lagt er mat á líkur þess að hætta myndist eða muni hafa áhrif á skilgreindum svæðum. Hættu er gefið ákveðið vægi eftir því hversu líklegt er talið að hættan myndist eða muni hafa áhrif á skilgreindum svæðum. Heildarstig hættumatsfylkis, talan í rauða kassanum neðst til hægri, stjórna hættukvarða svæðisins (sjá töflu hér fyrir neðan).

Myndkvardi






Tengsl heildarstiga hættumatsfylkis og hættukvarða. Heildarstig hættumatsfylkisins ræður hvaða hættuvarða og lit svæði fá á hættumatskorti.


Haettur_Svaedi4_23072024

Sé hætta metin töluverð, mikil eða mjög mikil (innan bláa svæðisins) er hún sérstaklega nefnd í lista á viðkomandi hættumatskorti og þær hættur sem eru metnar miklar eða mjög miklar eru að auki feitletraðar. Samkvæmt þessu er hætta vegna gosopnunar innan Grindavíkur metin töluverð og því ekki feitletruð.

Einnig er hægt að lesa meira um gerð hættumatsins í frétt á vefnum okkar.



Uppfært 23. júlí kl. 16:00
  • Landris heldur áfram og hefur kvikusöfnun undir Svartsengi verið nokkuð stöðug ef horft er til síðustu vikna
  • Talið er að á bilinu 13 til 19 milljón rúmmetrar af kviku þurfi nú að bætast við undir Svartsengi frá síðasta gosi til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.
  • Samkvæmt líkanreikningum er líklegast að magnið sem bæst hefur við frá síðasta eldgosi nálgist 16 milljónir rúmmetra á næstu dögum
  • Hættustig hefur verið hækkað í ljósi nýjustu gagna og sviðsmyndir uppfærðar

Skjálftavirknin síðustu daga hefur verið mjög lítil. Tíu skjálftar hafa greinst í grennd við kvikuganginn í Sundhnjúksgígaröðinni síðastliðinn sólarhring og um 90 síðastliðna viku. Flestir þeirra eru undir einum að stærð og eru á svipuðum slóðum og í fyrri atburðum. Til samanburðar mældust rúmlega 50 skjálftar daglega í aðdraganda síðasta goss. Skjálftavirknin fer hægt vaxandi dag frá degi ef horft er til síðustu vikna sem er í takti við þróun kvikusöfnunar undir Svartsengi.

Landris heldur áfram og hefur kvikusöfnun undir Svartsengi verið nokkuð stöðug ef horft er til síðustu vikna. Talið er að á bilinu 13 til 19 milljón rúmmetrar af kviku þurfi nú að bætast við undir Svartsengi frá síðasta gosi til að byggja upp nægan þrýsting til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Samkvæmt líkanreikningum er líklegast að magnið sem bæst hefur við frá síðasta eldgosi nálgist 16 milljónir rúmmetra á næstu dögum. Ákveðin óvissa er í þessum útreikningum en gera má ráð fyrir nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur til þremur vikum.

Graf_Merking_Landscape_23072024

Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá 25. október. Hvert kvikuhlaup hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023.

Likan_Textaleidretting_23072024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023.

„Allar okkar mælingar og útreikningar benda til þess að kvikusöfnunin undir Svartsengi haldi áfram með jöfnum hraða“ segir Michelle Maree Parks, sérfræðingur í aflögun á Veðurstofu Íslands. „Það er ekki óeðlilegt að við fáum sveiflu í mælingar á landrisinu milli einstakra daga og þess vegna er mikilvægt að horfa á heildarmyndina út frá GPS mælingum, gervitunglamyndum og líkönum yfir lengra tímabil. Það eru engar vísbendingar í okkar gögnum sem benda til annars en að búast megi við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur til þremur vikum eða svo“, segir Michelle.

Hættustig hefur verið hækkað í ljósi nýjustu gagna

Veðurstofan hefur uppfært hættumat í ljósi þess að búast megi við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu vikum. Hættustig hefur því verið hækkað á öllum svæðum, nema á svæði 7. Hættumatið gildir til 30. júlí að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_23juli_2024

Sviðsmyndir ef til eldgoss kemur

Veðurstofan hefur uppfært þær sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar ef til eldgoss kemur. Báðar sviðsmyndir eru taldar álíka líklegar og miðast við að kraftur eldgossins í upphafi verði álíka og í eldgosinu í maí.

Sviðsmynd 1 - Eldgos með upptök milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks (Miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024.

  • Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur).
  • Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi við Þorbjörn á innan við 1,5 klukkustundum og á innan við 3 klukkustundum að Grindavíkurvegi við Svartsengi utan varnargarða.

Sviðsmynd 2  - Eldgos með upptök sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli (Syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti og efsti hluti svæðis 4). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024.

  • Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið. Lengri fyrirvari ræðst af því hversu langt til suðurs kvikan brýtur sér leið áður en hún leitar upp á yfirborðið.
  • Hraun gæti náð að Nesvegi og Suðurstrandavegi á innan við 1,5 klukkustund. Hraunflæði gæti mögulega lokað flóttaleiðum á landi út úr Grindavík á um 6 klukkustundum.
  • Í þessari sviðsmynd gæti hraun náð til sjávar austan Grindavíkur á 1,5 til 3 klukkustundum. Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýru (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar.
  • Kvikugangur sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 
  • Í þessari sviðsmynd þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að hraun geti komið upp innan Grindavíkur. Einn möguleikinn er sá að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða við Grindavík geti flætt ofan sprungur og komið svo aftur upp um opnar sprungur innan bæjarmarkanna. Ekki er hægt að útiloka möguleika að gossprunga opnist innan Grindavíkur en í því tilfelli er talið líklegast að gossprunga myndi fyrst opnast norðan við bæinn áður en sprunga opnast innan bæjarmarkanna.

„Þær sviðsmyndir sem við birtum í dag eru byggðar á nýjustu gögnum og greiningum og þær gefa tilefni til þess að hafa áhyggjur af því að hraun geti náð inn fyrir varnargarða við Grindavík“ segir Matthew J. Roberts, framkvæmdastjóri þjónustu- og rannsóknasviðs á Veðurstofu Íslands. „Við þurfum því að vera undirbúin fyrir þann möguleika að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða ofan bæjarins geti leitað ofan í sprungukerfið sunnan Hagafells og leitt hraunstraum inn fyrir bæjarmörkin“ segir Matthew.

„Reynslan frá eldgosinu í janúar segir okkar að við getum ekki útilokað þann möguleika á að gossprunga opnist innan Grindavíkur. En í því tilfelli er líklegast að gossprunga myndi fyrst opnast norðan við bæinn áður en sprunga opnist innan bæjarmarkanna“.

„Þessu til viðbótar sýna hraunflæðilíkön að ef gýs við Hagafell gæti hraunflæði lokað flóttaleiðum á landi út úr bænum á nokkrum klukkustundum eftir að gos hefst“, segir Matthew.


Uppfært 16. júlí kl. 15:15
  • Líkanreikningar áætla að um 13 milljónir rúmmetrar af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi
  • Í dag er magn kviku sem bæst hefur við komið að lægri mörkum þess magns kviku sem talið er þurfa að bætast við til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Ef gert er ráð fyrir því að á bilinu 13 til 19 milljónir rúmmetra af kviku þurfi að bætast við undir Svartsengi til að byggja upp nægan þrýsting til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi, benda ný líkön benda til þess að mjög miklar líkur eru á því að það eigi sér stað á næstu þremur vikum

  • Hættumat uppfært sem gildir til 23. júlí, að öllu óbreyttu

Kvikusöfnun undir Svartsengi hefur haldist nokkuð stöðug síðustu vikur. Líkanreikningar áætla að um 13 milljónir rúmmetrar af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi frá því að kvika hljóp þaðan síðast í Sundhnúksgígaröðina og eldgosið 29. maí hófst. Í dag er magn kviku sem bæst hefur við komið að lægri mörkum þess magns kviku sem talið er þurfa að bætast við til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Efri mörkin liggja í kringum 19 milljónir rúmmetra af kviku.

Ef gert er ráð fyrir því að á bilinu 13 til 19 milljónir rúmmetra af kviku þurfi að bætast við undir Svartsengi til að byggja upp nægan þrýsting til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi, benda ný líkön benda til þess að mjög miklar líkur eru á því að það eigi sér stað á næstu þremur vikum

Áður hefur þó verið bent á að reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meira magn kviku og þar með meiri þrýsting til að koma þeim af stað. Ef miðað er við að um 20 milljón rúmmetrar þurfi að safnast fyrir, líkt og sást fyrir eldgosið 29. maí, mun það magn nást á næstu þremur til fjórum vikum. Þetta er byggt á því að innstreymi kviku inn í kvikuhólfið undir Svarstengi haldist óbreytt frá því sem nú er.

Uppfært hættumat

Nýjustu greiningar á því hvernig staðsetning gosopnunar hefur þróast í síðustu eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni benda til þess að gosvirknin færist sunnar og nær Grindavík með hverjum atburði. Með hliðsjón af þessum greiningum og ef tekið er tillit til þess að frá því í nóvember 2023 hafa jarðhræringarnar valdið umtalsverðum sprunguhreyfingum innan Grindavíkur, er hætta vegna gosopnunar, hraunflæðis og gasmengunar nú metin sem „töluverð“, en var áður metin „nokkur“ innan svæðis 4. Þetta er sambærilegt mati á þessari hættu innan svæðis 3.

Þessar breytingar á einstaka hættum innan svæða 3 og 4 hafa á þessu stigi ekki áhrif á heildarmat á hættu innan þeirra.

Hættumatið gildir til 23. júlí 2024, að öllu óbreyttu

Haettusvaedi_VI_16juli_2024

Uppfært 9. júlí kl. 11:15
  • Tæplega 20 jarðskjálftar hafa mælst yfir kvikuganginum, sá stærsti 1.3 að stærð vestan við Grindavík.
  • Rúmlega 260 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga í liðinni viku.
  • Aflögunargögn sýna að landris heldur áfram á svipuðum hraða síðustu daga
  • Hættumat uppfært. Nánast óbreytt en hætta vegna hraunflæðis hefur minnkað.

Það hafa mælst tæplega 20 jarðskjálftar yfir kvikuganginum, sá stærsti 1,3 að stærð vestan við Grindavíkurbæ. Þetta er svipuð virkni eins og hefur verið síðustu tvær vikur.

Rúmlega 260 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga í liðinni viku. Um 60 skjálftar mældust í Lambafelli í Þrengslum. Um tugur í Brennisteinsfjöllum. Rúmir 100 skjálftar mældust umhverfis Kleifarvatn, rúmlega 40 austan vatnsins og rúmlega 60 vestan og suðvestan við Vatnið við og umhverfis jarðhitasvæðið í Seltúni. Rétt tæplega 40 jarðskjálftar mældust í Fagradalsfjalli, allir undir 1,0 að stærð og flestir á 7 til 10 km dýpi. Um 20 skjálftar mældust úti við Reykjanestá í liðinni viku og annar tugur skjálfta lengra úti á Reykjaneshrygg um 90 km suðvestur frá landi.

GPS aflögunargögn sýna að landris undir Svartsengi heldur áfram og er búið að vera á svipuðum hraða síðustu daga. Gervitunglamynd frá Sentinel 1 sem spannar tímabilið 25. júní - 7. júlí sýnir sama mynstur. Líkanreikningar byggðir á aflögunargögnum benda áfram til að kvikuinnstreymi sé meira nú en fyrir eldgosið 29. maí. Þessi gögn benda áfram til að annað kvikuhlaup og/eða eldgosi sé líklegt á næstu vikum eða mánuðum.

Hættumat hefur verið uppfært, og gildir að öllu óbreyttu til 16. júlí. Það er að mestu óbreytt nema að á Svæði 1 (Svartsengi) er minni hætta vegna hraunflæðis. Hætta færist þvi niður úr töluverð hætta (appelsínugul) í nokkur (gul).  Hætta vegna hraunflæðis er einnig metin minni á Svæði 6.

Haettusvaedi_VI_9juli_2024
(Smelltu á kortið til að stækka)

Uppfært 5. júlí kl. 17:00
  • Skjálftavirkni á Svartsengi verið mjög lítil síðan eldgosinu lauk 22. júní
  • Landris á svæðinu heldur áfram
  • Líkan byggt á aflögunargögnum sýnir að innstreymi kviku á dýpi hafi að jafnaði verið á bilinu 4-6 m3/s.
  • Heildarmagn gosefna ásamt rúmmálsbreytingum í Svartsengi bendir til þess að kvikuinnstreymi síðan um miðjan janúar sé nokkuð stöðugt

Frá því að gosinu lauk í Sundhnúksgígnum 22. júní hefur skjálftavirkni á Svartsengi verið mjög lítil og fáir smáskjálftar mælst á hverjum degi.

Aflögunargögn sýna að landris á svæðinu heldur áfram. Þetta er túlkað sem áframhaldandi kvikustreymi inn í Svartsengi.

Kvikuholf05072024
Mynd sýnir „lokað” kerfi, það er þegar ekki er opið fyrir hraunflæði á yfirborði og kvikan streymir frá dýpi (rauð ör) í kvikuhólf undir Svartsengi á 4-5 km dýpi (appelsínugult svæði) sem veldur auknum þrýstingi í umhverfinu og að lokum mælanlegri aflögun á yfirborði.

Líkan byggt á aflögunargögnum hefur verið notað til að meta magn kviku inn í Svartsengi á tímabilum þar sem engin gos eru. Á þessum tímabilum er kerfið talið „lokað“ og sem slíkt tekur grafið ekki tillit til magns kviku sem kemur inn í kerfið eins og þegar það er opið á gostíma (t.d. magn kviku sem streymir í gegnum kerfið og kvikuflæði á gostíma). Því endurspeglar þetta graf ekki heildar magn kviku inn í kerfið frá nóvember 2023 heldur einungis það magn kviku sem streymir inn í kerfið þegar kerfið er lokað. Líkanið sýnir að innstreymi kviku á dýpi hafi að jafnaði verið á bilinu 4-6 m3/s. Ef heildarmagn gosefna er skoðað ásamt rúmmálsbreytingum í Svartsengi þá bendir það til þess að kvikuinnstreymi síðan um miðjan janúar sé nokkuð stöðugt.

Svartsengi_lokad_kerfid

Grafið sýnir áætlað magn innstreymis kviku í Svartsengi á tímabilum þar sem gos eru ekki til staðar. Gráu svæðin eru tímabil þar sem gos og/eða kvikuhlaup er til staðar. Líkanið reiknar magn innstreymis kviku fyrir þau tímabil sem eru utan gráu svæðanna (litaðar láréttar línur). Rauða línan með tilheyrandi óvissu (rauða svæðið) er núverandi magn innstreymis kviku. Í grafinu merkir bókstafurinn D: Dike intrusion eða kvikuhlaup og stjarna þýðir þegar eldgos hófst.



Uppfært 2. júlí kl. 15:50
  • Hraði landriss meiri nú en fyrir gosið 29. maí.
  • Um 13-19 milljón m3 fóru úr kvikuhólfinu þegar eldgosið hófst 29. maí
  • Líkur á öðru kvikuhlaupi og/eða eldgosi á næstu vikum og mánuðum
  • Uppfært hættumat. Sjá hér.

Hraði landriss er meiri nú en fyrir gosið 29. maí og á svipuðum hraða og það var í byrjun árs, en það hafa ekki verið miklar breytingar milli atburða hvað varðar hraðann á landrisinu. Líkan byggt á aflögunargögnum sýnir að innflæði kviku inn í kvikuhólfið undir Svartsengi er nú 4-6 m3/s. Í upphafi kvikuinnskotsins og síðan eldgossins 29. maí er metið að um 13-19 milljón m3 hafi farið úr kvikuhólfinu. Niðurstöður líkanreikninga gefa til kynna að miðað við núverandi innflæði verður kvikuhólfið undir Svartsengi komið í svipaða stöðu og fyrir eldgosið 29. maí eftir þrjár til sex vikur. Frá og með deginum í dag er því líklegt að kvikuhlaup eða eldgos fari af stað á næstu vikum og mánuðum.

Graf02072024

Línurit, byggt á jarðeðlisfræðilegum líkanreikningum, sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá 25. október 2023 og þróun þess á milli atburða. Rauðu punktarnir sýna stöðuna síðan 30. maí 2024.

Uppfært hættumat

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat sem gildir að öllu óbreyttu til 9. júlí.  Hættur tengdar hraunrennsli og gasmengun hefur verið lækkað en heildar hættumatið er óbreytt, fyrir utan tvö svæði. Hættustig innan svæðis 3 fer úr því að vera mikið (rautt) í það að vera töluvert (appelsínugult) og innan svæðis 5 úr því að vera töluvert (appelsínugult) í það að vera í nokkur (gult).

Haettusvaedi_VI_2juli_2024

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)


Uppfært 28. júní kl. 11:55
  • Hraunið er 9,3 km2 að flatarmáli og rúmmál þess er um 45 milljónir m3
  • Landrísið í Svartsengi heldur áfram með auknum hraða
  • Gögn sem safnað verður á næstu dögum/vikum munu hjálpa til við að meta stöðuna með meiri vissu

Skjálftavirknin við Svartsengi og Sundhnúk er mjög lítil og hafa fáir smáskjálftar mælst undanfarna daga. Hraunið sem gekk í átt að norðanverðu Sýlingarfelli hélt áfram að renna mjög hægt frá því að gosinu lauk 22. júní og er nú alveg hætt að hreyfast.

Hópur frá Náttúrufræðistofnun og Landmælingum Íslands hefur unnið úr gögnum sem sérfræðingar frá Eflu, Verkís og Svarmi söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar 24. júní. Gögnin sýna að hraunið er nú 9,3 km2 að flatarmáli og rúmmálið um 45 milljónir m3.

Hraunbreida28062024

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt hraunbreiðunnar sem hefur myndast í eldgosinu sem hófst 29. maí. Kortið er afurð samvinnu margra aðila en er byggt á mælingum Verkís, Eflu og Svarma frá 24. júní. Á kortinu sést hvar hraun hefur safnast í hrauntjörn suðaustan við Sýlingarfell (rauðleit svæði) og hraunstraumurinn sem rennur þaðan norður fyrir Sýlingarfell. Gráleit svæði sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

Nýjustu aflögunarmælingarnar (bæði GNSS og InSAR gervitunglamyndir) sýna að landrísið undir Svartsengi heldur áfram. Hraði landrisins jókst eftir að gosi lauk og er nú orðin meiri en það sem mældist fyrir gosið sem hófst 29. maí. Hraða aflögunar má túlka sem að kvikuinnstreymi inn í kvikuhvolfið á 4-5 km dýpi haldi áfram.

Bylgjuvixlmynd28062024

Bylgjuvíxlmynd (InSAR) fyrir tímabilið 13. til 25. júní sýnir að aflögun á þessu tímabili er um 3-4 cm þar sem hún er mest. Myndin er byggð á gögnum frá gervitunglinu Sentinel-1. Hraun frá Fagradalsfjalli og Sundhnúksgígum eru afmörkuð með hvítum útlínum.

Með þessar forsendur að leiðarljósi má gera ráð fyrir að kerfið muni haga sér á svipaðan hátt og áður og að nýtt kvikuinnskot og/eða eldgos muni eiga sér stað á ný á Sundhnúkssvæðinu á næstu vikum. Frá og með deginum í dag er erfitt að sjá fyrir með vissu hvernig ástandið mun þróast. Gögnum sem safnað verður á næstu dögum/vikum munu hjálpa til við að meta stöðuna og hugsanlega við að skilja breytingar og þróun innan kvikukerfisins.



Uppfært 24. júní kl. 14:00

 

  • Eldgosinu er lokið. Gosið stóð yfir í 24 daga.
  • Fimmta eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023
  • Landris hefur verið stöðugt, en þó hægara en það var á milli síðustu eldgosa

Eldgosinu sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni þann 29. maí er lokið, en engin virkni hefur sést í gígnum frá 22. júní. Gosið stóð yfir í 24 daga og var fimmta eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023. Jafnframt er hraunbreiðan sem myndaðist sú stærsta að rúmmáli og flatarmáli.

Þrátt fyrir að ekkert hraun renni frá gígnum eru áfram töluverðar hreyfingar í hraunbreiðunni norðan Sýlingarfells vegna þess að enn er fljótandi hraun undir storknuðu yfirborðinu. Síðustu tvo sólarhringa hefur verið virkni í þeim hrauntungum sem fóru yfir varnargarð við Sýlingarfell og einnig í hraunbreiðunni norðan varnargarðsins. Áfram má búast við því að hreyfinga verði vart í hraunbreiðunni á næstu dögum þar sem það tekur töluverðan tíma fyrir þetta ferli að stöðvast.

Um það bil tíu dögum eftir að eldgosið hófst byrjaði landris í Svartsengi að mælast aftur sem bendir til þess að kvikusöfnun þar haldi áfram. Landrisið hefur verið stöðugt síðan þá en er nú hægara en það var á milli síðustu atburða.  Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og mælingar næstu daga og vikur munu hjálpa til við að túlka mögulega þróun jarðhræringanna.

Likan_Textaleidretting-24062024

Línurit, byggt á jarðeðlisfræðilegum líkanreikningum, sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá 25. október 2023 og þróun þess á milli atburða. Rauðu punktarnir sýna stöðuna síðan 30. maí 2024 og þar sést að nú er hraði kvikusöfnunar hægari en á fyrri kvikusöfnunartímabilum.

Á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á endurteknum kvikuhlaupum og eldgosum. Að svo stöddu er erfitt að segja til hvenær næsti atburður verður eða hvenær kvikusöfnun hættir.

Uppfært hættumat

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat. Það að síðasta gosi sé lokið hafði áhrif á breytingar á nokkrum svæðum. Hætta er metin lægri á öllum svæðum þar sem minni líkur eru á hraunflæði og gasmengun. Sérfræðingar VÍ mældu gasútstreymi frá gígnum á föstudaginn, 21. júní, og var það mælt mjög lítið eða um 1 kg/s. Hættumatið er í gildi til 2. júlí, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_24juni_2024



Uppfært 22. júní kl. 18:00

Eldgosinu sem hófst 29. maí síðastliðinn virðist vera lokið. Í gær var litla virkni að sjá í gígnum og nú í hádeginu var engin virkni sjáanleg þegar Almannavarnir flugu dróna til athugunar. Einnig hefur órói á nálægum jarðskjálftamælum dottið niður og er nú sambærilegur því sem mældist áður en gos hófst.

Enn má þó búast við í einhvern tíma að eldra hraun haldi áfram að streyma hægt meðfram Sýlingarfelli norðanverðu og við varnargarð L1 þar sem spýjur hafa runnið yfir.

Mynd_AV22062024

Mynd úr drónaflugi í hádeginu frá Almannavörnum.

Uppfært 21. júní kl. 14:55

Í myndum sem teknar voru í morgun í drónaflugi Almannavarna sést að virkni í gígnum fer minnkandi. Hraunrennsli frá gígnum er ekki sjáanlegt á yfirborði en getur verið í lokuðum rásum frá honum. Þó er áfram rennsli í þeim hrauntungum sem fóru yfir varnargarð norðan Sýlingarfells í gær. Mynd úr vefmyndavél Almannavarna á Sýlingarfelli sýnir þær þrjár hrauntungur sem renna yfir garðinn og vélar sem vinna að því að hemja hraunrennslið. Mest virkni er í hrauntungunni lengst til vesturs sem hefur færst áfram um nokkra metra og þykknað á síðustu klukkustundum. Gosórói fer einnig minnkandi og sést það vel á jarðskjálftamæli Veðurstofunnar í Grindavík eins og meðfylgjandi graf sýnir.

Minnkandi virkni í gígnum og lækkun í gosóróa bendir til þess að þessu eldgosi gæti lokið á næstunni en þó er óvissa um nákvæmlega hvenær. GPS mælingar sýna enn landris á Svartsengissvæðinu. Það er vísbending um að þrýstingur í kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi haldi áfram að byggjast upp, þótt hraði landrissins sé minni en áður.

Mynd1_21062024

Mynd af gígnum sem tekin var um kl. 9:30 í morgun í drónaflugi Almannavarna yfir gosstöðvarnar.  Ljósmynd: Almannavarnir
Mynd2_21062024
Hrauntungurnar sem renna yfir varnargarð norðan Sýlingarfells og vinna við að hemja hraunrennslið. Ljósmynd: Almannavarnir
Mynd3_21062024

Órómælingar á jarðskjálftamæli VÍ í Grindavík frá því að eldgosið hófst þann 29. Maí til 21. Júní. Þær sýna að gosóróin hefur minnkað síðustu daga.



Uppfært 20. júní kl. 13:05


  • Áfram gýs úr einum gíg rétt austan Sundhnúks

  • Hrauntungan norðan Sýlingarfells heldur áfram að þykkna. Hraunspýja frá henni fór yfir varnargarð 18. júní

  • Landris mælist á stöðugum hraða í Svartsengi þótt eldgos standi yfir

  • Hér er hægt að fylgjast með gasdreifingarspá og loftgæðum

  • Hættumat er óbreytt

Eldgosið sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni þann 29. maí hefur nú staðið í rétt rúmar þrjár vikur og áfram gýs úr einum gíg rétt austan Sundhnúks. Hrauntungan norðan Sýlingarfells heldur áfram að þykkna en á þriðjudaginn 18. júní, fór hraunspýja frá henni yfir varnargarð L1 sem er norðaustur af Svartsengi, en fór ekki langt.

Eins og undanfarna daga mælist áfram landris á stöðugum hraða í Svartsengi þótt eldgos sé enn í gangi. Það má túlka þetta sem svo að kvikuflæði frá dýpi haldi áfram og sé meira en flæði frá gígnum og kvikusöfnun undir Svartsengi haldi því áfram eins og áður.

Veðurspáin í dag er sunnan og síðar suðaustan 3-8 m/s. Gas berst til norðurs og norðvestur í átt að Reykjanesbæ og Vogum. Á morgun (föstudag) er austan og síðar norðaustan 3-8 m/s, gas berst til vesturs og suðvesturs. Hæg breytileg átt seinnipartinn á morgun, gasmengunar getur orðið vart víða á suðvesturhorninu.

Hættumat hefur verið uppfært og er óbreytt. Það gildir, að öllu óbreyttu, til næsta þriðjudags 25. júní.

Haettusvaedi_VI_20juni_2024

(Smellið á kortið til að sjá stærra)

Uppfært 18. júní kl. 13:50
  • Eldgosið stöðugt og áfram gýs úr einum gíg.
  • Hraun flæðir mestmegnis til norðurs meðfram Sýlingarfelli
  • Landris heldur áfram í Svartsengi á svipuðum hraða. Hraðinn er þó minni en áður en eldgosið hófst
  • Gasdreifingarspá og hægt að fylgjast með loftgæðum hér

Eldgosið hefur verið nokkuð stöðugt síðustu daga og áfram gýs úr einum gíg. Frá honum flæðir hraun mestmegnis til norðurs en einnig safnast hluti hraunsins upp sunnan megin við gíginn. Hraunið sem fer til norðurs fer í hrauntjörnina við Sýlingarfell og þaðan áfram norður fyrir það þar sem hraunið þykknar. Í gær um hádegisbil kom lítið gat í gíginn vestanverðan og þaðan flæddi hrauntaumur stutta leið vestur í átt að Sundhnúk, en sá taumur hefur ekki verið virkur frá því í gær. Lítil sem engin skjálftavirkni er á gosstöðvunum.

Á tímabilinu 3. - 10. júní var hraunflæði frá eldgosinu metið um 10 m3/s og síðan þá hafa ekki orðið markverðar breytingar á virkni eldgossins sem bendir til að flæðið sé nokkuð stöðugt. Þrátt fyrir að eldgosið sé enn í gangi mælist landris í Svartsengi (eins og í síðasta eldgosi). Niðurstöður líkanreikninga sýna að landrisið í Svartsengi sé vegna kvikuinnflæðis sem er á bilinu 1-2 m3/s og bætist við í kvikusöfnunarsvæðið. Ef kvikusöfnun undir Svartsengi ásamt hraunflæði á yfirborði er lagt saman sýnir það svipað kvikuflæði frá dýpi og fyrir eldgosið. Enn þá er talsverð óvissa í líkanreikningum og mati á hraunflæði frá eldgosinu síðustu vikuna sem getur haft áhrif á þetta mat. Áfram verður fylgst náið með framvindu atburðarins.

Likan_Textaleidretting18062024

Eftirfarandi línurit sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Rauða línan sýnir áætlað rúmmál kviku sem hefur bæst við kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi frá 30. maí til 17. júní.

Samkvæmt veðurspá er suðaustanátt í dag, en suðlægari í kvöld. Gasmengunin fer til norðvesturs og síðar norðurs og má gera ráð fyrir að mengun mælist á norðanverðu Reykjanesi. Á morgun er hæg breytileg og síðar vestlæg átt. Gasmengunin mun þá færast í átt að höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is og gasdreifingarspá hér .

Hættumat sem gefið var út þann 13. júní er enn í gildi til 20. júní, að öllu óbreyttu.



Uppfært 13. júní kl. 15:55
  • Eldgosið hefur staðið yfir í 15 daga. Einn gígur virkur 
  • Hraunbreiðan í þessu gosi er orðin 9,2 km2 og rúmmál um 41 milljón m3 og þar með sú stærsta síðan í desember 2023. 
  • Hrauntjörn er enn til staðar en hraun rennur úr henni í virka hraunstrauminn norðan Sýlingarfells
  • Líklegt að gasmengun haldi áfram næstu daga. Sjá gasdreifingarspá.
  • Hættumat uppfært – að mestu óbreytt

Eldgosið sem hófst 29. maí stendur enn og hefur því staðið yfir í 15 daga. Það hefur verið nokkuð stöðugt undanfarna daga og áfram er einn gígur virkur, eins og hefur verið síðan 4. júní. Mjög lítil skjálftavirkni hefur mælst á svæðinu.

Áfram er meginhraunstraumurinn frá gígnum í átt að Sýlingarfelli og meðfram því norðanmegin. Hrauntjörn er enn til staðar við Sýlingarfell en þó rennur hraun úr henni í virka hraunstrauminn norðan Sýlingarfells. Sá straumur er í svipuðum farvegi og hraunið sem rann yfir Grindavíkurveg síðastliðinn laugardag. Hraunjaðarinn nærri Grindavíkurvegi hreyfist mjög hægt áfram en þykknar.

Hraunbreiðan frá þessu gosi sú stærsta að flatar- og rúmmáli

Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga hefur unnið úr gögnum sem sérfræðingar Eflu, Verkís og Svarma söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar þann 10. júní. Gögnin sýna að flatarmál hraunbreiðunnar er orðið 9,2 km2 og rúmmál um 41 milljón m3. Þar með er hraunbreiðan sem myndast hefur í þessu gosi sú stærsta að flatar- og rúmmáli sem myndast hefur í þeim fimm eldgosum sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023. Til samanburðar var hraunbreiðan sem myndaðist í eldgosinu sem hófst 16. mars og stóð yfir til 9. maí um 6,2 km2 að flatarmáli og 35 milljón m3.

Út frá þessum gögnum er meðalhraunflæði frá eldgosinu á tímabilinu 3. - 10. júní metið um 10 m3/s. Frá því síðdegis 29. maí til 3. júní var hraunflæðið metið um 27 m3/s, því dró nokkuð úr gosinu milli þessara tveggja mælinga.

Hraunbreida14062024

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt hraunbreiðunnar sem hefur myndast í eldgosinu sem hófst 29. maí. Kortið er afurð samvinnu margra aðila en er byggt á mælingum Verkís, Eflu og Svarma frá 10. júní. Á kortinu sést hvar hraun hefur safnast í hrauntjörn suðaustan við Sýlingarfell (rauðleit svæði) og hraunstraumurinn sem rennur þaðan norður fyrir Sýlingarfell. Gráleit svæði sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.


GPS mælingar benda til að landris í Svartsengi haldi áfram og að staðsetning kvikusöfnunar undir Svartsengi sé óbreytt. Það má túlka þetta sem svo að kvikuflæði frá dýpi haldi áfram og sé meira en flæði frá gígnum og kvikusöfnun undir Svartsengi haldi því áfram eins og áður. Áfram verður fylgst náið með framvindu atburðarins og reynt að varpa skýrara ljósi á þróunina.


SENG13062024

Færslur á GPS stöðinni SENG við Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (10. júní) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu fimm eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. Mars og 29. maí 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. Nóvember 2023 og 2. mars 2024).

Mikil gasmengun síðustu daga

Gasmengun frá eldgosinu hefur verið nokkuð mikil í gær og í dag. Mælir sem Veðurstofan er með hjá Bláa lóninu og mælir Umhverfisstofnunar í Höfnum sýna töluvert mikla gasmengun. Það hefur verið austlæg átt í nótt og því blés gas frá eldgosinu til vesturs. Mesti styrkur SO2 mældist rúmlega 8000 µg/m3 (10 mínútna meðaltal). Það má búast við að gasmengun verði viðvarandi næstu daga. Áfram er austlæg átt í dag og berst gasið þá til vesturs yfir Svartsengissvæðið og þaðan áfram yfir vestanverðan Reykjanesskagann. Á morgun verður breytileg átt og því útlit fyrir að gasið dreifist víða um Reykjanesskagann en er líður á daginn gengur í norðanátt og þá mun gas blása suður yfir Grindavík.

Hættumat hefur verið uppfært í ljósi þróunar á eldgosinu og veður- og gasdreifingarspár. Það er að mestu óbreytt, en á svæði 5 hefur hætta vegna hraunflæðis aukist. Áfram er mjög mikil hætta á svæði 3, Sundhnúksgígaröðin, þar sem eldgosið hófst. Einnig er mikil hætta (rautt) á svæði 4 (Grindavík) og svæði 6. Á svæði 1, 5 og 7 er töluverð hætta (appelsínugult). Á öllum svæðum nema svæði 7 eru miklar líkur á gasmengun. Kortið gildir að öllu óbreyttu til 20. júní.

Haettusvaedi_VI_13juni_2024
(Smellið á kortið til að skoða stærra)

Uppfært 11. júní kl. 13:20
  • Eldgosið hefur staðið yfir í 13 daga. Einn gígur virkur og virknin stöðug
  • Talsverð mengun frá eldgosinu víða á höfuðborgarsvæðinu og á vestanverðu Suðurlandi. Gasdreifingarspá hér.
  • Óæskilegt að stunda útivist á þeim svæðum sem mengun mælist. Hægt að fylgjast með loftgæðum hér.
  • Mælingar benda til að landris sé hafið að nýju
  • Hraun safnast enn í hrauntjörn rétt suðaustan Sýlingarfells

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina sem hófst fyrir 13 dögum helst stöðugt. Einn gígur er virkur og hefur virknin verið svipuð síðustu daga. Skjálftavirkni hefur verið afar lítil síðustu viku, einungis örfáir skjálftar hafa mælst.

Eins og fram kom í fréttum okkar um helgina tók hraunstreymi að aukast neðan við Sýlingarfell til vesturs og Grindavíkurvegur fór undir hraun í þriðja sinn frá því eldvirknin hófst við Sundhnúk í nóvember síðastliðinum. Enn er hreyfing á hrauntungunni sem rennur nú til norðvestur eftir svipuðum farvegi og sú sem rann yfir Grindavíkurveg á laugardag. Virkur jaðar hennar er þó enn í nokkur hundruð metra fjarlægð frá veginum og hreyfist afar hægt. Hraun safnast enn í hrauntjörn rétt suðaustan Sýlingarfells sem gæti tæmt sig að nýju og komið af stað öðru áhlaupi á næstu dögum.

Það lítur út fyrir að landris sé hafið að nýju síðan um helgina og landsigið sem mældist fyrstu daga gossins því lokið. Ekki er hægt að meta hraðan á landrisinu á þessari stundu, en gera megi ráð fyrir að innflæði kviku í kvikusöfnunarsvæðið sé orðið meira en útstreymi úr gígnum. 

THOB-plate_since-20231112

Færslur á GPS stöðinni THOB á Þorbirni síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (10. júní) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu fimm eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. nóvember 2023 og 2. mars 2024).

Mengun frá eldgosinu viðvarandi í dag

Talsverð mengun mælist nú frá eldgosinu víða á höfuðborgarsvæðinu og á vestanverðu Suðurlandi. Samkvæmt gögnum frá Umhverfisstofnun eru hæstu gildi SO2 á höfuðborgarsvæðinu komin yfir 500 µg/m3 og viðbúið er að mengunin verði viðvarandi í allan dag. Fólk sem er viðkvæmt fyrir í öndunarfærum getur fundið fyrir óþægindum. Æskilegt er að takmarka líkamlega áreynslu utandyra og forðast að láta ungabörn sofa utandyra þegar megnun er þetta mikil.

Í morgun hafa þokuský legið yfir vestanverðu landinu, einnig hefur verið sýnileg gosmóða sem stafar af umbreytingu SO2 gasi í SO4. Gosmóða er samsett úr mjög fínum brennisteinsögnum (SO4) sem hafa orðið til vegna efnahvarfa gosmakkarins við raka og súrefni andrúmsloftsins með tilstuðlan sólarljóss. Þegar dagur er langur, eins og nú er, eru því auknar líkur á að gosmóða myndist. Gosmóða mælist ekki á SO2 gasmælum en séstsem blá móða þegar ákveðnum styrk er náð. Hækkun á örfínu svifryki (PM1 og PM2.5) getur verið vísbending um að SO4 sé til staðar. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á loftgæðamælum Umhverfisstofnunar.

Spá veðurvaktar um gasdreifingu er fremur hæg breytileg átt og gasmengunar getur orðið vart víða á suðvesturhorninu. Snýst í suðlæga átt eftir hádegi, gasi blæs til norðurs og gæti mengunar orðið vart í Vogum og Reykjanesbæ. Suðaustlæg átt á morgun, gas blæs til norðvesturs.

Gasdreifingin11062024


Uppfært 8. júní, kl. 15:30
  • Áfram virkni í einum gíg sem helst nokkuð stöðug
  • Í nótt jókst hraunstreymið norður fyrir Sýlingarfell og í átt að Grindavíkurvegi 
  • Hrauntungan náði veginum um hálf 11 í morgun
  • Framendi hraunbreiðunnar í um 800 metra fjarlægð frá heitavatnslögnum

Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram og eru nú tíu dagar síðan það hófst. Frá því á þriðjudag, 4. júní, hefur einn gígur verið virkur. Hraun hefur undanfarna daga runnið að mestu til norðvesturs og þykknað við Sýlingarfell ásamt því að renna mjög hægfara norður fyrir Sýlingarfell og til vesturs. Í nótt, aðfaranótt laugardags, tók að auka á hraunstreymið norður fyrir Sýlingarfell til vesturs og í átt að Grindarvíkurvegi. Í morgun, laugardag, var farið í að loka skarðinu í varnargarðinum við Grindarvíkurveg og um hálf ellefu náði hrauntungan veginum rétt norðan við varnargarðinn. Hraun hefur einnig leitað niður með garðinum og er það mjög þykkt við garðinn og hrynur úr því yfir garðinn á kafla. Dregið hefur úr hraða hraunsins eftir hádegi. Framendi hraunbreiðunnar hefur náð í um 800 metra fjarlægð frá heitavatnslögnum og færist hægt í áttina að þeim.

Má álykta að áhlaupinu sé lokið að sinni en búast má við því að það mjatlist eitthvað áfram. Fylgst verður vel með aðstæðum og ekki er útilokað að annað áhlaup geti átt sér stað á næstu dögum.


Vefmyndavel08062024

Myndin er tekin klukkan 10:10 í morgun úr myndavél í eigu Veðurstofu Íslands sem staðsett er á Þorbirni. Hún sýnir hraunfrontinn færast í átt að Grindavíkurvegi og starfsmenn á svæðinu að loka opnun í varnargarðinum L1.  


Uppfært 7. júní, kl. 15:20
  • Áfram virkni í einum gíg sem helst nokkuð stöðug
  • Hraun rennur að mestu til norðvesturs
  • Land hætt að síga í Svartsengi
  • Hættumat uppfært. Gasmengunar gæti orðið vart í Grindavík

Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram og eru nú níu dagar síðan það hófst. Frá því á þriðjudag, 4. júní, hefur einn gígur verið virkur. Hraun frá honum rennur að mestu til norðvesturs í átt að Sýlingarfelli þar sem hraunbreiðan þykknar en þaðan eru virkir hraunstraumar norður fyrir Sýlingarfell.

InnRaud_07062024

Gervitunglamynd frá 5. Júní sem sýnir hraunbreiðuna við Svartsengi og Grindavík. Á myndinni má einnig sjá gíginn og hraunstraum frá honum eins og þeir voru þá til norðvesturs að Sýlingarfelli og til suður í átt að Hagafelli. Myndin er svokölluð „nær-innrauð“ mynd þar sem gróður að aðrar ljóstillífandi lífverur koma fram sem í mismunandi rauðum litum. Þessi framsetning hentar einnig vel til að greina ný hraun frá mun eldri hraunum og svæði sem hafa orðið gróðureldum að bráð.

Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga hefur unnið úr gögnum sem sérfræðingar Eflu, Verkís og Svarma  söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar þann 3. júní. Gögnin sýna að flatarmál hraunbreiðunnar er orðið 8,6 km2 og rúmmál um 36 milljón m3.

Út frá þessum mælingum er áætlað meðalhraunflæði frá eldgosinu frá því síðdegis 29. maí til 3. júní um 30 m3/s. Þessar niðurstöður eru byggðar á gögnum sem ná yfir um 70% af hraunbreiðunni en gert er ráð fyrir því að ekki hafi orðið markverðar breytingar á hraunbreiðunni utan þess svæðis á milli mælinga. Eftir að þessar mælingar voru gerðar varð sú breyting á virkni gossins að virkum gígum fækkaði og einn gígur hefur verið virkur síðan 4. júní. Ekki eru til mælingar á hraunflæði síðan þá, en til samanburðar var hraunflæði frá síðasta eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni áætlað um 3-4 m3/s þegar einn gígur var virkur.

Land hætt að síga í Svartsengi

Fyrstu dagana eftir að eldgosið hófst mældist landsig á Svartsengissvæðinu sem benti til þess að meira magn kviku flæddi úr kvikusöfnunarsvæðinu og upp á yfirborð heldur en flæddi inn í það af dýpi. Aflögunarmælingar undanfarna daga sýna að landsig virðist hafa stöðvast og því líklegt að flæði kviku frá dýpi inn í kvikusöfnunarsvæðið sé núna sambærilegt því sem er á yfirborði í Sundhnúksgígaröðinni.

Likan_Textaleidretting_IS_07062024

Eftirfarandi línurit sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Rauða línan sýnir niðurstöður líkanreikninga frá 30. maí þar sem sést að fyrstu dagana eftir að gos hófst minnkaði rúmmál kviku undir Svartsengi. Síðustu punktar sýna stöðugt rúmmál kviku undir Svartsengi sem bendir til þess að jafnt magn af kviku sé að flæða inn í kvikusöfnunarsvæðið af dýpi og er að flæða upp á yfirborð á Sundhnúksgígaröðinni. Sjá nánari umfjöllun um kvikustreymi undir Svartsengi í eldri frétt.

Fylgst með mögulegum breytingum á kvikusöfnun undir Svartsengi

Eins og nefnt var í síðustu fréttauppfærslu þá var það í fyrsta skipti, síðan eldgosavirkni hófst í Sundhnúksgígaröðinni í desember 2023, sem landsig mældist í Svartsengi á meðan eldgosi stendur. Í gær birti Jarðvísindastofnun Háskólans fyrstu berg- og jarðefnafræðigögn frá yfirstandandi  eldgosi. Gögnin sýna að efnasamsetning kvikunnar sem nú kemur til yfirborðssé ólík þeirri sem hefur komið upp í síðustu fjórum eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni,en líkist kvikunni frá byrjun eldgossins í Geldingadölum 2021. Þessar niðurstöður eru merki um að kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé að breytast. Að svo stöddu er ekki hægt meta nákvæmlega hvers konar breytingar eru í gangi, en á næstunni verður fleiri gögnum safnað og þau rýnd til að reyna að varpa ljósi á þær.   

Mikilvægt að fylgjast reglulega með gasmengunarspá

Verðurspá gerir ráð fyrir norðanátt í dag og á morgun. Gasmengun berst því til suðurs og hennargæti orðið vart í Grindavík. Enn er talsverð óvissa með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is og gasdreifingarspáVeðurstofunnar hér.

Hættumat hefur verið uppfært í ljósi þróunar á eldgosinu og veður- og gasdreifingarspár. Hættumat er að mestu óbreytt, en svæði 7 hefur verið fært af gulu upp í appelsínugult vegna mögulegrar gasmengunar. Kortið gildir að öllu óbreyttu til 13. júní.

Haettusvaedi_VI_7juni_2024

Uppfært 4. júní, kl. 16:30
  • Eldgosið hefur staðið yfir í sex sólahringa
  • Einn gígur virkur
  • Hraun hefur aðallega runnið til norðvesturs að Sýlingarfelli
  • Nýleg gögn benda til þess að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi líkt og áður
  • Hættumat að mestu óbreytt

Eldgosið sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni þann 29. maí hefur nú staðið í sex sólarhringa. Eftir nokkuð kröftuga byrjun dróst virknin saman í þrjá gíga sem voru virkir um síðastliðna helgi. Breyting varð á virkninni í nótt og svo virðist sem einungi einn gígur sé virkur eftir nóttina. (Sjá staðsetningu gígsins á hættumatskorti ) Gígurinn sem ennþá er virkur er staðsettur rétt við þann gíg sem gaus lengst úr í eldgosinu sem hófst 16. mars og endaði 9. maí.

Hraunstraumar úr þeim gíg sem er virkur eru til norðvesturs að Sýlingarfelli og meðfram því að norðan. Einnig eru virkir hraunstraumar til suðurs í átt að Hagafelli. Gera má ráð fyrir að dregið hafi úr hraunstraumi til suðaustur í átt að Fiskidalsfjalli eftir að virknin færðist yfir í einn gíg.

Meðfylgjandi eru tvær myndir úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem staðsett er uppi á Þorbirni og horfir yfir gosstöðvarnar. Á fyrri myndinni, sem tekin er kl. 02:00 sést kvika koma upp úr tveimur  gígum, en seinni myndin sem tekin er klukkustund síðar sýnir einungis kviku koma úr stærri gígnum.

Gigar1_04062024
Gigar2_04062024

Nýleg gögn benda til þess að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi líkt og áður

Aflögunarmælingar sýna að land heldur áfram að síga í Svartsengi. Þegar kvikuhlaupið byrjaði í aðdraganda eldgossins þann 29. maí seig land í Svartsengi um 15 cm, en hefur nú sigið um 4-6 cm til viðbótar á undanförnum dögum. Það að land haldi áfram að síga þetta mörgum dögum eftir upphaf goss er ólíkt því sem hefur áður sést í eldgosunum á Sundhnúksgígaröðinni.

Í fyrri kvikuhlaupum/eldgosum, hefur mest allt sig samfara þeim einungis mælst á allra fyrstu dögum en strax í kjölfarið farið að mælast landris. Landsigið bendir til þess að á þessu stigi flæði meira magn kviku úr kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, heldur en að flæði inn í það af dýpi.

Aflögunarmælingar á Svartsengissvæðinu og þróun eldgossins næstu daga munu gefa skýrari mynd af framhaldi kvikusöfnunar undir Svartsengi. Líkanreikningar og mat á hraunflæði í gosinu benda hins vegar til þess að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi líkt og áður.

Uppfært hættumat

Veðurspá í dag (þriðjudag) er norðanátt og mun gasmengunin berast til suðurs, líkur á mengun um tíma í Grindavík. Norðvestlægari á morgun, gasmengun mun þá berast til suðausturs. Talsverð óvissa er með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is.

Hættumat hefur verið uppfært í ljósi þróunar eldgossins og veður- og gasdreifingaspár. Hættumat er að mestu óbreytt, en svæði 7 hefur verið fært niður í nokkra hættu (gult). Áfram er mjög mikil hætta (fjölublátt) á svæði 3 sem nær yfir Sundhnúksgígaröðina og upptök eldgossins. Á svæði 4 (Grindavík) og 6 er áfram mikil hætta (rauð) og svæði 1 og 5 töluverð hætta (appelsínugult). Kortið gildir að öllu óbreyttu til 7. júní.

Haettusvaedi_VI_4juni_2024



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica