Jarðhræringar Gríndavík eldri færslur
Gas27032024

Jarðhræringar Grindavík : feb - mar 2024

31.3.2024

Uppfært 27. mars kl. 13:30

  • Áfram hætta á gasmengun. Sjá gasdreifingarspá.
  • Útlit er fyrir að mengunin berist til vesturs og suðvesturs í dag, m.a. yfir Svartsengi, Hafnir og Grindavík. Huga þarf að loftgæðum.
  • Virkni eldgossins stöðug. Hrauná rennur til suðurs frá gígunum þremur.

Virkni í eldgosinu hefur verið nokkuð stöðug síðan á mánudaginn 25.mars. Órói hefur haldist stöðugur síðan þá sem og virknin í gígunum þremur. Hraun rennur áfram í hrauná til suðurs frá gígunum að mestu ofan á hraunbreiðunni sem myndaðist á fyrstu dögum gossins. Meðfylgjandi mynd sýnir útbreiðslu hraunsins eins og hún var kortlögð frá gervitunglamynd síðan 26. mars og svæði þar sem breytingar hafa orðið á milli 20. og 26. mars.

Kort27032024

Skástrikaðar þekjur sýna svæði þar sem breytingar hafa orðið á hraunbreiðunni á milli 20. og 26. mars. Sá hluti skástrikaða svæðisins sem er rauðlitaður táknar svæði þar sem hraun hafði ekki runnið yfir áður í þessu eldgosi, þ.á.m. er Melhólsnáma sunnan Hagafells. Ljósfjólubláar þekjur sýna svæði þar sem hraun rann frá eldgosum í febrúar og janúar.

Land heldur áfram að rísa í Svartsengi en mun hægar en það hefur gert fyrir þau eldgos eða kvikuhlaup sem orðið hafa á síðustu mánuðum. Það bendir til þess að enn safnist upp kvika í söfnunarsvæðið undir Svartsengi þótt það sé eldgos í gangi. Lítil sem engin skjálftavirkni hefur mælst á svæðinu.

Áfram hætta á gasmengun

Veðurstofan hefur síðustu daga, í samstarfi við Almannavarnir, bætt við gasmælum á tveimur stöðum til að fylgjast með gasmengun (SO2). Annar þeirra er staðsettur við Bláa lónið og hinn á hafnarsvæði Grindavíkur. Þetta er viðbót við þá mæla sem Umhverfisstofnun heldur úti. Báðar stöðvarnar eru að streyma gögnum á vefsíðu Umhverfisstofnunar .

Há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) mældust í skamma stund í Grindavík í nótt (allt upp í 9000 míkrógrömm/m3) en þau lækkuðu fljótt aftur niður í eðlileg gildi. Há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) mældust í Bláa lóninu og í Höfnum í gær. Hæst fóru gildin í 7000 microgröm/m3 í Bláa lóninu og í 2000 microgröm/m3 í Höfnum. Slíkur styrkur er talinn mjög óhollur og líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum. Mikilvægt er að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu þegar svo há gildi mælast. Huga þarf vel að málum þar sem vinna fer fram utandyra, eins og vinnueftirlitið bendir á, og þá þurfa fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins að huga vel að þróun loftgæða vegna mögulegrar hættu á gasmengun. Gaslosun frá eldgosinu er líkleg til að valda áfram mengun á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Gas27032024

Mynd úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem staðsett er á Hópsnesi  suðaustan Grindavíkur. Fyrir miðri mynd er Þorbjörn og gosstöðvarnar þar austan við þaðan sem gosmökkurrin rís og berst undan austanvindi til vesturs.

Veðurspáin í dag (miðvikudag) er austan og norðaustan 5-10 m/s og er útlit fyrir að mengunin berist þá til vesturs og suðvesturs, m.a. yfir Svartsengi, Hafnir og Grindavík. Á morgun, Skírdag er vindáttin heldur ákveðnari norðaustan og berst þá gasmengunin til suðvesturs. Sjá gasdreifingarspá sem reglulega er uppfærð.


Uppfært 25. mars kl. 15:00

  • Há gildi af SO2 (brennisteinsdíoxíð) mældust um helgina. Hægt að fylgjast með gasdreifingarspá hér .
  • Þessi styrkur er talinn mjög óhollur. Mikilvægt að huga vel að þróun loftgæða.
  • Virðist hafa dregið úr eldgosinu við Sundhnúksgíga
  • Hættumat óbreytt. Áfram er aukin hætta vegna gasmengunar

Það virðist hafa dregið úr eldgosinu við Sundhnúksgíga síðasta sólarhringinn. Virkni í gígunum er minni og mögulega slökknað í minnstu gígunum. Einnig hefur gosórói minnkað mjög hægt og rólega undanfarna daga. Megin hraunstraumurinn rennur frá gígunum fyrst í suður og beygir síðan til vesturs. Um helgina hélt hraun áfram að flæða í Melhólsnámuna og hefur nú fyllt hana en heldur áfram að þykkna nær gígunum.

GPS mælingar síðustu daga benda til þess að landris sé í gangi í Svartsengi, en mun hægara en áður. Það bendir til þess að enn safnist upp kvika í söfnunarsvæðið undir Svartsengi þótt það sé eldgos í gangi.

Há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) mælst síðustu daga

Það hafa mælst há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) í Höfnum og Grindavík síðustu daga og í dag. Þessi styrkur er talinn mjög óhollur og líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum. Mikilvægt er að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. Þetta á ekki síst við þar sem vinna fer fram utandyra, eins og vinnueftirlitið bendir á, þá þurfa fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins að huga vel að þróun loftgæða vegna mögulegrar hættu á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Veðurspáin um og eftir hádegi í dag (mánudag) er norðaustan 3-8 m/s á gosstöðvunum og gasmengunin berst því til suðvesturs (yfir Grindavík og Svartsengi), auk þess sem gas gæti safnast saman nærri gosstöðvunum því vindur er fremur hægur. Í kvöld, nótt og framan af morgundegi er útlit fyrir austan 8-13 m/s á gosstöðvunum og mengunin berst þá til vesturs, m.a. yfir Hafnir. Á þessu tímabili er einnig mögulegt að vindur verði suðaustlægur um tíma og gæti mengunar þá orðið vart í Njarðvík, Keflavík og Sandgerði. Gasdreifingarspá er að finna hér.

Hættumat óbreytt

Hættumat hefur verið uppfært og gildir frá kl: 15:00 í dag þangað til 2. apríl, að öllu óbreyttu. Engar breytingar eru á hættumatinu og áfram er hætta af völdum gasmengunar metin mikil á öllum svæðum nema Sundhnúksgígaröðinni (Svæði 3) þar sem hún er metin mjög mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) er áfram metin mikil vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga, hraunflæðis og gasmengunar.  

Haettusvaedi_VI_25mars_2024

(Smellið á kortið til að stækka)

Uppfært 23. mars kl. 12:20

  • Aukin hætta vegna gasmengunar á öllum svæðum á hættumatskorti. Gasdreifingarspá hér.
  • Áfram nokkuð stöðug virkni í eldgosinu. Hraun flæðir meðfram varnargörðum.

  • Landris á svæðinu hefur verið væg síðan gos hófst 16. mars.

Áfram er nokkuð stöðug virkni í eldgosinu og hraun flæðir meðfram varnargörðun norðan og austan Grindavíkur. Hraunið sem rennur meðfram varnargörðunum norðan Grindavíkur heldur áfram að fylla upp í Melhólsnámu eins og sést á meðfylgjandi hreyfimynd. Hreyfimyndin sýnir hraunflæði frá kl. 15 í gær til kl. 9 í morgun, 23. mars.

Hagafell2203_2303--002-

Myndirnar eru úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er uppi á Hagafelli og Melhólsnáma er lengst til hægri á myndinni og vestan hennar er Grindavíkurvegur.

Í dag er spáð norðaustan 8-15 m/s á gosstöðvunum. Gasmengun berst því til suðvesturs og gæti hennar orðið vart í Grindavík. Í kvöld snýst í austan og suðaustan 5-13 m/s, gasið berst þá til vesturs og norðvesturs í átt að Svartsengi og gæti einnig orðið vart við það í Reykjanesbæ og nálægum byggðarlögum. Það lægir annað kvöld og þá minnka líkur á að gasmengun berist langt frá gosstöðvunum, en ávallt eru líkur á gasmengun nálægt þeim.

Uppfært 22. mars kl. 16:10

  • Uppfært hættumat
  • Aukin hætta vegna gasmengunar á öllum svæðum. Gasdreifingarspá hér.
  • Eldvirkni á gosstöðvunum við Sundhnúk stöðug milli daga

  • Landris á svæðinu hefur verið væg síðan gos hófst 16. mars


Eldvirknin á gosstöðvunum við Sundhnúk helst stöðug á milli daga. Lítil sem engin skjálftavirkni er í kvikugagninum eða í nágrenni hans. Aflögun í formi landriss á svæðinu við Svartsengi hefur verið afar væg síðan kvikuhlaupið átti sér stað og gos hófst þann 16. mars.  Það bendir einkum til þess að kvikan safnist síður fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi en flæði frekar beint út um gosopin. Þó gætu verið vísbendingar um að landris í Svartsengi hafi aukist síðan þá, en ekki er hægt að fullyrða um það að svo stöddu. Mælingar næstu daga munu þó leiða slíkt betur í ljós.

Veðurspáin í dag (föstudag) er norðan- og norðnorðvestanstæðir vindar upp á um 8-15 m/s og norðaustlægari átt undir kvöld með heldur hægari norðaustanátt á morgun. Gasmengunin verður undan þeim áttum því mest til suðurs af gosstöðvunum eða í og við Grindavík. Gasdreifingarspá má finna hér.

Aukin hætta vegna gasmengunar

Hættumat hefur verið uppfært og gildir það frá kl. 15 í dag föstudaginn 22. mars til kl. 15 mánudaginn 25. mars haldist staðan óbreytt. Hætta af völdum gasmengunar er metin meiri á öllum svæðum m.v. síðastliðna daga. Það er vegna veðurspár næstu daga og hærri mældra gilda á flæði brennisteinsdíoxíð (SO2) frá gígunum og hraunbreiðunni nú en áður. Á svæðum 1 og 5 (norðvestan gosstöðvanna) er hætta vegna hraunflæðis minni en síðastliðna þrjá daga vegna stöðugleika hraunbreiðunnar norðan gosstöðvanna og núverandi hraunflæðis sem leitar einkum til suðurs. Hraunbreiðan er þó enn hættuleg sökum þess hve stutt er síðan hún myndaðist.

Haettusvaedi_VI_22mars_2024

(Smellið á kortið til sjá það stærra)

Uppfært 21. mars kl. 13:50

  • Meðalhraunflæði frá gígunum 17. - 20. mars um 14.5 m3/s

  • Flatarmál hraunsins er orðið 5.58 km2 og rúmmál þess um 20.9 milljón rúmmetrar.

  • Kvika sem áður safnaðist undir Svartsengi og olli landrisi er nú að mestu leyti að flæða beint til yfirborðs og fæðir eldgosið

  • Lítil aflögun mælist á Svartsengissvæðinu og umhverfis kvikuganginn.

  • Gasmengun berst til austurs og suðausturs og gæti hennar orðið vart á Suðurlandi. Gasdreifingarspá er hér.

Virkni í eldgosinu hefur verið nokkuð stöðug síðasta sólarhringinn. Áfram virðast sömu gosop vera virk og gígar halda áfram að byggjast upp í kringum þau. Hraun flæðir suður af gígunum í virkri hrauná á yfirborði og undir storknuðu yfirborði hraunsins.

Kort21022024

Mynd sem tekin er úr loftmyndaflugi sem Náttúrufræðistofnun Íslands tók í gær 20. mars um kl. 9 um morgun. Þessi gagnasöfnun er samstarfsverkefni Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Veðurstofu Íslands.

Meðalhraunflæði frá gígunum 17. - 20. mars um 14.5 m3/s

Í gærmorgun fóru sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands í mælingaflug yfir gosstöðvarnar. Út frá gögnum sem safnað var í því flugi er áætlað að meðalhraunflæði frá gígunum á tímabilinu frá 17. til 20. mars hafi verið um 14,5 m3/s. Það er svipað hraunflæði og mældist í eldgosunum við Fagradalsfjall  2021 – 2023. Mun meira hraunflæði var þó frá gígunum fyrsta sólarhring gossins sem hófst að kvöldi 16. mars. Flatarmál hraunsins er orðið 5.58 km2 og rúmmál þess um 20.9 milljón rúmmetrar. Meðfylgjandi kort sýnir útbreiðslu og þykkt hraunsins eins og það var kortlagt í gærmorgun 20. Mars. Þar sést að hraunið er yfir 16 m þykkt þar sem það er þykkast næst gígunum.

Hraun21032024

Myndatexti: Kort sem sýnir útbreiðslu þess hrauns myndast hefur í eldgosinu sem nú stendur yfir. Fjólubláar þekjur sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

Lítil aflögun mælist á Svartsengissvæðinu og umhverfis kvikuganginn. Hreyfingar eru það litlar að ekki sjást martækar breytingar milli daga. Það þarf þvi nokkra daga til viku af mælingum til að meta hvort landris er enn í gangi við Svartsengi. Þó er ljóst strax að kvika sem áður safnaðist undir Svartsengi og olli landrisi er nú að mestu leyti að flæða beint til yfirborðs og fæðir eldgosið. 

Veðurspáin í dag er norðvestan og vestan 8-15 m/s, gasmengun berst til austurs og suðausturs og gæti hennar orðið vart á Suðurlandi, eins í Þorlakshöfn og í Vestmannaeyjum. Norðlægari vindur á morgun (föstudag) og þá berst gasmengun til suðurs og suðausturs og gæti hennar orðið vart í og við Gríndavík. Gasdreifingarspá er hér.

Gasdreifing21032024


Uppfært 20. mars kl. 13:00

  • Virkni eldgossins stöðug og áfram virk gosop
  • GPS mælingar frá 18. mars sýna að mögulega dragi úr landrisi.
  • Uppfært hættumat.
  • Gasmengun gæti orðið vart í Reykjanesbæ, nálægum byggðarlögum, Grindavík og í Svartsengi. Gasdreifingarspá má finna hér.

Virkni eldgossins virðist nokkuð stöðug og áfram eru virk gosop á sömu stöðum og í gær. Hraun rennur frá gígunum í suður ofan á hrauni sem rann á fyrstu dögum gossins. Lítil sem engin hreyfing hefur mælst á hraunjöðrum nærri Suðurstrandarvegi og Svartsengi.  Jarðskjálftavirkni síðan eldgosið hófst á laugardagskvöld hefur verið minniháttar.

Veðurspá er vaxandi suðaustanátt í dag, 13-20 m/s síðdegis. Gasmengun berst til norðvesturs, og gæti hennar orðið vart í Reykjanesbæ, nálægum byggðarlögum og líka í Svartsengi. Lægir í kvöld og þá gæti orðið vart við gasmengunnar nálægt gosstöðvum eins og Svartsengi og Grindavík. Svo snýst í norðlæga átt seint í kvöld og þá berst gasmengun til suðurs til Grindavíkur. Á morgun (fimmtudag) er norðvestan og vestan 8-15 m/s og berst gasmengun til austurs og suðausturs og gæti hennar orðið vart á Suðurlandi eins og í Þorlakshöfn eða í Vestmannaeyjum. Þann 17. mars var útstreymi SO2 frá eldgosinu mælt allt að 50 kg/s, en frumniðurstöður nýrri mælinga benda til þess að dregið hafi verulega úr gasútstreyminu síðan þá. Gasdreifingarspá má finna hér.

Á bylgjuvíxlmynd sem birt var í gær, sáust skýr merki um landris í Svartsengi frá 17. til 18. mars. GPS mælingar frá 18. mars sýna að mögulega dragi úr landrisinu. Það gæti verið vegna þess að nú streymir kvika uppá yfirborð í Sundhnúksgígaröðinni og safnast því ekki saman undir Svartsengi. Þróun eldgossins og aflögunarmælingar næstu daga munu leiða það í ljós hvort jafnvægi komist á innstreymi kviku undir Svartsengi og hraunflæði á yfirborði í Sundhnúksgígaröðinni.

Í morgun fóru sérfræðingar Landmælinga Íslands og Náttúrufræðistofnunar í loftmyndaflug yfir gosstöðvarnar. Út frá þeim myndum er hægt að áætla stærð hraunbreiðunnar og meðal hraunflæði  frá eldgosinu. Þær niðurstöður verða birtar um leið og unnið hefur verið úr gögnunum.

Eldgos20032024

Yfirlitsmynd yfir gosstöðvarnar tekin í flugi í morgun. Þar sjást öll virku gosopin og hraunstraumur frá þeim til suðurs. Í bakgrunni til vinstri má sjá Grindavíkurbæ og til hægri sést í Svartsengi (Ljósmynd: Birgir V. Óskarsson - Náttúrufræðistofnun)

Uppfært hættumat

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat í ljósi nýjustu gagna. Nýtt hættumat tekur gildi í dag, miðvikudaginn 20. mars og gildir til 22. mars að öllu óbreyttu. Svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin), þar sem eldgos er enn í gangi, er óbreytt og hættan talin mjög mikil. Hætta á svæði 1 (Svartsengi) er nú metin töluverð en var áður metin mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) er áfram metin mikil þar sem hætta vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga og hraunflæðis er talin mikil. Á svæði 3 (Sundhnúksgígaröðinni) er hætta vegna gasmengunar talin mjög mikil en á öllum öðrum svæðum er nú metin töluverð hætta á gasmengun en var áður mikil. Þessi breyting er vegna minna gasútstreymis frá eldgosinu en í upphafi. Hætta vegna gasmengunar og gjósku er einnig metin út frá veður- og dreifingarspá næstu daga sem hefur áhrif á útbreiðslu þeirra. 

Haettusvaedi_VI_20mars_2024

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Uppfært 19. mars kl. 11:50

  • Eldgosið heldur áfram og hefur staðið síðan 16. mars kl. 20:23
  • Gosórói mælist og hefur verið nokkuð stöðugur undanfarna tvo sólahringa sem er vísbending um að ekki hafi dregið úr krafti gossins.
  • Landris heldur áfram í Svartsengi sem bendir til þess að enn streymi kvika af dýpi inn í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi ásamt því að fæða eldgosið.
  • Hættumatskort sem uppfært var í gær er óbreytt

Eldgosið heldur áfram og hefur nú staðið í rúman tvo og hálfan sólarhring og er orðið lengra en þau þrjú gos sem hafa orðið á svæðinu síðan í desember 2023. Áfram gýs á sömu stöðum og seinnipartinn í gær sem eru sunnarlega á gosprungunni. Gígbarmar halda áfram að byggjast upp og kvikustrókavirkni enn nokkur. Hraunjaðarinn sem var um 300 m frá Suðurstrandarveginum í gær virðist ekki hafa færst áfram síðan í gær. Hraunrennsli frá gígunum er áfram mest til suðurs, en virkir hraunjaðrar renna ofan á því sem rann í upphafi gossins. Engin skjálftavirkni hefur verið í og við kvikuganginn síðan eldgos hófst en gosórói mælist og hefur verið nokkuð stöðugur undanfarna tvo sólahringa sem er vísbending um að ekki hafi dregið úr krafti gossins.

Þegar kvika hljóp frá Svartsengi yfir Sundhnúksgígaröðina að kvöldi 16. mars þá seig land í Svartsengi líkt og þegar fyrri kvikugangar mynduðust. GPS mælingar og gervitunglamyndir eftir það sýna að landris heldur áfram í Svartsengi sem bendir til þess að enn streymi kvika af dýpi inn í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi ásamt því að fæða eldgosið. Hafa ber í huga að enn hafa fengist tiltölulega fáir mælipunktar á þeim skamma tíma sem liðið hefur síðan eldgosið hófst og mælingunum fylgir ávallt óvissa. Aflögunarmælingar sem verða aðgengilegar næstu daga munu gera sérfræðingum mögulegt að áætla nánar með líkanreikningum það magn kviku sem streymir inn undir Svartsengi.

Bylgjuvixlmynd19032024

Bylgjuvíxlmynd sem sýnir mælt landris (rauð svæði) á milli 17. og 18. mars eftir að eldgosið hófst. Myndin byggir á gögnum úr Iceye gervitungli.

Samkvæmt mælingum sem framkvæmdar voru í gærkvöldi hefur dregið úr gasútstreymi frá eldgosinu miða við það sem var í upphafi. Áfram eru þó líkur á að gasmengunar verði vart og veðurspá bendir til vaxandi suðvestanáttar, verði um 13-20 m/s á gosstöðvunum í dag en dregur úr vindi í kvöld. Gasmengun berst því til norðausturs. Sjá gasdreifingarspá hér.

Hættumatskort sem uppfært var í gær er áfram í gildi til kl. 15:00 á morgun 20. mars að öllu óbreyttu.


Uppfært 18. mars kl. 16:30

  • Uppfært hættumat tekur gildi í dag. Gildir til 20. mars, að öllu óbreyttu.
  • Virkni eldgossins nokkuð stöðug síðan seinnipartinn í gær.
  • Hæg hreyfing á hrauntungunni sem stefnir í átt að Suðurstrandarvegi.

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat í ljósi nýjustu gagna. Nýtt hættumat tekur gildi í dag, mánudaginn 18. mars og gildir til 20. mars, að öllu óbreyttu. Svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin), þar sem eldgos er enn í gangi, er óbreytt og hættan talin mjög mikil. Hættan er enn metin mikil á svæði 1 (Svartsengi) vegna gasmengunar og hraunflæðis. Sama á við um svæði 4 (Grindavík) þar sem hætta vegna jarðfalls ofan í sprungur, sprunguhreyfinga, hraunflæðis og gasmengunar er talin mikil. Svæði 5 hefur verið fært niður í töluverða hættu (appelsínugult) og svæði 7 niður í nokkur hætta.

Það sem ræður því að hættan er metin meiri á svæði 1 heldur en svæði 5 er fjarlægð frá virka enda gossprungunnar. Veðurspá og gasdreifingarspá næstu daga hefur áhrif á mat á gasmengun og gjósku í hættumatinu.


Haettumat18032024

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Uppfært 18. mars, kl. 11:45

  • Virkni eldgossins nokkuð stöðug síðan seinnipartinn í gær
  • Hæg hreyfing á hrauntungunni sem stefnir í átt að Suðurstrandarvegi.
  • Í morgun voru um 330 m frá hraunjaðrinum að veginum. Jaðarinn færst lítið áfram m.v. í gærkvöldi.

Virkni í eldgosinu hefur verið nokkuð stöðug síðan seinnipartinn í gær. Það gýs á tveimur svæðum á gossprungunni í nokkrum gosopum, en svo virðist sem slökknað hafi í nyrstu gosopunum. Virkustu gígarnir eru sunnarlega á gossprungunni sem opnaðist á laugardagskvöld og frá þeim er hraunrennsli til suðurs í átt að Suðurstrandarvegi. Í morgun voru um 330 m frá hraunjaðrinum að veginum og hafði jaðarinn færst lítið áfram m.v. í gærkvöldi. Við athuganir á svæðinu í gærkvöldi virtist ekki vera mikil virkni eða hreyfing í hrauntungunni sem fór yfir Grindavíkurveg á aðfararnótt sunnudags.

Flatarmál hraunsins hefur verið metið 5,85 ferkílómetrar út frá gervitunglamynd sem var tekin kl. 14:56 í gær, 17. mars. Sjá á meðfylgjandi korti. Í þessu mati á flatarmáli er meiri óvissa en mælingum sem byggðar eru á ljósmyndum úr flugi. Ef veðuraðstæður leyfa verður farið í mælingaflug yfir gosstöðvarnar síðar í dag sem gæfi nákvæmari tölur um flatarmál en einnig rúmmál hraunsins.

Grindavik_Svartsengi_lavas_overview_20240318

Útlínur hraunsins teiknaðar eftir tveimur gervitunglamyndum frá Iceye. Fyrri myndin var tekin 17. mars kl: 01:55 (appelsínugulur litur), sem er um fimm og hálfri klukkustund eftir að eldgosið hófst. Seinni myndin var tekin kl: 14:56 17. mars og útlínur hraunsins, eins og það var þá, sýnt með rauðum lit. Fjólubláir litir sýna hraunbreiður frá fyrri gosum. 

Husafell_PTZ_2024_03_18_08_48_29

Gossprungan eins og hún var um kl. 8:45 í dag. Til hægri á myndinni sést í Stóra-Skógfell en vinstra megin í Sýlingarfell. Virkustu gosopin eru austan við Sýlingarfell, sunnarlega á gossprungunni sem opnaðist á laugardagskvöld. Í fréttauppfærslu í gær var birt mynd frá sama sjónarhorni, en þá sást virkni í nyrstu gosopunum sem ekki sést lengur.

Veðurspá fram eftir degi er suðaustan- og austan 8-13 m/s á gosstöðvunum en síðan hægari sunnan og suðvestanátt. Gasmengun berst þá til norðvesturs og vesturs, en norðurs seinnipartinn. Talsverð óvissa er í styrk gasmengunar. Suðvestan 10-18 á morgun og mun gasmengunin þá fara til norðausturs. Ólíklegt er að gasmengun berist til Höfuðborgarsvæðisins vegna hvassviðris. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Gasdreifing-18032024

Lítil skjálftavirkni er í kvikuganginum á umbrotasvæðinu og reyndar á Reykjanesskaganum öllum. Aðeins örfáir litlir skjálftar. Hættumat verður uppfært seinna í dag.


Uppfært 17. mars, kl. 18:28

  • Lítil skjálftavirkni hefur mælst á svæðinu það sem af er degi. 
  • Mikil strókavirkni var fram að miðnætti, en virknin dróst hægt saman þegar leið á nóttina. 
  • Nokkuð stöðug virkni var með deginum, en virðist hafa dregist örlítið saman núna seinnipartinn.

Hér fyrir neðan er kort sem sýnir áhrifasvæði ef til þess kæmi að hraun næði til sjávar. Sú sviðsmynd og viðbragðsáætlanir henni tengdri hafa verið ræddar á stöðufundum Veðurstofunnar og Almannavarna í gær og í dag.

Hraunjaðarinn í suðri er í innan við 250 m fjarlægð frá Suðurstrandarvegi. Nú síðdegis hefur framrás jaðarsins verið um 12 m/klst., sem er talsvert minni hraði en mældist fyrr í dag. Ef hraðinn helst óbreyttur mun hraun ná Suðurstrandarvegi eftir um 20 klukkustundir. Hraunið þyrfti svo að ferðast um 350 m til viðbótar til að ná alla leið til sjávar.

Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýra (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar. Eftir því sem fjær dregur minnkar hættan og er hverfandi í meira en 3 km fjarlægð.

Ef horft er til þróunar í virkni gossins í dag, er það talið ólíklegt að hraun nái til sjávar. Miðað við hraðan á framrás hraunjaðarsins nú síðdegis (12 m/klst.), tæki það um tvo daga. Á meðan að eldgos heldur áfram er engu að síður mikilvægt að vera undirbúin fyrir þessa sviðsmynd þar sem þær aðstæður sem þá gætu myndast eru lífshættulegar þeim sem eru innan áhrifasvæðisins.

Grindavik_hraun_ut_i_sjo_upplysingar


Uppfært 17. mars, kl. 16:25

Lítil skjálftavirkni hefur mælst á svæðinu það sem af er degi. Mikil strókavirkni var fram að miðnætti, en virknin dróst hægt saman þegar leið á nóttina. Nokkuð stöðug virkni var með deginum, en virðist hafa dregist örlítið saman núna seinnipartinn. 

Sunnan við Hagafell hefur hraun runnið við hlið varnargarðs og stöðvaðist þar um tíma og myndaði tjörn. Hrauntunga sem rann til vesturs virðist hafa stoppað í um 200 m fjarlægð frá Njarðvíkuræðinni.

Ljósmyndin hér að neðan er tekin á Húsafelli austan við Grindavík í dag þegar sérfræðingur Veðurstofunnar voru að huga að mælitækjum á staðnum. Á myndinni sést staðsetning hraunjaðarsins kl. 13 í dag, þar sem hann rennur meðfram varnargarðinum. Fjarlægð frá Suðurstrandarvegi til sjávar er um 350 m.

Hraunjadar_Sudurstrond_17032023_1300

Grannt er fylgst með framrás hraunsins á þessum slóðum vegna þess möguleika að hraun renni yfir Suðurstrandarveg og jafnvel til sjávar.

Framrás hraunsins í átt að Suðurstrandarvegi hefur þó verið hæg í morgun, um 20 m/klst. Framhaldið ræðst af því hvernig kraftur gossins þróast. Samkvæmt upplýsingum frá vettvangi var hraunjaðarinn í um 250 m fjarlægð frá Suðurstrandarvegi kl. 14:40.



Uppfært 17. mars, kl 11:50


Eldgosið sem hófst kl. 20:23 í gærkvöldi heldur áfram en eftir því sem leið á nóttina dró úr virkninni á gossprungunni og nú gýs á þremur stöðum. Einnig dró verulega úr skjálftavirkninni í nótt og nánast engin skjálftavirkni mældist eftir kl. 3 til morguns, en þá dró einnig úr gosóróa. Þessi þróun svipar mjög til fyrri gosa á Sundhnúksgígaröðinni.

Skömmu eftir miðnætti fór hraun yfir Grindavíkurveg og stefndi í átt að heitavatnslögninni frá Svartsengi. Lítil hreyfing hefur verið á þeirri hrauntungu síðan í nótt og er það nú um 200 m frá lögninni. Önnur hrauntunga rennur meðfram varnargörðum austan við Grindavík og í átt að Suðurstrandarvegi. Viðbragðsaðilar á svæðinu fylgjast með framrásarhraða hraunsins þar en það hefur færst hægt og rólega áfram.

Eldgos17032024

Gossprungan eins og hún var um kl. 11 í dag. Til hægri á myndinni sést í Stóra-Skógfell en vinstra megin í Sýlingarfell. Virkasti hluti sprungunnar er austan við Sýlingarfell, en minni gosop norðar.

Veðurspá 

Veðurspá í dag er norðaustan 8-13 m/s og rigning með köflum, en dregur heldur úr vindi er líður á daginn. Gasmengun mun þá einkum berast til suðvesturs frá gosstöðvunum. Suðaustan 8-13 m/s og skúrir á morgun og mun mengun þá helst liggja til norðvesturs. Hiti yfirleitt á bilinu 1 til 5 stig við gosstöðvarnar. Talsverð óvissa er um styrk gasmengunar. Sjá gasdreifingarspá hér .

Gasdreifing17032024

Uppfært 17. mars, kl. 00:50

Eldgosið hefur nú staðið yfir í rúmar fjórar klukkustundir. Út frá sjónrænu mati í eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar virðist lítið hafa dregið úr krafti gossins. Syðsti og nyrsti hluti sprungunnar virðist aðeins hafa dofnað. Annars gýs nokkuð samfellt á allri sprungunni.

Hraunbreiðan sem nú rennur yfir Grindavíkurveg er umtalsvert breiðari en í febrúar.

Samkvæmt upplýsingum úr eftirlitsfluginu hefur hægst á framrás hrauntungunnar sem rennur í suður. Hraðinn er metinn nú vera í kringum 300 m/klst.

LHG_1703_0048

(Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)


Uppfært 17. mars, kl. 00:15

Mynd úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar, en þyrlan er farin í loftið aftur. Hrauntungan sést hér nálgast Grindavíkurveg. Myndin er tekin kl. 00:12

LHG_1703_0013

(Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)


Uppfært 16. mars, kl. 23:40

Veðurstofan hefur uppfært hættumat í ljósi eldgossins og þróun hraunflæðis frá gossprungunni. Hraun rennur áfram í suður og suðaustur. Hraði hrauntungunnar eins og hann var metinn úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar er um 1 km á klst.

Haldist kraftur gossins óbreyttur er sú sviðsmynd möguleg að hraun nái til sjávar rétt austan Þórkötlustaðahverfisins í Grindavík.

Haettusvaedi_VI_17mars_2024_kl_0000

Kortið hefur verið uppfært. Hættustig hefur verið hækkað á svæði 5 frá fyrri útgáfu.


Uppfært 16. mars, kl. 22:05

Hraun virðist renna hratt í suður í átt að varnargörðum norðan Grindavíkur. Eins rennur hraun í vestur í átt að Grindavíkurvegi, líkt og gerðist í eldgosinu 8. febrúar.

Gossprunga16032024_Varnargardar

Uppfært 16. mars, kl. 21:55

Búið er að setja af stað gasdreifingarspá sem hægt er að nálgast hér.

Skjamynd-2024-03-16-215120_Gasdreifing

Uppfært 16. mars, kl. 21:50

Nýtt kort sem sýnir áætlaða legu gossprungunnar. Heildarlengd gossprungunnar er áætluð vera 2,9 km.

Aaetlud-gossprunga-16032024_2


Uppfært 16. mars, kl. 21:40

Myndir úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar. Gosmökkurinn berst yfir Svartsengi. Megin hraunstraumurinn virðist renna til suðurs og austurs.

LHG_BO_2140

LHG_BO_2140_2

(Ljósmyndir: Almannavarnir/Björn Oddsson)


Uppfært 16. mars, kl. 21:15

Samkvæmt fyrsta mati virðist sem að sama magn af kviku sé að koma upp og mældist í eldgosinu 8. febrúar.

Eftirlitsflug á vegum Landhelgisgæslunnar er að fara í loftið. Nánari upplýsingar og myndir af umfangi gossins munu berast síðar.


Uppfært 16. mars, kl. 20:50

Gosmökkurinn berst til norðvesturs.

Fyrsta staðsetning gossprungunnar er byggð á radargögnum (sjá miðju gossprungunnar sem rauðan punkt á kortinu hér að neðan). Unnið er að nákvæmari staðsetningu.

Gossprunga_Fyrstamat_16032024



Uppfært 14. mars kl. 17:00

Athugið:
  • Þegar veður versnar dregur úr skilvirkni eftirlitskerfis Veðurstofunnar. Í kvöld og nótt bætir í vind með ofankomu á Reykjanesi og á morgun má búast við allhvassri suðaustanátt með hvössum vindhviðum. Því má gera ráð fyrir að bæði næmni jarðskjálfta- og rauntíma GPS vöktunar Veðurstofunnar skerðist. Einnig mun veðrið hafa áhrif á óróamælingar og sjónrænt eftirlit með vefmyndavélum. Veðrið gengur hratt niður um miðnætti annað kvöld, 15. mars.

Meiri óvissa er nú en áður um mögulega tímasetningu á næsta eldgosi

Samkvæmt nýjustu aflögunarmælingum og gervitunglagögnum heldur kvikusöfnun undir Svartsengi áfram með sambærilegum hraða og fyrir kvikuhlaupið 2. mars. Líkanreikningar byggðir á þeim gögnum staðfesta að kvikusöfnunin undir Svartsengi er á sama stað og dýpi og áður.

Í tengslum við eldgosin 14. janúar og 8. febrúar og kvikuhlaupið 2. mars, hefur það sýnt sig í öllum tilfellum að heildarmagn í kvikuhólfinu undir Svartsengi hafi þurft að ná um 10 milljón rúmmetrum áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina.  Möguleg tímasetning á næsta eldgosi hefur verið byggð á því að reikna út magn kviku sem hleypur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina í hvert sinn og síðan hversu marga daga það mun taka að safna aftur upp í sambærilegu magni kviku undir Svartsengi.

Graph_mogi_is_14032024

Í kvikuhlaupinu 2. mars er áætlað að um 1,3 milljón m3 af kviku hafi farið frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, sem er mun minna en í fyrri kvikuhlaupum síðustu mánuði. Síðan þá er áætlað að um 4 milljón m3 af kviku hafi bæst við undir Svartsengi, en ekki hefur komið til kvikuhlaups eða eldgoss.

Það bendir til þess að mögulega hafi átt sér stað einhver breyting á þeim farvegi sem kvikan hefur leitað í yfir í Sundhnúksgígaröðina. Í ljósi þess er því meiri óvissa nú en áður um hversu mikið magn kviku þarf að safnast fyrir undir Svartsengi til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.

Meiri óvissa er því nú en áður um tímasetningu á næsta kvikuhlaupi og mögulegu eldgosi. Það skal hins vegar tekið fram að áfram eru mestar líkur á því að kvikan hlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og þá mögulega eldgosi á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

Skjálftavirkni norðvestur af Grindavík ekki merki um að kvika sé þar á ferðinni

Ef kvika færi að leita annað en þá leið sem hún hefur farið yfir í Sundhnúksgígaröðinni, t.d. í vestur í átt að Eldvörpum eða suður af Þorbirni, væri undanfari mögulegs eldgoss á því svæði mjög ákafar skjálftahrinur og aflögun sem kæmi skýrt fram á mælitækjum og gervitunglamyndum. Engin merki eru um slíkt á þessum tímapunkti.

Allnokkrir smáskjálftar (minni en 1.5 að stærð) hafa mælst norðvestur af Grindavík síðustu daga. (Sjá yfirlitsmynd hér að neðan.) Virknin er að megninu til staðsett innan sigdalsins sem myndaðist 10. nóvember og er vegna áhrifa frá landrisinu í Svartsengi sem veldur spennubreytingum innan sigdalsins. Skjálftavirknin er ekki merki um að kvika sé á ferðinni á þessu svæði.

Skjalftar_0203_1403_2024_Graben

Myndin sýnir skjálftavirkni á tímabilinu 3. mars til dagsins í dag, 14. mars. Svörtu línurnar tákna ytri mörk sigdalanna sem mynduðust í tengslum við kvikuhlaupið mikla 10. nóvember 2023 og eldgosið 14. janúar í ár.


Uppfært 12. mars kl. 14:55

Líkanreikningar sýna að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram á sama hraða og áður. Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið þegar heildarmagn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi er á bilinu 8 til 13 milljónir rúmmetra. Heildarmagn kviku undir Svartsengi er komið yfir þau mörk. Þrýstingur í kvikuhólfinu heldur því áfram að byggjast upp og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og jafnvel eldgosi á næstu dögum.

Graph_mogi_is_12032024

Frá því á föstudag hafa um 140 skjálftar mælst nærri Sundhnúksgígaröðinni og Grindavík. Langflestir skjálftanna eru smáskjálftar undir 1,0 að stærð en stærsti skjálftinn var 2,8 að stærð á föstudagskvöldið á um 5 km dýpi skammt SA við Þorbjörn. Síðustu tvo til þrjá daga hefur verið væg fjölgun í fjölda jarðskjálfta svæðinu m.v. áður, en mögulega hefur þar áhrif að rólegheita veður hefur verið síðustu daga og mælitæki því næmari á smáskjálfta.

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat í ljósi nýjustu gagna. Hættumatið er óbreytt frá síðustu útgáfu. Nýtt hættumat tekur gildi í dag, þriðjudaginn 12. mars kl. 15 og gildir fram á þriðjudaginn 19. mars, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_12mars_2024

Óvenju takföst röð atburða hingað til

Eins og við sögðum frá í frétt í síðustu viku þá hegðaði kvikuhlaupið 2. mars sér sumpartinn á annan hátt en fyrri kvikuhlaup. Vísindamenn munu halda áfram að afla frekari gagna til að skoða hvort að atburðarrásin 2. mars séu merki þess að virknin í tengslum við kvikusöfnunina undir Svartsengi og sú óvenju takfasta röð atburða með endurteknum kvikuhlaupum og eldgosum í kjölfarið sé að breytast.

Áður hefur atburðarrásinni á Sundhnúksgígaröðinni líkt við atburðarrásina sem varð í Kröflueldum sem hófust 1975. Á 10 ára tímabili urðu þar 20 kvikuhlaup og enduðu 9 þeirra með eldgosi (Sjá skýringarmynd hér fyrir neðan). Í Kröflueldum fóru kvikuhlaupin öll inn í sama kvikugang en voru mismikil að umfangi. Eldgosin urðu hins vegar ekki með því reglulega millibilli sem við höfum séð hingað til á Sundhnúksgígaröðinni og í raun er það mjög óvenjulegt hversu takföst virknin hefur verið hingað til.

Kroflueldar_Umbrotahrinur

Myndin sýnir samspil milli myndun kvikuganga og landhæðar í miðri Kröfluöskjunni. Neðri myndin sýnir landhæð mælipunkts innan Kröfluöskjunnar, en sú efri hvar umbrotasvæði voru í hverri hrinu. Á efri myndinni táknar rauði liturinn eldgos.(Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir, 2021)

Uppfært 7. mars kl. 15:40

Skjálftavirkni við kvikuganginn hefur farið minnkandi síðan á laugardag 2. mars, einkum síðustu daga þar sem fáir skjálftar hafa mælst. Veður hefur hins vegar deyft eða truflað skjálftamælana, svo líklega eru fleiri skjálftar, en allt smáskjálftar.

Veðrið næstu sólarhringa er líklegt til að hafa áhrif á eftirlitskerfi Veðurstofunnar. Næsta sólarhringinn verður suðaustan strekkingur eða allhvass vindur með rigningu og takmörkuðu skyggni, einkum til fjalla. Í fyrramálið dregur úr úrkomu en á morgun og næstu daga er útlit fyrir stöku skúri og líklegt að skyggni verði lítið meðan þetta ganga yfir. Heldur dregur úr vindi um helgina, suðaustan stinningsgola eða kaldi á sunnudag.

Þensla heldur áfram undir Svartsengi og líkanreikningar byggðir á GPS gögnum frá 3.-6. mars sýna að um 1,2 milljón rúmmetrar af kviku hafa bæst við í kvikuhólfið þessa daga. Þannig að í heildina hafa rúmlega 10 milljón rúmmetrar af kviku safnast í kvikuhólfið. Staðan er því svipuð eins og hún var fyrir kvikuhlaupið 2. mars.

Uppfært hættumat

Veðurstofan hefur uppfært hættumat. Hættustig er óbreytt frá síðast korti. Ein breyting hefur verið gerð á skiptingu svæða. Svæði 2 og 3 hafa verið sameinuð í eitt svæði. Í ljósi þess hvernig virknin hefur þróast er ekki talin lengur ástæða til að meta hættu á þessum svæðum í tvennu lagi. Nýtt hættumat tók gildi kl. 15 í dag, fimmtudaginn 7. mars. Hættumatið gildir til 12. mars að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_7mars_2024
(Smellið á kortið til að stækka)

Uppfært 5. mars kl. 11:20

Líkleg atburðarrás næstu daga:

  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells

Skjálftavirkni yfir kvikuganginum hefur verið með minnsta móti síðan kvikuhlaupinu lauk á laugardag. Heldur meiri virkni er við Fagradalsfjall en þar hafa mælst um 20 skjálftar síðasta sólarhringinn.

Líkanreikningar sýna að um 1,3 milljón rúmmetrar fóru úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í kvikuganginn á laugardaginn 2. mars. Kvikugangurinn sem myndaðist í kjölfarið var um 3 km langur og náði frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli. Rúmmál kviku sem fór inn í kvikuganginn í þessum atburði var því mun minni heldur en í fyrri atburðum þar sem að um 10 milljón rúmmetrar af kviku hlupu yfir í Sundhnúksgígaröðina. 

Áframhaldandi landris mælist á GPS mælum eftir kvikuinnskotið á laugardaginn. Kvikuflæði undir Svartsengi heldur því áfram og líkanreikningar sýna að um hálf milljón rúmmetra af kviku safnast á sólarhring. Í heildina hafa um 9,5 milljón rúmmetrar af kviku safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi síðan í eldgosinu 8. febrúar.

Þrýstingur í kvikuhólfinu heldur því áfram að byggjast upp og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og jafnvel eldgosi á næstu dögum.

Graph_mogi_is_05032024

Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Staða kvikusöfnunar 4. mars er merkt með rauðu. Þar sést einnig hvaða áhrif kvikuhlaupið laugardaginn 2. mars hafði á söfnunarferlið. Þá fór um 1.3 milljónir rúmmetra af kviku yfir í Sundhnjúksgígaröðina án þess að eldgos var. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu

Veður getur haft áhrif á eftirlitskerfi

Veðurstofan hefur uppfært hættumat og er það óbreytt frá fyrra hættumati. Nýtt hættumat gildir til fimmtudags 7. mars, að öllu óbreyttu.

Veðrið næstu sólarhringa er líklegt til að hafa áhrif á eftirlitskerfi Veðurstofunnar. Spáin fyrir vikuna er suðaustan og austanátt, um 10-15 m/s. Rigningarskil flesta daga og lægir og hvessir á víxl samfara þeim.  

Haettusvaedi_VI_5mars_2024

Aðstæður á hættusvæðum geta breyst mjög hratt og án fyrirvara. Þau sem eiga erindi inn á hættusvæðin þurfa að vera meðvituð um slíkt. Í því hættumati sem Veðurstofan gefur út er ekki gert ráð fyrir veðurskilyrðum eða öðrum þáttum sem geta haft áhrif á þá áhættu sem felst í að vera innan hættusvæða.


Uppfært 4. mars kl. 13:30

Líkleg atburðarrás næstu daga:

  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells

Líkanreikningar sýna að það magn kviku sem hljóp á laugardaginn úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðinni var um 1.3 milljónir rúmmetra.

Áður var búið að reikna út að um hálf milljón rúmmetra af kviku safnist fyrir undir Svartsengi á sólarhring. Að öllu óbreyttu verður heildarmagn kviku undir Svartsengi orðið um 9 milljónir rúmmetra í lok dags á morgun, þriðjudag.

Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið þegar heildarmagn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi er á bilinu 8 til 13 milljónir rúmmetra. Því eru auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og eldgosi þegar því magni hefur verið náð.

Það má hins vegar benda á að eftir endurtekin gos í Fagradalsfjalli þá voru dæmi um að kvika læddist upp á yfirborðið án mikillar skjálftavirkni. Reikna þarf með að það gæti orðið þróunin með virknina á Sundhnúksgígaröðinni.


Uppfært 3. mars kl. 11:55


Líkleg atburðarrás næstu daga:

  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Í ljósi þróunar á virkninni frá því í gær hefur hættustig verið lækkað á tveimur svæðum – svæði 2 og 3. Hættustig er óbreytt á öðrum svæðum og er hættumatið nú það sama og var í gildi fyrir atburðarás gærdagsins.

Hættumatið gildi frá því kl.13:00 í dag, 3. mars, til þriðjudagsins 5. mars kl. 15:00, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_3mars_2024


Uppfært 3. mars kl. 10:20

Skjálftavirkni við Sýlingarfell vegna kvikuhlaups sem hófst um kl.16 í gær hjaðnaði jafnt og þétt eftir kl.18 og var að mestu lokið eftir kl 20.

Gögn benda til þess að kvikuhlaupið í gær hafi stöðvast við Hagafell. Líkur á því að kvika komi upp í tengslum við þetta kvikuhlaup hafa minnkað, en áfram verður náið fylgst með svæðinu hvað þann möguleika varðar.

Líkanreikningar sýna að magn kviku sem hljóp frá Svartsengi í gær hafi verið óverulegt miðað við fyrri kvikuhlaup sem enduðu með eldgosi. Því er hægt að líta svo á að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi líkt og áður.

Reikna þarf með að annað kvikuhlaup geti átt sér stað næstu daga og áfram eru auknar líkur á eldgosi líkt og fyrir atburðarrás gærdagsins. Hversu langt er í næsta kvikuhlaup veltur á því hversu hratt þrýstingur vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi byggst upp til að setja það af stað. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður áköf smáskjálftahrina á svæðinu.

Í ljósi þessa vinnur Veðurstofan að nýju hættumati sem verður uppfært á næstu klukkustundum.

Líkleg atburðarrás næstu daga:

  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells
Graph_mogi_is_03032024
Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Staða kvikusöfnunar 2. mars eftir kvikuhlaupið er merkt með rauðu. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu

Uppfært 2. mars kl. 18:45

Á þessum tímapunkti hefur smáskjálftavirknin sem hófst rétt fyrir klukkan fjögur í dag hætt. Líkur eru því á að kvikuhlaupið hafi stöðvast í bili.

Áfram mælist aflögun á svæðinu. Því er of snemmt að fullyrða að kvikuhlaupinu sé lokið og að ekki komi til eldgoss að þessu sinni. Þegar um kvikuhlaup er að ræða mælist aflögun í nokkrar klukkustundir eftir að skjálftavirknin hættir.

Veðurstofan heldur því áfram að vakta svæðið til að fylgjast með hvort að virknin taki sig upp aftur næstu klukkustundirnar eða hvort kvikuhlaupinu sé lokið. Sá möguleiki er fyrir hendi að kvika læðist upp til yfirborðs líkt og dæmi eru um í eldgosum við Fagradalsfjall.


Uppfært 2. mars kl. 16:30

Fréttin uppfærð kl 17:30

  • Dregið hefur úr skjálftavirkninni. Óvissa er um hvert framhald virkninnar verður.Skjálftahrinan hófst klukkan 15:55 á suður enda gossprungunnar þar sem gaus 18. desember 2023.
  • Skjálftavirknin færðist suðaustur eftir kvikuganginum og stöðvaðist við Hagafell.
  • Aflögunin sem nú mælist er mun minni en hefur áður mælst í aðdraganda eldgosa. Það gæti bent til þess að minni kvika sé á ferðinni nú en í fyrri eldgosum.
  • Dýpi skjálftavirkninnar bendir ekki til þess að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs eins og staðan er núna. Það eru því minni líkur á að kvikuinnskotið leiði til eldgoss en það er þó alls ekki útilokað.
  • Ein þeirra sviðsmynda sem nefnd hefur verið er að kvikuhlaup verði án þess að til eldgoss komi.

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat sem gildir í sólarhring að öllu óbreyttu.Haettusvaedi_VI_2mars_1700

Uppfært 29. febrúar kl. 10:50 
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells
  • Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast og hraði landriss helst nokkuð jafn
  • Í hættumati er ekki gert ráð fyrir veðurskilyrðum eða öðrum þáttum sem geta haft áhrif á áhættuna sem felst í því að vera innan hættusvæða
  • Mögulegt er að kvikuhlaup verði án þess að til eldgoss komi

Líkanreikningar sýna að í dag hafa um 8,5-9 milljónir rúmmetra af kviku safnast fyrir undir Svartsengi. Hraðinn á landrisinu hefur haldist nokkurn veginn sá sami síðust daga. Að öllu jöfnu hefur dregið úr hraða landriss þegar nálgast hefur eldgos.

Samkvæmt líkanreikningum safnast um hálf milljón rúmmetrar af kviku undir Svartsengi á sólarhring. Ef horft er til aðdraganda fyrri eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkur á eldgosi þegar magnið hefur náð 8 – 13 milljón rúmmetrum. Ef kvikusöfnun heldur áfram með sama hraða nást efri mörk í næstu viku.

Áfram eru auknar líkur á eldgosi næstu daga. Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og gæti það hafist með mjög stuttum fyrirvara.

Graph_mogi_is_29022024

Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Staða kvikusöfnunar 28. febrúar er merkt með rauðu. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu. Mismiklar breytingar geta einnig sést á milli daga. Fjólubláa línan sýnir magn kviku sem safnaðist áður en kvikugangurinn mikli sem liggur undir Grindavík myndaðist 10. nóvember.

Nýtt hættumat Veðurstofu Íslands sem gefið var út í dag helst óbreytt frá því síðast. Hættumatið gildir fram á þriðjudaginn 5. mars að öllu óbreyttu. Líklegar sviðsmyndir haldast einnig óbreyttar frá því sem var birt fyrr í vikunni. (Sjá í færslunni frá 26. febrúar hér að neðan).

Haettusvaedi_VI_29feb

Það skal tekið fram að þó svo að Veðurstofan hafi á þessu stigi ekki aukið hættustig á umbrotasvæðunum þá geta aðstæður þar breyst mjög hratt og án fyrirvara. Þau sem eiga erindi inn á hættusvæðin þurfa að vera meðvituð um slíkt. Í því hættumati sem Veðurstofan gefur út er ekki gert ráð fyrir veðurskilyrðum eða öðrum þáttum sem geta haft áhrif á þá áhættu sem felst í að vera innan hættusvæða.


Uppfært 26. febrúar kl. 16:10
  • Kvikumagn undir Svartsengi nálgast sömu mörk og í aðdraganda fyrri gosa
  • Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur
  • Aukið hættustig í uppfærðu hættumati vegna yfirvofandi eldgoss.
  • Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells
  • Í hættumati er ekki gert ráð fyrir veðurskilyrðum eða öðrum þáttum sem geta haft áhrif á áhættuna sem felst í því að vera innan hættusvæða
  • Mögulegt að kvikuhlaup fari af stað án þess að til eldgoss komi

Líkanreikningar sýna að um 7.6 milljónir rúmmetra af kviku hafa nú safnast fyrir undir Svartsengi. Ef horft er til aðdraganda fyrri eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkur á eldgosi þegar magnið hefur náð 8 – 13 milljón rúmmetrum. Ef kvikusöfnun heldur áfram með sama hætti nást neðri mörk á morgun.

Graph_mogi_20240226_is--002-


Skjálftavirkni hefur aukist örlítið um helgina og hefur mesta virknin verið rétt austan við Sýlingarfell. Staðsetning skjálftavirkninnar er á þeim slóðum þar sem talið er að austur endi kvikuinnskotsins undir Svartsengi liggi. Þetta er sambærilegt þeirri skjálftavirkni sem sést hefur dagana fyrir eldgos.

Kort-26022024

Myndin sýnir yfirfarna skjálfta frá föstudeginum 23. febrúar til dagsins í dag. Rauð lína sýnir gossprungu frá 8. febrúar og dökkrauðar línur sýnar gossprungur frá Janúar 2024 og Desember 2023.

Uppfært hættumat

Í ljósi þessa hefur Veðurstofan uppfært hættumat fyrir umbrotasvæðin. Auknar líkur á eldgosi og þar með eldgosavá því tengdu hefur áhrif á hættumatið. Hættustig hefur verið aukið á nokkrum svæðum. Svæði 3 – Sundhnjúkagígaröð hefur verið fært upp í mikil hætta (rautt) vegna gosopnunar án fyrirvara. Svæði 1 - Svartsengi hefur hækkað í töluvert (appelsínugult) vegna mögulegs hraunflæðis. Svæði 4 - Grindavík er áfram appelsínugult en hins vegar er aukin hætta innan þess svæðis vegna mögulegs hraunflæðis.

Haettumat26022024

Hættumatið gildir til 29. febrúar að öllu óbreyttu. (Smellið á kortið til að stækka)

Engar verulegar landbreytingar sjást innan Grindavíkur á GPS eða gervihnattagögnum.  En líklegt er að nýjar sprungur komi í ljós á yfirborði þegar snjór bráðnar eða þegar jarðvegur hreyfist vegna úrkomu og fellur ofan í sprungur sem þegar hafa myndast.

Líklegar sviðsmyndir 

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp  til yfirborðs, koma  fram í skyndilegri, staðbundinni og ákafri smáskjálftavirkni. Ef horft er til fyrri eldgosa á svæðinu gæti eldgos hafist með litlum fyrirvara, innan við 30 mínútur, allt eftir því hvar á Sundhnúksgígaröðinni kvika kemur upp.

Á íbúafundi með Grindvíkingum sem haldinn var í dag kynnti Veðurstofan niðurstöður hraunflæðilíkana í tengslum við líklegar sviðsmyndir sem birtar voru fyrir helgi. Niðurstöður sem voru kynntar sýndu áætlað hraunflæði út frá tveimur mismunandi staðsetningum á gosopnun á Sundhnúksgígaröðinni.

Hraunflæðilíkönin eru ekki spá um hegðun næsta eldgoss. Líkönin eru eingöngu til að kanna mögulegt hraunflæði út frá ólíkum staðsetningum á gossprungum.

Það er margt sem hefur áhrif á hvert hraun flæðir og hvernig: s.s. staðsetning og lengd gossprungu, kvikuútstreymi, landslag og það hvort virkni einangrast á gíga og hvort hrauntungur myndist.

Í þessum sviðsmyndum er hraunflæði skoðað ef um væri að ræða 800 m langa gossprungu með stöðugu kvikuútstreymi upp á 600m3/s. Sprungur eru merktar með svörtu striki.

Niðurstöður sem sýndar eru hér fyrir neðan eru því aðeins tvö dæmi um hraunflæði frá Sundhnúksgígaröðinni, en hegðun hraunbreiðunnar í næsta gosi getur verið mjög ólík og ræðst af því hvar nákvæmlega sprunga opnast í landslaginu og hversu löng hún er. Lítil tilfærsla á gossprungum getur breitt hraunflæði mikið.


Eldgos milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells – Líkt og 18. desember 2023 og 8. febrúar 2024 

  • Aðdragandi: Skyndileg, staðbundin og áköf smáskjálftavirkni. Aflögun yfir kvikuganginum. 
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur) þar sem kvika á auðvelda leið til yfirborðs vegna fyrri umbrota. 
  • Hraun nær að Grindavíkurvegi á um 2 til 4 klst.. Sá tími gæti verið styttri.
Fissure1_6hrs
Dæmi um mögulegt hraunflæði ef sprunga opnast rétt sunnan við Stóra-Skógfell. Hraunflæðilíkönin eru ekki spá um hegðun næsta eldgoss. Líkönin eru eingöngu til að kanna mögulegt hraunflæði út frá ólíkum staðsetningum á gossprungum. Hraði á hraunflæði getur verið annar en líkönin segja til um.

Eldgos við Hagafell – Líkt og 14. janúar 2024

  • Aðdragandi: Smáskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður. Aflögun yfir kvikuganginum. Líklegur fyrirvari um 1 – 3 klst. frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst. 
  • Hraun nær að varnargörðum við Grindavík á um 1 klst. Sá tími gæti verið styttri.
  • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík.
Fissure7_6hrs

Dæmi um mögulegt hraunflæði ef sprunga opnast austan við Hagafell. Hraunflæðilíkönin eru ekki spá um hegðun næsta eldgoss. Líkönin eru eingöngu til að kanna mögulegt hraunflæði út frá ólíkum staðsetningum á gossprungum. Hraði á hraunflæði getur verið annar en líkönin segja til um.

Eldgos innan varnargarða við Grindavík 

  • Aðdragandi: Smáskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður. Aflögun yfir kvikuganginum. 
  • Líklegur fyrirvari um 1 – 5  klst. frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst. 
  • Sá möguleiki er fyrir hendi að gossprunga opnist innan varnargarða án þess að gos sé hafið við Hagafell, eins og gerðist 14. janúar þegar ný gossprunga opnaðist rétt við bæjarmörkin um 4 klukkustundum eftir að gos hófst við Hagafell. 
  • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík.

Veðurstofan og Háskóli Íslands hafa tekið saman efni sem lýsir eðli umbrotanna sem hafa átt sér stað á Reykjanesskaganum síðan 2019. Sjá hér .



Uppfært 23. febrúar kl. 14:40

Líkanreikningar sýna að um 5 milljónir rúmmetra af kviku hafa nú safnast fyrir undir Svartsengi. Ef horft er til aðdraganda fyrri eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkur á eldgosi þegar magnið hefur náð 8 – 13 milljón rúmmetrum. Miðað við niðurstöðu líkanreikninga mun það nást í næstu viku ef kvikusöfnunin heldur áfram með sama hraða.

Það skal tekið fram að gera þarf ráð fyrir óvissu í þessari túlkun og ekki hægt að fullyrða að þróunin verði eins og fyrir síðustu gos. Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að kvika hlaupi frá Svartsengi og yfir í Sundhnúksgígaröðina án þess að til eldgoss komi.

Kvikusofnun_Svartsengi_Samanburdur_21022024

Grafið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu. Mismiklar breytingar geta einnig sést á milli daga. Staða kvikusöfnunar 21. febrúar er merkt með rauðu. Fjólubláa línan sýnir magn kviku sem safnaðist áður en kvikugangurinn mikli sem liggur undir Grindavík myndaðist 10. nóvember.

Fyrirvari vegna eldgoss gæti orðið mjög stuttur

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið kæmu fram í skyndilegri, staðbundinni og ákafri smáskjálftavirkni. Ef horft er til fyrri eldgosa á svæðinu gæti nýtt eldgos hafist með mjög litlum fyrirvara, innan við 30 mínútur, allt eftir því hvar á Sundhnúksgígaröðinni kvika kemur upp.

Líklegar sviðsmyndir

Eldgos milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells – Líkt og 18. desember 2023 og 8. febrúar 2024 

  • Aðdragandi: Skyndileg, staðbundin og áköf smáskjálftavirkni. Aflögun yfir kvikuganginum. 
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur) þar sem kvika á auðvelda leið til yfirborðs vegna fyrri umbrota. 
  • Hraun nær að Grindavíkurvegi innan við 4 klst. 

Eldgos við Hagafell – Líkt og 14. janúar 2024 

  • Aðdragandi: Smáskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður. Aflögun yfir kvikuganginum. 
  • Líklegur fyrirvari um 1 – 3 klst. frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst. 
  • Hraun nær að varnargörðum við Grindavík á 1 klst. 
  • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 

Eldgos innan varnargarða við Grindavík 

  • Aðdragandi: Smáskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður. Aflögun yfir kvikuganginum. 
  • Líklegur fyrirvari um 1 – 5  klst. frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst. 
  • Sá möguleiki er fyrir hendi að gossprunga opnist innan varnargarða án þess að gos sé hafið við Hagafell, eins og gerðist 14. janúar þegar ný gossprunga opnaðist rétt við bæjarmörkin um 4 klukkustundum eftir að gos hófst við Hagafell. 
  • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík.

Það að nú sjáist skýr merki um landris í Svartsengi þýðir ekki að þar sé líklegasti staðurinn fyrir upptök eldgoss. Það er metið m.a. út frá því að jarðskorpan yfir kvikuganginum við Sundhnúksgígaröðina er miklu veikari heldur en jarðskorpan yfir landrisinu í Svartsengi. Ef sú sviðsmynd verður að veruleika að kvika leiti beint upp í Svartsengi, er áætlað að það taki kvikuna í minnsta lagi 4 – 7 klst. að ná yfirborðinu frá því fyrstu merki um slíkt fari að mælast. 

Það skal tekið fram að sviðsmyndirnar eru byggðar á túlkun nýjustu gagna og þeirri atburðarás sem skráð hefur verið í fyrri eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni. Gera þarf ráð fyrir óvissu í þessari túlkun þar sem einungis er um fáa atburða að ræða. 

Veðuraðstæður geta haft áhrif á vöktun og rýmingar

Skilvirkni vöktunar Veðurstofunnar veltur á góðri næmni jarðskjálfta- og rauntíma GPS mælinga en næmnin er mjög háð veðuraðstæðum. Mikill vindur og brim hefur áhrif á lágu tíðnina í óróamælingunum þar sem öldur koma fram sem órói. Þoka og dimm él hafa síðan áhrif á sjónræna staðfestingu á gosi með myndavélum.

Í því hættumati sem Veðurstofan gefur út er ekki gert ráð fyrir veðurskilyrðum eða öðrum þáttum sem geta haft áhrif á þá áhættu sem felst í að vera innan hættusvæða. Þau sem eiga erindi inn á hættusvæðin þurfa að vera meðvituð um að aðstæður innan þeirra geta breyst mjög hratt og án fyrirvara.



Uppfært 22. febrúar kl. 15:10

Skjálftavirkni á umbrotasvæðinu norðan Grindavíkur heldur áfram að vera væg. Um 20 smáskjálftar hafa verið að mælast á hverjum sólarhring síðustu daga.

Kvikusöfnun við Svartsengi heldur áfram og hefur hraðinn verið nokkuð stöðugur sem svipar mjög til þess sem sást í aðdraganda síðustu eldgosa.

Atburðarrásin sem hófst í lok október 2023 með landrisi við Svartsengi heldur því áfram. Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram má búast við nýju eldgosi á sömu slóðum og áður.

Haldi kvikusöfnun áfram með sama hraða og nú mun magn kviku ná þeim þröskuldi í næstu viku sem talið er að þurfi til að koma af stað næsta kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Magn kviku sem safnast hafði við Svartsengi áður en fyrri gos hófust hefur verið á bilinu 8 til 13 milljón m3. Verið er að vinna ný reiknilíkön til að fá nánari mynd af því magni sem safnast hefur.

Ekki er talin ástæða til að auka hættustig á svæðinu að svo stöddu og er hættumat Veðurstofunnar því óbreytt frá því síðast.

Hættumatið verður uppfært á mánudaginn 26. febrúar og að öllu óbreyttu verður hættustig á nokkrum svæðum hækkað samhliða auknu kvikumagni undir Svartsengi og þar með auknum líkum á eldgosi.


Smelltu á myndina til að sjá hana stærri


Uppfært 19. febrúar kl. 17:00

Veðurstofa Íslands hefur gefið út uppfært hættumatskort í kjölfar þess að ríkislögreglustjóri hefur fallið frá tilmælum um brottflutning úr Grindavík frá og með 19. febrúar og vegna ákvörðunar lögreglustjórans um breyttar heimildir íbúa og fyrirtækja hvað varðar aðgengi að bænum.

Uppfært hættumatskort tekur gildi á morgun, 20. febrúar kl. 7, á sama tíma og nýjar reglur lögreglustjórans á Suðurnesjum um aðgengi að Grindavík taka gildi.

Í nýjustu útgáfu af hættumatskorti Veðurstofunnar hefur svæði 7 verið bætt við í samráði við almannavarnir. Innan svæðis 7 er Nesvegur, en aukinni umferð er nú beint um veginn vegna aðgengis að svæðinu við Svartsengi og Grindavík. Á svæðinu eru hættur vegna sprunguhreyfinga og jarðfalls ofan í sprungur. Litakóði annarra svæða er óbreyttur frá síðasta korti.

Hér má sjá tilkynningu lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Eins og áður sýnir kortið mat á hættu sem er til staðar og hættu sem gæti skapast með litlum fyrirvara. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hætta getur leynst utan þeirra.

Haettusvaedi_VI_19feb


Uppfært 15. febrúar kl. 14:00

Landris á Svartsengisvæðinu heldur áfram og er mynstur og hraði þess mjög svipað því sem það var eftir síðustu kvikuhlaup þaðan.

Líkanreikningar byggðar á GPS gögnum frá goslokum 9. febrúar sýna að kvikusöfnun þar til í gær 14. febrúar sé um 2-3 milljón rúmmetrar. Áætlað var að þegar eldgos hófst 8. febrúar hafi um 10 milljón rúmmetrar hlaupið undan Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina. Haldi kvikusöfnun áfram með sama hraða mun magn kviku ná 10 milljón rúmmetrum í lok febrúar eða byrjun mars, en þá má gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og eldgosi aukist verulega. Þessir líkanreikningar eru byggðir á GPS gögnum en verða uppfærðir þegar ný gervitunglagögn berast.    

Skjálftavirkni á svæðinu norðan Grindavíkur er áfram væg en frá því á mánudaginn 12. febrúar hafa eingöngu smá skjálftar um eða undir 1,0 að stærð mælst þar.

Skjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli heldur áfram en þar hafa um 80 smáskjálftar, um eða undir 1,5 að stærð mælst síðan 12. febrúar. Dýpi skjálftanna undir vestanverðu Fagradalsfjalli er stöðugt um 6-8 km dýpi. Áfram verður fylgst náið með þessu svæði en að svo stöddu sýna aflögunarmælingar ekki vísbendingar um kvikusöfnun.

Uppfært hættumatskort hefur verið gefið út. Það gildir til 22. febrúar, að öllu óbreyttu. Helstu breytingar eru að líkur á gosopnun hafa verið lækkaðar á öllum svæðum. Líkur á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum eru ennþá taldar miklar á svæði 4 (Grindavík). Athygli er vakin á að hættusvæðin eru virk og breytingar geta orðið með skömmum fyrirvara. Einnig geta leynst hættur utan skilgreindra hættusvæða, til að mynda eru sprungur sem opnuðust 10. nóvember vestan Grindavíkur (sjá sprungur á korti).

Haettusvaedi_VI_15feb

(Smellið á kortið til að stækka)


Uppfært 12. febrúar kl. 15:15

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumatskort vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.

Eins og áður sýnir kortið mat á hættum sem eru til staðar og nýjum hættum sem gætu skapast með litlum fyrirvara innan tilgreindra svæða. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hættur geta leynst utan þeirra.

Heildarhættumat fyrir svæðin er óbreytt frá síðasta korti. Enn er talin hætta á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum á svæði 4 (Grindavík). Kortið gildir, að öllu óbreyttu, til 15. febrúar næstkomandi.

Haettusvaedi_VI_12feb

(Smellið á myndina til að stækka)

Uppfært 12. febrúar kl. 11:15

Landris heldur áfram á svæðinu við Svartsengi. Land rís um 0,5 – 1,0 cm á dag sem er svipaður hraði og eftir síðustu eldgos. Kvika heldur því áfram að safnast í kvikuhólfið undir Svartsengi. Það eru því miklar líkur á að atburðarrásin endurtaki sig eftir nokkrar vikur með nýju kvikuhlaupi og eldgosi.

SENG-12022024

Færslur á GPS stöðinni SENG í Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (11. febrúar) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á síðustu þremur eldgosum (18. desember 2023, 14. janúar og 8. febrúar 2024).

Frá því á hádegi 8. febrúar hefur jarðskjálftavirkni verið á svæðinu norðan Grindavíkur minniháttar, en um 50 smáskjálftar hafa mælst, allir um eða undir 1,0 að stærð. Einnig hefur verið smáskjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli, en þar mældust rúmlega 100 skjálftar, flestir um eða undir 1,0 að stærð. Þar hefur smáskjálftavirkni verið viðvarandi síðustu vikur en dýpi skjálftanna er um 6 – 8 km. 

Uppfært hættumatskort verður birt seinna í dag.


Uppfært 9. febrúar kl. 15:20

Engin gosvirkni sást í drónaflugi á vegum sérsveitarinnar sem flaug yfir gossvæðið fyrir skömmu. Það bendir til að gosinu sé að ljúka. Ekki er lengur vart við gosóróa á skjálftamælum.

Veðurstofan hefur uppfært hættumat með tilliti til þróunar í virkni gossins. Breytingar hafa orðið á hættumati fyrir einstaka hættu innan svæða. Dregið hefur úr hættu á gosopnun en hætta vegna gasmengunar er enn til staðar við hraunjaðarinn. Enn er talin hætta á hraunflæði, sú hætta tengist því að ennþá er möguleiki á að hrauntungur brjótist út úr hraunjaðrinum. Hætta á jarðfjalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingar er enn talið hátt á svæði 4 (Grindavík).

Haettusvaedi_VI_09feb

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Hættumatið gildir, að öllu óbreyttu, til kl. 15:00 á mánudag, 12. febrúar.


Uppfært 9. febrúar kl. 11:30

Dregið hefur verulega úr gosóróa síðan í gær en það byrjaði að draga úr honum upp úr hádegi í gær þegar virkni á gossprungunni minnkaði einnig. Tímabundnar hækkanir sáust á gosóróa í gærkvöldi en samhliða því jókst virkni í gígunum. Í nótt dró enn frekar úr virkni gossins en milli kl. 7 og 8 í morgun voru tvo gosop virk. Undanfarnar klukkustundir hefur ekki sést kvikustrókavirkni á vefmyndavélum en ekki er útilokað að enn sé virkni í gígunum.

Bylgjuvíxlmynd frá kl. 14:56 í gær sýnir að land í Svartsengi, NV við Þorbjörn, seig mest um 10 cm þegar kvika hljóp þaðan í Sundhnúksgígaröðina. Líkanreikningar byggðir á þessum gögnum sýna að þetta samsvarar því að um 10 milljón rúmmetrar hafi streymt frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi þegar kvika hljóp þaðan og gaus í Sundhnúksgígjaröðina.    

Bylgjuvixlmynd-09022024

Undanfarin sólarhring hefur verið minniháttar skjálftavirkni á gossvæðinu. Um 40 skjálftar hafa mælst þar, allir um eða undir 1,0 að stærð.

Mat á rúmmáli hraunsins sem rann frá því gos hófst, klukkan 6:02 þangað til 13:00 í gær (8. febrúar) er um 15 milljón rúmmetrar sem þýðir að meðal kvikuflæði fyrstu sjö klukkutímana í gosinu var um 600 rúmmetrar á sekúndu (gögnin unnin af Náttúrustofnun Íslands og Landmælingar Íslands).

Þótt gosið hafi minnkað verulega er enn of snemmt að fullyrða að því sé að ljúka. Sólahringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið mjög náið. Uppfært hættumat verður gefið út seinna í dag.


Uppfært 8. febrúar kl. 17:00

Áfram hefur dregið úr krafti gossins en nú gýs á tveimur til þremur stöðum á gossprungunni. Sprengivirkni sem hófst á milli kl. 13 og 14 í dag er að mestu lokið, en ennþá sjást minniháttar gufustrókar stíga upp á stöku stað á sprungunni.

Samhliða því að dró úr ákafa gossins þá minnkaði aflögunarmerki í kvikuganginum. Það bendir til þess að kvika sé ekki lengur að koma upp undir jafnmiklum þrýstingi og í upphafi. Fljótlega eftir að gosið hófst minnkaði skjálftavirkni verulega og hefur verið minniháttar í dag, en um 20 smáskjálftar hafa mælst yfir kvikuganginum síðan kl. 8 í morgun.

Á fyrra kortinu sést hraunbreiðan eins og hún var á gervitunglamynd sem tekin var kl. 12:31 í dag. Þar sést að hraunið flæddi lengst um 4,5 km í vestur frá gosstöðvunum. Til samanburðar er hraunbreiðan sem myndaðist í eldgosinu í desember 2023 einnig sýnd á kortinu. Hraunið sem hefur myndast í dag rennur að hluta til yfir hraunbreiðuna sem myndaðist í desember.

20240208_1231_iceye_hraunkort

(Smelltu á kortið til að sjá það stærra).

Veðurstofan hefur uppfært hættumat með tilliti til þróunar í virkni gossins. Breytingar hafa orðið á hættumati fyrir einstaka hættu innan svæða. Þær breytingar hafa þó ekki áhrif á heildarhættumat svæðanna. Nýja hraunbreiðan hefur einnig verið sett inn á kortið. Hættumatið gildir, að öllu óbreyttu, til kl. 19 á morgun, föstudaginn 9. febrúar.

Haettusvaedi_VI_08feb_KL16

(Smelltu á kortið til að sjá það stærra).

Uppfært 8. febrúar kl. 14:00

Dregið hefur úr krafti gossins. Nú gýs aðallega á þremur stöðum á gossprungunni sem opnaðist í morgun. Þetta er ekki ólíkt því sem sást í gosinu 18. desember, þegar virknin færðist á staka gíga nokkrum klukkustundum eftir að gos hefst.

Athygli vekur að dökkur mökkur stígur upp frá sprungunni á einum stað. Þar er líklegt að kvika sé að komast í snertingu við grunnvatn. Úr verður þá lítilsháttar sprengivirkni þar sem hvítur gufumökkur blandast við dökkan öskumökk.

Svo virðist sem askan sé ekki að ná langt frá gossprungunni eins og staðan er núna. Mökkurinn berst í suðvestur.

Gosmokkur_Sersveitin_1352

Mynd tekin í norðvestur átt. (Mynd: Sérsveit Ríkislögreglustjóra)


Uppfært 8. febrúar kl. 11:00

Verulega hefur hægt á aflögun umhverfis kvikuganginn. Líkur á því að gossprungan lengist frekar hafa því minnkað.

Hraunbreiðan hefur nú náð yfir Grindavíkurveg.

Veðurstofan hefur fengið tilkynningar um gjall (gjósku) sem hefur fallið til jarðar í Grindavík. 

Gjall_Sersveitin_Grindavik_08020224Gjallið sem um ræðir er frauðkennd og blöðrurík, eins og sést hér á myndinni, og myndast þegar kvikuslettur snöggkólna í kvikustrókum. Þetta ferli átti sér stað þegar gossprungan opnaðist í morgun (8. febrúar 2024). Gjallið er mjög blöðrótt og létt og getur því flust töluverðar vegalengdir undan vindi með gosmekki. Ástæða þess að gjóska fellur nú til jarðar í Grindavík, 3-5 km frá gossprungunni er samspil af hæð kvikustrókanna, vindaáttar, hitauppstreymis frá hraunbreiðunni og lágum lofthita.

Gjóska er samheiti yfir öll laus gosefni sem koma upp í eldgosi, óháð stærð og gerð, flytjast upp í andrúmsloftið og falla svo til jarðar. Hér á Íslandi þekkjum við gjósku vel úr sprengigosum eins og Grímsvatnagosum 2011 og 2004 og Eyjafjallajökli árið 2010. Í sprengigosum sundrast kvikan meira og myndar fínni gjósku en gjóska myndast líka í hraungosum eins og nú eiga sér stað á Reykjanesskaga. Í hraungosum fellur gjóskan mest niður nærri gígum og sést því ekki vel utan við hraunbreiðuna en í maí 2021 þegar kvikustrókavirkni var sem mest í gosinu í Fagradalsfjalli féllu stórir gjóskumolar allt að 10 cm í a.m.k. 1 km fjarlægð frá gosupptökum.

Fara þarf varlega að handleika gjall sem getur verið beitt eins og gler. Ekki nota rúðuþurrkur á bílum til að losna við gjallið, heldur frekar blása eða skola því burtu.

Spá veðurvaktar um gasdreifingu frá eldgosinu er norðaustan 4-8 m/s í dag (fimmtudag) og berst gasmengun til suðvesturs. Hægari í nótt og getur gasmengun þá safnast saman við upptökin. Austan og suðaustan 5-10 eftir hádegi á morgun (föstudag) og berst gasmengun til vesturs og norðvesturs, mengun getur því borist yfir Reykjanesbæ.

Gasdreifing-08022024

Uppfært 8. febrúar kl. 10:00

Hraunbreiðan nálgast nú Grindavíkurveg rétt norðan við varnargarðinn sem liggur að Sýlingarfelli. 

Hér fyrir neðan má sjá samanburð á staðsetningu á hraunjaðrinum eins og hann sést úr vefmyndavél RÚV kl. 9:27 og svo kl. 9:53.

Hraunbreida_0930

Hraunbreida_0953

Uppfært 8. febrúar kl. 6:50

Klukkan 5:30 í morgun hófst áköf smáskjálftavirkni norðaustan við Sýlingarfell. Um 30 mínútum síðar hófst eldgos á sömu slóðum.

Fyrstu mínúturnar lengdist sprungan bæði til norðurs og suðurs.

Út frá fyrstu fréttum úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar er gosið á sömu slóðum og gaus 18. desember. Sprungan er um 3 km löng, liggur frá Sundhnúk í suðri til austurenda Stóra-Skógfells. Hraun rennur  mestmegnis til vesturs á þessu stigi. Hraunflæði virðist aðeins minna en í byrjun gossins 18. desember.

Gosstrókarnir ná um 50-80 m hæð og gosmökkurinn stígur upp í um 3 km hæð.

Midill--2-

Ljósmynd úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar. Stóra-Skógfell í forgrunni og ljósin í orkuverinu í Svartsengi hægra megin.(Ljósmynd: Björn Oddsson)

Haettusvaedi_VI_08feb
Uppfært hættumat sem gildir til kl. 19, 9. febrúar.

Uppfært 5. febrúar kl. 16:00

Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram þótt aðeins hafi hægst á landrisinu þar síðustu daga. Svipað ferli átti sér stað fyrir kvikuhlaupin og eldgosin sem urðu í janúar 2024 og desember 2023. Samkvæmt nýuppfærðum líkönum sem byggja á gervitungla- og GPS gögnum sem ná yfir tímabilið frá 16. janúar til 5. febrúar er magn kviku undir Svartsengi nú metið um 9 milljón rúmmetrar. Áætlað er að um 9 – 13 milljón rúmmetrar hafi streymt frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi þegar kvika hljóp þaðan og gaus nærri Hagafelli þann 14. Janúar. Því hefur áætlað magn kviku undir Svartsengi nú náð neðri mörkum af því magni sem talið er að hafi safnast þar fyrir síðasta eldgos. Áfram eru því taldar auknar líkur á kvikuhlaupi og eldgosi á næstu dögum eða vikum.

Frá því á föstudaginn hafa hátt í 200 jarðskjálftar mælst á svæðinu norðan Grindavíkur, flestir um eða undir 1 að stærð á 3-4 km dýpi. Stærsti skjálftinn varð að morgni sunnudagsins 4. febrúar við Sundhnúk og mældist 2,2 að stærð á tæplega 6 km dýpi.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar vaktar svæðið áfram mjög náið og núverandi hættumatskort er áfram í gildi til kl. 15:00 þann 8. febrúar að öllu óbreyttu.

05022024-insar-

Bylgjuvíxlmynd sem sýnir landris á tímabilinu frá 23. Janúar til 4. febrúar 2024. Rauður litur sýnir svæði þar sem land hefur mest risið og grá svæði á myndinni sýna svæði þar sem ekki var hægt að mæla landbreytingar vegna breytinga í snjóþekju á tímabilinu. 


Uppfært 1. febrúar kl. 16:00

Líkön sem byggja á GPS gögnum sem farið var yfir á fundi í morgun (1. febrúar) með vísindafólki frá Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands sýna að nú hafa um það bil 6,5 milljón rúmmetrar flætt inn í kvikuhólfið kennt við Svartsengi. Miða við þetta mat er líklegt að kvikumagnið nái svipuðu rúmmáli og fyrir eldgosið 14. janúar á næstu tveimur vikum og jafnvel dögum. Þetta þýðir að líkurnar á kvikuhlaupi og eldgosi hafi aukist.

Ekki er víst að fyrirvarinn verði eins langur og í síðasta eldgosi (14. janúar), en þá var um fimm klukkustunda fyrirvari frá því jarðskjálftahrina byrjaði þangað til að eldgos hófst rétt sunnan Hagafells. Fyrirvarinn fyrir eldgosið milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks þann 18. desember síðastliðinn var um 90 mínútur, en það gos kom upp um það bil við miðjan kvikuganginn. Við endurtekin kvikuhlaup er líklegt að leiðin fyrir kvikuna verði greiðari og því fylgir minni jarðskjálftavirkni. Kvikuhlaupum fylgir þó alltaf aukinn smáskjálftavirkni og er líklegast að fyrirvari verði í það minnsta ein klukkustund í aðdraganda eldgoss sem lang líklegast mun rata í farveg kvikugangsins sem myndaðist 10. nóvember síðastliðinn.

Jarðskjálftavirkni hefur verið svipuð síðustu viku. Síðustu sjö daga hafa tæplega 200 jarðskjálftar mælst yfir kvikuganginum. Flestir skjálftanna voru smáskjálftar, undir 1,0 að stærð, á 2 til 5 km dýpi á svæðinu frá Stóra-Skógfelli í norðri og skammt suður fyrir Hagafell. Stærsti jarðskjálftinn mældist 1,8 að stærð staðsettur tæpan kílómeter sunnan við Hagafell.  

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumatskort. Helstu breytingar eru þær að svæði 3 (Sýlingarfell – Hagafell) fer upp í rautt (mikil hætta), svæði 2 og 6 fara upp í appelsínugult (töluverð hætta). Grindavík helst óbreytt (svæði 4).

Haettusvaedi_VI_1feb_2024

Heildarhættumat fyrir hvert svæði er byggt á samanlögðu mati á sjö tegundum af hættu sem er til staðar eða gæti skapast innan svæðanna. Litur svæða endurspeglar þannig heildarhættu innan svæðanna. Í listanum á kortinu sem sýnir hættur innan svæða, er eingöngu talin upp hætta sem metin er „töluverð“, „mikil“ eða „mjög mikil“ innan hvers svæðis. Sú hætta sem metin er „mikil“ eða „mjög mikil“ er feitletruð.

Skjamynd-2024-02-01-153224

Það skal tekið fram að þó svo að heildarhættumat fyrir Grindavík sé það sama og fyrir viku hefur hætta vegna hraunflæðis verið færð upp í mikil hætta. En hætta vegna jarðfalls ofan í sprungur er áfram metin mjög mikil.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica