Jarðhræringar Gríndavík eldri færslur
Almannavarnir - Civil Protection/Björn Oddsson

Jarðhræringar Grindavík : des 2023 - jan 2024

31.1.2024

Uppfært 25. janúar kl. 15:00

Landris heldur áfram vegna kvikusöfnunar undir svæðinu við Svartsengi. Síðustu daga hefur land risið um allt að 8 mm á dag sem er örlítið hraðara landris en mældist fyrir gosið 14. janúar.

Á þessum tímapunkti er erfitt að fullyrða um hversu mikið magn kviku hefur safnast fyrir frá því að gosi lauk 16. janúar. Líklegt er að sá tími sem það tekur að ná sama kvikumagni og fyrir síðasta gos sé mældur í vikum frekar en dögum. Verið er að vinna reiknilíkön til að fá skýrari mynd af stöðu kvikusöfnunar.

Skjálftavirknin á svæðinu er áfram væg og er mestmegnis í kringum Hagafell. Það má segja að skjálftavirknin sem mælist nú sé í takti við þá virkni sem sést hefur á svæðinu í kjölfar eldgosa.

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat. Helstu breytingar eru þær að heildarhættumat fyrir Grindavík hefur verið fært niður í appelsínugult (töluverð hætta).

Það skal tekið fram að þó svo að heildarhættumat fyrir Grindavík hafi verið fært niður um eitt stig, er hætta í tengslum við sprungur áfram metin mjög mikil. Það er hættan sem nú er kölluð „jarðfall ofan í sprungu“ og lýsir hættu sem gæti verið til staðar þar sem sprungur leynast undir ótraustu yfirborði sem gæti gefið sig.

Hættumat í tengslum við „sprunguhreyfingar“ innan Grindavíkur hefur hinsvegar verið lækkað. Þar er verið að meta hvort hætta sé til staðar að sprungur sem þegar hafi myndast stækki eða að nýjar sprungur myndist. GPS gögn sýna að mjög lítil hreyfing hefur mælst innan Grindavíkur síðustu daga og því er sú hætta metin minni en áður. Hætta vegna sprunguhreyfinga er nú metin töluverð.

Haettusvaedi_VI_25jan_2024

(Smelltu á kortið til að sjá það stærra). Heildarhættumat fyrir hvert svæði er byggt á samanlögðu mati á 7 tegundum af hættu sem er til staðar eða gæti skapast innan svæðanna. Litur svæða endurspeglar þannig heildarhættu innan svæðanna. Í listanum á kortinu sem sýnir hættur innan svæða, er eingöngu talin upp hætta sem metin er „töluverð“, „mikil“ eða „mjög mikil“ innan hvers svæðis. Sú hætta sem metin er „mikil“ eða „mjög mikil“ er feitletruð.

Svaedi4_Smamynd_25012024

Það skal tekið fram að þó svo að heildarhættumat fyrir Grindavík hafi verið fært niður um eitt stig, er hætta í tengslum við sprungur áfram metin „mjög mikil“. Það er hættan sem nú er kölluð „jarðfall ofan í sprungu“ og lýsir hættu sem gæti verið til staðar þar sem sprungur leynast undir ótraustu yfirborði sem gæti gefið sig.


Uppfært 19. janúar kl. 15:00

Áfram sjást skýr merki um landris við Svartsengi. Of snemmt er að fullyrða um hvort að hraðinn á landrisinu nú sé meiri en hann var fyrir gosið 14. janúar. Allra fyrstu mælingar benda til þess að svo sé, en eins og áður hefur komið fram getur verið dagamunur á milli mælinga sem ekki endilega segja til um þróun á landrisinu til langs tíma.

Áfram dregur úr skjálftavirkni yfir kvikuganginum og hægt hefur verulega á þeim breytingum sem áður sáust á GPS mælum. Því eru allar líkur til þess að kvika flæði ekki lengur inn í kvikuganginn sem myndaðist 14. janúar og eldgosinu sé lokið.

GPS mælingar sýna einnig litla breytingar innan Grindavíkur. Áfram er þó metin mikil hætta á því að jarðvegur hrynji ofan í sprungur sem eru innan bæjarmarkanna og mikilvægt að nýjar sprungur verði kortlagðar og breytingar á þekktum sprungum metnar.

Veðurstofan hefur uppfært hættumat vegna jarðhræringa á svæðinu. Hættustig hefur verið fært niður á öllum svæðum.

Heildarhættumat fyrir svæði 1, Svartsengi, er komið á gult (nokkur hætta).

Heildarhættumat fyrir svæði 4, Grindavík, er komið niður á rautt (mikil hætta). Það skal tekið fram að litur svæða endurspeglar heildarhættu innan þeirra. Sú hætta sem metin er hærri en önnur innan svæða, er feitletruð í hættulistanum á kortinu (sjá dæmi hér að neðan). Í tilfelli Grindavíkur á þetta við hættu sem stafar af sprungum, sprunguhreyfingum og hraunflæði.


Hættumatið tekur gildi kl. 15 í dag, föstudaginn 19. janúar og gildir fram á fimmtudaginn 25. janúar kl. 15, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_19jan_2024_NEW2

Smelltu á kortið til að sjá það stærra


Uppfært 18. janúar kl. 13:00

Eins og greint var frá í fréttum í gær þá eru áfram skýr merki um landris undir Svartsengi og enn er of snemmt að fullyrða um hraðann á landrisinu þar sem svo stutt er síðan gaus á svæðinu. Verið er að meta gögn frá GPS mælum til að fá heildarmat á stöðuna. Aflögun virðist þó vera svipuð og eftir eldgosið 18. desember.

Um 200 jarðskjálftar hafa mælst við kvikuganginn síðan í gær, sá stærsti 1,4 að stærð. Tæplega 70 smáskjálftar frá miðnætti. Þetta eru færri skjálftar en mældust deginum áður. Veðrið hefur haft áhrif síðustu daga en samt er búið að draga úr fjölda skjálfta.

Áfram er hætta mjög mikil innan Grindavíkur í tengslum við sprungur og að jarðvegur hrynji ofan í þær.

Uppfært 17. janúar kl. 14:30

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi. Of snemmt er að fullyrða um hraðann á landrisinu þetta skömmu eftir eldgos. Sérfræðingar munu halda áfram að meta gögn frá GPS mælum á svæðinu til að fá heildarmat á stöðuna. Einn af mælunum sem var staðsettur norður af Grindavík fór undir hraun, en rúmlega 20 GPS mælar eru á svæðinu sem notast er við.

Skjálftavirkni hefur verið væg yfir kvikuganginum síðasta sólarhringinn. Samkvæmt reiknilíkönum liggur kvika grunnt í suðurenda kvikugangsins, þar virðist landið vera mikið sprungið og kvikan eigi því auðvelt með að komast upp á yfirborðið. Áfram eru því líkur á að nýjar gossprungur opnist án fyrirvara.

Áfram er hætta innan Grindavíkur í tengslum við sprungur og að jarðvegur hrynji ofan í þær. Miklar hreyfingar hafa átt sér stað í tengslum við sigdalinn í austurhluta bæjarins. Hreyfingarnar urðu að mestu leyti á þeim sprungum sem mynduðust 10. nóvember og þegar höfðu verið kortlagðar.

Gasmengun mældist við vinnu ofan í brunnum tengdum veitukerfi innan Grindavíkur í gær. Veðurstofan vaktar ekki staðbundna gasmengun innan Grindavíkur. Skoða þarf betur hvort gasmengunin er tengd því að kvika liggur mjög grunnt á svæðinu. Það skal tekið fram að hættuleg gasmengun er meðal þeirra atriða sem nefnd eru í hættumatinu sem nú gildir fyrir Grindavík.

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumatskort. Engar breytingar eru á heildarhættumati á svæðunum frá því sem áður var. Kortið tekur gildi kl. 15 í dag og gildir fram á föstudaginn 19. janúar kl. 15 að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_17jan_2024

Uppfært 16. janúar kl. 17:00

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi með svipuðum hraða og fyrir tvö síðustu gos. Þetta er niðurstaða samráðsfundar vísindamanna sem haldinn var í morgun. Líkt og í gosinu 18. desember hljóp kvika frá söfnunarstaðnum undir Svartsengi, til austurs og myndaði kvikugang sem teygir sig frá Stóra Skógsfelli og suður undir Grindavík. Þetta staðfesta reiknilíkön. Þau sýna jafnframt að líklega var upptakastaður kvikunnar aðeins vestar nú en áður og því voru GPS mælingar að sumu leiti frábrugðnar því sem sást 18. desember.

Þegar kvikugangur myndast nálægt yfirborði, tognar á jarðskorpunni og land sígur yfir miðju kvikugangsins. Ennfremur þrýstist jarðskorpan upp sitt hvoru megin við hann. Reiknilíkön sem farið var yfir á samráðsfundinum sýna að GPS mælirinn í Svartsengi er staðsettur á þeim stað í jaðri kvikugangsins þar sem land rís rétt á meðan gangurinn er að myndast. Nú tveimur sólarhringum eftir að kvikugangurinn myndaðist ætti mælirinn í Svartsengi að byrja að sýna landsig ef kvikusöfnun væri hætt. Svo er ekki og því er ljóst að kvika er safnast fyrir líkt og áður.

Kvikugangurinn sem myndaðist í gosinu sem hófst á sunnudaginn liggur heldur austar en kvikugangurinn sem fór undir Grindavík 10. nóvember. Út frá gögnum sem safnað var og unnin á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landmælinga Íslands kemur í ljós að nýr sigdalur hefur myndast austan við sigdalinn sem myndaðist 10. nóvember. Sigdalurinn er um 800-1000 m breiður eins og sést á kortinu hér að neðan. Mesta sig í honum er um 30 cm, en vert er að geta að svæðið er enn að síga og dalurinn að víkka. Til samanburðar þá var sigdalurinn sem myndaðist 10. nóvember í gegnum Grindavík um 2 km breiður. Sigið innan hans var mest um 1,3 m.

Innan þessa nýja sigdals var áður búið að kortleggja sprungur sem höfðu myndast og voru sýnilegar á yfirborði. Þær sprungur hafa stækkað og nýjar myndast. Hætta í tengslum við sprungur og að jarðvegur hrynji ofan í þær hefur því aukist í austurhluta Grindavíkur frá því sem áður var.

NyrSigdalur

Kort sem sýnir staðsetningu og breidd sigdalsins sem myndaðist 10. nóvember og sigdalsins sem nú hefur myndast austar.


Uppfært 16. janúar kl. 11:15

Engin virkni er sjáanleg í gossprungunum. Síðast sáust hraunspýjur koma upp úr nyrðri sprungunni rétt upp úr kl. 1 í nótt. Áfram dregur úr jarðskjálftavirkni og hafa um 200 smáskjálftar mælst í kvikuganginum frá miðnætti sem benda til þess að kvika sé þar á hreyfingu og svæðið að jafna sig. Mesta skjálftavirknin er við Hagafell í nágrenni við fyrri gossprunguna sem opnaðist á sunnudagsmorgun. Of snemmt er að lýsa yfir goslokum.

GPS mælar nema áfram hreyfingar í og við Grindavík. Kvikugangurinn sem liggur undir Grindavík heldur því áfram að valda þenslu á svæðinu. Hitamyndir úr dróna í nótt sýna að sprungur sem áður höfðu verið kortlagðar suðvestanvert við Grindavík hafa stækkað talsvert. Áfram er mikil hætta á svæðinu.


Eldgosið séð úr eftirlitsflugi með Landhelgisgæslunni rétt fyrir hádegi 14. janúar. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Uppfært 15. janúar kl. 15:00

Út frá vefmyndavélum sést að dregið hefur úr hraunflæði upp úr gossprungunum sem opnuðust í gær. Flæðið úr syðri sprungunni sem opnaðist á hádegi í gær rétt við bæjarmörkin virðist hafa stöðvast. Megnið af hraunflæðinu er í suðvestur eftir leiðigarðinum sem reistur var og virðist hafa sannað gildi sitt.

Erfitt er að leggja mat á hversu lengi þetta gos mun standa. Dregið hefur úr skjálftavirkninni og samkvæmt GPS mælingum dregur úr hreyfingum á svæðinu. Áfram mælast þó hreyfingar syðst í kvikuganginum undir Grindavík.

Út frá mælingum hefur gliðnun innan bæjarmarkanna verið allt að 1,4 m síðasta sólarhringinn sem dreifist yfir margar sprungur, nýjar hafa myndast og eldri opnast meira. Nýjar sprungur geta verið að koma í ljós á yfirborði næstu daga.

Eins og áður hefur komið fram þá eru gosstöðvarnar mikið hættusvæði og ekki er hægt að útiloka að nýjar gossprungur opnist án fyrirvara. Það var tilfellið þegar sprungan opnaðist við bæjarmörk Grindavíkur í gær. Engin merki sáust á mælitækjum í tengslum við þá gosopnun sérstaklega.

Fremur hæg norðaustanátt á gosstöðvunum í dag, en fer að bæta í vind síðdegis. Gasmengun berst því til suðvesturs út á haf. Norðan 10-18 m/s á svæðinu á morgun og gas berst þá til suðurs. Sjá spá veðurvaktar um gasdreifingu frá gosstöðvunum.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og er í beinu sambandi við almannavarnir og viðbragðsaðila á svæðinu um framvindu atburðarins.

Vísindafólk hittist á samráðsfundi á vegum Veðurstofunnar nú í morgun. Farið var yfir þau gögn sem hafa safnast í tengslum við eldgosið.

Næstu dagar fara áfram í mælingar og öflun frekari gagna ásamt greiningu þeirra. Úr þeim gögnum er m.a. verið að vinna reiknilíkön til að átta sig betur á aðdraganda atburðarins og leggja mat á líklega framvindu eldgossins. Eins er verið að bera saman atburðarrásina 18. desember við eldgosið sem hófst í gær til að auka skilning á umbrotunum á svæðinu og leggja mat á hvaða sviðsmyndir eru líklegastar í framhaldinu.

Veðurstofan hefur uppfært hættumatskort. Kortið er óbreytt frá því síðast og gildir til miðvikudagsins 17. janúar, kl. 17 að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_15jan_2024

Kort_Hraundreifin_Maelingar140120224

Kort sem sýnir útbreiðslu hrauns út frá mælingum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Jarðfræðistofnunar Háskólans sem framkvæmdar voru tvisvar í gær.

ThykktHrauns_15012024

Kort sem sýnir þykkt hraunbreiðunnar út frá mælingum kl. 13.50 í gær.



Uppfært 14. janúar kl. 18:45

Enn gýs úr tveimur gossprungum rétt norðan Grindavíkur, sú stærri er við Hagafell en sú minni er rétt við bæjarmörkin. Hraun rennur úr báðum sprungum.

Minni sprungan, um 100 metra löng, sem opnaðist um kl.12 í dag er rétt um 200 metra frá hverfinu Efrahópi í Grindavík. Hraun rennur úr henni inn fyrir bæjarmörkin og veldur þar töluverðu tjóni.

Nyrðri og stærri sprungan sem opnaðist kl 7:57 í morgun er um 900 metra löng og rennur hraun úr henni aðallega til vesturs. Hún er að langmestu leyti norðan þeirra varnargarða sem undanfarið hafa verið í byggingu. Þeir beina megin hraunstraumnum til vesturs og hefur hrauntungan náð vel yfir Grindavíkurveg og þaðan áfram til suðvesturs. Lítill hluti gossprungunnar er innan varnargarðsins og hefur sú hraunbreiða stækkað hægt síðan í morgun. Hraði hraunflæðis er ekki mikill, en er mestur í miðjum hrauntungum. Magn kviku sem streymir út úr gossprungunum, hraði hraunflæðis og stærð hraunsins verður metið betur á morgun.

Samfara myndun kvikugangsins til suðvesturs í morgun í átt að og líklega undir Grindavík varð mikil aflögun á svæðinu við gosstöðvarnar á nýjum sprungum og á eldri sprungum sem mynduðust 10. nóvember. Þegar kvikugangurinn myndaðist í nótt varð afar hröð aflögun. Eftir að seinni gossprungan opnaðist dróg verulega úr aflögun og nánast stöðvaðist eftir því sem líða fór á daginn, einkum við Hagafell og norðan þess. Enn mælist þó aflögun innan Grindavíkur en hún fer minnkandi. Minnkandi aflögun er talið vera merki þess að kvikuþrýstingur sé að ná jafnvægi. Ekki er þó útilokað að fleiri gossprungur myndist.


Almannavarnir hafa boðað til upplýsingafundar í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í kvöld klukkan 19:00. Á fundinum sem Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna stýrir, verður farið yfir atburði dagsins. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Benedikt Halldórsson fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands verða einnig á fundinum.

Uppfært 14. janúar kl. 14:00

Spá veðurvaktar Veðurstofunnar um gasdreifingu frá eldgosinu við Hagafell er að það er norðan og norðaustan átt, 3-8 m/s og þurrt og bjart í dag. Það verður skýjað með köflum og lítilsháttar snjókoma seint í nótt og í fyrramálið. Léttir til síðdegis á morgun. Mengun frá eldgosinu berst til suðurs og suðvesturs.GrindavikGas14Jan--002-

Uppfært 14. janúar kl. 12:40

Eldgosið við Hagafell hefur haldið sama styrk síðustu klukkustundina eða svo.

Jarðskjálftamælingar sýna að í upphafi umbrotanna leitaði kvikan til suðvesturs frá svæðinu norðan Sundhnúks og náði suður fyrir Hagafell.

Síðustu klukkutímana hefur jarðskjálftavirknin hins vegar verið stöðug sem bendir til þess að framrás kvikugangsins hafi stöðvast, en að hann hafi náð að bæjarmörkum Grindavíkur og jafnvel undir bæinn.

Nú rétt í þessu opnaðist ný gossprunga sunnan við fyrstu sprunguna frá því í morgun. Nýja sprungan er rétt utan bæjarmarkanna.

Aflögunarmælingar benda eindregið til þess að sprungur innan bæjarmarkanna í Grindavík hafi gliðnað af völdum umbrotanna í morgun. Því má reikna með að fleiri sprungur hafi opnast og ef til vill nýjar myndast.

Ny-sprunga
Kort sem sýnir staðsetning nýju sprungunnar sem opnaðist við bæjarmörkin. Sprungurnar tvær er merktar með rauðum strikum.

Uppfært 14. janúar kl. 08:47

Eldgos hófst 7:57.

Fyrsta mat á staðsetningu er suðsuðaustan við Hagafell.

Af fyrstu myndum úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar hefur sprunga opnast beggja vegna varnargarðanna sem byrjað vara að reisa norðan Grindavíkur.

Sprungan sem myndast hefur er 900-1.000 m löng.

Af myndum að dæma rennur hraun nú í átt að Grindavík. Út frá mælingum úr þyrlu Landhelgisgæslunnar er jaðarinn nú um 450 m frá nyrstu húsum í bænum.

Media

LH_Mynd_Grindavikafstada

Ljósmyndir: Veðurstofa Íslands/Halldór Björnsson

Kort_StadsetningGoss3

Kort sem sýnir áætlaða staðsetningu gossprungunnar. Rauð lína. Kortið hefur verið uppfært.


Uppfært 14. janúar kl. 07:50

Veðurstofan hefur uppfært hættumatskort í ljósi túlkunar nýjustu gagna.

Hætta hefur aukist á öllum svæðum.

Hættumatskortið gildir til kl. 19, mánudaginn 15. janúar að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_14jan_2024

Uppfært 14. janúar kl. 06:10

Skjálftavirknin heldur áfram að færast suður og fleiri skjálftar hafa mælst undir miðri byggðinni í Grindavík á síðustu klukkustund.

Skjálftavirknin og þær breytingar sem sjást á GPS stöðvum eru sambærilegar við það sem sást í aðdraganda eldgossins 18. desember. Helsti munurinn nú og þá er sá að skjálftavirknin er talsvert sunnar.

Miðað við þróun skjálftavirkninnar er ekki hægt að útiloka þá sviðsmynd að kvika komi upp innan bæjarmarkanna í Grindavík.

Skjalftar_14_0230-0630

Kort sem sýnir skjálftavirkni frá kl. 02:30 til kl. 06:30. Nýjustu skjálftarnir eru rauðir.

Uppfært 14. janúar, kl. 05:00

Rétt fyrir kl. 3 í nótt hófst áköf smáskjálftahrina við Sunhnúksgíga. Hátt í 200 jarðskjálftar hafa verið mældir á svæðinu og hefur virknin færst í átt að Grindavík.

Stærsti skjálftinn sem hefur mælst er  um 3,5 að stærð. Mæld­ist hann klukk­an 04:07 við Hagafell.

Bæði borholuþrýstingsmælingar (frá HS Orku) og rauntíma GPS stöðvar á svæðinu sýna einnig breytingar og því er líklegt að kvikuhlaup sé að eiga sér stað. 

Túlkun á þessum gögnum bendir til þess að eldgos sé yfirvofandi. Hraungos er líklegasta sviðsmyndin.

Skjalftar_1401_Midn
Kort sem sýnir staðsetningu skjálfta í hrinunni. Svartir hringir tákna skjálfta sem hafa verið yfirfarnir kl. 5:00.

Uppfært 12. janúar, kl. 16:45

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumatskort vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.

Eins og áður sýnir kortið mat á hættum sem eru til staðar og nýjum hættum sem gætu skapast með litlum fyrirvara innan tilgreindra svæða. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hættur geta leynst utan þeirra.

Heildarhættumat fyrir svæðin er óbreytt frá síðasta korti. Þó er breyting á mati á hættu í tengslum við sprungur innan svæðis 4, þ.e. Grindavík.

Hætta í tengslum við skyndilega opnun á sprungum sem hafa verið kortlagðar innan bæjarmarka Grindavíkur hefur verið metin hærri. Sú breyting hefur hins vegar ekki áhrif á heildarhættumat fyrir Grindavík. Það skal tekið fram að hætta í tengslum við sprungur er bundin við þekkt og afmörkuð svæði innan bæjarmarkanna.

Kortið gildir til þriðjudagsins 16. janúar að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_12jan_2024_DRAFT

Smelltu á kortið til að sjá það stærra.

Uppfært 12. janúar kl. 13.30

Áfram mælist landris við Svartsengi vegna kvikusöfnunar sem getur leitt til eldgoss.

Það er mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells, eða á svipuðum slóðum og gaus 18. desember.

Eldgos gæti hafist með litlum fyrirvara. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið kæmu fram í skyndilegri, staðbundinni og ákafri smáskjálftavirkni. Í aðdraganda gossins 18. desember liðu um 90 mínútur frá því að fyrstu merki sáust þangað til að kvika var komin upp og eldgos hafið.

Undanfarna daga hefur skjálftavirkni á svæðinu verið afar væg. Ef kvika færi að leita til yfirborðs, má búast við að skjálftavirknin samfara því væri svipuð og sást í aðdraganda gossins 18. desember, bæði hvað varðar stærð skjálfta og fjölda þeirra. Áhrif þeirrar skjálftavirkni mun gæta bæði í Svartsengi og í Grindavík. Miðað við stöðuna núna, er afar ólíklegt að við fáum aftur jafn öfluga skjálftavirkni og varð þegar kvikugangurinn stóri myndaðist 10. nóvember.

Nýtt hættumatskort byggt á túlkun nýjustu gagna og þróun atburðarásarinnar síðustu daga er í vinnslu og  verður gefið út síðar í dag. 


Kort sem sýnir staðsetningu yfirfarinna skjálfta frá miðnætti 8. janúar til kl. 9.30 í dag, 12. janúar.


Uppfært 9. janúar kl. 11:30

Jarðskjálftavirkni helst nokkuð svipuð og hefur verið undanfarna daga. Enn mælist frekar lítil skjálftavirkni en hún er að mestu bundin við svæðið á milli Hagafells og Stóra Skógfells þar sem miðja kvikugangsins er staðsett. Áfram er einnig nokkur skjálftavirkni í Fagradalsfjalli og hefur hún verið viðvarandi frá 18. desember.

Landris mælist enn á svæðinu í Svartsengi sem hefur á heildina litið verið nokkuð stöðugt frá gosinu 18. desember, sbr. rauðu punktana á meðfylgjandi mynd, sem sýnir mælingu GPS stöðvarinnar SENG í Svartsengi. Land hefur risið u.þ.b. 5 mm á dag undanfarið og er hæð nú um 5 cm hærra en mældist fyrir kvikuhlaupin 10. nóvember og 18. desember síðastliðinn.

Líkanreikningar sem byggjast á aflögunarmælingum (GPS og gervihnattamyndum) benda til þess að rúmmál þeirrar kviku sem hefur safnast í lárétta kvikuinnskotið undir Svartsengi síðan 18. desember er nú orðið svipað og það magn sem hljóp þaðan og myndaði kvikuganginn sem gaus úr 18. desember síðastliðinn. Þetta þýðir að það er aukin hætta á kvikuhlaupi næstu daga. Það er mikilvægt að árétta að kvikuhlaup geta leitt til eldgoss og síðasta gos hófst með mjög skömmum fyrirvara.

Veðurstofan gaf út uppfært hættumatskort 5. janúar síðastliðinn og verður það endurmetið 12. janúar næstkomandi að öllu óbreyttu.

SENG-9-jan-

Afstæðar mælingar GPS stöðvarinnar SENG í Svartsengi frá byrjun október 2023 í norður, austur og lóðréttar stefnur (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og er mælingin í dag sýnd með grænum punkti.

Uppfært 5. janúar kl. 17:30

Nýtt hættumat hefur verið gefið út af Veðurstofu Íslands. Kortið endurspeglar hættur á Grindavík – Svartsengi svæðinu eins og þær eru metnar þann 5. janúar 2024. Hættumatið byggir á nýjustu gögnum, þar á meðal jarðskjálfta og aflögunargögnum, auk líkanreikninga. Einnig eru metnar líkur á eldgosavá í  öllum sex svæðunum sem skilgreind eru á hættumatskortinu.

Aðalbreytingin er á Svartsengi svæðinu (svæði 1), þar sem nú er talin vera „nokkur hætta“, en það er lækkun frá síðustu útgáfu kortsins. Ástæðan fyrir þessari breytingu er að hætta vegna myndunnar á stórum sprungum á yfirborði er talinn minni þar sem engar nýjar slíkar sprungur hafa myndast að undanförnu. Auk þess sem samtúlkun vísindafólks á vöktunargögnum á samráðsfundi Veðurstofunnar, bendir til þess að Sundhnúksgígaröðin, milli Stóra-Skógfells og Hagafells, sé lang líklegasta upptakasvæði eldgoss.

Það er mikilvægt að árétta að síðasta gos hófst með mjög skömmum fyrirvara. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið gaumgæfilega allan sólarhringinn og er í beinu sambandi við almannavarnir um stöðu mála.

Haettusvaedi_VI_5jan_2024

Smellið á kortið til að stækka það.

Uppfært 5. janúar kl. 13:30

Enn mælist landris við Svartsengi með svipuðum hraða og undanfarna daga. Þetta var staðfest með GPS gögnum sem voru til umræðu á samráðsfundi vísindafólks á vegum Veðurstofu Íslands í morgun. Eins og greint hefur verið frá þá er þetta vísbending um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukast líkur á nýju kvikhlaupi og einnig eldgosi. Ekki er þó útilokað að þetta sé vísbending um að það dragi úr kvikuinnflæði.

Tæplega 490 skjálftar áttu sér stað við kvikuganginn frá því á þriðjudaginn 2. janúar. Þar af eru 14 yfir M 1,0 að stærð, sá stærsti var 1,8 að stærð norður af Hagafelli. Miðvikudaginn 3. janúar varð skjálfti 4,3 að stærð og 3,5 að stærð nærri Trölladyngju, fjölmargir eftirskjálftar fylgdu og hafa um 900 skjálftar mælst á svæðinu.

Jarðskjálftarnir við Trölladyngju 3. janúar síðastliðinn urðu á þekktri jarðskjálftasprungu þar sem stærri skjálftar hafa orðið nokkrum sinnum áður. Engin merki eru um að þeir tengist kvikuhreyfingum beint. En, þær miklu landbreytingar sem hafa orðið á Reykjanesi í tengslum við kvikugangana í Fagradalsfjalli, landrisi við Svartsengi, kvikuganginn við Sundhnúk 10. nóvember og eldgosið 18. desember hafa mælst á öllu vestanverðu Reykjanesinu og hafa áhrif á skjálftavirkni á svæðinu öllu.  

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast er að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Það er hins vegar mikilvægt að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum.

Uppfært hættumatskort verður birt seinna í dag.


Uppfært 3. janúar kl. 11.20

Jarðskjálfti að stærð 4,5 mældist nærri Trölladyngju kl. 10:50. Annar skjálfti að stærð 3,9 mældist skömmu síðar kl.10:54, og fjöldi eftirskjálfta hafa mælst. Skjálftarnir urðu á um 5 km dýpi og er líklegast um að ræða svokallaða „gikkskjálfta“ sem eru viðbrögð við spennulosun vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Skjálftarnir fundust víða á Suður- og Vesturlandi.

Staðsetning skjálftanna er um 20 km NNA við Svartsengi, þar sem landris vegna kvikusöfnunar er í gangi.

Meðfylgjandi mynd sýnir staðsetningu skjálftans sem varð kl. 10:50 og áhrifasvæði hans.

Gikkskjalftar-trolladyngja-3-jan

Uppfært 2. janúar kl. 11:45

Dregið hefur úr hraðanum á landrisinu við Svartsengi. Þetta var staðfest með GPS gögnum sem voru til umræðu á samráðsfundi vísindafólks á vegum Veðurstofunnar í morgun.

Það að dragi úr hraða landriss er vísbending um að kvikuþrýstingur sé að byggjast upp og þar með aukast líkur á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Þetta er sambærileg breyting á landrisi og fór að sjást í lok dags 15. desember, en þá hófst gos um þremur dögum síðar. Erfitt er þó að fullyrða um hvort að það munstur endurtaki sig.

Fyrstu merki um að kvikuhlaup sé hafið er skyndilega aukning í skjálftavirkni, en slík merki sáust rétt áður en eldgosið hófst 18. desember.

Undanfarna daga hefur skjálftavirkni á svæðinu verið nokkuð stöðug, en í kringum 200 skjálftar hafa mælst á dag. Flestir skjálftanna mælast undir 1,0 að stærð en um 30 skjálftar yfir 1,0 hafa mælst frá 29. desember og sá stærsti var 2,1 að stærð og átti upptök í nyrsta hluta Grindavíkur.

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast er að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Það er hins vegar mikilvægt að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum.

Hættumatskort sem Veðurstofan gaf út 29. desember er óbreytt og gildir til 5. janúar að öllu óbreyttu.

Áfram mælist skjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli en þar hafa rúmlega 100 smáskjálftar mælst frá 29. desember. Rýnt verður nánar í aflögunargögn á næstunni til að fá skýrari mynd á stöðuna við Fagradalsfjall.


Uppfært 29. desember kl. 14:30

Land heldur áfram að rísa við Svartsengi. Við GPS stöðina í Svartsengi (SENG) hefur land nú náð sambærilegri hæð og mældist rétt fyrir eldgosið 18. desember. Hraði landrissins síðan 18. desember hefur haldist nokkuð stöðugur sem er frábrugðið stöðunni fyrir síðasta gos, en þá hægðist á landrisi vikurnar fyrir gosið. Erfitt er þó að fullyrða um að landris hægi á sér í aðdraganda næsta goss, en það hefur þó verið tilfellið í gosum sem hafa orðið á Reykjanesskaga síðustu ár og var einnig notað til viðmiðunar í Kröflueldum. Óvissa er hins vegar um hversu mikill kvikuþrýstingur þarf að byggjast upp áður en kvika fer að leita upp á yfirborðið.

Landrisinu nú fylgir ekki eins mikil skjálftavirkni og áður. Ástæða þess er að í atburðunum 10. nóvember og 18. desember losnaði um mikla spennu á svæðinu þegar kvika braut sér leið í jarðskorpunni.  Í aðdraganda síðasta goss urðu allnokkrir skjálftar yfir 3 og einn yfir 4 að stærð. Samfara áframhaldandi landrisi er líklegt að skjálftavirkni aukist aftur.

Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og að það leiði til eldgoss. Líkurnar aukast með hverjum deginum sem líður. Líklegast er að það gjósi aftur á Sundhnúksgígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Mikilvægt er að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum.

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumatskort byggt á samtúlkun gagna á samráðsfundi vísindafólks sem haldinn var nú í morgun. Mat á hættustigi innan svæðanna er óbreytt frá því síðast. Breyting hefur þó verið gerð á þeim hættum sem eru mögulegar innan svæðis 4, Grindavík. Þar hafa bæst við hættur vegna hugsanlegs hraunflæðis og gasmengunar. Ástæða breytinganna eru auknar líkur á eldgosi norðan Grindavíkur. Þær breytingar hafa þó ekki áhrif á heildarmat á hættustigi svæðisins. Þetta hættumatskort gildir til 5. janúar að öllu óbreyttu.

Það er mikilvægt að árétta að síðasta gos hófst með mjög skömmum fyrirvara. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið gaumgæfilega allan sólarhringinn og er í beinu sambandi við almannavarnir um stöðu mála.

Haettumat_290122023

Smelltu á kortið til að sjá stærri útgáfu


Uppfært 27. desember kl. 12:40

Um 730 jarðskjálftar hafa mælst umhverfis kvikuganginn frá því á föstudaginn 22. desember, þar af mældust tæplega 40 jarðskjálftar stærri en 1,0. Stærsti skjálftin á tímabilinu mældist 2,1 að stærð þann 26. desember, norðan við Hagafell. Ef dýpi skjálfta er skoðað fyrir tímabilið eru þeir á um 4,0 km dýpi að jafnaði. Á sama tímabili (22. des þar til kl. 09:30 í dag) mældust um 140 jarðskjálftar í vestanverðu Fagradalsfjalli þar af fimm jarðskjálftar 1,0 og stærri, þeir voru að jafnaði dýpri en við kvikuganginn, eða á um 7,0 km dýpi.

Land heldur áfram að rísa við Svartsengi og er hraðinn mjög svipaður og var fyrir eldgosið 18. desember. Þetta þýðir að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi, og eru líkur á að það leiði til annars kvikuhlaups og einnig eldgoss. Líkanreikningar benda til þess að um 11 milljónir rúmmetra af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu undir Svartsengi og inn í kvikuganginn sem myndaðist þann 18. desember og endaði í eldgosi. Miðað við núverandi hraða á landrisinu mun taka um tvær vikur fyrir sama rúmmál að safnast í kvikuhólfið. Mikil óvissa er þó um hvenær þrýstingur í kvikuhólfinu verður nógu hár til að koma af stað nýju kvikuinnskoti.

Rétt er að benda á að kvikugangurinn sem myndaðist 10. nóvember náði um 15 km leið, frá Kálfafellsheiði í norðri og út í sjó suðvestan við Grindavík. Þetta þýðir að kvika hafi náð undir allt svæðið. Líklegasta upptakasvæði fyrir næsta eldgos er þó á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Áfram eru líkur á eldgosi sem aukast með hverjum deginum sem líður.

Hættumatskort sem gefið var út 22. desember er enn í gildi. Nýtt hættumatskort verður gefið út næsta föstudag, 29. desember.

SENG-27-des-2023

Tímaröð fyrir GPS stöðina Svartsengi (SENG). Myndin sýnir breytingar í norður, austur og upp síðustu 90 daga. Bláa línan sýnir innskotið 10. nóvember og rauða línan sýnir eldgosið 18. desember. Hver punktur er 24 klst meðaltal og lóðrétti þátturinn sýnir vel landrisið við Svartsengi.

Uppfært 22. desember kl. 15:50

Eins og tilkynnt var í gær er gosvirkni í Sundhnúksgígjum lokið. Tæplega 90 jarðskjálftar mældust yfir ganginum sem er örlítið meira en í gær. Stærsti skjálftinn var 1,6 vestan við Hagafell rúmlega 16:00 í gær (21. desember).

Land fór strax aftur að rísa við Svartsengi eftir að gos hófst mánudagskvöldið 18. desember. Hraðinn á landrisinu er meiri en fyrir gos. Þetta þýðir að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi, og líklegt er að það leiði til annars kvikuhlaups og mögulega eldgoss. Líklegasta upptakasvæði fyrir eldgos er á milli Stóra-Skógsfells og Hagafells. Landriskúrfan eins og hún mældist frá kvikuhlaupinu 10. nóvember þar til gos hófst 18. desember einkenndist af hægt minnkandi landrismerki þar sem gos hófst þegar verulega hafði dregið úr landrishraðanum. Þetta ferli á mjög líklega eftir að endurtaka sig og búast má við að næsta kvikuhlaup geti hafist með litlum fyrirvara þegar draga fer aftur úr landrishraða. Líkur á eldgosi aukast því með hverjum deginum sem líður.

Veðurstofan hefur gefið út nýtt hættumatskort byggt á að gosvirkni er lokið. Hættumatskortið tekur gildi klukkan 16:00 í dag (22. desember) og gildir til 29. desember klukkan 18:00. Breytingin felst í að svæði 2 og 3 hefur verið fært af mjög mikilli hættu (fjólubláu) í mikla hættu (rautt). Hættumat á öðrum svæðum er óbreytt. Sér í lagi er vakin er athygli á því að hættumat fyrir Grindavík er óbreytt frá fyrra hættumatskorti og er enn í töluverðri hættu. Veðurstofan bendir á að aðstæður geta breyst hratt og veðuraðstæður hverju sinni geta haft veruleg áhrif á næmni jarðskjálfta- og GPS-kerfa Veðurstofunnar. Við þær aðstæður getur viðbragstími lengst töluvert. Við þessar aðstæður getur viðbragðstími styst. 

Veðurspá fyrir Grindavík á morgun, Þorláksmessu (23. desember) er norðaustan 10-15 m/s, snjókoma með köflum og mögulega skafrenningur. Frost verður 3 til 5 stig. Á Aðfangadag (24. desember) er norðan 13-18 m/s og stöku él, en 10-15 m/s síðdegis og líkur á éljum minnka. Áfram má búast við skafrenningi öðru hvoru. Frost 0 til 2 stig.

Haettumatskort-22-desember-2023

Hættumatskort sem tekur gildi 22. desember kl: 16:00 og gildir til 29. desember klukkan 18:00. Eingöngu er lagt mat á hættu innan lituðu svæðanna, en hættur geta leynst utan þeirra. Aðstæður innan og utan svæðanna geta breyst með litlum fyrirvara.


Uppfært 21. desember kl. 12:20

Eins og kom fram í uppfærslu í morgun virðist vera slokknað í gígum gossprungunnar á Sundhnúksgígum en þó er ekki útilokað að hraunrennsli sé enn og þá í lokuðum rásum. Áfram hefur dregið úr jarðskjálftavirkni og síðasta sólarhringinn hafa um 70 smáskjálftar mælst yfir kvikugangingum. Stærsti skjálftinn mældist 1,4 að stærð klukkan 14:27  í gær og stærsti skjálftinn frá miðnætti er 1,9 að stærð. Aflögunarmælingar í Svartsengi sýna litla hreyfingu en mælingar sem fást næstu daga munu skýra betur stöðuna þar.

Gasdreifing og þá aðallega vegna afgösunar hraunbreiðunnar mun fara til suðausturs og út á haf í dag. Á morgun verður hægari norðaustanátt og fer þá gasið til suðvesturs.

Að svo stöddu er erfitt að segja til um framhaldið en vísindamenn Veðurstofunnar eru sífellt að meta nýjustu gögn og áfram er fylgst náið með svæðinu.

Uppfært 21. desember kl. 9:45

Vísindamenn sem eru í flugi yfir gosstöðvunum staðfesta að engin gosvirkni er sjáanleg og virðist vera slokknað í gígum en glóð er enn sjáanleg í hraunbreiðu. Þetta staðfesti einnig starfsmaður Eflu sem er á Sýlingarfelli. Virknin virðist hafa dottið niður seint í nótt eða mjög snemma í morgun. Þó er enn mögulegt að hraunrennsli sé í lokuðum rásum og því ótímabært að lýsa yfir goslokum.

Uppfært 20. desember kl. 18:00

Gosið sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni 18. desember byrjaði af miklum krafti og fyrirvarinn á því var mjög skammur. Það liðu um 90 mínútur frá því að fyrstu merki sáust og þangað til að gos hófst. Gosið er á kvikuganginum sem myndaðist 10. nóvember og kvikan kemur líklega undan Svartsengi þar sem land hefur risið ítrekað frá 2020.

Síðasta sólarhringinn hefur mesta virknin í eldgosinu haldist um miðbik sprungunnar sem opnaðist 18. desember. Skjálftavirkni hefur haldist nokkuð stöðug og litlar breytingar hafa verið á aflögun frá því að eldgos hófst. Í ljósi þessa, er það mat Veðurstofunnar að líkurnar á að nýtt gosop myndist án fyrirvara innan Grindavíkur hafi minnkað.

Veðurstofan hefur því gefið út nýtt hættumatskort sem tekur gildi á morgun, fimmtudaginn 21. desember, kl. 7.00. Hættumatskortið gildir til 28. desember.

Það skal tekið fram að þrátt fyrir að líkur á gosopnun innan svæðis 4 hafi minnkað, er hættan á því svæði engu að síður metin töluverð.

Þó svo að dregið hafi úr virkninni frá því að gos hófst, er kraftur gossins núna engu að síður mikill og er sambærilegur við gosin sem urðu við Fagradalsfjall. Það hefur einnig sýnt sig að kvikan getur komist hratt upp á yfirborðið sem gefur ekki mikið ráðrúm til þess að senda út viðvaranir. Taka þarf tillit til þessa þegur kemur að endurskoðun á hættumati. Eins þurfa nokkrir dagar að líða frá því að hraunflæði hættir við gosstöðvarnar og þangað til hægt væri að lýsa yfir goslokum.

Haettusvaedi_VI_20des_DRAFT-4--1-

Uppfært 20. desember kl. 13:00

Áfram dregur úr krafti gossins. Á nýjum yfirlitsmyndum af svæðinu sést að nú gýs úr tveimur gígum. Mest virkni er í gígnum sem er beint austur af Sýlingarfelli og er syðsti gígurinn af þessum þremur sem voru virkir í gær.

Hraun heldur áfram að flæða í austur út frá eldstöðvunum, en einnig hefur hrauntunga runnið í vestur fyrir norðan Stóra-Skógsfell. Engin breyting er sjáanleg á hraunjaðrinum sem er lengst í suður. Á gervitunglamyndum sem teknar voru í gærkvöldi sést að hraunbreiðan sem hefur myndast er um 3,7 km2 að flatarmáli.

Í dag verður vestlæg átt og möguleiki að gasmengun berist yfir höfuðborgarsvæðið um tíma. Vindur verður norðvestlægari í kvöld og á morgun og þá fer mengunin til suðausturs og út á haf. Veðurstofan gefur reglulega út gasmengunarspá.

Verulega hefur dregið úr jarðskjálftavirkni og síðasta sólarhringinn hafa um 80 smáskjálftar mælst yfir kvikugangingum. Stærsti skjálftinn mældist 2,2 að stærð klukkan 10:55 í gærmorgun og stærsti skjálftinn frá miðnætti er 1,2 að stærð.

Hraunflaedi-20-des

Hér sjáum við kort sem sýnir útlínur hraunsins kl. 19:35 í gær 19. desember. Byggt á gervitunglamyndum. Þá var hraunið um 3,7 km². Gossprungurnar miðast við virkni um miðjan dag í gær.

  • Hér má fylgjast með gasmengunarspá í rauntíma.

Uppfært 19. desember, kl. 18:20

Veðurstofan hefur gefið út nýtt hættumatskort byggt á túlkun nýjustu gagna og út frá stöðu virkninnar í eldgosinu við Sundhnúksgíga.

Hætta hefur aukist umtalsvert á öllum svæðum sem skilgreind voru á eldra hættumatskorti, svæði 1 – 4. Tvö ný svæði hafa bæst við kortið, svæði 5 – 6. Að öllu óbreyttu gildir þetta kort til fimmtudagsins 28. desember.

Haettusvaedi_VI_19des

Smellið á kortið til að sjá það stærra. 

Kortið sýnir mat á hættum sem eru til staðar og nýjum hættum sem gætu skapast með litlum fyrirvara innan tilgreindra svæða. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hættur geta leynst utan þeirra. Aðstæður innan og utan svæðanna geta breyst með litlum fyrirvara.

Áfram líkur á frekari gosopnunum

Áfram dregur úr krafti gossins. Á nýjum yfirlitsmyndum af svæðinu sést að nú gýs úr þremur gosopum suðaustur af Stóra-Skógfelli, en gosopin voru áður fimm. Hraun hefur að mestu flætt í austur út frá eldstöðvunum, en einnig er hrauntunga að teygja sig í vestur fyrir norðan Stóra-Skógfell.

Frá því að gos hófst hafa um 320 skjálftar mælst yfir kvikugangingum. Stærsti skjálftinn mældist 4.1 að stærð klukkan 23:25. Eftir miðnætti hefur dregið töluvert úr skjálftavirkni og frá því klukkan 12 í dag hafa aðeins 10 skjálftar mælst.

Í kjölfar eldgossins við Sundhnúksgíga hefur land sigið um 7 cm í Svartsengi. Áður hafði land risið þar um 35 cm frá því að kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Of snemmt er að segja til um hvort kvika haldi svo áfram að safnast undir Svartsengi og land taki að rísa að nýju.

Á meðan að áfram gýs við Sundhnúksgíga eru auknar líkur á frekari gosopnunum, á upphaflegu sprungunni sem og lengra til norðurs eða suðurs. Ef horft er til aðdraganda gossins, þá liðu um 90 mínútur frá því að fyrstu merki sáust og þangað til að gos hófst. Miðað við upphaf gossins við Sundhnúk getur fyrirvari á nýjum opnunum því verið mjög stuttur.


Uppfært 19. desember, kl 12:30 - Fréttin hefur verið uppfærð

Mælingaflug sem var áætlað kl. 13:00 í dag var aflýst vegna veðurs.

Áfram dregur úr krafti eldgossins við Sundhnúksgíga. Hraunflæði er gróflega áætlað um ¼ af því sem það var í byrjun og er þriðjungur upphaflegu sprungunnar virkur. Kvikustrókar eru einnig lægri en í byrjun goss, um það bil 30 metrar þar sem þeir ná hæst. Þessar tölur eru sjónrænt mat úr könnunarflugi, annað mælingaflug er á áætlun kl. 13 í dag þar sem skýrari mynd fæst af þróun virkninnar.

Þróun gossins svipar til eldgosa við Fagradalsfjall þar sem gossprungurnar eru byrjaðar að draga sig saman og mynda stök gosop. Á þessum tímapunkti eru um fimm gosop sem eru dreifð eftir upphaflegu sprungunni. 

Samkvæmt upplýsingum vísindafólks sem fór í seinna þyrluflug Landhelgisgæslunnar um kl. 4:00 í nótt hafði heildarlengd gossprungusvæðisins ekki breyst mikið frá því í upphafi. Lítil virkni var við suðurenda sprungunnar við Hagafell og mesta hraunrennslið leitar í austur í átt að Fagradalsfjalli. Tveir taumar ná í vestur, báðir norðan við Stóra-Skógfell.

Í dag berst gosmökkurinn undan vestan og norðvestan átt. Gasmengunar gæti orðið vart í Vestmannaeyjum í dag, en ekki annars staðar í byggð. Samkvæmt veðurspá gæti gasmengunar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu seint í nótt eða í fyrramálið.

Verið er að vinna nýtt hættumatskort og verður það gefið út síðar í dag.

Iceye-19-des-nytt

Bylgjuútslags mynd frá ICEYE frá klukkan 03:11 í morgun (19. desember 2023). Fyrstu greiningar á þessari mynd sýna gosop (gul lína) og hraunflæði (lituð svæði). Athugaðu að varnargarðar sem byggðir voru um Svartsengi eru ljósnir og vel sjáanlegir á myndinni.

Uppfært 19. desember, kl. 02:50

Heldur virðist vera að draga úr krafti eldgossins sem hófst fyrir um fjórum klukkustundum. Það sést bæði á skjálftamælum og GPS mælum. Það að þegar sé að draga úr virkninni er ekki vísbending um hversu lengi eldgosið mun vara, heldur frekar að gosið sé að ná jafnvægi. Þessi þróun hefur sést í upphafi allra gosanna á Reykjanesskaganum síðustu ár.

Áfram gýs á allri gossprungunni, mestur er krafturinn um miðja sprunguna á því svæði sem er merkt „Svæði 3“ og er appelsínugult á hættumatskorti sem gefið var út fyrir viku.

Sprungan er alls um 4 km löng og er norðurendi sprungunnar rétt austan við Stóra-Skógfell og syðri endinn rétt austan við Sundhnúk.  Fjarlægðin frá syðri endanum að jaðri Grindavíkur er tæpir 3 km.

Veðurstofan mun halda áfram að vakta þróun virkninnar og er í beinu sambandi við almannavarnir og viðbragðsaðila á svæðinu. Vaktin mun birta upplýsingar um þróun atburðarásarinnar undir „Athugasemdir sérfræðings“ eftir því sem þurfa þykir. Samráðsfundur vísindamanna verður haldinn í fyrramálið.

Þessi frétt verður næst uppfærð um kl. 9, 19. desember.

Eldgos_19des_stadsetning_0300_IS
Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.

Uppfært 19. desember kl. 00:30

Samkvæmt nýjustu mælingum er skjálftavirknin að færast í suður í átt til Grindavíkur. Virknin sem mælist er aðeins austan við kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember. Þessi þróun skjálftavirkninnar ásamt mælingum úr GPS tækjum er vísbendingu um að kvikan sé að færast í suðvestur og gossprungan gæti lengst í áttina að Grindavík.


Uppfært kl. 23:19 - Fréttin hefur verið uppfærð

Fyrsta staðsetning gosopsins og áætluð lengd sprungu miðað við allra fyrstu upplýsingar má sjá hér að neðan.

Eldgosið hófst kl. 22.17 í kjölfar skjálftahrinu sem hófst um kl. 21.

Von er á frekari upplýsingum úr flugi með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Áætluð lengd sprungunnar er um 3,5 og hefur lengst nokkuð hratt. Til samanburðar var lengd sprungunnar í eldgosinu við Litla-Hrút um 8-900 m.

Áætlað hraunflæði í eldgosinu eri um 100 til 200 rúmmetrar á sekúndu sem er margfalt meira en í fyrri gosum á Reykjanesskaga síðustu ár.

Grindavik-i-fjarska

Mynd tekin beint í suður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Grindavík í fjarska. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands)

Kort_1812_2300

Uppfært 18. desember kl. 22:50

Eldgos er hafið norðan við Grindavík. Það sést á vefmyndavéĺum og virðast vera staðsett nærri Hagafelli. Eldgosið hófst kl. 22.17 í kjölfar skjálftahrinu sem hófst um kl. 21.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fer í loftið innan skamms til þess að staðfesta nákvæma staðsetningu og stærð eldgossins. Nánari upplýsingar verðar aðgengilegar fljótlega.


Uppfært 16. desember kl. 13:30

Of snemmt er að fullyrða að kvikusöfnun við Svartsengi hafi stöðvast og landrisi sé lokið. Vísbendingar eru um að hægt hafi á landrisinu síðustu daga, en nauðsynlegt er að bíða eftir frekari gögnum til að túlka mögulega þróun atburðarásarinnar.

Vísindafólk mun funda um stöðuna strax eftir helgi.

Nýtt hættumatskort verður gefið út miðvikudaginn 20. desember sem mun endurspegla túlkun nýjustu gagna.


Uppfært 15. desember kl. 12:45

Skjálftavirkni er áfram væg og heldur sig mest við Hagafell, en þó mælast skjálftar á öllu svæðinu sem afmarkast af kvikuganginum. Um 460 skjálftar hafa mælst síðan á þriðjudag (12. desember), þar af 30 yfir 1,0 og stærsti skjálftinn 2,8 að stærð á þriðjudagsmorgun nærri Hagafelli. GPS mælingar og gervitunglagögn sýna að landris vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi heldur áfram. Á meðan að kvika heldur áfram að safnast fyrir við Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og einnig eldgosi.

Hættumat sem birt var 6. desember er óbreytt og enn í gildi til 20. desember. Aðstæður innan og utan svæðanna geta breyst með litlum fyrirvara.

Haettusvaedi-13des-png

Uppfært 13. desember kl. 12:40

Vegna umræðu í tengslum við íbúafundi með Grindvíkingum í gær, virðist vera uppi sá misskilningur að Veðurstofan sé ekki með náttúruvársérfræðing á vakt á kvöldin og að næturlagi.

Því er mikilvægt að árétta að á sólarhringsvakt Veðurstofunnar er að öllu jafna tveir náttúrvársérfræðingar á vakt að degi til og einn náttúruvársérfræðingur á kvöldin og næturna sem vaktar allt landið, auk bakvaktar. Það fyrirkomulag hefur verið til staðar um árabil á Veðurstofunni. Í stórum atburðum fjölgar Veðurstofan sérfræðingum á sólarhringsvakt tímabundið svo að eftirlit væri fullnægjandi hvað varðar viðbragðstíma.

Ráðuneyti Veðurstofunnar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Guðlaugur Þór Þórðarsson ráðherra, samþykkti 15. nóvember síðastliðinn ráðningu í 8 ný stöðugildi sérfræðinga til að takast á við þær áskoranir sem birtast okkur á Reykjanesskaga og fyrirséð að munu halda áfram næstu árin.  Stöðurnar voru auglýstar 20. nóvember og verið er að vinna úr umsóknum. Stöðugildin munu sérstaklega nýtast í vöktun og samtúlkun gagna í jarðskjálfta- og eldgosavá.

Unnið er hratt að því að skipuleggja vöktun og innleiða nauðsynlegar breytingar í eftirlitskerfum Veðurstofunnar til að fullnægja kröfum hvað varðar viðbragðstíma. Eins og áður hefur komið gerbreytti atburðarrásin og umfang umbrotanna 10. nóvember forsendum Veðurstofunnar fyrir umfangi vöktunar Grindavíkur og Svartsengis gagnvart eldgosavá.  

Viðbragðsaðilar þurfa svo að skoða og meta fjölmarga þætti sem hafa áhrif á þá ákvörðun um hvenær og með hvaða hætti Grindvíkingar geta snúið heim.


Uppfært 12. desember kl. 21:10

Veðurstofan tók þátt í vel sóttum íbúafundi með Grindvíkingum sem haldinn var nú síðdegis í Reykjavík. Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár, fór yfir stöðu mála í jarðhræringunum. Þar endurtók hann það fram hefur komið í fréttum að á meðan land heldur áfram að rísa við Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Einnig fór Benedikt yfir þá vinnu sem hefur farið fram á Veðurstofunni í kjölfar umbrotanna sem áttu sér stað 10. nóvember.

Atburðarrásin og umfang umbrotanna, þegar kvika hljóp frá Svartsengi og myndaði kvikugang sem liggur nú undir Grindavík, hafa gerbreytt forsendum Veðurstofunnar þegar kemur að vöktun Grindavíkur og Svartsengis. Veðurstofan vaktar alhliða náttúrvá allan sólarhringinn alla daga ársins og hefur gert um árabil. Þessi nýjasta atburðarrás á Reykjanesskaga kallar hins vegar á mun umfangsmeiri vöktun þegar kemur að eldgosavá.

„Veðurstofan hefur átt í stöðugu samtali við okkar ráðuneyti, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Guðlaugur Þór Þórðarsson ráðherra, sem hefur síðustu misseri heimsótt Veðurstofuna nokkrum sinnum, til að meta stöðuna og hvernig við mögulega getum brugðist við auknum áskorunum vegna vöktunar á margskonar náttúruvá“, segir Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. „Nú þegar hefur verið ákveðið að fjölga sérfræðingum á Veðurstofunni til að svara auknum kröfum um vöktun á Reykjanesskaganum. Eins hefur það komið skýrt fram í samtali við ráðherra að í ráðuneyti hans og hjá stjórnvöldum er fullur stuðningur við nauðsynlegar aðgerðir til að mæta auknum kröfum um vöktun jarðhræringanna á Reykjanesskaga, en við erum líklega að fara inn í langvarandi virkt tímabil“, segir Árni.

Árni segir að á Veðurstofunni sé verið að skipuleggja vöktun í ljósi nýrra aðstæðna. Unnið er hratt til að ljúka þeirri vinnu og segir Árni að starfsfólk Veðurstofunnar hafi staðið sig gríðarlega vel undir miklu álagi í langan tíma. „Þetta snýst um það að eiga gott samtal og samvinnu við almannavarnir, lögregluembættið og aðra viðbragðsaðila á svæðinu þannig að áherslur séu réttar og að það ríki traust á milli í samtalinu. Hlutverk Veðurstofunnar með vöktun og hættumati er að skapa forsendur fyrir viðbragðsaðila til að taka ákvarðanir um aðgerðir. Það eru fjölmargir aðrir þættir sem viðbragðsaðilar þurfa að skoða og meta þegar tekin er ákvörðun um hvenær og með hvaða hætti Grindvíkingar geta snúið heim“, segir Árni.

IMG_7200

Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands á íbúafundinum nú síðdegis.


Uppfært 12. desember kl. 13:40

Land heldur áfram að rísa við Svartsengi. Hægt hefur aðeins á landrisinu frá því á föstudag, en hraðinn á landrisinu er engu að síður meiri en mældist fyrir 10. nóvember þegar að kvikugangurinn sem liggur undir Grindavík myndaðist.

Á meðan að kvika heldur áfram að safnast fyrir við Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og einnig eldgosi.

Ef til kvikuhlaups kemur er líklegast að kvikan hlaupi aftur inn í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember. Líklegasti upptakastaður eldgoss er norður af Grindavík í átt að Hagafelli og svæðinu við Sundhúksgíga.

Skjálftavirkni hefur haldist nokkuð svipuð síðustu daga. Skjálftavirknin er áfram væg og er mest á svæðinu við Hagafell.


Uppfært 8. desember, kl. 16:30

Umbrotahrinunni sem hófst með landrisi við Svartsengi í október er ekki lokið. Land heldur áfram að rísa á sama hraða og síðustu daga. Á meðan að kvika heldur áfram að safnast fyrir við Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi sem gæti endað með eldgosi.

Ef til kvikuhlaups kemur er líklegast að kvikan hlaupi aftur inn í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember. Líklegasti upptakastaður eldgoss er norður af Grindavík í átt að Hagafelli og svæðinu við Sundhjúksgíga.

Ekki er hægt að fullyrða neitt um hvenær næsta kvikuhlaup verður og gæti það hafist með skömmum fyrirvara. Óvissan um tímasetningu er mjög mikil og kvikuhlaup gæti orðið á næstu dögum eða mögulega eftir marga mánuði.

Skjálftavirkni hefur haldist nokkuð jöfn síðustu daga. Stærsti skjálftinn sem mælst hefur síðustu 3 daga er 2,3 að stærð, en flestir skjálftanna eru í kringum 1 að stærð, alls 30 skjálftar.

Nýtt hættumatskort hefur verið gefið út. Kortið sýnir mat á hættum sem eru til staðar og nýjum hættum sem gætu skapast með litlum fyrirvara innan tilgreindra svæða. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hættur geta leynst utan þeirra. Aðstæður innan og utan svæðanna geta breyst með litlum fyrirvara.

Kortið verður uppfært reglulega og ræðst af því hver þróun virkninnar verður.


Smellið á kortið til að sjá stærri útgáfu


Uppfært 6. desember, kl. 14:30

Nýjustu gögn benda til að innflæði inn í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember og liggur undir Grindavík hafi líklega stöðvast. Líkur á eldgosi yfir kvikuganginum í þessari lotu atburðanna á Reykjanesskaga hafa því minnkað verulega. Kvikusöfnun heldur hins vegar áfram undir Svartsengi.

Þessari umbrotahrinu við Svartsengi sem hófst í október er því ekki lokið, en segja má að nýr kafli sé að hefjast með auknum líkum á nýju kvikuhlaupi.

Eins og áður hefur komið fram þá myndaðist kvikugangurinn sem liggur undir Grindavík þegar kvika hljóp úr kvikuinnskotinu við Svartsengi. Líklegt er að sú atburðarrás endurtaki sig. Þegar horft er almennt til umbrotahrina með endurteknum kvikuhlaupum, þá má þó reikna með að næsta kvikuhlaup frá Svartsengi verði minna að umfangi en það sem varð 10. nóvember. Hætta getur þó myndast á umbrotasvæðinu í tengslum við næsta kvikuhlaup. Reikna þarf með að kvikuhlaup geti staðið yfir í nokkrar klukkustundir eða daga með aukinni hættu vegna skjálftavirkni og aflögunar á því tímabili.

Upphafsmerki nýs kvikuhlaups eru skyndileg aukning í skjálftavirkni og skörp breyting í aflögun. Þau merki koma til með að sjást á mælitækjum nokkrum klukkustundum áður en kvikuhlaupið er líklegt til að skapa hættu í  Svartsengi eða Grindavík. Ef til kvikuhlaups kemur gerir Veðurstofan almannavörnum strax viðvart sem virkja um leið sínar viðbragðsáætlanir. Komi til kvikuhlaups eykst aftur hættan á eldgosi. Eins og kemur fram hér að ofan er líklegast að kvika hlaupi aftur frá Svartsengi og yfir í kvikuganginn sem myndaðist í gegnum Sundhnjúksgíga 10. nóvember og því er það líklegasti upptakastaður eldgoss.

Ekki er hægt að fullyrða neitt um hvenær næsta kvikuhlaup verður. Óvissan um tímasetningu er mjög mikil og kvikuhlaup gæti orðið á næstu dögum eða mögulega eftir marga mánuði.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og fylgist grannt með merkjum um mögulegt kvikuhlaup sem og öðrum breytingum sem gætu valdið frekari hættu á umbrotasvæðinu við Svartsengi og í og við Grindavík.

Hliðstæða milli umbrotanna við Svartsengi og í Kröflueldum

Síðustu tvo sólarhringi hafa um það bil 200-300 jarðskjálftar mælst nærri kvikuganginum. Það sem af er degi í dag hafa um 100 jarðskjálftar, sá stærsti 2,0 að stærð, mælst á svæðinu. Meirihluti skjálftavirkninnar er áfram um miðbik kvikugangsins á um 3-4 km dýpi. Mikið sig við Svartsengi veldur því að spenna í jarðskorpunni þar hefur breyst. Þar til fyrra spennustigi verður náð má búast við óverulegri skjálftavirkni á svæðinu.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr skjálftavirkni síðustu vikur má búast við frekari umbrotahrinum á Reykjanesskaganum. Dæmi um slíkar umbrotahrinur má sjá í Kröflueldum sem hófust 1975. Á 10 ára tímabili urðu þar 20 kvikuhlaup og enduðu 9 þeirra með eldgosi (Sjá skýringarmynd hér fyrir neðan). Í Kröflueldum fóru kvikuhlaupin öll inn í sama kvikugang og voru mismikil að umfangi. Sambærilega endurtekningu má einnig sjá í virkninni í kringum Fagradalsfjall.

Líkanreikningar út frá nýjustu gögnum benda til þess að rúmmál kviku sem nú hefur safnast fyrir undir Svartsengi sé talsvert minna en rúmmálið var rétt fyrir kvikuhlaupið 10. nóvember. Ef horft er til kvikusöfnunar og kvikuhlaupa í Kröflueldum sést að magn kviku sem safnaðist í Kröfluöskjuna var mest fyrir fyrsta kvikuhlaupið. Minna magn hafði svo safnast fyrir í öskjunni áður en næstu kvikuhlaup fóru af stað. Reikna má með að svipuð þróun verði í tengslum við kvikusöfnun undir Svartsengi og að minna magn kviku þurfi að safnast fyrir til að koma af stað næsta kvikuhlaupi inn í kvikuganginn sem liggur undir Grindavík. Líkur eru á að það mælist hægt vaxandi skjálftavirkni áður en nýtt kvikuhlaup fer af stað, sem eru þá merki um aukinn þrýsting undir Svartsengi.

Kroflueldar_Umbrotahrinur

Myndin sýnir samspil milli myndun kvikuganga og landhæðar í miðri Kröfluöskjunni. Neðri myndin sýnir landhæð mælipunkts innan Kröfluöskjunnar, en sú efri hvar umbrotasvæði voru í hverri hrinu. (Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir, 2021)

Uppfært 1. desember kl. 16.45

Áfram dregur úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga og mælast nú mun færri og smærri skjálftar heldur en síðustu vikur. Flestir skjálftar eru að mælast undir einum að stærð. Virknin er mest milli Sýlingarfells og Hagafells þar sem að kvikugangurinn liggur. Að öllum líkindum er kvikan sem er að safnast undir Svartsengi að fóðra þann kvikugang. Ennþá mælist aflögunum á stöðvum nálægt kvikuganginum en talið er að það sé vegna landriss sem er að eiga sé stað við Svartsengi.

Þrátt fyrir minni virkni við kvikuganginn og næsta nágrenni þá er landris áfram stöðugt við Svartsengi. 

Atburðurinn sem hófst þann 25. október með mikilli skjálftavirkni sem náði toppi að kvöldi 10. nóvember þegar 15 km kvikugangurinn myndaðist er ekki lokið. En segja má með nokkurri vissu að nýr kafli sé hafinn þar sem að sama atburðarrás getur endurtekið sig.

Á þessu stigi er erfitt að segja til um hvenær næsta kvikuinnskot mun eiga sér stað og hvort það komi á svipuðum slóðum. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið gaumgæfilega.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica