Jarðhræringar Gríndavík eldri færslur
Gigur_08052024
Úr eftirlitsflugi Almannavarna 9. maí. Engar hraunslettur sjást í gígnum þó áfram rjúki úr honum. (Ljósmynd: Almannavarnir)

Jarðhræringar Grindavík : apr - maí 2024

31.5.2024

Uppfært 31. maí kl: 15:30
  • Virkni eldgossins nokkuð stöðug síðasta sólahring
  • Hraunrennsli aðallega milli Hagafells og Sýlingarfells
  • Meðalhraunflæði fyrstu fjórar klukkustundir gossins var metið um 1500 m3/s
  • Gosmóðu vart víða um land. Hægt er að fylgjast með loftgæðum hér
  • Gasmengun gæti orðið vart í Ölfusi og á höfuðborgarsvæðinu næstu daga. Fylgist með gasdreifingarspá hér
  • Sjá uppfært hættumat hér
  • Athugasemd náttúruvársérfræðings verða uppfærðar eftir þörfum um helgina

Virkni eldgossins sem byrjaði um hádegisbil 29. maí hefur verið nokkuð stöðug síðasta sólahring. Virkni á gossprungunni er frá gígnum sem gaus lengst af í síðasta gosi, til móts við Sundhnúk og á gossprungunni norðan við hann. Hraun rennur aðallega frá gígnum í átt að svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells og þykknar einnig nærri honum. Hraun frá nyrðra hluta gossprungunnar rennur mest til austurs. Engin framrás hefur orðið á þeim hrauntungum sem fóru yfir Grindavíkurveg til móts við Þorbjörn og vestan við bæinn. Hraunið í kringum gamla gíginn bunkast upp í nálægð við virka gíginn.

Lítil sem engin skjálftavirkni er á svæðinu og óróinn hefur haldist stöðugur síðan í fyrradag. Töluvert sig mældist á aflögunarmælum í Svartsengi í kjölfar kvikuhlaupsins á miðvikudag, en síðan þá hafa ekki mælst markverðar breytingar sem benda til þess að kvikusöfnun sé hafin aftur þar. Mælingar næstu daga munu gefa frekari upplýsingar um þróun á kvikusöfnun undir Svartsengi og framvindu eldgossins.

Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands hefur unnið úr gögnum úr mælingaflugi sem farið var í  um fjórum klukkustundum eftir að gos hófst ásamt gervitunglamyndum. Út frá þeim gögnum sést að flatarmál hraunsins var síðdegis þann 29. maí þegar orðið 8,7 km2 og rúmmál þess 24 milljón m3. Meðalhraunflæði fyrstu fjórar klukkustundir gossins er metið ~1500 m3/s byggt á sömu gögnum. Mat á flæði hrauns sem kemur upp úr gígunum hefur ekki verið uppfært síðan þá, en gera má ráð fyrir því að nú sé það margfalt minna en í upphafi gossins. Til samanburðar var meðalhraunflæðið fyrstu klukkustundirnar í eldgosinu sem hófst 16. Mars metið um 1100-1200 m3/s. Nánar um það á vef Jarðvísindastofnunar.

Gosmóðu vart víða um land

Suðvestlægar áttir fram á sunnudag, en þá snýst vindur til vestlægrar áttar. Víða dálítil væta, einkum um landið suðvestanvert. Gasmengun berst því til norðausturs og síðar austur og gæti orðið vart í Ölfusi og á höfuðborgarsvæðinu næstu daga. Gosmóðu hefur orðið vart víða um land síðasta sólahring og hefur mælst á mælum Umhverfisstofnunar.  Gosmóða er samsett úr mjög fínum brennisteinsögnum (SO4) sem hafa orðið til vegna efnahvarfa gosmakkarins við raka og súrefni andrúmsloftsins með tilstuðlan sólarljóss. Þegar dagur er langur, eins og nú er, eru því auknar líkur á að gosmóða myndist. Gosmóða mælist ekki á SO2 gasmælum en sjást hins vegar sem gráblá móða þegar ákveðnum styrk er náð. Hækkun á örfínu svifryki (PM1 og PM2.5) getur verið vísbending um að SO4 sé til staðar. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á loftgæðamælum umhverfisstofnunar.

Í næstu viku eru líkur á norðan og norðvestan áttum og því litlar líkur á gas og loftmengun í byggð. 

31052024so2

Meðfylgjandi gervitunglamynd (Sentinel-5p) sem tekin var kl. 13:47 í gær, 30. maí, sýnir SO2 mökkin sem barst frá eldgosinu til austurs og varð m.a. vart á Austfjörðum.

Uppfært hættumat


Veðurstofan hefur uppfært hættumat í ljósi þróunar á eldgosinu. Svæði 1, 5 og 7 fara úr mikilli hættu í töluverða hættu (appelsínugult). Helsta breytingin er að hætta á gasmengun, gjóskufalli og hraunflæði er nú talin minni en áður á þeim svæðum. Áfram er mjög mikil hætta á svæði 3 (fjólublátt) sem er Sundhnúksgígaröðin og upptök eldgossins. Heildarhætta á svæði 4 (Grindavík) helst óbreytt og er áfram metin mikil (rauð) en þó er hætta á gosopnun, hraunflæði og gjóskufalli metin minni en áður. Kortið gildir að öllu óbreyttu til 4. júní.

Haettusvaedi_VI_31mai_2024
(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Uppfært 30. maí kl: 12:20
  • Dregið verulega úr virkni eldgossins

  • Hraunrennsli aðallega á svæðinu í kringum Hagafell

  • Engin sprengivirkni síðan síðdegis í gær

  • GPS mælingar sýna að land í Svartsengi seig um 15 cm þegar kvika hljóp þaðan.

  • Möguleg gasmengun á Suðurlandi í dag og á Höfuðborgarsvæðinu síðdegis og á morgun. Gasdreifingarspáaðgengileg hér

  • Talsverð óvissa um magn gastegunda frá gosstöðvunum. Rauntímamælingar á loftgæðum aðgengileg á vef Umhverfisstofnunar.

Frá því síðdegis í gær hefur dregið verulega úr virkni á gossprungunni við Sundhnúksgígaröðin. Virknin í gosinu hefur verið á svipuðum nótum í nótt og í morgun en gosórói hefur verið stöðugur síðan seint í gærkvöldi. Engin sprengivirkni hefur sést síðan í síðdegis í gær, en gufusprengingar urðu þar sem hraun flæddi ofan í sprungur og komst í snertingu við grunnvatn við Hagafell. Virkni er mest nærri þeim gíg sem var lengst virkastur í eldgosinu sem hófst 16. mars og virkni á nokkrum hlutum gossprungunnar norðan hans. Hraunrennsli er nú mest á svæðinu í kringum Hagafelli. Hægt hefur á framrás hraunrennslis við Grindavíkurveg til móts við Svartsengi og við varnargarðana vestur af Grindavík.

Sérfræðingar úr myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands fóru í mælingaflug yfir gosstöðvarnar. Aðstæður til loftmyndatöku voru krefjandi þar sem gosmökkurinn lá yfir hluta hraunbreiðunnar sem myndaðist í upphafi gossins. Verið er að vinna frekar úr þeim gögnum sem náðust í loftmyndafluginu ásamt því að nota gervitunglamyndir til þess að fá skýrari mynd á hraunflæði fyrstu klukkustundir gossins. Meðfylgjandi kort sýnir gróflega áætlaðar útlínur hraunbreiðunnar, eins og þær voru um kl. 17 í gær, eða þegar eldgosið hafði staðið í rúmar fjórar klukkustundir. Staðsetning gossprungunnar einnig sýnd með rauðum strikalínum.


Utbreidsla30052024

Land seig í Svartsengi um 15 cm þegar kvika hljóp þaðan

Gervitunglamyndir teknar snemma í morgun, 30. maí, sýna ekki markverðar hreyfingar á sprungum innan varnargarða við Grindavík. Rauntímaaflögunarmælingar sýna einnig að frá því í gærkvöldi hefur ekki mælst markverð aflögun þar.

GPS mælingar sýna að land í Svartsengi seig um 15 cm þegar kvika hljóp þaðan yfir í Sundhnúksgígaröðina í gær. Kvikugangur sem myndaðist og fæðir nú eldgosið nær frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli. Áætlað er að um 15 milljón rúmmetrar af kviku séu nú þegar farin úr kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi.

Mælingar næstu daga munu gefa frekari upplýsingar um þróun á kvikusöfnun undir Svartsengi og mögulega þróun eldgossins. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og fylgjast með þróun atburðarins.  

Gasdreifingarspá

Spá veðurvaktar framan af degi (fimmtudag) er vestlæg átt og gasmengun berst þá til austurs og gæti hennar orðið vart í Ölfusi og víðar á Suðurlandi. Suðvestlægari vindur síðdegis og áfram á morgun (föstudag). Berst þá gasmengun til norðausturs og gæti hennar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu. Talsverð óvissa er þó með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá og rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is.

Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um gosmóðu í Mývatnssveit, á Jökuldal og á Flúðum, ásamt því að mælast á mæli Umhverfisstofnunar á Húsavík. Miðað við gasdreifingarspá má ætla að stór hluti landsins geti orðið var við gosmóðu í dag. Gosmóða er samsett úr brennisteinsögnum (SO4) sem hafa orðið til vegna efnahvarfa gosmakkarins við súrefni andrúmsloftsins. Þetta gerist hraðar þegar lofthiti er meiri og sól skín, líkt og var raunin í gær þegar gosið hófst. Þessar brennisteinsagnir mælast ekki á SO2 gasmælum en sjást hins vegar sem gráblá móða þegar ákveðnum styrk er náð. Hækkun á örfínu svifryki (PM1 og PM2.5) getur verið vísbending um að SO4 sé til staðar. Þau gildi sem hafa mælst í dag eru ekki yfir neinum heilsufarsmörkum, en hægt er að fylgjast með loftgæðamælum umhverfisstofnunar.


Uppfært 29. maí kl: 18:35
  • Hættumat uppfært í ljósi gjóskufalls
  • Meginhluti gossprungunnar er um 2,4 km langur
  • Hraunið hefur runnið yfir Grindavíkurveg og Nesveg
  • Útstreymishraði hrauns í upphafi goss var gróflega áætlaður 1.500-2.000 m3/s
  • Í kvöld snýst vindátt til suðvesturs. Gasmengunar gæti orðið vart á höfuðborgarsvæðinu í nótt og á morgun.

Enn er töluverð kvikustrókavirkni á meginhluta gossprungunnar, sem er um 2,4 km löng. Gossprungan nær suður fyrir Hagafell og rennur hraun ákaft þaðan að mestu til suðurs og vesturs. Hraun hefur runnið yfir Grindavíkurveg til móts við Þorbjörn og þaðan áfram meðfram varnargörðum vestan Grindavíkur og yfir Nesveg. Nokkur hluti þess hraunstraums sem fer til suðurs fer ofan í sprungu til móts við Hagafell og kemur aftur upp rétt norðan varnargarða norðaustan við Grindavík. Hrauntunga sem rennur til vesturs fer norðan við Sýlingarfell og nálgast þar Grindavíkurveg til móts við Svartsengi.

Líkanreikningar gera ráð fyrir því að eins og staðan var kl. 16:30 hafi um 14 milljón m3 af kviku farið frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina.  Hraði aflögunar hefur minnkað töluvert en áfram streymir kvika frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina.

Hættumat hefur verið uppfært vegna hraunflæðis og gjóskufalls. Svæði 7 fer úr töluverðri hættu í mikla hættu (rautt). Svæði 4 (Grindavík) er óbreytt (rautt) en hætta hefur aukist vegna gjóskufalls, en einnig eru auknar líkur á gosopnun innan svæðisins og hraunflæðis. Hætta á svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin) er áfram mjög mikil (fjólublátt). Svæði 1 og 5 helst óbreytt og er hætta þar talin mikil (rautt).

Haettusvaedi_VI_29mai_2024_kl1800(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Laust fyrir kl. 16 hófst sprengivirkni í gosinu vegna þess að kvikan komst í snertingu við grunnvatn þar sem hraunstraumur fer ofan í sprungu til móts við Hagafell. Þá snögghitnar vatnið og framkallar gufusprengingar og gjóskufall (aska).

Töluverð óvissa er með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Í kvöld snýst vindátt til suðvesturs og því berst gasmengun til norðausturs og gæti hennar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu í nótt og á morgun (fimmtudag). Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá og rauntímamælingum ýmissa gastegunda á loftgæði.is


Uppfært 29. maí kl: 15:30
  • Hættumat uppfært
  • Hraunið rennur yfir Grindavíkurveg
  • Gossprungan er nú um 3,4 km að lengd
  • Útstreymishraði hrauns er gróflega áætlaður 1.500-2.000 m3/s
  • Jarðskjálftavirkni hefur minnkað hratt
  • Stöðugt sig sést á GPS stöð við Svartsengi
  • Hæstu strókar eru um 60-70 metrar
  • Hraun komið að varnargörðum vestan við Grindavík

Veðurstofan hefur uppfært hættumat í ljósi eldgossins og hraunflæðis frá gossprungunni. Þær breytingar eru á hættumatinu að hættan á Svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin) hefur verið aukin í mjög mikla (fjólublátt) vegna gosopnunar og mikils hraunflæðis. Hætta á Svæði 1 (Svartsengi) og 5 (norðan Svartsengis) hefur verið fært upp í mikla hættu (rautt) vegna hraunflæðis og gasmengunar. Svæði 4 (Grindavík) er óbreytt frá fyrra hættumati en auknar líkur eru á gosopnun innan svæðisins og hraunflæðis.

Haettusvaedi_VI_29mai_2024_kl1430

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Uppfært 29. maí kl: 14:50

  • Hraunið rennur yfir Grindavíkurveg
  • Gossprungan er nú um 3,4 km að lengd
  • Útstreymishraði hrauns er gróflega áætlaður 1.500-2.000 m3/s
  • Jarðskjálftavirkni hefur minnkað hratt
  • Stöðugt sig sést á GPS stöð við Svartsengi
  • Hæstu strókar eru um 60-70 metrar

Svo virðist sem mesti krafturinn í gosinu sé nú í suður enda sprungunnar sem opnaðist fyrr í dag. Samkvæmt upplýsingum úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar er nokkuð ákaft hraunrennsli að umlykja Hagafell austan og svo suður fyrir í átt að Melhólsnámu.

Syðsta op sprungunnar er nú innan við kílómetra fjarlægð frá varnargörðum norðan Grindavíkur.

Útstreymishraði hraunsins er talsvert meiri á fyrstu klukkustundum í gosinu heldur en í fyrri 4 gosum á svæðinu.


Uppfært 29 maí kl: 14:15

  • Mikið flæði sunnan Stóra-Skógfells sem nálgast Grindavíkurveg
  • Hraunið hefur runnið um 1 km til vesturs fyrstu 45 mínútur gossins.
  • Kl: 14:05 gossprungan er nú um 3,4 km að lengd
  • Sprungan hefur lengst til suðurs og er komin um 300-400 metra norðan við mars-apríl gíginn.
  • Útstreymishraði hrauns er gróflega áætlaður 1.000 m3/s
Hraunið hefur runnið um 1 km til vesturs og er mikið flæði sunnan Stóra-Skógfells sem nálgast Grindavíkurveg. Þegar klukkan var rúmlega tvö var gosmökkurinn um 3,4 km. Fyrsta sprungan hefur lengst til suðurs og er komin um 300-400 metra norðan við gíginn sem myndaðist í gosinu sem hófst 16. mars. Útstreymishraði hraunsins er gróðflega áætlaður um 1.000 m3/s.

Image--24-
Áætluð staðsetning gossprungunnar. Smellið á kortið til að sjá það stærra.

Gasmengun berst til suðausturs og síðar austurs í dag og gæti hennar því orðið vart í Selvogi og Ölfusi. Í kvöld snýst vindátt til suðvesturs og því berst gasmengun til norðausturs og gæti hennar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu í nótt og á morgun (fimmtudag). Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Gasdreifing29052024

Uppfært 29. maí 2024, kl 12:50
  • Eldgos hófst á Sundhnúksgígaröðinni kl. 12:46
  • Gosið er á svipuðum slóðum og fyrri gos
  • Gossprungan er rúmlega 1 km að lengd
  • Gosmökkurinn náði upp í um 3.5 km hæð í upphafi goss
  • Fylgjst er vel með því hvort að sprunga lengist til suðurs

Eldgos er hafið nærri Sundhnúkum og virðist vera staðsett norðaustan við Sýlingafell. Gosstrókarnir ná að minnsta kosti 50 metra hæð og lengdin á spurngunni virðist vera rúmlega 1 kílómetri. 
Þyrla Landhelgisgæslunnar var að fara í loftið til þess að staðsetja nákvæma staðsetningu og stærð eldgossins. Nánari upplýsingar verða aðgengilegar fljótlega.
Eldgos29052024
(áætluð staðsetning gossprungu)

Uppfært 29. maí 2024, kl 12:35


Kvikuhlaup er hafið. Öll merki sem sést hafa í aðdragenda fyrri eldgosa sjást nú á mælitækjum. Staðbundin og áköf smáskjálftavirkni, þrýstingsbreyting í borholum og aflögunarmerki á GPS mælum. Auknar líkur eru því á að þetta kvikuhlaup leiði til eldgoss.

Uppfært 29. maí 2024, kl 11:00

Áköf jarðskjálftavirkni stendur yfir á Sundhnúksgígaröðinni. Þetta bendir til þess að kvikuhlaup gæti verið að hefjast eða hafið og líklegt sé að eldgos hefjist í kjölfarið.

Uppfært 28. maí 2024, kl. 18:30

  • Aflögunargögn sýna að landris við Svartsengi heldur stöðugt áfram

  • Um 20 milljónir rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars

  • Áfram líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi

  • Um 400 jarðskjálftar hafa mælst síðustu sjö daga

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Alls hafa um 400 jarðskjálftar mælst síðustu sjö daga nærri Sundhnúksgígaröðinni. Stærsti skjálftinn var 2,2 að stærð við Sundhnúk. Virknin dreifist frá Grindavík norðaustur að Stóra Skógfelli eftir kvikuganginum. Í gær mældust hátt í 100 jarðskjálftar á svæðinu og það sem af er degi í dag hafa mælst tæplega 70 skjálftar. Frá því  að eldgosinu lauk, 9. maí, hafa flesta daga mælst á milli 40 og 60 skjálftar en stöku daga um 80 skjálftar, að frátöldum 24. og 25. maí þegar töluvert færri skjálftar mældust vegna hvassviðris. Því virðist vera sjáanleg aukning í fjölda skjálfta frá því í gær.

Landris við Svartsengi heldur áfram á stöðugum hraða sem bendir til að kvika haldi áfram að safnast fyrir í kvikhólfinu undir Svartsengi. Líkanreikningar áætla að um 20 milljón rúmmetrar af kviku hafi bæst við kvikuhólfið síðan eldgosið hófst 16. mars. Engin gögn benda til að það sé að draga úr flæði kviku inn í kvikuhólfið. Ekki er hægt að áætla annað en að áfram séu miklar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi. Töluverð óvissa er þó í kerfinu um hvenær það verður og líka nákvæmlega hvar það mun koma upp. Þó er líklegast að kvikuhlaup verði á svipuðum slóðum og þau sex kvikuhlaup sem hafa orðið síðan í nóvember 2023. Líklegt er að fyrirvarinn á því verði stuttur.

Graph_timeseries_mogi_is27052024

Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá október 25. október. Hvert kvikuhlaup hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023. Hér sést að heildarmagn kviku hefur aldrei verið meira frá því að kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember.

Í síðustu viku mældust nokkrum sinnum minniháttar þrýstingsbreytingar í mjög skamman tíma í borholum HS Orku í Svartsengi. Slíkar breytingar hafa ekki mælst síðustu þrjá daga. Áður hefur komið fram að merki um nýtt kvikuhlaup væru staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun ásamt þrýstingsbreytingum í borholum á svæðinu. Gera má ráð fyrir því að meiri þrýstingsbreytingar muni mælast í aðdraganda kvikuhlaups ásamt því að breytingar verði í öðrum mælikerfum.

Hættumat er óbreytt frá síðustu útgáfu sem gildir að öllu óbreyttu til 4. júní.

Þar sem jarðskorpan á umbrotasvæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells er mikið sprungin er líklegt að kvika eigi greiða leið til yfirborðs og því muni ekki endilega fylgja mikil skjálftavirkni þeim umbrotum. Fyrirvarinn á nýju eldgosi getur því orðið mjög stuttur eða jafnvel enginn. Því er mjög varasamt að vera á ferðinni á svæði 3 eins og það er skilgreint á hættumatskorti Veðurstofunnar.

Haettusvaedi_VI_28mai_2024

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)

Uppfært 24. maí 2024, kl. 15:20

  • Hvassviðri fram á nótt gæti haft áhrif á næmni jarðskjálftamæla

  • Aflögunargögn sýna að landris við Svartsengi heldur stöðugt áfram

  • Um 18 milljónir rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars

  • Áfram líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Það hafa mælst um 140 skjálftar í kringum kvikuganginn síðustu tvo sólahringa, allir undir 2,0 að stærð. Skjálftarnir voru flestir á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar. Í dag hafa mælst færri skjálftar á svæðinu miðað við undanfarna daga. Það er vegna hvassviðris sem hefur áhrif á næmni jarðskjálftamæla til þess að nema allra minnstu skjálftana. Fram á nótt er áfram gert fyrir að veður hafi áhrif á næmni jarðskjálftakerfis Veðurstofunnar en ekki önnur mælitæki sem nýtt eru til vöktunar á svæðinu.

Aflögunargögn sýna að landris við Svartsengi heldur stöðugt áfram. Það bendir til þess að kvika heldur áfram að safnast fyrir undir Svartsengi. Líkanreikningar áætla að um 18 milljón rúmmetrar af kviku hafa bæst þar við frá 16. mars þegar síðasta eldgos hófst. Heildarrúmmál kviku undir Svartsengi er nú meira en það hefur verið fyrir síðustu atburði. Engin merki eru um að hægt hafi á kvikusöfnun. Þetta þýðir að þrýstingur í kerfinu er að aukast og því er ekki hægt að áætla annað en að áfram séu töluverðar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni. Þó er töluverð óvissa um hvenær það verður en fyrirvarinn á því gæti orðið mjög stuttur.

Graph_inflation_mogi_is24052024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Þær örlitlu breytingar sem sjást á línuritinu eru innan skekkjumarka og hafa sést áður á kvikusöfnunarferlinu.


Uppfært 21. maí 2024, kl. 12:30

  • Kvikusöfnun undir Svartsengi áfram stöðug

  • Um 17 milljón rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars

  • Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Um 200 skjálftar mældust á svæðinu í kringum kvikuganginn um Hvítasunnuhelgina, flestir undir 1,0 að stærð. Þetta er svipuð skjálftavirkni og mælst hefur síðustu daga, en um 50 skjálftar hafa mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar.

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og rís land þar með sama hraða og áður. Að svo stöddu er ekki ástæða til að áætla annað en að áfram séu töluverðar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni næstu daga.

Graph_inflation_mogi_is_21052024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Þær örlitlu breytingar sem sjást á línuritinu eru innan skekkjumarka og hafa sést áður á kvikusöfnunarferlinu.

Áfram mestar líkur á að kvika komi upp á Sundhnúksgígaröðinni

Í fréttum fyrir helgi var talað um smáskjálftavirkni sem hafi verið viðvarandi undanfarnar vikur á svæðinu sunnan Þorbjarnar í stóra sigdalnum vestan við Grindavík. Í fréttinni var nefnt að mögulega væru veikleikar í jarðskorpunni sem kvika gæti hugsanlega nýtt sér til að ná til yfirborðs. Það að kvika hlaupi úr kvikuhólfinu yfir á svæðið sunnan Þorbjarnar er á þessum tímapunkti talin afar ólíkleg sviðsmynd. Það mat er byggt á nýjum líkanreikningum og öðrum gögnum sem voru rædd á fundi vísindamanna nú í morgun. Þessi hæga aukning í skjálftavirkni er líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.

Áfram eru yfirgnæfandi líkur á að endurtekning verði á því að kvika hlaupi úr kvikuhólfinu við Svartsengi og yfir í Sundhnúksgígaröðina.

Fylgst vel með hvort að kvika sé á ferðinni

Veðurstofan hefur fylgst með þrýstingsbreytingum í borholum HS Orku í tengslum við vöktun á virkninni í Svartsengi. Skyndileg þrýstingsbreyting hefur verið einn af fyrirvörum um að kvika sé að hlaupa úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina. Áður hefur komið fram að merki um nýtt kvikuhlaup væru staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun ásamt þrýstingsbreytingum í borholum á svæðinu. Í morgun mældist minniháttar þrýstilækkun í borholu HS Orku. Engin skjálftavirkni eða breyting í aflögun sást samfara þessum þrýstingsbreytingum sem mældust. Því virkjaði Veðurstofan ekki viðbragðsáætlanir vegna mögulegs kvikuhlaups.

Hættumat er óbreytt frá síðustu útgáfu. Uppfært hættumat gildir til 28. maí, að öllu óbreyttu.


Uppfært 17. maí 2024, kl. 17:10

  • Kvikusöfnun undir Svartsengi áfram stöðug

  • Um 16 milljón rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars

  • Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Um 50 skjálftar mældust á svæðinu í kringum kvikuganginn í gær, 16. maí, flestir undir 1,0 að stærð. Þetta er svipuð skjálftavirkni og mælst hefur síðustu daga, en um 50 til 80 skjálftar hafa mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar.

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og rís land þar með sama hraða og áður. Að svo stöddu er ekki ástæða til að áætla annað en að áfram séu töluverðar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni næstu daga.

Síðasta eldgos á Sundhnúksgígaröðinni hófst 16. mars. Á þeim 62 dögum sem liðnir eru síðan þá, hafa um 16 milljónir rúmmetra af kviku bæst við kvikuhólfið undir Svartsengi. Þetta er lengsta lota kvikusöfnunar frá því að þessi atburðarás hófst í lok október 2023.

Uppfært hættumat og sviðsmyndir

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat sem gildir til 21. maí að öllu óbreyttu. Hætta vegna gasmengunar á svæði 7 hefur verið hækkuð í tengslum við auknar líkur á nýju eldgosi á svæði 3. Vegna breytingarinnar er heildarhætta á svæðinu nú metin töluverð (appelsínugul) en var áður nokkur (gul). Hætta vegna gasmengunar á öllum öðrum svæðum er óbreytt frá síðustu viku og metin töluverð. Vegna aukinnar smáskjálftavirkni innan svæðis 4 hefur hætta vegna jarðskjálftavirkni verið hækkuð þar.

Haettusvaedi_VI_17mai_2024

Veðurstofan hefur einnig uppfært þær sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar:

Sviðsmynd 1 - Eldgos milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells (Miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti) Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar 2024 og 16. mars 2024.

  • Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur), jafnvel enginn fyrirvari
  • Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi á 2 til 4 klukkustundum

Sviðsmynd 2  - Eldgos sunnan eða suðvestan við Hagafell (Syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti) Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024 

  • Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið.
  • Hraun gæti náð að varnargörðum við Grindavík á um 1 klst.. 
  • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 

Heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi aldrei verið meira frá því fyrir 10. nóvember. Huga þarf að fleiri sviðsmyndum ef kvikusöfnun heldur áfram án kvikuhlaups eða eldgoss

Hingað til hefur verið horft til þess magns kviku sem bætist við í kvikuhólfið á milli kvikuhlaupa eða eldgosa. Þegar talað er um að kvikuþrýstingur sé að aukast í kvikuhólfinu undir Svartsengi er gott að horfa á það heildarmagn kviku sem áætlað er að sé til staðar.

Frá 25. október til 10. nóvember 2023 söfnuðust rúmlega 10 milljón m3 af kviku undir Svartsengi. Þegar 15 km langur kvikugangur myndaðist þann 10. nóvember er talið að um 80 milljón m3 af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu. Því má gera ráð fyrir að um 70 milljón m3 af kviku hafi verið til staðar í kvikuhólfinu undir Svartsengi á þeim tímapunkti. Kvikusöfnun hefur haldið óslitið áfram síðan þá og kvika hlaupið að minnsta kosti fimm sinnum frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina. Fjögur af þessum fimm skiptum hafa endað með eldgosi.

Hvert kvikuhlaup eða eldgos hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023 eins og sést á myndinni hér fyrir neðan.

Vincent_Likan_Timeseries_Lagfaert_Mynd1

Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá október 25. október. Hvert kvikuhlaup hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023. Hér sést að heildarmagn kviku hefur aldrei verið meira frá því að kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember.

Nokkur líkindi eru milli atburðarásarinnar á Sundhnúksgígaröðinni og þeirrar sem varð í Kröflueldum sem hófust 1975. Á 10 ára tímabili urðu þar 20 kvikuhlaup og enduðu 9 þeirra með eldgosi. Í Kröflueldum fóru kvikuhlaupin öll inn í sama kvikugang en voru mismikil að umfangi. Reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meiri þrýsting til að koma þeim af stað. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, en nokkur óvissa er um hvenær nægilegum þrýstingi verður náð til að koma nýju kvikuhlaupi af stað og að kvika nái til yfirborðs.


Kroflueldar_Umbrotahrinur

Myndin sýnir samspil milli myndunar kvikuganga og landhæðar í miðri Kröfluöskjunni. Neðri myndin sýnir landhæð mælipunkts innan Kröfluöskjunnar, en sú efri hvar umbrotasvæði voru í hverri hrinu. Á efri myndinni táknar rauði liturinn eldgos.(Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir, 2021)

Nú er svo komið að heildarmagn í kvikuhólfinu undir Svartsengi hefur aldrei verið meira síðan kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Eftir því sem lengra líður án þess að nýtt kvikuhlaup verði yfir í Sundhnúksgígaröðina aukast líkur á að kvika leiti á önnur svæði þar sem veikleika er að finna í jarðskorpunni.

Smáskjálftavirkni hefur verið viðvarandi undanfarnar vikur á svæðinu sunnan Þorbjarnar í stóra sigdalnum við Grindavík. Á þessu svæði eru veikleikar í jarðskorpunni sem kvika gæti nýtt sér til að ná til yfirborðs. Það að kvika hlaupi úr kvikuhólfinu yfir á svæðið sunnan Þorbjarnar er á þessum tímapunkti ólíklegri sviðsmynd en þær sem eru nefndar hér að ofan. Því er ekki tekið tillit til þessarar sviðsmyndar í uppfærðu hættumati. Veðurstofan mun safna og vinna úr gögnum næstu daga til að varpa betur ljósi á þennan möguleika.

Jardskjalftavirkni_10052024

Kortið sýnir yfirfarna skjálfta frá 10. - 16. maí. Efra grafið sýnir stærð skjálftanna og neðra grafið sýnir fjölda skjálfta á hverjum degi fyrir sama tímabil.



Uppfært 16. maí, 2024 kl. 11:20
  • Kvikusöfnun undir Svartsengi áfram stöðug

  • Um 16 milljón rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars

  • Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Um 80 skjálftar mældust á svæðinu í kringum kvikuganginn í gær, 15. maí, flestir undir 1,0 að stærð. Þetta er svipuð skjálftavirkni og mælst hefur síðustu daga, en um 50 til 80 skjálftar hafa mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður, staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og rís land þar með sama hraða og áður. Að svo stöddu er ekki ástæða til að áætla annað en að áfram séu auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni næstu daga.

Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúksgígaröðina. Nú er magn kviku sem bæst hefur við komið upp fyrir efri mörkin, en alls hafa um 16 milljónir rúmmetra að kviku bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi frá 16. mars, þegar að síðast gos hófst.

Reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meiri þrýsting til að koma þeim af stað. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, en nokkur óvissa er um hvenær nægilegum þrýstingi verður náð til að koma nýju kvikuhlaupi af stað og að kvika nái til yfirborðs.

Graph_inflation_mogi_is_16052024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúksgígaröðina. Nú er magn kviku sem bæst hefur við komið upp fyrir efri mörkin, en alls hafa um 16 milljónir rúmmetrar að kviku bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi frá 16. mars, þegar að síðast gos hófst.


Uppfært 14. maí 2024, kl. 10:00

  • Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Um 60 skjálftar hafa mælst á kvikuganginum síðasta sólarhring.  Þetta er svipuð skjálftavirkni og mælst hefur síðustu daga, en um 50 til 80 skjálftar hafa mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar.

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og rís land þar með sama hraða og áður. Auknar líkur eru því á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni næstu daga. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður, staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.


Uppfært 13. maí 2024, kl. 11:35

  • Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

Land rís í Svartsengi með sama hraða og áður. Frá 16. mars, þegar síðasta eldgos hófst, hefur land risið um tæplega 20 cm á GPS stöðinni í Svartsengi. Kvikusöfnun heldur því áfram og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi. 

Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúksgígaröðina. Nú er magn kviku sem bæst hefur við frá 16. mars komið upp fyrir efri mörkin.

Skjálftavirkni er nokkuð svipuð á milli daga. Síðustu viku hafa um 50 til 80 skjálftar mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar. Flestir skjálftanna eru undir 1,0 að stærð en stöku skjálftar nærri 2,0 að stærð hafa mælst. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður, staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist náið með virkninni. Nýjar gossprungur gætu opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og hraunflæði gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum, jafnvel engum fyrirvara.

Linurit_Kvikusofnun_Athugasemd

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Það skal tekið fram að sólstormur um helgina hafðu áhrif á mælingar. (Sjá umfjöllun hér að neðan).

Sólstormur hafði áhrif á GPS mælingar

Mælingar á landrisi byggja á því að reikna út breytingar á þeim tíma sem það tekur merkið að berast frá gervitunglum sem eru á sveimi umhverfis jörðina í GPS mæla á jörðu niðri. Ef tíminn sem það tekur merkið að ferðast á milli tungls og mælis styttist, þýðir það að land hefur risið.

Um helgina varð einn öflugasti segulstormur síðustu ára þegar sólvindar frá stærðarinnar sólblettum á sólinni skullu á jörðinni. Síðast varð svo sterkur segulstormur 30. október 2003.

Sterkir sólvindar senda hlaðnar agnir inn í segulsvið jarðar sem hafa áhrif á merkjasendingar milli GPS mæla á jörðu niðri og gervitungla. Þessi truflun hefur áhrif á ferðatíma merkisins og kemur fram eins og að dregið hafi úr kvikusöfnuninni. Það er þau ekki raunin, enda er nýr punktur sem reiknaður var í morgun, á „eðlilegum“ stað miðað við fyrri mælingar. (Sjá línurit hér að ofan).

Truflanir vegna sólstorma hafa ekki áhrif á getu Veðurstofunnar til að vara við yfirvofandi kvikuhlaupi eða eldgosi.



Uppfært 10. maí 2024, kl. 16:15

  • Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga

  • Líklegast að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni

  • Fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög stuttur

  • Nýtt hættumat gefið út

Lítil breyting hefur orðið á landrisinu eftir að eldgosinu lauk. Kvikusöfnun heldur áfram á sama hraða og áður. Í dag má gera ráð fyrir að um tæpir 14 milljónir rúmmetra af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið frá því að eldgosið hófst 16. mars.

Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúksgígaröðina. Nú er magn kviku sem bæst hefur við komið upp fyrir efri mörkin, en reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meiri þrýsting til að koma þeim af stað. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, en nokkur óvissa er um hvenær nægilegum þrýstingi verður náð til að koma nýju kvikuhlaupi af stað og að kvika nái til yfirborðs.

Graph_inflation_mogi_is_09052024_NEW

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. 

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að fylgjast náið með virkninni. Nýjar gossprungur gætu opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og hraunflæði gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður,  staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.

Aukin skjálftavirkni hefur verið að mælast á Sundhnúksgígaröðinni síðusta daga. Þessi aukning í skjálftavirkni er líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi. 

Í nótt varð sólarhringsvakt Veðurstofunnar vör við aukna og staðbundna skjálftavirkni suður af Stóra-Skógfelli, eða á svipuðum stað og fyrri kvikuhlaup hafa byrjað.  Aflögunar- og þrýstingsmælingar, sem væru merki um kvikuhlaup, sýndu ekki marktækar breytingar. Virknin stóð yfir í frekar stuttan tíma, en ekki er hægt að útiloka að þarna hafi lítið magn kviku verið að brjóta sér leið.

Varasamt að vera á ferðinni á Sundhnúksgígaröðinni

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat. Það að síðasta gosi sé lokið hafði áhrif á breytingar á nokkrum svæðum, en hættumatið nú endurspeglar hættur í tengslum auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.

Þar sem jarðskorpan á umbrotasvæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells er mikið sprungin er líklegt að kvika eigi greiða leið til yfirborðs og því muni ekki mikil skjálftavirkni fylgja þeim umbrotum. Fyrirvarinn á nýju eldgosi getur því orðið mjög stuttur eða jafnvel enginn. Því er mjög varasamt að vera á ferðinni á svæði 3 eins og það er skilgreint á hættumatskorti Veðurstofunnar.

Nýtt hættumat gildir til 17. maí að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_10mai_2024_NYTT


Uppfært 9. maí 2024, kl. 8:05

  • Engin virkni í gígnum í næstum sólarhring

  • Þessu eldgosi er lokið

  • Áfram mælist landris í Svartsengi

  • Hraði kvikusöfnunar haldist svipaður síðustu vikur

  • Áfram auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi

  • Fyrirvari á nýju eldgosi gæti orðið mjög stuttur

  • Hættumat óbreytt að svo stöddu

Sérfræðingar Almannavarna flugu dróna yfir gosstöðvarnar við Sundhnúk í gærkvöldi og þá var enga virkni að sjá í gígnum. Gosórói hafði farið minnkandi í gær og engar hraunslettur sáust úr gígnum í nótt. Þessu eldgosi sem stóð yfir í tæpa 54 dagar er því lokið.

Gigur_08052024

Úr eftirlitsflugi Almannavarna í gærkvöldi. Engar hraunslettur sjást í gígnum þó áfram rjúki úr honum. (Ljósmynd: Almannavarnir)

Kvikusöfnun heldur þó áfram undir Svartsengi og líkanreikningar gera ráð fyrir því að um 13 milljón rúmmetrar af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið frá því að eldgosið hófst 16. mars. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina áður en langt um líður.

Veðurstofan mun fylgjast náið með stöðunni á gosstöðvunum, en að svo stöddu er hættumat óbreytt. 

Graph_inflation_mogi_is_07052024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023.



Uppfært 7. maí kl. 15:45

  • Áfram mælist landris í Svartsengi.

  • Hraði kvikusöfnunar haldist svipaður síðustu vikur

  • Dregið hefur úr virkni í gígnum undanfarna daga

  • Áfram auknar líkur á að kraftur gossins aukist eða að nýjar gossprungur opnist

  • Fyrirvari aukinnar virkni gæti orðið mjög stuttur

  • Gasdreifingarspá má finna hér.

  • Hættumat óbreytt

Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram. Hraun rennur stutta vegalend frá gígnum og virknin í gígnum fer minnkandi. Litlar eða engar breytingar hafa orðið á suðurhluta hraunbreiðunnar nærri varnargörðunum austan Grindavikur síðustu vikuna.

Kvikusöfnun og landris heldur áfram í Svartsengi. Hefur hraðinn haldist nánast óbreyttur síðustu vikur (sjá mynd hér að neðan). Þessar mælingar benda til þess að þrýstingur haldi því áfram að byggjast upp í kvikuhólfinu. Áfram eru því líkur á nýju kvikuhlaupi úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina.

Smáskjálftavirkni hefur aukist jafnt og þétt undanfarna viku á svæðinu í og við kvikuganginn. Skjálftarnir, sem langflestir eru undir 1 að stærð, hafa verið norðan við núverandi gosop, á milli Sundhnúks og Stóra Skógfells, sunnan Þorbjarnar í stóra sigdalnum við Grindavík, og á milli Grindavíkur og gosstöðva. Þessi hæga aukning í skjálftavirkni er líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.

Mynd07052024

Kortið sýnir skjálftavirkni á svæðinu frá 15. apríl, bæði sjálfvirkar stærðir og staðsetningar og yfirfarna skjálfta Á efra grafinu hægra megin sést stærð skjálftanna og á neðra grafinu sést fjöldi skjálfta á dag.

Þessar tvær sviðsmyndir eru áfram líklegastar hvað varðar framhaldið á virkninni á Sundhnúksgígaröðinni:

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningar í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.
  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í virka gíginn á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður afar skyndileg smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu. Mikilvægt er að benda á að fyrirvarinn getur orðið mjög stuttur, innan við hálftími, jafnvel enginn.

Hættumat er óbreytt frá síðustu útgáfu. Í síðustu viku var hætta vegna hraunflæðis á svæði 4 (Grindavík) aukin úr töluverðri hættu í mikla, sem er út frá þeim sviðsmyndum sem nú eru taldar líklegastar.

Haettusvaedi_VI_7mai_2024

(Smellið á kortið til að sjá stærra)

Erfitt að spá fyrir um endalok atburðarásarinnar sem hófst í lok október

Eins og áður hefur komið fram ríkir óvissa um framvindu jarðhræringanna nú þegar eldgos hefur varað í meira en mánuð á sama tíma og kvika safnast saman í kvikuhólfið undir Svartsengi. Þó svo að sviðsmyndirnar hér að ofan séu taldar þær líklegustu er áfram grannt fylgst með hvort að kvika sé að leita annað en yfir í Sundhnúksgígaröðina. Horft er til svæðanna norðan Stóra-Skógfells og sunnan Hagafells og Þorbjarnar.

Ef kvika færi að brjóta sér leið til yfirborðs utan þeirra svæða sem gosið hefur á nú þegar, væri fyrirvarinn á slíkum jarðhræringum meiri og kæmi fram í mun kraftmeiri og ákafari skjálftavirkni en verið hefur í aðdraganda síðustu gosa.


Uppfært 2. maí kl. 12:15

  • Enn mælist landris við Svartsengi. Þrýstingur heldur því áfram að byggjast upp í kvikuhólfinu.

  • Hraunflæði úr gígnum sem gýs úr hefur farið minnkandi síðustu daga.

  • Mælingar og líkanútreikningar benda til að talsverð óvissa sé um framhaldið. Áfram eru auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist.

  • Hætta er á að hraun nái yfir varnargarða austan Grindavíkur ef kraftur gossins eykst á ný.

  • Hættumat er óbreytt

Áfram mælist landris við Svartsengi og hefur hraðinn haldist nokkuð stöðugur allt frá því í byrjun apríl (sjá mynd hér að neðan). Fram kom í fréttum fyrr í vikunni að vísbendingar væru um að hægt hefði á því dagana á undan. Mælingar síðan þá sýna að hraðinn hefur haldist jafn ef horft er til síðustu vikna. Þrýstingur heldur því áfram að byggjast upp í kvikuhólfinu og líkur er á nýju kvikuhlaupi úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina.

Skjamynd-2024-05-02-104618_Aflogun_SKHS_02052024

Grafið sýnir lóðrétta færsla á GPS stöðinni SKSH í Svartsengi. Mælingarnar sýna að hraði landriss hefur haldist nokkuð stöðugur allt frá því í byrjun apríl. Bláa línan táknar tímasetningu kvikuinnskotsins sem leiddi ekki til goss, en sú rauða táknar upphaf eldgossins sem nú er í gangi.

Skjálftavirkni hefur aukist á Sundhnúksgígaröðinni síðustu daga. Um er að ræða smáskjálfta sem eru líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.

Hraunflæði úr gígnum er umtalsvert minna en það var fyrir þremur vikum. Hraunflæðið eins og það er í dag er metið verulega lítið en þó þarf að reikna með því að gosið haldi áfram í einhvern tíma þrátt fyrir þetta litla hraunflæði.

Lava_time_series_april_15_25_30_compare

Meðfylgjandi kort sýnir breytingar á þykkt hraunbreiðunnar á milli 15., 25. apríl og 30. apríl.

Hraun úr gígnum hefur undanfarnar vikur hlaðist upp við varnargarða austan Grindavíkur. (L12 á myndinni hér að ofan). Ef kraftur gossins eykst eða nýjar sprungur opnast suður af núverandi gosopi, þarf að gera ráð fyrir framrás hraunjaðarsins við varnargarða austan Grindavíkur. Á laugardaginn, 27. apríl, fór lítil hrauntunga yfir varnargarð austan Grindavíkur. Hætta er á að slíkum tilfellum fjölgi, ef kraftur gossins eykst á ný.

Þessar tvær sviðsmyndir eru áfram líklegastar hvað varðar framhaldið á virkninni á Sundhnúksgígaröðinni:

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningar í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.
  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í virka gíginn á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður afar skyndileg og áköf smáskjálftahrina í og við kvikuganginn og landsig í Svartsengi.

Hættumat Veðurstofunnar er óbreytt og gildir til 7. maí, að öllu óbreyttu.

Hér má svo gasmengunarspá veðurvaktar.




Uppfært 30. apríl kl. 14:55

  • Enn mælist landris við Svartsengi en þó eru vísbendingar um að hægt hafi á því síðustu daga.

  • Þrátt fyrir að hægi á landrinu, sýna líkanútreikningar að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram á svipuðum hraða og áður. Það bendir til þess að þrýstingur sé að aukast í kvikuhólfinu.

  • Heildarrúmmál kviku undir Svartsengi síðan 16. mars er metið yfir 10 milljón rúmmetrar.

  • Síðustu tvær vikur mælist meðal hraunflæði úr gígnum sem enn gýs úr er um þriðjungur af meðalflæði í fyrri hluta mánaðarins

  • Mælingar og líkanútreikningar benda til að talsverð óvissa sé um framhaldið en líklegt er að það dragi fljótlega til tíðinda og kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni gæti aukist.

  • Hættumat uppfært. Hætta vegna hraunflæðis hefur verið aukin en hætta vegna gjósku minnkuð.

Eldgosið við Sundhnúk heldur áfram og rennur hraun til suðurs frá gígnum líkt og undanfarið. Suðurhluti hraunbreiðunnar heldur áfram að þykkna þangað sem hraun rennur í lokuðum rásum. Á laugardaginn, 27. apríl, fór lítil hrauntunga yfir varnargarð austan Grindavíkur. Ekki hefur meira hraun farið yfir varnargarðinn síðan þá.

Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar (NÍ) og Landmælinga Íslands (LMÍ) hefur unnið úr gervitunglamyndum og gögnum síðan 25. apríl. Flatarmál hraunbreiðunnar sem myndast hefur í eldgosinu er nú 6,16 km2 og er nánast óbreytt á milli mælinga. Rúmmál og þykkt hraunbreiðunnar heldur hins vegar áfram að aukast og er rúmmálið nú 34 ± 1.9 milljón m3 og meðalþykkt hraunbreiðunnar 5,5 ± 0,3 m.

Út frá þessum niðurstöðum er áætlað meðalhraunflæði í eldgosinu á milli 15. og 25. apríl 0,9 ± 0,4 m3/s. Í fyrri mælingum á meðalhraunflæði fyrir tímabilið frá 3. til 15. apríl var það metið um 3 til 4 m3/s.

Lava_time_series_april_15_25_compare

Myndatexti: Meðfylgjandi kort sýnir breytingar á þykkt hraunbreiðunnar á milli 15. og 25. apríl.

Enn mælist landris við Svartsengi en þó eru vísbendingar um að hægt hafi á því síðustu daga. Á sama tíma hefur gosórói sýnt smávægilega aukningu og smáskjálftavirkni aukist tímabundið á SundhnúksgígaröðinniÞó svo vísbendingar séu um að það hægi á landrisinu sýna líkanreikningar að kvikusöfnun undir Svartsengi haldir áfram á svipuðum hraða og áður. Heildarrúmmál kviku sem safnast hefur undir Svartsengi síðan gos hófst er metið yfir 10 milljón rúmmetrar. Það að hægi á landrisinu en að kvika flæði áfram inn í kvikuhólfið bendir til þess að þrýstingur sé að byggjast þar upp.

Mælingar og líkanútreikningar benda til að talsverð óvissa sé um framhaldið en líklegt er að það dragi fljótlega til tíðinda. Haldi kvikusöfnun áfram eru meiri líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist verulega frekar en að það lognist út af. Út frá nýjustu mælingum er þó erfitt að fullyrða um hvor sviðsmyndanna hér að neðan sé líklegri

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningu í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.
  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í virka gíginn á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.
Graph_inflation_mogi_is29042024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undirSvartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. 

Gasdreifingarspá

Veðurspáin í dag er norðlæg átt (þriðjudag) og gasmengun berst til suðurs og gæti orðið mengun í og nær Grindavík. Lægir í nótt og þá gæti mengun safnast nálægt gosstöðunum. Snýst í vestanátt á morgun (miðvikudag) og suðvestanátt síðdegis. Gasmengun berst til austurs í fyrstu og gæti orðið við Suðuströndina en síðar til norðurs og norðausturs og gæti mengun orðið á Höfuðborgarsvæðinu, Vogum og Vatnsleysuströndinni. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Hættumat uppfært

Á vísindafundi Veðurstofunnar í morgun var hættumat yfirfarið. Þær breytingar eru á hættumatinu að hætta vegna gjósku hefur verið lækkuð úr töluverðri hættu í litla á svæði 1 og 6. Þessi breyting er gerð vegna þess að það hefur ekki verið mikil gjóska að sleppa út í andrúmsloftið. Hættan á svæði 4 (Grindavík) hefur verið aukin úr töluverðri hættu í mikla vegna hraunflæðis, þar sem hrauntungan hefur verið að stækka, þó hægt sé, innan svæðisins síðustu daga. Þetta hefur í för með sér að heildarhætta á svæði 4 fer úr töluverðri (appelsínugult) í mikla (rautt). Þar að auki eru auknar líkur á að það dragi fljótlega til tíðinda á svæðinu í kringum Sundhnúka og er metið líklegra en áður að hraun geti runnið hratt til suðurs.

Haettusvaedi_VI_30april_2024

(Smelltu hér til að sjá kortið stærra)


Uppfært 26. apríl kl. 12:30

  • Hluti hraunbreiðunnar nærri varnargörðum austan Grindavíkur heldur áfram að þykkna hægt og rólega

  • Landris í Svartsengi heldur áfram á sama hraða

  • Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða eru meiri líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist verulega

  • Áfram er hætta á gasmengun á svæðinu. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér og loftgæðum.

Eldgosið við Sundhnúk heldur áfram og líkt og síðan 5. apríl er einn gígur, skammt austan við Sundhnúk, virkur. Hraun rennur stutta vegalend til suðurs frá gígnum í opinni hrauná en lengra í lokuðum rásum. Hluti hraunbreiðunnar nærri varnargörðum austan Grindavíkur heldur áfram að þykkna hægt og rólega.

Yfirlitsmynd26042024

Mynd úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem tekin er kl. 4:30 í morgun skömmu fyrir sólarupprás. Myndavélin er staðsett uppi á Þorbirni og horfir til norðausturs í átt að gígnum. 

Landris í Svartsengi heldur áfram á sama hraða og líkön gera ráð fyrir því að það magn kviku sem bæst hefur við kvikuhólfið í Svartsengi frá því að eldgosið hófst 16. mars nálgist nú 10 milljón m3 eins og línuritið hér að neðan sýnir. Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið frá Svartsengi þegar á bilinu 8 til 13 milljónir m3 hafa bæst við í kvikuhólfið frá síðasta kvikuhlaupi.

Mogi24042024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra  eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023.  

Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða eru meiri líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist verulega.

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningu í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.
  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Einnig er mögulegt að það verði kvikuhlaup sem endi með því að nýjar gossprungur opnast annarsstaðar en á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Þessi sviðsmynd er talin ólíklegri en hinar og henni myndi fylgja töluverð skjálftavirkni og aflögun með meiri fyrirvara en undanfarin eldgos

Á miðvikudaginn, 24. apríl, framkvæmdu sérfræðingar Veðurstofunnar mælingar á gasútstreymi frá eldgosinu. Það ver metið 6-9 kg/s af SO2 en í síðustu mælingu sem gerð var fyrir tveimur vikum, 12. apríl, var gasútstreymið metið 10 –18 kg/s. Það eru ekki vísbendingar um að það sé að draga gasútstreymi út frá eldgosinu. Á meðan að eldgos heldur áfram getur flæði SO2 verið mjög breytilegt frá degi til dags (eins og í eldgosin við Fagradalsfjall sýndu). Áfram er hætta á gasmengun inn á svæðinu umhverfis gíginn sem og í byggð á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæðum og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Gasmengun26042024

Gosmengun (SO2) í andrúmslofti sést vel á gervihnattamynd frá í gær 25. apríl apríl kl 14:27.

Veðurspá gerir ráð fyrir norðan 5-10 m/s í dag, föstudag, og gasmengun berst því til suðurs frá gosstöðvunum og gæti orðið vart í Grindavík. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.


Uppfært 23. apríl kl. 14:50

  • Landris í Svartsengi mælist á svipuðum hraða sem bendir til þess að kvikusöfnun haldi áfram.
  • Mælingar á hraunflæði í eldgosinu sýna að frá því í byrjun apríl hefur það verið á milli 3 og 4 m3/s.

  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Spá veðurvaktar um gasdreifingu má finna hér
  • Uppfært hættumat

Áfram gýs úr einum gíg skammt austan við Sundhnúk, eins og hefur gert frá 5. apríl. Líkt og áður rennur hraun stutta vegalengd í opinni hraunelfur til suðurs frá gígnum en lengra í lokuðum rásum. Sá hluti hraunbreiðunnar sem liggur meðfram varnargörðum austan Grindavíkur hefur þykknað undanfarna daga eins og meðfylgjandi hreyfimyndir sýna. Myndirnar sýna muninn hraunbreiðunni á milli 18. og 23. Apríl. Efri myndirnar eru úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er á varnargarði austan Grindavíkur og horfir á hrauntunguna sem rann í átt að Suðurstrandarvegi í upphafi eldgossins. Neðri myndirnar eru einnig úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er uppi á Hagafelli og horfir til suðurs.

8c6cfe1b-c87b-4501-bd10-41e7c2079707

Myndir úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er á varnargarði austan Grindavíkur og horfir á hrauntunguna sem rann í átt að Suðurstrandarvegi í upphafi eldgossins. Gulur kassi er utan um það svæði hraunbreiðunnar sem þykknar mest á tímabilinu.

57f4a945-2487-4adc-af84-b11fcc474350

Myndir úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er uppi á Hagafelli og horfir til suðurs. Gulur kassi merkir svæði þar sem hraunið nærri varnargörðunum hefur þykknað mest.

Mælingar á hraunflæði í eldgosinu sýna að frá því í byrjun apríl hefur það verið á milli 3 og 4 m3/s. Síðustu mælingar eru síðan 15. apríl og búist er við því að nýjar niðurstöður liggi fyrir í næstu viku sem mun varpa ljósi á það hvort mælanlegar breytingar hafi orðið á hraunflæði frá 15. apríl.

Landris í Svartsengi mælist á svipuðum hraða sem bendir til þess að kvikusöfnun haldi áfram. Líkanreikningar byggðir á GPS og gervitunglagögnum áætla að um 7 til 8 milljón m3 hafi bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi frá því að eldgosið hófst 16. mars. Í fyrri kvikuhlaupum hefur kvika hlaupið frá Svartsengi þegar á bilinu 8 til 13 milljónir m3 hafa bæst við í kvikuhólfið frá síðasta kvikuhlaupi.

Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða aukast líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist verulega.

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells eða/og núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningu í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.

  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Einnig er mögulegt að það verði kvikuhlaup sem endi með því að nýjar gossprungur opnast annarsstaðar en á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Þessi sviðsmynd er talin ólíklegri en hinar og henni myndi fylgja töluverð skjálftavirkni og aflögun með meiri fyrirvara en undanfarin eldgos.

Uppfært hættumat

Á vísindafundi Veðurstofunnar í morgun var hættumat yfirfarið. Líkur á gosopnun á svæði 1 (Svartsengi), 4 (Grindavík) og 7 hafa verið lækkaðar frá því að vera metnar töluverðar í litlar. Á föstudag, vegna áframhaldandi kvikusöfnunar og mikillar óvissu vegna nýrrar stöðu og mögulegra þróunar jarðhræringanna, var ákveðið tímabundið að auka líkur á gosopnun innan þessara svæða. Á vísindafundinum í morgun var það metið að ekki væru skýrar vísbendingar að svo stöddu að auknar líkur væru á gosopnun innan þessara svæða.

Haettusvaedi_VI_23april_2024

Á meðan áfram gýs við Sundhnúk er talið líklegast ef það kemur til aukins kvikuflæðis þá muni kvikan fylgja þeirri opnu rás sem nú fæðir eldgosið og/eða nýjar gossprungur muni opnast þar nærri. Vegna þessa eru líkur á gosopnun án fyrirvara áfram taldar mjög miklar á svæði 3 (Sundhnúksgígaröðinni). Að öllu óbreyttu gildir hættumatið til 30. Apríl. 


Uppfært 19. apríl kl. 14:55

  • Landris í Svartsengi heldur áfram á stöðugum hraða
  • Frá 5. apríl hefur einungis gosið úr einum gíg og hraunflæði úr honum haldist nokkuð stöðugt síðan þá, rúmlega 3m3/s
  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Spá veðurvaktar um gasdreifingu má finna hér
  • Haldi kvikusöfnun undir Svartsengi áfram á svipuðum hraða aukast líkur á öðru kvikuhlaupi á næstu dögum eða vikum, þrátt fyrir að eldgos sé enn í gangi.

Eftir að fjórða eldgosið hófst þann 16. mars hægði landris verulega á sér fyrst um sinn og nánast stöðvaðist. Það gaf til kynna að jafnvægi væri á innstreymi kviku inn í kvikuhólfið undir Svartsengi og uppá yfirborð í Sundhnúksgígaröðinni (mynd 1). 

Í byrjun apríl fór landris að aukast aftur og er nú um það bil jafn stór hluti kvikunnar að flæða upp á yfirborð og er að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi með tilheyrandi auknum kvikuþrýstingi (mynd 2).

Sú staða sem er uppi núna er ný, þar sem eldgos með frekar stöðugu hraunrennsli er í gangi á Sundhnúksgígaröðinni á sama tíma og land rís í Svartsengi. Því er meiri óvissa nú en áður um mögulega þróun atburðarins.

Kvikustreymi_1

(Mynd 1)

Kvikustreymi_2

(Mynd 2)

Líkanreikningar gera ráð fyrir því að nú hafi rúmlega 6 milljón m3 af kviku bæst við  í kvikuhólfið undir Svartsengi síðan 16. mars. Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið frá Svartsengi þegar á bilinu 8 til 13 milljónir m3 hafa bæst við í kvikuhólfið frá síðasta atburði.


Graf19042024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir  Svartsengi á milli þeirra  eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. 

Meiri óvissa um þróun jarðhræringanna næstu daga eða vikur

Hingað til hefur verið talað um auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi í kjölfar þess í tengslum við atburðarrásina á Sundhnúksgígaröðinni. Gott er að rifja upp að kvikuhlaup er skyndilegt og mikið flæði af kviku sem streymir út úr kvikuhólfi og getur endað með því að kvika nær að brjótast upp á yfirborð. Eftir kvikuhlaupið 2. mars, sem endaði ekki með eldgosi, varð breyting á virkninni sem hafði frá desember verið nokkuð formföst.

Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða aukast líkur á öðru kvikuhlaupi á næstu dögum eða vikum, þrátt fyrir að eldgos sé enn í gangi. Það að fá kvikuhlaup út úr kvikuhólfinu í Svartsengi samhliða eldgosinu sem nú er í gangi, er sviðsmynd sem ekki hefur verið uppi áður. Meiri óvissa er því um þróun jarðhræringanna næstu daga eða vikur.

Líkleg atburðarrás ef kvikuhlaup á sér stað samhliða núverandi eldgosi:

  • Kvika hleypur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, líkt og í síðustu sex skipti.

  • Í kjölfar kvikuhlaupsins gætu nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells eða/og núverandi gosop stækkað með skyndilegri aukningu í hraunflæði. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.

  • Ef kvikuhlaup endar með því að nýjar gossprungur opnast annars staðar á kvikuganginum sem myndaðist 10. nóvember má búast við mun lengri fyrirvara, líklegast er áköf smáskjálftavirkni, aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum.

  • Einnig er mögulegt að ekki verði kvikuhlaup, heldur kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og uppá yfirborð.

  • Ef kvikuhlaup endar með því að nýjar gossprungur opnast annarsstaðar en á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells myndi slíkri atburðarás þó mjög líklega fylgja mikil skjálftavirkni og aflögun með talsvert meiri fyrirvara en undanfarin eldgos.

Uppfært hættumat

Í ljósi þeirrar óvissu sem vaxandi þrýstingur í kvikuhólfinu undir Svartsengi veldur, hefur Veðurstofan hækkað hættu vegna gosopnunnar á svæðum 1, 4 og 7 úr litlum í töluverðar". Heildarhætta (litur) á viðkomandi svæðum breytist þó ekki vegna þessa.

Haettusvaedi_VI_19april_2024

(Smellið á kortið til að stækka)

Uppfært 18. apríl kl. 13:45

  • Flatarmál hraunbreiðunnar orðið 6,15 km2 og rúmmál 33,2 ± 0,8 milljón m3

  • Meðalhraunflæði frá gígnum yfir tímabilið 8. til 15. Apríl var metið 3,2 ± 0,2 m3/s

  • Landris í Svartsengi heldur áfram á stöðugum hraða

  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Spá veðurvaktar um gasdreifingu í dag (fimmtudag) er norðvestlæg átt 3-8 m/s og gasmengun frá eldgosinu berst að mestu til suðausturs. Gasdreifingarspá er að finna hér.

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina er stöðugt og  gýs úr einum gíg skammt austan við Sundhnúk. Hraunbreiðan heldur áfram að byggjast upp nærri gígunum en hraun rennur einnig í lokuðum rásum um 1 km í suðaustur og eru virk svæði í hraunbreiðunni til móts við Hagafell. 

Mánudaginn 15. apríl fór myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar (NÍ) og Landmælinga Íslands (LMÍ) í flug yfir gosstöðvarnar. Niðurstöður mælingaflugsins sýna að flatarmál hraunbreiðunnar þann 15. apríl var 6,15 km2 og rúmmál 33,2 ± 0,8 milljón m3. Útbreiðsla og þykkt hraunbreiðunnar er sýnd á korti hér að neðan.

Korthraunbreida18042024

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt þess hrauns myndast hefur í eldgosinu sem nú stendur yfir. Fjólubláar þekjur sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

Meðalhraunflæði frá gígnum yfir tímabilið 8. til 15. apríl var metið 3,2 ± 0,2 m3/s. Það er lítil breyting m.v. meðalhraunflæði tímabilið frá 3. til 8. apríl sem var metið 3,6 ± 0,7 m3/s. 

Landris í Svartsengi heldur áfram á stöðugum hraða. Þetta bendir til að u.þ.b. helmingur af kvikunni sem er að koma af dýpi sé að safnast fyrir í kvikuhólfinu en hinn helmingur er að flæða upp á yfirborð i Sundhnúksgígaröðinni.

SENG-plate_since-20231112

Færslur á GPS stöðinni SENG í Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (17. apríl) er sýnd með grænum punkti. Rauðu lóðréttu línurnar eru tímasetningar á síðustu fjórum eldgosum (18. desember 2023, 14. Janúar, 8. Febrúar og 16. mars 2024) og bláu línurnar þau kvikuhlaup sem hafa orðið í Sundhnúksgígaröðinni án þess að komi til eldgoss (10. Nóvember 2023 og 2. Mars 2024) .

Áfram er hætta á gasmengun frá eldgosinu sem getur valdið mengun í byggð á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Spá veðurvaktar um gasdreifingu í dag (fimmtudag) er norðvestlæg átt 3-8 m/s og gasmengun frá eldgosinu berst að mestu til suðausturs. Á morgun (föstudag) gengur í suðaustan 8-13 með rigningu en suðlægari annað kvöld. Gasmengun mun fara til norðvesturs og síðar til norðurs. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Gasdreifing18042024


Uppfært 16. apríl kl. 14:45

  • Uppfært hættumat. Heildarhætta fyrir Grindavík (Svæði 4) talin töluverð (appelsínugult).
  • Áfram gýs úr einum gíg skammt austan við Sundhnúk.
  • Landris heldur áfram. Stöðugt síðan í byrjun apríl.
  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Gasdreifingarspá er að finna hér.

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram og hefur nú staðið í einn mánuð eins og fjallað var um í frétt sem var gefin út fyrr í dag. Áfram gýs úr einum gíg skammt austan við Sundhnúk. Hraun rennur áfram til suðurs frá gígnum en nær ekki langt og hraunbreiðan heldur því áfram að byggjast upp nærri gígnum. Virkur hraunjaðar er nærri Hagafelli eins og sést á mynd úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem staðsett er á Þorbirni.

 Eldgos16042024

Mynd frá kl. 5:10 í morgun, 16. apríl, tekin úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem staðsett er uppi á Þorbirni og horfir til austurs á gosstöðvarnar. Fyrir miðri mynd er gígurinn og hraunstraumurinn frá honum. Þar fyrir framan er Sundhnúkur og hægra megin á myndinni sést í Hagafell þar sem sést í virka hraunjaðra.

Skjálftavirkni hefur verið með fremur rólegu móti á gossvæðinu frá því gos hófst, eða þar til smáskjálftahrina hófst eftir hádegi 14. apríl við Lágafell. Sú hrina stóð yfir í rúma 4 tíma og hefur verið tengd spennubreytingum í skorpunni vegna landriss í Svartsengi. Áfram er viðvarandi smáskjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli á um 6-8 km dýpi sem hefur fylgt umbrotunum síðastliðna 4 mánuði.

Landris stöðugt síðan í byrjun apríl

Landris heldur áfram og hefur verið stöðugt síðan í byrjun apríl. Líkanreikningar af GPS færslum benda til að flæði kviku inn í kvikuhólfið sé um það bil helmingur af því sem var áður en gos hófst 16. mars síðastliðinn. Þetta bendir til að u.þ.b. helmingur af kvikunni sem er að koma af dýpi sé að safnast fyrir í kvikuhólfinu en hinn helmingur er að flæða upp á yfirborð.

Kvikustreymi_2

Myndatexti: Í byrjun apríl fór landris að aukast aftur og er nú um það bil jafn stór hluti kvikunnar að flæða upp á yfirborð og er að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi með tilheyrandi auknum kvikuþrýstingi.

Áfram er hætta á gasmengun frá eldgosinu sem getur valdið mengun í byggð á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Veðurspá í dag (þriðjudag) er hæg breytileg átt, gas getur safnast saman nærri gossvæðinu. Í kvöld verður svo suðaustan 10-15 m/s og mun þá gas berast til norðvesturs í átt að Reykjanesbæ. Vestan og norðvestan 3-10 á morgun, gas berst til austurs og suðausturs í átt að Þorlákshöfn. Hægt að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Hættumat uppfært

Hættumat hefur verið uppfært og gildir frá kl: 15:00 í dag þangað til 23. apríl, að öllu óbreyttu. Þær breytingar eru á hættumatinu að hætta vegna hraunflæðis hefur verið lækkuð á öllum svæðum nema svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin) og svæði 6. Þessi breyting er gerð vegna þess að það hefur ekki verið virkt hraunflæði á hinum svæðunum síðustu tvær vikur. Miðað við virkni í eldgosinu núna eru metnar minni líkur á því að hraun flæði langt frá gígnum og inn á önnur hættusvæði. Þessi breyting hefur það í för með sér að heildarhætta á svæði 4 (Grindavík) er nú metin töluverð (appelsínugult) en var áður mikil (rautt). Heildarhætta á öðrum svæðum er óbreytt. Áfram er hætta af völdum gasmengunar metin mikil á öllum svæðum nema Sundhnúksgígaröðinni (svæði 3) þar sem hún er metin mjög mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) og svæði 6 eru áfram metin mikil vegna jarðfalls ofan í sprungu og sprunguhreyfinga. 

Haettusvaedi_VI_16april_2024

(Smellið á kortið til að sjá stærra)

Uppfært 15. apríl kl. 10:50

  • Eldgos sem hófst 16. mars helst stöðugt
  • Landris heldur áfram á svipuðum hraða síðan í byrjun apríl.
  • Hættumat gildir til 16. apríl, að öllu óbreyttu
  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Gasdreifingarspá er að finna hér.

Rétt eftir hádegi í gær hófst smáskjálftahrina við Lágafell, rétt norðvestan við Grindavík. Henni var að mestu lokið um klukkan hálf fjögur í gær. Skjálftarnir voru um 90 talsins og var virknin mest milli kl. 13 og 14 þegar 35 skjálftar mældust. Allir skjálftarnir voru undir 1 að stærð og flestir á um 2-4 km dýpi. Þessi smáskjálftahrina er líklega afleiðing spennubreytinga í jarðskorpunni vegna áframhaldandi landriss í Svartengi eins og fjallað var um í fréttauppfærslu í gær.

Meðfylgjandi er samsett mynd sem sýnir staðsetningu skjálftanna á korti og neðan þess er graf sem sýnir dýpt þeirra. Efst til hægri er sýnd stærð skjálfta frá hádegi í gær þar til í gærkvöldi. Þar fyrir neðan er uppsafnaður fjöldi skjálfta og neðst fjöldi skjálfta á klukkustund. Eins og gröfin sýna mældust nokkrir smáskjálftar á svæðinu síðdegis í gær en eftir miðnætti í dag hefur ekki mælst skjálftavirkni þarna.   

Skjalftar14042024

Uppfært 14. apríl, kl. 17:15

  • Eldgos sem hófst 16. mars helst stöðugt
  • Landris heldur áfram á svipuðum hraða síðan í byrjun apríl.
  • Hættumat gildir til 16. apríl, að öllu óbreyttu
  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Gasdreifingarspá er að finna hér.

Allnokkrir smáskjálftar (minni en 1 að stærð) hafa mælst norðvestur af Grindavík síðustu klukkustundirnar. (Sjá yfirlitsmyndir hér að neðan.) Virknin er að megninu til staðsett innan sigdalsins sem myndaðist 10. nóvember og er líklega vegna áhrifa frá landrisinu í Svartsengi sem veldur spennubreytingum á svæðinu.

Skjálftavirknin í dag er sambærileg virkni sem mældist á þessu svæði um miðjan mars síðastliðinn. Skjálftavirknin er því ekki merki um einhverjar breytingar í virkninni í eldgosinu sem haldist hefur nokkuð stöðugt um helgina. Skjálftavirknin norðvestur af Grindavík er heldur ekki merki um að kvika sé á ferðinni undir því svæði.

Þegar þetta er skrifað hefur aðeins dregið úr skjálftavirkninni norðvestur af Grindavík. Ekki er talið líklegt að stórir skjálftar fylgi þessari virkni sem mælist nú.

Ef kvika færi að leita annað en þá leið sem hún hefur farið yfir í Sundhnúksgígaröðinni, t.d. í vestur í átt að Eldvörpum eða suður af Þorbirni, væri undanfari mögulegs eldgoss á því svæði mjög ákafar skjálftahrinur og aflögun sem kæmi skýrt fram á mælitækjum og gervitunglamyndum. Engin merki eru um slíkt á þessum tímapunkti.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið og gosstöðvarnar.

Hrina_14042024_Sigdalur

Myndin sýnir skjálftavirkni á tímabilinu 9. mars til dagsins í dag, 14. apríl. Svörtu línurnar tákna ytri mörk sigdalanna sem mynduðust í tengslum við kvikuhlaupið mikla 10. nóvember 2023 og eldgosið 14. janúar í ár. Yfirgnæfandi meirihluti skjálftanna í dag hefur verið minni en 1 að stærð. Blálitaðir skjálftar urðu 9.-14. mars á meðan rauðlitaðir skjálftar áttu sér stað í dag, 14. apríl. Staðsetning skjálftanna er í vesturjaðri sigdalsins sem myndaðist 10. nóvember sl..

Hrina_14042024_Sprungur

Á svæðinu norðvestur af Grindavík er einnig fylking af þekktum sprungum með norður-suður stefnu sem hnikuðust þegar kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Skjálftarnir í dag eru því einnig merki um spennulosun á þessum sprungum vegna landrissins í Svartsengi.



Uppfært 12. apríl kl. 14:15

  • Eldgos sem hófst 16. mars helst stöðugt
  • Landris heldur áfram á svipuðum hraða síðan í byrjun apríl.
  • Hættumat gildir til 16. apríl, að öllu óbreyttu
  • Áfram er hætta á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði.
  • Gasdreifingarspá er að finna hér.

Eldgosið sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni að kvöldi 16. mars er enn í gangi. Áfram er einn gígur virkur eins og hefur verið síðan 5. apríl. Hraun rennur áfram til suðurs frá gígnum en nær ekki langt og hraunbreiðan heldur því áfram að byggjast upp nærri gígnum. Engin greinileg merki eru um framrás hrauns við varnargarða norðan Grindavíkur, Suðurstrandarveg eða Melhólsnámu. 

Landris í Svartsengi heldur áfram á svipuðum hraða, en í byrjun apríl jókst hraði þess miðað við tímabilið frá því að eldgosið hófst 16. mars til mánaðarmóta. Það gefur til kynna að meirihluti kvikunnar sem streymir undir Svartsengi safnist saman þar og valdi auknum þrýstingi og landrisi. Á meðan eldgosinu stendur er þó áfram opin tenging á milli kvikusöfnunarsvæðisins í Svartsengi og Sundhnúksgígaraðarinnar og hluti kvikunnar flæðir þar upp á yfirborð. Mishraðar breytingar á landrisinu geta sést á milli daga en heilt yfir er hraðinn stöðugur síðan í byrjun apríl.

Hættumat er óbreytt og gildir að öllu óbreyttu til kl. 15:00 þann 16. apríl. Sjá nánar hér

Áfram er hætta á gasmengun frá eldgosinu sem getur valdið mengun í byggð Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Gos12042024

Mynd sem tekin var á miðvikudaginn, 10. apríl, sem sýnir virka gíginn eins og hann sést frá Sundhnúk. (Ljósmynd: Jón Bjarni Friðriksson/Veðurstofa Íslands)

Veðurspáin í dag er norðan 8-13 m/s, en hægari á morgun. Gasmengunin berst þá til suðurs. Breytist í vestlægari átt seint á morgun og þá berst gasmengun til austurs. Hér er hægt að fylgjast með gasdreifingarspá.


Uppfært 9. apríl kl. 15:00

  • Þrátt fyrir að dregið hafi úr krafti eldgossins eru ekki merki um að heildar kvikuflæði frá dýpi sé að minnka.

  • Meðalhraunflæði frá gígunum á milli 3. og 8. apríl er metið 3,6  ± 0,7 m3/s

  • Austan og suðaustanátt á morgun. Gasmengunin berst þá til vesturs og norðvesturs frá gosstöðvunum. Gasdreifingarspá hér.

  • Áfram mælast tímabundið há gildi af SO2 í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með loftgæðum.

Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands fóru í mælingaflug yfir gosstöðvarnar í gær, 8. apríl. Út frá þeim gögnum sem safnað var í fluginu var hægt að leggja mat á stærð hraunbreiðunnar og hraunflæði í eldgosinu. Niðurstöðurnar sýna að dregið hefur jafnt og þétt úr krafti eldgossins. 

Meðalhraunflæði frá gígunum á milli 3. og 8. apríl er metið 3,6  ± 0,7 m3/s. Byggt á gögnum sem Verkfræðistofan Efla safnaði þann 3. apríl í drónaflugi var meðalhraunflæðið metið 6,6 ±  0,3  m3/s frá 27. mars til 3. apríl. Flatarmál hraunbreiðunnar er orðið 6,14 km2 og rúmmál 31,3 milljón m3. Undanfarið hefur hraun runnið að mestu til suðurs frá gígnum, en tímabundið rann það skammt til norðurs á sunnudagskvöld (7. Apríl) þegar gígbarmur brast eins og fjallað var um í síðustu fréttauppfærslu. Eins og sést á meðfylgjandi korti þá hefur hraunið þykknað mest nærri gígnum og skammt sunnan þeirra þar sem mest virkni er í hraunbreiðunni. Engin greinileg merki eru um framrás hrauns við varnargarða norðan Grindavíkur, Suðurstrandarveg eða Melhólsnámu.  

Grindavik_Svartsengi_lava_thickness_map_8april2024

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt þess hrauns myndast hefur í eldgosinu sem nú stendur yfir. Fjólubláar þekjur sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

(Smelltu á kortið til að sjá stærra)

Hraði landriss aukist undanfarna viku

Landris í Svartsengi heldur áfram og hefur hraði þess aukist undanfarna viku á sama tíma og dregið hefur úr krafti eldgossins. Það gefur til kynna að meirihluti kvikunnar sem streymir undir Svartsengi safnist saman þar og valdi auknum þrýstingi og landrisi. Á meðan eldgosinu stendur er þó áfram opin tenging á milli kvikusöfnunarsvæðisins í Svartsengi og Sundhnúksgígaraðarinnar og hluti kvikunnar flæðir þar upp á yfirborð.

Skjálftavirkni í kvikuganginum við Grindavík hefur haldið áfram að vera mjög lítil, og er helst milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells en einnig aðeins í vestanverðri Grindavík. Við Fagradalsfjall heldur áfram smáskjálftavirkni sem hefur verið viðvarandi undanfarna mánuði, og eru þeir áfram mjög staðbundir á um 6-7 km dýpi.

Gasmælingar sem framkvæmdar voru í gær, 8. apríl, áætla að 10-18 kg/s af brennisteinsdíoxíð (SO2) flæði úr gígunum. Áfram mælast tímabundið há gildi af SO2 í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Gaslosun frá eldgosinu er líkleg til að valda mengun á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Samkvæmt veðurspá verður norðan gola í dag og gasmengunin berst til suðurs. Hæg breytileg átt síðdegis og þá eru líkur á mengun nærri gosstöðvunum. Austan og suðaustanátt á morgun og gasmengunin berst þá til vesturs og norðvesturs. Gasdreifingarspá hér.

Hættumat óbreytt.

Hættumat hefur verið uppfært og gildir frá kl: 15:00 í dag þangað til 16. apríl, að öllu óbreyttu. Engar breytingar eru á hættumatinu og áfram er hætta af völdum gasmengunar metin mikil á öllum svæðum nema Sundhnúksgígaröðinni (svæði 3) þar sem hún er metin mjög mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) og svæði 6 eru áfram metin mikil vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga, hraunflæðis og gasmengunar. 

Haettusvaedi_VI_9april_2024

(Smelltu á kortið til að sjá stærra)

Þrátt fyrir að dregið hafi úr krafti eldgossins eru ekki merki um að heildar kvikuflæði frá dýpi sé að minnka. Þar er átt við samanlagt magn kviku sem safnast undir Svartsengi auk kvikunnar sem flæðir uppá yfirborð í eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni. Erfitt er að spá fyrir um hvenær þessu eldgosi lýkur, það gæti haldið áfram í lengri tíma með stöðugu flæði eða stöðvast á næstunni. Þar sem kvika safnast áfram undir Svartsengi og þrýstingur þar eykst er líka möguleiki á að kraftur eldgossins aukist aftur, líkt og gerðist í Fagradalsfjalli 2021. Ef eldgosið stöðvast á næstunni er líklegast að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi og svipuð atburðarás, eins og sést hefur síðustu mánuði, muni endurtaka sig.


Uppfært 8. apríl kl. 16:10

  • Eldgosið heldur áfram. Einn gígur virkur.   
  • Land hefur risið í Svartsengi um sirka 2-3 cm frá 2.-7. apríl.

  • Lítil gasmengun hefur mælst um helgina en áfram geta mælst tímabundið há gildi brennisteinsdíóxíðs í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með loftgæðum.

  • Veðurspá í dag er norðaustlæg átt og gasmengunin berst því til suðvesturs, þ.á.m. yfir Grindavík. Austlæg átt á morgun og þá má búast við gasmengun vestur af gosstöðvunum. Gasdreifingarspá hér.

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram og er nú einn gígur virkur. Hraunrennsli úr gígnum flæddi í suðurátt í gærdag í fremur afmörkuðum straumi, sem varð að tilkomumikilli hrauná. Jafnframt hækkaði yfirborð kviku í gígnum smám saman þar til hann nánast fylltist. Nyrðri gígbarmurinn  brast um kl. 21:30 í gærkvöldi svo kvika fór að streyma í norður átt. Í dag 8. apríl má sjá að hraunflæðið er að megninu til aftur farið að renna til suðurs en sú framrás kviku sem við sáum í gærkvöldi og nótt til norðurs, virðist hafa bunkast þar upp á hæðina. Gígbarmurinn heldur áfram að hlaðast upp.

Hraunrennsli er greinanlegt á óróamælingum 1 til 2 Hz. (græntíðni á grafi) þegar hraunstraumurinn frá gígnum er hvað mestur, eykst óróinn samhliða. Eftir að gígbarmurinn gaf sig þá má sjá að óróinn fellur niður aftur. Sambærileg óróavirkni sást einnig í eldgosum í Geldingadölum þar sem órói jókst þegar að hraunstraumurinn jókst.

Grv08042024oroi

Landris hefur aukist nokkuð í Svartsengi, en út frá GPS mælingum og gervitunglamyndum hefur land risið um 2-3 cm frá 2.-7. apríl, sem er þó minna landris en mældist eftir fyrri gos síðustu mánuði. Aukið landris gæti verið merki um að kvikuflæði hafi aukist inn í Svartsengi eða að tregða sé komin í flæði kviku úr eldgosinu.

Lítil gasmengun hefur mælst á gasmælum Umhverfisstofnunar UST og Veðurstofunnar um helgina en áfram geta mælst tímabundið há gildi brennisteinsdíóxíðs í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með loftgæðum á síðu Umhverfisstofnunar.

Veðurspáin í dag er norðaustlæg átt og gasmengunin berst því til suðvesturs, þ.á.m. yfir Grindavík. Austlæg átt á morgun og þá má búast við gasmengun vestur af gosstöðvunum. Nýjustu gasdreifingarspá má finna hér.


Uppfært 4. apríl kl. 15:45

  • Eldgosið heldur áfram. Tveir gígar virkir, nyrðri gígurinn stærri.
  • Á bylgjuvíxlmynd sem sýnir aflögun frá 18. mars til 3. apríl sést að land hefur risið um 3 cm í Svartsengi á því tímabili.
  • Áfram mælast tímabundið há gildi brennisteinsdíóxíðs í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með loftgæðum.

  • Gasmengunin berst til norðvesturs og norðurs í dag og gæti orðið vart við mengun í Vogum, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Gasdreifingarspá hér.


Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram og enn eru tveir gígar virkir eins og undanfarna daga. Nyrðri gígurinn er stærri og virðist megnið af hraunflæðinu koma frá honum eins og sést á eftirfarandi mynd sem tekin var í gærkvöldi, 3. apríl. Hraun rennur áfram til suðurs frá gígunum ofan á hraunbreiðu sem myndaðist fyrstu daga gossins. Í gærkvöldi voru engin greinileg merki um framrás hrauns við varnargarða norðan Grindavíkur, Suðurstrandarveg eða Melhólsnámu.

Dronamynd04042024

Loftmynd úr drónaflugi á vegum Almannavarna í gærkvöldi, 3. apríl. Myndin sýnir gígana tvo og hraunflæðið frá þeim til suðurs.

Á bylgjuvíxlmynd sem sýnir aflögun frá 18. mars til 3. apríl sést að land hefur risið um 3 cm í Svartsengi á því tímabili. Það er töluvert hægara landris en mældist fyrir þau eldgos eða kvikuhlaup sem orðið hafa á síðustu mánuðum. Út frá GPS mælingunum á sama tímabili virðist hraði landrissins hafa verið breytilegur en erfitt getur verið að meta breytingar frá degi til dags út frá þeim. Ef horft er á GPS mælingar yfir allt tímabilið sem bylgjuvíxlmyndin sýnir sést að samræmi er í niðurstöðum beggja mælinga. Landris mælist í Svartsengi á meðan eldgosinu stendur en það hefur ekki sést í þeim atburðum sem hafa orðið á síðustu mánuðum á Sundhnúksgígaröðinni. Það er vísbending um að kerfið sé opið og kvika streymi áfram af miklu dýpi undir Svartsengi og þaðan til yfirborðs í Sundhnúksgígaröðinni.

Csk_reykjanes_A33-krysuvik_20240318-20240403_unw

Bylgjuvíxlmynd sem sýnir aflögun frá 18. mars til 3. apríl. Gulur og appelsínugulur litur sýnir svæði í kringum Svartsengi þar sem landris mælist.

Áfram mælast há gildi brennisteinsdíoxíðs í kringum eldgosið

Gasmælingar sem framkvæmdar voru á þriðjudaginn síðasta, 2. apríl, áætla að um 37 – 41 kg/s af SO2 flæði úr gígunum. Áfram mælast tímabundið há gildi brennisteinsdíoxíðs í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Gaslosun frá eldgosinu er líkleg til að valda mengun á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Veðurspá í dag (fimmtudag) er suðaustan og sunnan 8-13 m/s á gosstöðvunum og berst gasmengunin þá til norðvesturs og norðurs og gæti orðið vart við mengun í Vogum, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Austan 5-10 á morgun (föstudag) og berst mengunin þá til vesturs, m.a. yfir Svartsengi. Norðaustan 5-10 seint á morgun og berst mengunin þá til suðvesturs og mögulega yfir Grindavík um tíma. Gasdreifingarspá hér.

Gasdreifing04042024

Hættumat sem birt var 2. apríl er óbreytt og enn í gildi til 9. apríl að öllu óbreyttu.

 

Uppfært 2. apríl kl: 12:50

  • Eldgosið heldur áfram og eru nú tveir gígar virkir. Landris hefur ekki mælst síðustu daga
  • Undanfarið hafa kviknað gróðureldar í kringum hraunbreiðuna en það er viðvarandi hætta á meðan þurrt er í veðri.
  • Gasmengun berst til suðvesturs og síðar til vesturs og verður hennar líklega vart öðru hvoru í Grindavík og jafn vel í Höfnum. Hægt er að fylgjast með gasmengunarspá og loftgæðum.
  • Hraunjaðrar eru víða orðnir háir og getur glóandi hraun fallið úr hraunjaðrinum
  • Hættumat óbreytt

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram og nú eru tveir gígar virkir. Það slokknaði í þriðja gígnum um páskana, en hann var mun minni en hinir tveir. Gosórói er áfram stöðugur.

Landris í Svartsengi hefur ekki mælst síðustu daga sem bendir einkum til þess að kvikan safnist síður fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi en flæði frekar beint út um gosopin. Mögulega er komið á jafnvægi í aðstreymi kviku inn undir Svartsengi og upp úr gígunum, en jarðefnafræðimælingar gætu staðfest það á næstunni.

Sérfræðingar Landmælinga Íslands hafa unnið úr gervitunglagögnum frá 27. mars sem sýna að hraunbreiðan var þá 5,99 km2 og rúmmál hrauns frá upphafi gossins 25,7 ± 1,9 mill. m3. Meðalflæði hrauns frá gígunum á tímabilinu 20. - 27. mars var metið 7,8 ± 0.7 m3/s en það er mjög sambærilegt við hraunflæðið í fyrsta fasa eldgossins í Geldingadölum 2021. Stefnt er að því að taka loftmyndir af svæðinu á næstu dögum til að fá uppfærðar tölur um hraunflæði frá 27. mars sem myndu varpa skýrara ljósi á virkni gossins. Meðfylgjandi kort sýnir útbreiðslu hraunsins og þykkt þess eins og það var 27. mars.

Kort02042024

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt þess hrauns myndast hefur í eldgosinu sem nú stendur yfir. Fjólubláar þekjur sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

Gróðureldar í kringum hraunbreiðuna

Undanfarið hafa kviknað gróðureldar í kringum hraunbreiðuna en það er viðvarandi hætta á meðan þurrt er í veðri.

Hraunjaðrar eru víða orðnir háir og getur glóandi hraun fallið úr hraunjaðrinum og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða.

Síðustu daga hafa tímabundið mælst há gildi af brennisteinsvetni í Grindavík. Veðurspáin í dag (þriðjudag) er norðaustan og síðar austan 5-13 m/s á gosstöðvunum. Gasmengun berst því til suðvesturs og síðar til vesturs og verður hennar líklega vart öðru hvoru í Grindavík og jafn vel í Höfnum. Austan og suðaustan 3-10 m/s á morgun (miðvikudag) og gasmengun berst því til vesturs og norðvesturs og gæti mælst víða á vesturhluta Reykjaness, þ.á m. í Reykjanesbæ. Gasdreifingarspá er hér.

Hættumat óbreytt

Hættumat hefur verið uppfært og gildir frá kl: 15:00 í dag þangað til 9. apríl, að öllu óbreyttu. Engar breytingar eru á hættumatinu og áfram er hætta af völdum gasmengunar metin mikil á öllum svæðum nema Sundhnúksgígaröðinni (svæði 3) þar sem hún er metin mjög mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) og svæði 6 eru áfram metin mikil vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga, hraunflæðis og gasmengunar. 

Haettusvaedi_VI_2april_2024




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica