Janúarmánuður sá hlýjasti í sögu jarðar en í kaldara lagi á Íslandi
Samkvæmt yfirliti loftslagsþjónustu Evrópu, Copernicus, var janúar 2024 hlýjasti janúarmánuður frá upphafi mælinga þar sem meðalhiti mældist 13,14°C, eða 0,7°C yfir meðaltali tímabilsins 1991-2020 (mynd 1). Janúar 2024 var 1,66°C hlýrri en meðalhiti janúarmánaða á tímabilinu 1850-1900, tímabilsins fyrir iðnbyltingu.
Nýliðinn janúar er áttundi mánuðurinn í röð þar sem hitamet er slegið ef bornir eru saman sömu mánuðir annarra ára. Hnattrænn meðalhiti síðustu tólf mánaða (febrúar 2023-janúar 2024) mældist hærri en nokkurn tíma eða 1,52°C yfir meðaltali tímabilsins fyrir iðnbyltingu (1850-1900).
Meðalhitastig yfirborðs sjávar (mynd 2) fyrir janúar á hafsvæði utan heimskautsvæðanna (yfir 60°S–60°N) náði 20,97°C, sem er met fyrir janúar, eða 0,26°C hlýrra en fyrra met janúarmánaðar, árið 2016, og næsthæsta gildi fyrir hvaða mánuð sem er í ERA5 gagnasettinu, aðeins 0,01°C frá metinu frá ágúst 2023 (20,98°C.
Mynd 1 Hitafrávik í janúar 2024 í samanburði við
viðmiðunartímabilið 1991-2020. Gögn frá ERA5. Heimild: Copernicus Climate Change
Service/ECMWF.
Mynd 2: Meðal hitafrávik (°C) á
hafsvæði utan heimskautssvæðanna (60°N-60°S)
fyrir 2015 (blá lína), 2016 (gul lína), 2023 (rauð lína og 2024 (svört lína).
Öll önnur ár milli 1979 og 2022 eru sýnd með gráaum línum. Gögn frá ERA5 . Heimild:
Copernicus Climate Change Service/ECMWF.
Meðalhiti mjög breytilegur í Evrópu
Þegar meðalhiti á heimsvísu er langt yfir meðallagi á einhverju ákveðnu tímabili, má gera ráð fyrir því að það sé hlýrra en venjulega í stórum hluta heimsins og mjög hlýtt einhverjum ákveðnum stöðum. Á meðan eru þó alltaf einhver svæði kaldari, enda veðurfar langt frá því að vera einsleitt.
Í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar sem var birt fyrr í febrúar kemur fram að janúarmánuður hafi verið tiltölulega kaldur á Íslandi og hiti undir meðallagi á mest öllu landinu. Meðalhiti í Reykjavík í janúar var -0,1°C en það er 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991-2020 en 0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.
Það er því ljóst að þó svo að hiti sé langt yfir meðallagi á heimsvísu þá eru ekki methlýindi alls staðar. Meðalhiti janúarmánaðar hefur til að mynda verið mjög breytilegur í Evrópu. Það hefur verið kalt á Norðurlöndunum á meðan hiti hefur verið vel yfir meðallagi í suðurhluta Evrópu (sjá mynd 1).