Fréttir
Fannhvítur toppur Kaldbaks í Eyjafirði í byrjun júlí. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Haukur Hauksson)

Hversvegna hefur verið svona kalt á Íslandi í sumar ef gróðurhúsaáhrif eru að valda hnattrænni hlýnun?

7.8.2024

Í lok júlí 2024 tilkynnti loftslagsþjónusta Kópernikusaráætlunarinnar að 22. júlí hefði verið heitasti dagur á jörðinni síðan amk. 1940. Þessar niðurstöður byggja á ERA5 gagnasafninu og má telja nokkuð öruggar. Í ljósi þess að yfirborð jarðar er nú tæpri gráðu heitara en um miðbik síðustu aldar, og þá var hlýrra en verið hafði frá upphafi mælinga má leiða að því líkur að 22. júlí hafi verið heitasti dagur jarðar frá upphafi mælinga, og hugsanlega í mörg hundruð ár.

DailyTS_1950_2024

Myndin sýnir hnattrænan dagsmeðalhita í ERA5 gagnasafninu á tímabilinu 1950 til 2024. Rauð lína sýnir hitaferil fyrir árið 2023 og svört lína fyrir árið 2024. Svarta línan endar í síðustu viku júlímánaðar. Ef hún er skoðuð sést hámarkið sem átti sér stað 22. júlí.

Myndin hér að ofan sýnir vel að heitara er á jörðinni á síðustu áratugum en var upp úr 1950. Myndin sýnir einnig að árin 2023 og 2024 skera sig verulega úr. En þrátt fyrir óvenjuleg hlýindi þessi síðustu tvö ár er mikilvægt að hafa í huga að þau ná ekki yfir allan hnöttinn í einu.

Engin hitamet slegin á Íslandi á heitasta degi jarðar

Hvað veðurfar á Íslandi varðar er merkilegt að þrátt fyrir hnattræn hitamet héldu norðlægar áttir og svalsjór við Ísland hitanum hér á landi niðri.  Stórkvarða breytingar í sjávarstraumum og sjávarhita á Norður Atlantshafi í framtíðinni gætu haft álíka hitaþróun í för með sé, - að hnattrænnar hlýnunar gæti í minna mæli hér við land og á hluta Norður Atlantshafs, en þá hefði það líklega í för með sér ákafari hlýnun annarsstaðar.

Ef skoðuð er þróun dagshita á fjórum veðurstöðvum á landinu, vekur það athygli að dagurinn 22. júlí er ekki að slá hitamet á nokkurri stöðvanna.

Kvardar_Allir

Myndin sýnir þróun dagshita á fjórum veðurstöðvum umhverfis landið: Gufuskálum á Snæfellsnesi, Möðruvöllum í Eyjafirði, í Reykjavík og í Neskaupstað. Hitaferlarnir eru teiknaðir sem vik frá jafnaðarhita reiknuðum fyrir tímabilið 2001 til 2020. Rauðar súlur þýða að dagshitinn var yfir jafnaðarhita, blár að dagshitinn var kaldari.

Ef myndin fyrir Reykjavík hér að ofan er skoðuð sést að í sumar hafa flestir dagar verið kaldari en að jafnaði frá 2001 til 2020. Í Eyjafirði var kalt í vor og framan af sumri, en hlýindakafli í júlímánuði er áberandi. Á Gufuskálum er hlýindakaflinn í júlí þó ekki áberandi, en þar er hiti undir jafnaðarhita megnið af júní. Í Neskaupstað er hlýindakaflinn í júlí áberandi hlýr en ekki jafn langur og í Eyjafirði.

Hitavik22juli2024

Myndin sýnir hvar á yfirborði jarðar var óvenjuheitt og hvar var óvenjukalt þennan dag. Mestu munar fyrir hnattræna meðalhitann að heitt var í megninu af hitabeltinu. Vægi svæða í hnattrænu meðaltali fer eftir flatarmáli þess, og hitabeltið er helmingur yfirborðsflatarmáls jarðar. Vegna þessa hafa hitasveiflur við Suðurskautslandið lítil hnattræn áhrif (en þar voru sumsstaðar óvenjulegir hitar). Það er eftirtektavert að hiti er undir meðaltali í stórum hluta Rússlands og í austurhluta Norður-Ameríku. Svæðið umhverfis Ísland er nærri meðaltali og Ísland reyndar líka.

Draga má nokkurn lærdóm af þessari mynd hér að ofan. Þrátt fyrir að hún sýni heitasta dag sem mælst hefur, eru svæði sem eru kaldari en að meðaltali álíka áberandi og svæði sem eru heitari en meðaltalið. Í júlímánuði er sumar á Norðurhveli, og á svæðum sem eru hlýrri  en að meðaltali getur orðið óþægilega heitt. Þannig eru hitavikin á vesturströnd Norður-Ameríku hluti af þrálátum hitabylgjum sem hafa gengið yfir Bandaríkin í sumar, en hlýindi á suðurodda Suður-Ameríku eru dæmi um vetrarhlýindi á þeim slóðum. Hitabylgjur hafa orðið tíðari og umfangsmeiri á síðustu árum í takt við hlýnun jarðar.

Hitasveiflur á Íslandi eru oftast í takt við breytingar í hafi umhverfis landið

Það loft sem berst til Íslands af hafi er að meðaltali nærri yfirborðshita sjávar (kaldara að vetri en svipað að sumri), og fari það yfir óvenju kaldan sjó þá verður það kaldara en ella þegar það kemur til Íslands. Ef við viljum skilja það hversvegna sumarið er í kaldara lagi liggur því beint við að skoða sjávarhita.

SSTANO_in_SSTAnoJun2024

Meðalvik yfirborðshita sjávar í júní síðastliðnum. Augljóst er að umhverfis Ísland voru skilyrði frekar köld en Norður Atlantshafið var víðast frekar hlýtt.

Sjávarskilyrði eins og sjást á myndinni hér að ofan þessi breytast hægt, og júlímánuður var því svipaður júní.  Sjávarhitavikin ein sér segja þó ekki alla söguna, kuldakastið norðan lands snemma í júní  mátti rekja til þrálátra norðanátta og hafið norðan við landið kælir norðanvindinn nánast hvenær sem er. Eins voru hlýindin norðanlands í júlímánuði samfara sunnanátt og vætutíð sunnan og vestan til á landinu. Slíku veðri getur fylgt hnúkaþeyr á Norðurlandi og þá er jafnan hlýtt og þurrt. Þetta skýrir líka hversvegna hlýindanna gætti ekki í Reykjavík, þar var sunnan áttin köld eins og hafið.  Svalsjórinn við landið sem sjá má á myndinni benti því til þess að miklir sumarhitar á landinu væru ólíklegir- og í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar kemur fram að júnímánuður var tiltölulega kaldur á landinu öllu, en í júlí var hlýrra á Norðurlandi.

Ersst_diff_2011_20m1951_00

Þrátt fyrir hlýnun jarðar gæti orðið staðbundin kólnun á Norður Atlantshafi

Á síðustu árum hefur ítrekað gætt kólnunar á Norður-Atlantshafi á svæði suðvestan við Ísland. Myndin hér að ofan sýnir þetta svæði betur, en á öðrum áratug þessarar aldar hlýnaði víða í Norður-Atlantshafi, en suðvestan við Ísland kólnaði á stóru svæði.  Myndin er úr skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem kom út í nóvember 2023.  Hitafar á þessu svæði sveiflast milli ára og áratuga, en í vísindaskýrslunni kemur fram að þessi kólnun hefur verið rædd í samhengi við mögulegan samdrátt í veltihringrás Atlantshafsins (AMOC).

Veltihringrás Atlantshafsins (AMOC) flytur varma norður á bóginn og hækkar þannig meðalhita á Íslandi og víða um austurhluta Norður Atlantshafs (Sjá mynd 2.18 í kafla 2 í vísindaskýrslunni). Í skýrslunni kemur fram að þó þessi hringrás hafi verið frekar stöðug undanfarið séu blikur á lofti hvað varðar langtímastöðugleika hennar. Niðurstöður loftslagslíkana benda til þess að það dragi úr styrk hennar á öldinni, en lengi vel var talið mjög ólíklegt að hringrásin stöðvaðist algjörlega.

Rannsóknir síðustu ára hafa dregið úr vissu þessa mats og í síðustu skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) kemur fram að miðlungs vissa sé fyrir því að hringrásin stöðvist ekki fyrir aldamót.  Nánar má lesa um þessar niðurstöður í grein 2.3 í skýrslu vísindanefndar. Það kann að hljóma ógnvekjandi að þrátt fyrir hlýnun jarðar sé möguleiki á að truflun verði á varmaflutningi inn á hluta af Norður Atlantshafi sem gæti þá leitt til staðbundinnar kólnunar.  Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar  er  þetta vel mögulegt, en umfang breytinganna færi þó eftir því hversu mikil minnkun varmaflutningsins yrði sem ekki er alveg ljóst því önnur straumakerfi (m.a. það sem oft er kallað Golfstraumskerfið - eða Norður Atanshafsstraumurinn) flytja einnig hluta varmans.

Líkur þess að AMOC stöðvist, eða það dragi hratt úr hringrásinni fer eftir hlýnun jarðar sem er háð losun gróðurhúsalofttegunda. Verði dregið hratt úr þeirri losun verða stórar breytingar á AMOC ólíklegri.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica