Fréttir
Hlynur Sigtryggsson veðurstofustjóri á skrifstofu sinni í nýju húsi Veðurstofunnar að Bústaðavegi 9 í Reykjavík.
Hlynur Sigtryggsson veðurstofustjóri á skrifstofu sinni í nýju húsi Veðurstofunnar að Bústaðavegi 9 í Reykjavík.

Hlynur Sigtryggsson veðurstofustjóri

Aldarminning

5.11.2021

Í dag, 5. nóvember, eru 100 ár liðin frá fæðingu Hlyns Sigtryggssonar veðurstofustjóra.

Hlynur var fæddur á Núpi í Dýrafirði og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1942. Eftir eins árs nám við verkfræðideild Háskóla Íslands fór hann vestur um haf til Los Angeles og lauk meistaraprófi í veðurfræði frá University of California árið 1946. Heim kominn hóf hann strax störf á Veðurstofu Íslands sem veðurfræðingur við veðurspáþjónustu, en árið 1952 tók hann við starfi deildarstjóra flugveðurstofunnar á Keflavíkurflugvelli og gegndi því í rúm 11 ár. Um mitt ár 1963 tók hann við embætti veðurstofustjóra og gegndi því til starfsloka haustið 1989 eða í ríflega 26 ár. Hann var fulltrúi Veðurstofunnar og ríkisstjórnarinnar á ýmsum fundum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) allt frá 1950 til 1989.

Meðal áfanga í sögu Veðurstofunnar í stjórnartíð Hlyns má nefna að öll starfsemi hennar í Reykjavík sameinaðist undir einu þaki í nýju húsnæði við Bústaðaveg. Tölvuöldin hélt innreið sína og var Veðurstofan í þeim efnum á undan flestum öðrum stofnunum ríkisins. Með vexti þessarar starfsemi var sérstök deild stofnuð utan um hana. Veðurspár voru bættar og spáð var til lengri tíma en áður. Hafísmálin fengu samastað á stofnuninni á vettvangi hafísrannsóknadeildar. Þá var Veðurstofunni falið að annast snjóflóðavarnir og snjóflóðarannsóknir og með fjölgun verkefna og sérfræðinga varð þar úr sérstök deild. Ennfremur var á síðustu starfsárum Hlyns lagður grunnur að stafræna jarðskjálftamælikerfinu sem olli þáttaskilum við vöktun og rannsóknir.

Fjarskiptadeild

Á fjarskiptadeild Veðurstofunnar að Bústaðavegi 9 í Reykjavík skömmu eftir að flutt var í nýja húsið. Frá vinstri: Margrét Guðjónsdóttir aðstoðarmaður, Hlynur Sigtryggsson veðurstofustjóri, Geir Ólafsson, deildarstjóri fjarskiptadeildar, Valborg Bentsdóttir skrifstofustjóri, Jónas Jakobsson, deildarstjóri veðurspádeildar, Flosi Hrafn Sigurðsson, deildarstjóri áhaldadeildar, Markús Á. Einarsson, deildarstjóri veðurfarsdeildar, Knútur Knudsen veðurfræðingur og Sigríður Ólafsdóttir aðstoðarmaður.

Hlynur kom heim frá námi í Bandaríkjunum skömmu eftir síðari heimsstyrjöld með staðgóða menntun á sviði veðurfræði. Fræðilegt áhugasvið hans var hinsvegar mun víðfeðmara og náði einnig til margra annarra þátta náttúrufræði og raunvísinda. Bjó hann yfir yfirgripsmikilli þekkingu í mörgum þeirra greina. Þetta breiða áhugasvið hans lýsti sér í einlægum áhuga á fjölbreyttum viðfangsefnum stofnunarinnar og hafði hann í veðurstofustjóratíð sinni ánægju af að ganga um milli starfsmanna og fylgjast með daglegum störfum þeirra. Áhugi hans beindist ekki síst að rannsóknum en fljótlega verða umfangsmikil stjórnunarstörf hans meginskyldur. Þrátt fyrir þær annir sinnti hann rannsóknarstörfum nokkuð og ritaði allmargar greinar í tímarit, ekki síst um veðurfræði og hafís.

Hlynur var í hópi þeirra veðurfræðinga sem fyrstir fluttu veðurfregnir í sjónvarpi, en það hlutverk annaðist hann um 12 ára skeið frá 1967.

Hlynur Sigtryggsson lést 14. júlí 2005, 83 ára að aldri.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica