Fréttir
Mynd úr eftirlitsflugi í gær og sýnir hlaupvatn við brúna efst í Skaftárdal. (Ljósmynd: Veðurstofan/Benedikt G. Ófeigsson)

Hlaup í Skaftá

Rennsli heldur áfram að minnka. Gul viðvörun vegna úrkomu hefur verið gefin út fyrir flóðasvæðið.

10.9.2021

Uppfært 10.09. kl. 14.45

Hlaupið í Skaftá er enn í gangi, þó verulega hafi dregið úr rennsli og vatnhæð minnkað í árfarveginum.

Hlaupvatn er ennþá að dreifa sér um láglendið. Helstu merki þess eru að vatnshæð í Tungulæk sem kemur undan Eldhrauni er áfram hækkandi. Þó er ljóst að verulega hefur dregið úr áhrifum frá hlaupvatni á flóðasvæðinu. Áfram er þó hætta á gasmengun nálægt upptökum Skaftár.

Gul viðvörun hefur verið gefin út vegna úrkomu á flóðasvæðinu og tekur hún gildi seinnipart sunnudags. Spáð er talsverðri eða mikilli rigningu og búast má við vatnavöxtum í ám og lækjum. Áhrif úrkomunnar geta orðið meiri en ella á áhrifasvæði hlaupsins vegna hárrar vatnsstöðu í kjölfar þess.

Eldhraun_1009

Mynd tekin í morgun sem sýnir vatnsstöðuna við þjóðveg 1 þar sem hann liggur í gegnum Eldhraun. (Ljósmynd: Embætti lögreglustjórans á Suðurlandi)

Uppfært 9.9. 16:15

Áfram dregur úr rennsli Skaftár.  Rennsli við Sveinstind er komið niður fyrir 470m3/sek og rennsli við Eldvatn mælist um 370m3/sek.

Á þessu stigi hefur dregið úr líkum á því að hlaupvatn nái að flæða yfir þjóðveg 1. Vatnshæð í Tungulæk sem kemur undan Eldhrauni fer þó enn hækkandi (sjá kort hér að neðan) og því er ekki hægt að útiloka að hlaupvatn nái upp á þjóðveginn.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og meta frekari framgang hlaupsins.


Rauntíma eftirlitskort af Skaftá. Kortið sýnir staðsetningu vatnshæðamælis Veðurstofunnar í Tungulæk í Landbroti. (Merktur með rauðu)

Uppfært 9.9. kl. 8:30

Rennsli við Sveinstind heldur áfram að minnka og er nú komið niður fyrir 600m3/sek. Rennsli við Eldvatn hefur einnig farið minnkandi í nótt.

Enn er þó talsvert í það að rennsli í Skaftá nái jafnvægi og viðbúið er að hlaupvatn muni halda áfram að dreifa úr sér um láglendið á næstu dögum.


Uppfært 8.9. kl. 14:45

Rennsli við Sveinstind heldur áfram að lækka og er nú komið niður fyrir 1.000m3/sek. Rennsli við Eldvatn hefur einnig farið lækkandi og hámarksrennsli þar því verið náð.

Flóðið í árfarveginum er því í rénun, en viðbúið er að vatnið muni halda áfram að dreifa úr sér um láglendið á næstu dögum.


Uppfært 8.9. kl. 9:30

Dregið hefur úr rennsli Skaftár við Sveinstind og mælist það nú um 1.100m3/sek miðað við hámarksrennsli í gær upp á um 1.500m3/sek. Rennsli á mælinum við þjóðveg 1 mælist 600m3/sek og hefur svo til staðið í stað frá því í um miðnætti.

Sérfræðingar Veðurstofunnar fóru í eftirlitsflug yfir flóðasvæðið í gær til að kanna áhrif hlaupsins. Útbreiðsla hlaupsins nálægt jökli reyndist minni en í hlaupinu 2018 og er það í samræmi við að hámarksrennsli er einnig minna. Áhrif hlaupsins nærri byggð eiga ennþá eftir að koma í ljós þar sem hlaupvatn á ennþá eftir að skila sér niður farveg Skaftár.

Sérfræðingar munu hittast á samráðsfundi kl. 14 í dag til að fara betur yfir nýjustu gögn og meta hvert framhald hlaupsins verður.


Mynd sem sýnir hlaupvatnið koma undan jöklinum. Fyrir miðri mynd má sjá jaka á floti í farveginum. (Ljósmynd: Veðurstofan/Benedikt G. Ófeigsson)


Uppfært 7.9. kl. 15:40

Talsvert hefur hægt á vextinum í Skaftá við þjóðveg 1 það sem af er degi. Vatnshæðamælirinn við Eldvatn sýnir nú rennsli upp á rúma 560m3/sek. Það sama gildir um rennsli við Sveinstind sem mælist áfram rétt undir 1.500m3/sek.

Áætlað er að um 75 gígalítrar af hlaupvatni hafi komið fram við Sveinstind á fyrsta sólarhringi hlaupsins. Mælingar gefa til kynna að heildarrúmmál eystri ketilsins hafi verið um 260 gígalítrar áður en hljóp úr honum. Það má því áætla að aðeins um 1/3 heildarrúmmáls hlaupvatnsins sé nú þegar kominn fram við Sveinstind.

Hámarksrennsli við Sveinstind er lægra en í síðustu hlaupum úr eystri katlinum svo ætla má að núverandi hlaup komi til með að vara lengur. Hlaup sem varir lengur, ásamt hárri vatnsstöðu í upphafi hlaups, getur orsakað meiri útbreiðslu hlaupvatns í byggð.

Uppfært 7.9. kl. 9:40

Rennsli við Eldvatn í Skaftá hefur aukist jafnt og þétt frá því í gærkvöldi og mælist nú rúmlega 520m3/sek. Vatnshæðamælir við Sveinstind sýnir nú um 1.400m3/sek þegar tekið er tillit til þess að talsvert af hlaupvatni er farið að flæða framhjá mælinum líkt og í fyrri hlaupum. Mikið hefur hægt á vextinum frá því kl. 23 í gær. Þróun hlaupsins í nótt bendir til þess að hámarksrennsli hlaupsins nú verði minna en bæði 2015 og 2018. Hámarksrennsli hlaupsins 2018 var rúmir 2.000m3/sek.

Áfram er reiknað með að hlaupið komi til með að ná hámarki við þjóðveg 1 á morgun. Gera má ráð fyrir því að útbreiðsla hlaupsins komi til með að vaxa í byggð í sólarhring eða meira, eftir að hámarkrennsli er náð við Eldvatn. Íssjármælingar Jarðvísindastofnunar gefa til kynna að vatnsmagn hlaupsins úr eystri katlinum verði meira en 2018, því geta áhrif hlaupsins í byggð orðið svipuð og 2018, þrátt fyrir að hámarksrennsli nú verði mögulega minna. Við þetta bætist að hlaupið úr vestari katlinum og úrkoma að undanförnu gerir það að verkum að flóðasvæðið er mettað af vatni sem mun líklega auka útbreiðslu hlaupsins.

Hlaupið óx nokkuð hratt í fyrstu og var vöxturinn við Sveinstind fyrstu 12 tímana mun hraðari en áður hefur sést. Þessi hraði vöxtur í gær gaf tilefni til þess að hafa áhyggjur af því hversu stórt hlaupið yrði. Líklegasta skýringin á hröðum vexti er sú að hlaupið úr eystri katlinum kemur í kjölfar hlaups úr þeim vestari. Vatnið á því greiðari leið undir jöklinum. Við þetta bætist að hlaupið ýtir vatni sem fyrir er í farveginum úr vestari katlinum á undan sér.

Rennsli við Eldvatn í Skaftá hefur aukist jafnt og þétt frá því í gærkvöldi og mælist nú rúmlega 520m3/sek.


Uppfært 6.9. kl. 22.10

Um kl. 20 fór rennsli að aukast nokkuð hratt við Eldvatn í Skaftá og mælist nú rétt undir 240m3/sek. Fremsti hluti hlaupsins hefur því náð niður að þjóðvegi 1 um það leyti sem spár gerðu ráð fyrir.

Vatnshæðamælir við Sveinstind sýnir nú um 1.000m3/sek en gera þarf ráð fyrir að talsvert af hlaupvatni sé farið að flæða framhjá mælinum líkt og í fyrri hlaupum. Ef tekið er tillit til þess, má ætla að rennsli við Sveinstind sé nær 1.300m3/sek.

Frá því að hlaupvatn byrjaði að mælast við Sveinstind upp úr hádegi í dag jókst rennslið nokkuð hratt. „Þetta virðist vera að þróast dálítið hraðar núna en árið 2018”, sagði Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands í viðtali í sjónvarpsfréttum RÚV kl. 19 í kvöld. “Við vissum að hlaupið sem kom úr vestari katlinum myndi opna rásir undir jöklinum og að það gæti leitt til þess að þetta hlaup risi brattar og það virðist ætla að verða raunin“, segir Tómas.

Nú upp úr kl. 22 virðist aðeins hafa hægt á vextinum við Sveinstind. Ef hraðinn á vextinum er borinn saman við fyrri hlaup er hann mitt á milli þess sem sást 2018 og 2015.


Rennsli við Eldvatn um kl. 21 í kvöld, 6. september.

Uppfært 6.9. kl. 14:45

Rennsli og vatnshæð í Skaftá við Sveinstind hefur vaxið hratt frá því skömmu eftir hádegi. Um klukkan 14 rennslið komið í um 610m3/sek. Þetta er í takti við það sem sérfræðingar gerðu ráð fyrir um framgang hlaupsins. Enn er nokkuð í það að rennslið nái hámarki við Sveinstind, en hámarksrennsli flóðsins 2018 var um 2.000m3/sek og sú tala gerir ráð fyrir framhjárennsli sem mælirinn við Sveinstind nemur ekki.

Gera má ráð fyrir því að fyrstu merki hlaupsins komi fram við Eldvatn seint í kvöld


Myndin sýnir vatnshæð og rennsli við Sveinstind um kl. 14 í dag, 6. september.


Uppfært 6.9. kl. 8:55

Samkvæmt nýjustu mælingum má gera ráð fyrir að hlaupvatnið úr Eystri-Skaftárkatli nái niður að vatnhæðamæli við Sveinstind eftir um 10 klukkustundir. Miðað við fyrri hlaup nær það hámarki við Sveinstind rúmum 30 klukkustundum eftir það. Gera má ráð fyrir því að fyrstu merki hlaupsins komi fram við Eldvatn í nótt eða snemma í fyrramálið. Eftir það mun rennsli aukast jafnt og þétt og líklega ná hámarki við þjóðveg 1 síðla kvölds miðvikudag eða aðfaranótt fimmtudags.


Uppfært 5.9. kl. 11.45

GPS mælingar í Eystri-Skaftárkatli sýna að íshellan þar er farin að lækka. Það bendir til þess að rennsli úr lóninu sé hafið. Mælingar sýna að íshellan byrjaði að lækka um kl. 23 í gærkvöldi og hefur hún lækkað um tæpan 1 m frá þeim tíma. Búast má við að í heildina lækki íshellan um 60-100m. Þetta hlaup kemur í kjölfar hlaups úr vestari katlinum sem nú er í rénun.

Síðast hljóp úr Eystri-Skaftárkatli í ágúst 2018 og miðað við vatnsstöðuna í katlinum er líklegt að þetta hlaup verði ámóta stórt. Þá hljóp hinsvegar fyrst úr eystri katlinum og sá vestari fylgdi í kjölfarið. Hámarksrennsli hlaupsins 2018 var um 2.000m3/sek sem er fjórfalt hámarksrennsli í hlaupinu úr vestari katlinum sem nú stendur yfir.

Þegar vatn hleypur úr Skaftárkötlunum rennur það fyrst um 40 km leið undir jöklinum og síðan um 28 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmælinum við Sveinstind (sjá kort hér að ofan).  Ef miðað er við framgang hlaupsins 2018 má búast við að hlaupið sjáist á vatnshæðarmæli við Sveinstind á morgun, mánudaginn 6. september. Frá Sveinstindi tekur það hlaupvatnið tæpar 10 klst til viðbótar að ná vatnshæðarmæli í Eldvatni við Ása nærri hringveginum. Ef fram fer sem horfir mun hlaupvatn því ná að þjóðveginum annað kvöld.

Ámóta stórt og hlaupið 2018 en gæti dreift meira úr sér

Hlaupið núna úr vestari katlinum hefur hækkað grunnvatnsstöðu og getur því hlaupvatnið úr eystri katlinum dreift sér meira um flóðasvæðið en 2018. Við þetta bætist að talsverð úrkoma hefur einnig verið á svæðinu undanfarinn sólarhring.

Náttúruvárvakt Veðurstofunnar fylgist náið með þróun atburðarins og sendir frá sér nánari upplýsingar eftir því sem líður á atburðinn.


Mælingar sýna að íshellan byrjaði að lækka um kl. 23 í gærkvöldi og hefur íshellan lækkað um tæpan 1 m frá þeim tíma. Búast má við að íshellan lækki í heildina um 60-100m. Hér má sjá stöðuna á lóðréttu færslunni.

Möguleg vá:

Það er mikilvægt að íbúar og allir þeir sem leið eiga um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem upp geta komið og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá:

  • Næstu daga er mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.
  • Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
  • Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.

Uppfært 3.9. kl. 15:15

Rennsli hefur farið hægt minnkandi í Skaftá við Sveinstind síðustu klukkustundir og mældist klukkan 14.30 um 412 rúmmetrar á sekúndu. Rennslið náði hámarki á miðnætti aðfaranótt 2. september og var þá um 520 rúmmetrar á sekúndu.

Miðað við framgang hlaupsins og fyrri hlaup úr vestari katlinum má gera ráð fyrir að hlaupvatn verði áfram í Skaftá næstu daga og rennslistölur háar miðað við árstíma.


Uppfært 2.9. kl. 9.40

Rennsli hefur verið nokkuð stöðugt í Skaftá við Sveinstind síðustu klukkustundir og mælist nú um 520 rúmmetrar á sekúndu. Ekki er ólíklegt að hlaupið hafi náð hámarki ef horft er til fyrri flóða úr vestari katlinum.

Eins og myndin hér að neðan sýnir er rennsli að aukast smám saman neðar í ánni en vanalega tekur hlaupvatnið um 8-10 klst. að berast milli mælis við Sveinstind og mælis í Eldvatni við Ása.

Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á Kirkjubæjarklaustri á loftgaedi.is

Rennsli_0209

Rennsli er að aukast smám saman neðar í ánni en vanalega tekur hlaupvatnið um 8-10 klst. að berast milli mælis við Sveinstind og mælis í Eldvatni við Ása.


Uppfært 1. september

Rafleiðni í Skaftá hefur hækkað jafnt og þétt síðustu tvo sólarhringa og vatnshæð árinnar við Sveinstind aukist síðustu klukkustundir. Einnig hafa borist tilkynningar um brennisteinslykt í nágrenni Skaftár og Hverfisfljóts. Ekki er talið að leysing á jökli eða úrkoma valdi þessum breytingum heldur benda þessar athuganir til þess að Skaftárhlaup sé hafið. Gögn gefa til kynna að upptök hlaupsins séu í Vestari-Skaftárkatli. Síðast hljóp úr katlinum í september 2019 en hlaupin úr vestari katlinum eru að jafnaði minni en hlaupin úr þeim eystri.

Rennsli við Sveinstind var um 290 m3/s kl. 12 en búist er við að hámarksrennsli í þessu hlaupi fari ekki yfir 750 m3/s. Þó er ekki útilokað að vatn hlaupi úr Eystri-Skaftárkatli í kjölfarið líkt og gerðist í ágúst 2018.

Samráðsfundur verður haldinn á Veðurstofunni kl. 14 þar sem farið verður nánar yfir þróun mála.

Rennsli_Skafta_01092021

Rennsli við Sveinstind var um 290 m3/s kl. 12 en búist er við að hámarksrennsli í þessu hlaupi fari ekki yfir 750 m3/s.

Rafleidni_Skafta_01092021

Rafleiðni í Skaftá hefur hækkað jafnt og þétt síðustu tvo sólarhringa.

Möguleg vá:

Það er mikilvægt að íbúar og allir þeir sem leið eiga um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem upp geta komið og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá:

  • Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.
  • Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
  • Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.

Alls er vitað um 58 hlaup í Skaftá

Skaftárkatlarnir eru tveir, eystri og vestari, og eru í vestanverðum Vatnajökli. Þeir myndast þar vegna jarðhita sem bræðir jökulbotninn og vatns sem safnast þar saman. Þegar vatnsþrýstingur er orðinn það hár að farg jökulsins nær ekki að halda aftur af því hleypur það undan kötlunum. Hlaup úr Eystri-Skaftárkatli eru að jafnaði stærri en hlaupin úr Vestari katlinum. Skaftárhlaup eins og þau koma fram í dag hófust árið 1955 en síðan þá er vitað um 58 jökulhlaup í Skaftá. Að jafnaði hleypur úr hvorum katli fyrir sig á tveggja ára fresti.  

Hér er hægt að nálgas Handbók um viðbragðsáætlun vegna Skaftárhlaup

Hér er hægt að lesa meira um hættumat vegna jökulhlaupa í SkaftáAðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica