Fréttir
Frá Grímsvatnahlaupi 2010. Brúin á Gígjukvísl úr norðaustri þann 3. nóvember.

Veðurstofan fylgist náið með Grímsvötnum

17.8.2020

Uppfært 17.08. 

Sérfræðingar Veðurstofunnar, ásamt sérfræðingum frá Almannavörnum fóru í leiðangur í Grímsvötn með þyrlu Landhelgisgæslunnar í gær, sunnudag. Markmiðið með leiðangrinum var að kanna ástand mælitækja sem staðsett eru á jöklinum. GPS mælir á íshellunni hafði sýnt að hún væri að síga sem gat verið merki um að hlaup væri hafið. Þegar önnur mælitæki sýndu að vatnshæð og rafleiðni í Gígjukvísl væru eðlileg miðað við árstíma var nokkuð ljóst að hlaup var ekki hafið. Í framhaldinu var ákveðið að kanna ástand mælitækja sem staðsett eru á jöklinum.

„Það voru óvenju mikil hlýindi á jöklinum á fimmtudag og föstudag þannig að okkur grunaði að mælitækin hefðu færst úr stað vegna bráðnunar. Það kom svo í ljós þegar að við lentum á jöklinum að staurinn sem mælitækin eru fest á var tekin að halla vegna bráðnunar, sem gaf því falskt merki um að íshellan væri að síga“, segir Benedikt G. Ófeigsson, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sem var einn af leiðangursmönnum. „Við festum staurinn tryggilega og ætti það að duga út haustið. Svo þarf að fínpússa sambandið við mælinn, sem ætti þá að vera komin í samt lag síðar í vikunni“.

Eins var vefmyndavél komið fyrir á Grímsfjalli sem beint er að öskjunni.  Sérfræðingar Veðurstofunnar gerðu einnig gasmælingar sem unnið verður úr í dag.

Mikilvægt að taka vísbendingar um hlaup alvarlega

„Við vöktun á náttúru Íslands þurfum við alltaf að horfast í augu við það að mælitæki geta gefið „falskt merki“ eins og við köllum það og atburðarrás helgarinnar er dæmi um slíkt. En það er mikilvægt að halda því til haga að við eigum von á hlaupi úr Grímsvötnum og því mikilvægt að vera á tánum gagnvart vísbendingum um að hlaup sé hafið“, segir Benedikt.


Ný hola var boruð í jökulinn til að festa staurinn tryggilega. Greinilegt er að mikil bráðnun á jöklinum varð til þess að mælitækið tók að halla umtalsvert. (Ljósmynd: Veðurstofan/Benedikt G. Ófeigsson


Bergur og Benedikt við staurinn eftir að hann var réttur af og festur tryggilega. GPS mælirinn til vinstri, hægra megin er vindrafstöð sem knýr mælitækið. Askjan í Grímsvötnum í baksýn. 

(Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Ólafsson)


Uppfært 15.08. kl. 12.20

GPS gögn frá Grímsvötnum eru aftur farin að sýna hækkun á íshellunni síðusta sólarhringinn. Mælingar við Gígjukvísl, þar sem vatn frá Grímsvötnum kemur fram undan jökli, sýnir að rafleiðni og vatnshæð er eðlileg m.v. árstíma. Ekki hefur orðið vart við hlaupóróa á jarðskjálftamælum. Því benda gögn ekki til þess að hlaup sé hafið.

Vísindaráð Almannavarna kom saman í gær þar sem GPS gögn frá yfirborði íshellunnar sýndu að hellan hafði hætt að rísa, sem getur verið merki um að hlaup sé hafið. Hellan hóf að rísa að nýju seint í gær. Að öllu jöfnu rís íshellan nokkuð stöðugt á þessum árstíma. Ekki er hægt að fullyrða á þessu stigi hvað veldur þessum sveiflum í mælingum. Því gera sérfræðingar Veðurstofunnar ráð fyrir að fara í eftirlitsflug á morgun, sunnudag, með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Gerðar verða gasmælingar við Grímsvötn ásamt því að kanna ástand mælitækja á staðnum, en Veðurstofan er með fjölmörg mælitæki sem vakta Grímsvötn allan sólarhringinn.

Veðurstofan heldur áfram að fylgjst náið með þróun mála.

Frétt frá 14.08.

GPS mælar sem staðsettir eru við Grímsvötn sýna örlítið sig sem getur þýtt að vatn sé farið að hlaupa fram. Sigið sem mælist er þó mjög lítið og gæti verið óvissa í mælitækjum. Ekki er því hægt að staðfesta með vissu að hlaup sé hafið úr Grímsvötnum. Vísindaráð Almannavarna fundaði nú í morgun og fór yfir gögn úr mælitækjum sem vakta Grímsvötn. Engin merki eru um hlaupvatn í Gígjukvísl og enn á eftir að staðfesta hvort rafleiðni  hafi aukist sem að jafnaði er skýrt merki um að hlaup sé hafið. Eins sjást engin merki á jarðskjálftamælum um að hlaupvatn sé að brjótast fram.

„Það eru ákveðnar vísbendingar um það að það sé vatn farið að leka úr Grímsvötnunum. Hvort hlaup sé að hefjast akkúrat núna getum við ekki alveg sagt til um strax. Þetta gerist hægt. Og við viljum aðeins fá að vera viss í okkar sök áður en við lýsum því yfir,“ segir Kristín Jónsdóttir fagstjóri jarðvár á Veðurstofu Íslands í samtali við fréttastofu RÚV. Það mun skýrast á næstu dögum með frekari gögnum t.d. með vísbendingum um hraðara sig, síðan auknu vatnsrennsli og aukinni rafleiðni. Þegar hlaup hefst úr Grímsvötnum tekur það hlaupvatnið alla jafna 3 til 5 daga að brjótast fram undan jökli.

Sérfræðingar Veðurstofunnar gera ráð fyrir að fara í eftirlitsflug á sunnudaginn með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Gerðar verða gasmælingar við Grímsvötn ásamt því að kanna ástand mælitækja á staðnum, en Veðurstofan er með fjölmörg mælitæki sem vakta Grímsvötn allan sólarhringinn.

Vísindaráð Almannavarna fundaði um stöðuna í Grímsvötnum fyrr í sumar og setti fram sviðsmyndir sem eru ennþá í gildi. Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs geti hleypt af stað gosi. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. 

Vísindaráð Almannavarna hefur verið boðað aftur til fundar á morgun.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica