Fréttir
Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands og Veðurstofan skerpa samstarfið

28.9.2016

Háskóli Íslands og Veðurstofa Íslands hafa endurnýjað samstarfssamning sinn um kennslu og rannsóknir og um leið skerpt og víkkað út samstarfið fyrir öll fagsvið Veðurstofunnar. Fagnefndum á sviðum eins og veðurfræði, jarðeðlisfræði og verkfræði er ætlað að útfæra samstarfið og fylgjast með árangri.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, undirrituðu samninginn í Aðalbyggingu mánudaginn 26. september. Báðir lögðu áherslu á mikilvægi samstarfs Háskólans og Veðurstofunnar við undirritunina. Samningurinn tekur við af eldri samningi frá árinu 2008 en stofnanirnar hafa átt í margvíslegu samstarfi í rúman aldarfjórðung.
Tilgangurinn með gerð samningsins er m.a. að nýta sem best sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu sem Háskólinn og Veðurstofan búa yfir. Þannig er ætlunin að styrkja faglega hæfni og nýliðun í náttúruvísindagreinum og efla kennslu í greinum er tengjast starfssviðum Veðurstofunnar.

Mikilvægur þáttur í samstarfinu er að stuðla að framgangi vísindarannsókna innan Háskólans í greinum sem tengjast starfssviðum Veðurstofunnar og hagnýta þá þekkingu sem vísindarannsóknirnar skila. Veðurstofan mun leiðbeina nemendum Háskóla Íslands í skilgreindum verkefnum og gera starfsmönnum stofnunarinnar kleift að kenna og leiðbeina nemendum Háskólans í fræðilegri og verklegri kennslu.

""Sérstök samstarfsnefnd, skipuð tveimur fulltrúum frá hvorri stofnun, mun sjá um framkvæmd samningsins. Hlutverk hennar er m.a. að setja fram áætlun um samvinnu fyrir hvert háskólaár í samræmi við markmið samningsins og hlutverk samningsaðila.

Samstarfsnefndin mun einnig skipa sérstakar fagnefndir um meginfagsvið samningsins, svo sem um veðurfræði, jarðeðlisfræði (þ.m.t. jarðskjálftafræði, eldfjallafræði, haffræði og jöklafræði) og verkfræði (þ.m.t. straumfræði, vatnafræði, og auðlinda- og orkufræði). Fagnefndirnar munu fjalla um sameiginleg rannsóknaverkefni og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna og nám og kennslu í grunn- og framhaldsnámi í áðurnefndum greinum í Háskóla Íslands.

Dagleg umsjón og eftirlit með framkvæmd samningsins er í höndum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og skrifstofu forstjóra Veðurstofunnar.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica