Fréttir
Ofan húsanna sem nú eru rýmd er varnargarðurinn Stóri-Boli. Hann var reistur árin 1998-1999 og hafa mörg snjóflóð fallið á hann síðan þá.

Hættustigi á Ísafirði aflétt. Óvissustig enn í gildi. Vegfarendur og ferðalangar ættu að hafa varann á ef farið er um svæði þar sem snjóflóð geta fallið

24.1.2021

Uppfært 25.01. kl. 10.15

Ákveðið hefur verið að aflétta rýmingu atvinnuhúsnæðis á reit 9 á Ísafirði. Dregið hefur úr úrkomu og vindi en enn má búast við NA-strekkingi og éljum næsta sólarhring.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er enn í gildi á norðanverðum Vestfjörðum. Í gær er vitað um nokkur snjóflóð á norðanverðum Vestfjörðum. Í gærmorgun féllu flóð úr Skollahvilft og í Syðridal inn af Bolungarvík og seinna um daginn féllu tvö flóð yfir Flateyrarveg á Hvilftarströnd. Ekki er vitað um fleiri snjóflóð á svæðinu frá þeim tíma.

Flóðin sem fallið hafa síðustu daga benda til þess að snjóalög séu óstöðug. Vegfarendur og ferðalangar ættu því að hafa varann á ef farið er um svæði þar sem snjóflóð geta fallið. Spáð er vaxandi ANA-átt í kvöld og á morgun og þá má búast við að snjó skafi á nýja staði.


Uppfært 24.01. kl. 17.00

Ákveðið hefur verið að aflétta rýmingu húsa á sunnanverðum Siglufirði sem rýmd voru í öryggisskyni á miðvikudag vegna snjóflóðahættu. Dregið hefur úr veðrinu frá því í gær og á föstudag og minni úrkoma hefur mælst á sjálfvirkum úrkomumælum. Vindur fyrir Norðurlandi hefur jafnframt snúist meira til austurs en það er talið draga úr hættu á snjóflóðum úr Hafnarfjalli.

Áfram er hætta af völdum snjóflóða þar sem snjóalög kunna enn að vera óstöðug, m.a. sunnan við leiðigarðinn Stóra-Bola, þó rýmingu húsa neðan garðsins hafi verið aflétt. Þar þarf að sýna sérstaka aðgæslu.

Einnig er tilefni til þess að árétta að óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi er enn við líði. Stór snjóflóð hafa fallið undanfarna daga á Tröllaskaga, m.a. við Smiðsgerði í austanverðum Skagafirði, á Öxnadalsheiði og á Ólafsfjarðarveg, síðast núna í morgun þegar snjóflóð féll yfir veginn um Öxnadalsheiði. Vegfarendur og ferðalangar þurfa því að hafa varann á þegar þeir fara um svæði þar sem snjóflóð geta fallið.

Hér er hægt er að kynna sé spá um snjóflóðahættu á utanverðum Tröllaskaga og svo á norðanverðum Vestfjörðum.


Uppfært 24.01. kl. 13.50

Ákveðið hefur verið að aflétta rýmingu húsa á Flateyri sem rýmd voru í öryggisskyni í gær vegna snjóflóðahættu. Heldur hefur dregið úr veðrinu frá því í gærkvöldi og minni úrkoma hefur mælst á sjálfvirkum úrkomumælum á svæðinu. Snjódýpt í upptakasvæðum ofan Flateyrar hefur ekki aukist umtalsvert síðan í gær.

Í morgun sást að snjóflóð hafði fallið úr Innra-Bæjargili á Flateyri í nótt og snjóflóð sást falla úr Skollahvilft um kl. 10. Flóðið úr Skollahvilft féll niður með leiðigarðinum ofan byggðarinnar og stöðvaðist skammt utan við veginn að Sólbakka. Flóðið úr Innra-Bæjargili féll niður undir ytri varnargarðinn en náði ekki niður með honum. Lítil snjóflóð hafa fallið úr Innra-Bæjargili og Skollahvilft í morgun og er áfram talin hætta af völdum snjóflóða utan við garðana þó rýmingu húsa neðan garðanna hafi verið aflétt. Einnig er tilefni til að árétta að óvissustig vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum er enn við líði og rýmingu nokkurra atvinnuhúsa undir Seljalandshlíð á Ísafirði hefur ekki verið aflétt. Vegfarendur og ferðalangar þurfa því að hafa varann á þegar þeir fara um svæði þar sem snjóflóð geta fallið.

Í nótt féll snjóflóð á veginn um Eyrarhlíð, milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Vegurinn var opinn með óvissustigi um snjóflóðahættu en var lokað í kjölfarið. Snjóflóð féll einnig síðla dags í gær eða í nótt á veginn um Bjarnadal í Önundarfirði á leiðinni upp á Gemlufallsheiði en hann hafði verið lokaður síðan í gær. Í gærmorgun féll allsstórt snjóflóð yfir Flateyrarveg um Selabólsurð.

Búist er við NA-strekkings vindi og éljum í dag og á morgun og verður áfram fylgst með aðstæðum. Óvissa er um hversu mikil ofankoma verður í éljaganginum næstu tvo sólarhringa en það ræður miklu um hversu mikil snjóflóðahættan skapast á hverjum stað.


Uppfært 24.01. kl. 11.10

Í morgun sást að snjóflóð hafði í nótt fallið úr Skollahvilft ofan Flateyrar, niður með leiðigarðinum ofan byggðarinnar og stöðvast skammt utan við veginn að Sólbakka. Unnið er að könnun á ummerkjum flóðsins.

Í gær kom í ljós snjóflóð sem féll ofan við bæinn Smiðsgerði í Skagafirði. Flóðið tók skúr sem stóð um 250 m ofan við bæinn. Ekki er vitað með vissu hvenær flóðið féll en talið líklegt að það hafi fallið í snemma i gær.

Í nótt féll snjóflóð á veginn um Eyrarhlíð, milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Vegurinn var opinn með óvissustigi um snjóflóðahættu en var lokað í kjölfarið.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er á Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum. Í gær voru nokkur íbúðarhús rýmd á Flateyri og reitur 9 á Ísafirði sem er atvinnuhúsnæði. Rýming á nokkrum íbúðarhúsum á Siglufirði er enn í gildi.

Óvissa er um hversu mikil úrkoma verður í éljaganginum dag og á morgun í þessu veðri en það ræður miklu um hversu mikil snjóflóðahættan er á hverjum stað. Heldur hefur dregið úr veðrinu frá því í gærkvöldi og minni úrkoma mælst á flestum sjálfvirkum úrkomumælum. Á Flateyri dró úr úrkomu í gærkvöldi og þar hefur lítil úrkoma mælst síðan þá og snjódýpt í upptakasvæðum ofan bæjarins ekki aukist. Enn gengur þó á með dimmum éljum og skafrenningi víða á landinu. Á Austfjörðum hefur verið talsverð snjókoma í norðan- og norðaustan átt en ekki er talið að mikill snjór hafi safnast í helstu upptakasvæði snjóflóða ofan byggðar. Í dag á samkvæmt spánni að draga úr úrkomu á Austfjörðum. Hefur þetta langvarandi norðanveður nú staðið hátt í viku en spár gera ráð fyrir að heldur eigi að lægja á landinu. Áfram má þó búast við NA-strekkings vindi og éljum í dag og á morgun og verður fylgst með aðstæðum.


Uppfært 23.01. kl. 16.30

Ákveðið hefur verið að rýma fjögur íbúðarhús og eitt atvinnuhúsnæði á Flateyri vegna snjóflóðahættu og tekur rýmingin gildi í kvöld. Mikið hefur snjóað á Flateyri síðasta sólarhringinn og skafið til fjalla í NA-átt. Húsin sem um er að ræða standa næst varnargarðinum. Í janúar í fyrra féllu mjög stór snjóflóð á varnargarða ofan Flateyri og fóru að hluta til yfir þá. Eftir það hefur verið unnið að endurskoðun á virkni leiðigarða á fleiri stöðum. Líkt og á Siglufirði, er rýmingin nú því varúðarráðstöfun sem tekur mið af bráðabirgðarýmingarkorti. Þess má geta að ávallt hefur verið gert ráð fyrir rýmingu undir varnargörðum við allra verstu aðstæður.

Ákveðið var að rýma reit 9 á Ísafirði í morgun, þar sem er atvinnuhúsnæði. Áður hafði verið tryggt að húsin væru mannlaus eftir að vinnu lauk í gær.

Nokkur flóð hafa fallið í Skutulsfirði í gær og í nótt. Þá féll nokkuð stórt snjóflóð úr Selabólsurð yfir Flateyrarveg í morgun. Einnig féll flóð í Hádegisfjalli í Syðridal inn af Bolungarvík, líklega síðdegis í dag.

Það hefur verið snjókoma með köflum síðan á laugardag fyrir viku og töluverð snjósöfnun síðasta einn og hálfa sólarhringinn í NA-átt. Ekki hefur verið aftakaveður, en snjóflóðahætta hefur byggst upp vegna langvarandi snjósöfnunar og skafrennings í marga daga í sömu vindátt. Spáð er svipuðu veðri fram eftir sunnudegi og síðan hægari NA-átt fram á mánudag með snjókomu.


Uppfært 23.01. kl. 11.15

Rýming vegna snjóflóðahættu er enn í gildi á Siglufirði og óvissustig á Norðurlandi.

Hættustig er á Ísafirði og óvissustig á norðanverðum Vestfjörðum vegna snjóflóðhættu.

Ákveðið hefur verið að rýma reit 9 á Ísafirði, þar sem er atvinnuhúsnæði. Áður hafði verið tryggt að húsin væru mannlaus eftir að vinnu lauk í gær. Nokkur flóð hafa fallið í Skutulsfirði í gær og í nótt, þar af þrjú ofan þessara húsa. Ekkert þessara snjóflóða hefur verið mjög stórt. Sorpmóttaka í Funa er einnig lokuð vegna snjóflóðahættu.

Spáð er áframhaldandi norðan- og norðaustanáttum með skafrenningi og éljagangi fram yfir helgi og því má búast við því að snjóflóðahætta verði viðvarandi næstu daga.


Uppfært 22.01. kl. 9.40

Staðan á rýmingum á Siglufirði verður endurmetin nú þegar birtir af degi, en veðurspár gera ráð fyrir meiri úrkomu eftir hádegi og enn verra veðri á morgun laugardag.

Vegna snjósöfnunar, veikra snjóalaga og veðurspár framundan var ákveðið að rýma nokkur hús undir Strengsgiljum á Siglufirði á miðvikudag vegna snjóflóðahættu. Húsin sem rýmd voru eru undir varnargarðinum Stóra-Bola sem reistur var 1998-99. Síðan þá hafa mörg snjóflóð fallið á hann og garðurinn hefur bægt þeim frá byggðinni. Í janúar í fyrra féllu mjög stór snjóflóð á varnargarða ofan Flateyri og fóru að hluta til yfir þá. Eftir það hefur verið unnið að endurskoðun á virkni leiðigarða á fleiri stöðum. Fyrstu niðurstöður fyrir Stóra-Bola undir Strengsgiljum gefa til kynna að ef mjög stór flóð falla á garðinn geti gefið yfir hann. Rýmingin nú er því varúðarráðstöfun sem tekur mið af bráðabirgðarýmingarkorti. Þess má geta að ávallt hefur verið gert ráð fyrir rýmingu undir varnargörðum við allra verstu aðstæður.

Spáð er áframhaldandi norðan- og norðaustanáttum með skafrenningi og éljagangi fram yfir helgi og því má búast við því að snjóflóðahætta verði viðvarandi næstu daga.


Færsla frá 20.01.2021

Ákveðið hefur verið að rýma nokkur hús undir Strengsgiljum á Siglufirði vegna snjóflóðahættu. Mörg snjóflóð hafa fallið í dag og síðustu daga á svæðinu frá Siglufirði og inn að Dalvík. Meðal annars féll stórt snjóflóð á skíðasvæðinu á Siglufirði og skemmdi skíðaskálann þar.

Ofan húsanna sem nú eru rýmd er varnargarðurinn Stóri-Boli. Hann var reistur árin 1998-1999 og hafa mörg snjóflóð fallið á hann síðan þá. Rýmingin nú er varðúðarráðstöfun þar sem að við verstu aðstæður getur hluti stórra snjóflóða farið yfri varnargarða eins og sýndi sig þegar snjóflóð fóru yfir varnargarða á Flateyri fyrir rúmu ári síðan.

Stíf N-læg átt með snjókomu hefur verið síðan á mánudag og talsverð úrkoma hefur mælst á annesjum Norðanlands. Á mánudag féll snjóflóð yfir Ólafsfjarðarveg og lokaði honum en í gær sáust talsvert stór snjóflóð úr Ósbrekkufjalli í Ólafsfirði og féll eitt þeirra fram í sjó.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Norðurland eystra vegna aukinnar snjókomu, mest á Tröllaskaga með líkum á samgöngutruflunum vegna færðar, einkum á fjallvegum. Búist er við stífri N- og NA átt með snjókomu og éljum fram yfir helgi.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica