Fréttir
Úr vefmyndavél á Veðurstofuhæðinni kl. 8.40 í morgun. Gosmóðan sést vel í átt að Faxaflóa.
1 2
fyrri

Gosmóða mjög sýnileg en mælist ekki á gasmælum

21.5.2021

Í gær og í dag hefur gráblá móða legið yfir víða sunnan- og vestanlands. Þetta er gosmóða frá eldgosinu á Reykjanesskaga. Gosmóðan er samsett úr brennisteinsögnum (SO4) sem hafa orðið til vegna efnahvarfa gosmakkarins við súrefni andrúmsloftsins. Þessar brennisteinsagnir mælast ekki á SO2 gasmælum en sjást hins vegar sem gráblá móða þegar ákveðnum styrk er náð. Hækkun á örfínu svifryki (PM1) getur verið vísbending um að SO4 sé til staðar. Mælistöðvar sem mæla örfínt svifryk (PM1) eru við Vesturbæjarlaug, við Bústaðaveg í Reykjavík, við Dalsmára í Kópavogi og á Keflavíkurflugvelli.

Það er háð veðuraðstæðum hvort gosmóða er til staðar eða ekki, þar sem það tekur tíma fyrir hana að myndast. Sem dæmi má nefna að í ákveðinni suðvestanátt berst gasmengun til höfuðborgarsvæðisins á minna en einni klukkustund og er það ekki nægur tími til að mynda gosmóðu. Aftur á móti í hægri breytilegri átt er hugsanlegt að það taki gosefni einhverja klukkutíma, jafnvel daga, að berast þessa vegalengd. Hraði efnahvarfsins er háður ýmsum umhverfisþáttum, m.a. sólgeislun og lofthita þannig að hvarfið gengur hraðar fyrir sig að sumri til heldur en í myrkri og kulda að vetri til.

Mikilvægt að vera á varðbergi þegar gosmóða er sýnileg

Í dag og yfir hvítasunnuhelgina er spáð hægri breytilegri átt suðvestanlands, einkum á sunnudag og mánudag, og viðbúið að gosefni dreifist þá víða um sunnan - og vestanvert landið. Rétt er að benda á að við slíkar veðuraðstæður eru spár um gasmengun ekki eins áreiðanlegar og þegar vindur er ákveðnari. Samkvæmt leiðbeiningum Umhverfisstofnunar og sóttvarnalæknis um viðbrögð við loftmengun frá eldgosum, sem sjá má inn á loftgaedi.is , er ekki ráðlagt að láta ungabörn sofa úti í vagni þegar styrkur SO2 fer yfir 20 µg/m3. Þegar gosmóða er mjög sýnilega og skyggni skert er heldur ekki hægt að mæla með því að ungabörn sofi út í vagn, jafnvel þótt gildi SO2 séu lægri. Mjög viðkvæmir einstaklingar, t.d. fólk með slæman astma eða aðra lungnasjúkdóma, geta líka fundið fyrir heilsufarsáhrifum ef gosmóða er greinileg, jafnvel þótt SO2 mælist ekki hátt. Eins er rétt að sýna varúð við íþróttaiðkun utandyra, því við áreynslu getur öndun verið 3 til 5 falt meiri en venjulega.

Sentinel5p_so2-18-20_05

Gosmengun í andrúmslofti sést vel á gervihnattamyndum. Hér er samanburður á dreifingu gosmóðunnar 18., 19. og 20. maí.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica