Fréttir
Stefan_GG_1
Dr. Stefan Rahmstorf, prófessor í hafeðlisfræði við Potsdam stofnunina í Þýskalandi, afhenti Guðlaugi Þór Þórðarssyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra bréfið til Norrænu ráðherranefndarinnar á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu í dag. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Halldór Björnsson)

Loftslagsrannsóknir benda til þess að líkur á breytingum á hringrás hafstrauma Atlantshafsins hafi verið stórlega vanmetnar

Vísindamenn kalla eftir auknum þunga í aðgerðum til að forðast óafturkræfar breytingar í Norður Atlantshafinu. Bréf frá 44 vísindamönnum í 15 löndum var afhent Norrænu ráðherranefndinni á ráðstefnunni Arctic Circle í dag

19.10.2024

Núverandi losun gróðurhúsalofttegunda eykur hnattræna hlýnun en gæti leitt til óafturkræfra breytinga á hafstraumum sem hefðu staðbundna kólnun umhverfis Norður Atlantshafið í för með sér.

Loftslagsrannsóknir síðustu ára benda til þess að hingað til hafi líkur á breytingum á hringrás hafstrauma Atlantshafsins verið stórlega vanmetnar.  Þessir hafstraumar flytja varma norður á bóginn og ef þeir rofna gæti slíkt valdið gífurlegum og óafturkræfum breytingum á lífsgæðum hjá þjóðum við Norður Atlantshaf, en einnig víðar.

AMOC_Svidmsmynd

Breyting í ársmeðalhita samkvæmt reikningum þar sem styrkur CO2 í lofti tvöfaldast, en veltihringrás Atlantshafsins (AMOC) hrynur.  Myndin var birt í Science1

Á alþjóðlegu ráðstefnunni Arctic Circle í dag, afhenti Dr. Stefan Rahmstorf, prófessor í hafeðlisfræði við Potsdam stofnunina í Þýskalandi, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra bréf sem hópur 44 vísindamanna frá 15 löndum sendi til Norrænu ráðherranefndarinnar. Í bréfinu benda vísindamennirnir á að röskun á hringrás hafstrauma Atlantshafsins er vendipunktur, sem endurspeglar mörk sem er óráðlegt að fara yfir, ef forðast á hraðar og hugsanlega óafturkræfar breytingar.

Draga þarf úr hlýnun jarðar hratt til að forðast vendipunkta

Eina þekkta leiðin til að forðast vendipunkta er að draga  hratt úr hlýnun jarðar. Því kalla höfundar bréfsins eftir því að Norræna ráðherraráðið taki skref til að draga úr áhættunni með því að leggja aukinn þunga á að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda eins hratt og unnt er svo hlýnun fari ekki mikið yfir 1.5°C mörkin í Parísarsamkomulaginu.

AC_Stefan_2

Dr. Stefan Rahmstorf, prófessor í hafeðlisfræði við Potsdam stofnunina í Þýskalandi ávarpar gesti á Arctic Circle í dag. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, tók þátt í umræðum að erindinu loknu. Hildigunnur H.H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands, stýrði umræðum. (Ljósmynd: Arctic Circle)

Nánar um vendipunkta og veltihringrás Atlantshafsins

Það er hafið yfir vafa að losun gróðurhúsalofttegunda veldur hnattrænni hlýnun.  Það hefur hinsvegar lengi legið fyrir að í hlýnandi heimi gætu óvæntar og óþægilegar breytingar átt sér stað.  Á síðustu árum hefur umfjöllun um slíkar breytingar snúið að vendipunktum, sem endurspegla mörk sem er óráðlegt að fara yfir, ef forðast á hraðar og hugsanlega óafturkræfar breytingar. Dæmi um slíkt er veltihringrás Atlantshafsins (AMOC) en breytingar á sjávarhita og aðrar umhverfisbreytingar geta hugsanlega ýtt hringrásinni yfir vendipunkt og þá getur dregið hratt úr henni, og hún í versta falli stöðvast.

Í bréfinu til Norrænu ráðherranefndarinnar, benda vísindamennirnir á að rannsóknir á síðustu árum hafa sýnt að breytingar á hafstraumum kunna að vera líklegri en áður var talið.   Þannig sagði  Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) í samantektar skýrslu árið 2007 að þó líklegt væri að eitthvað drægi úr styrk veltihringrásar Norður Atlantshafsins, væru skyndilegar breytingar á öldinni mjög ólíklegar.   Í samantekt  IPCC árið 2021 breyttist matið á óvissunni hvað þetta atriði varðar “Mjög líklegt er að það dragi úr styrk lóðréttrar hringrásar Atlantshafsins á 21. öldinni en ekki víst hversu mikið. Miðlungsvissa er fyrir því að hringrásin hrynji ekki”. Samantektum vísindanefndarinnar er ætlað að endurspegla þá þekkingu sem er til staðar hverju sinni, þannig að ofangreindar breytingar á mati nefndarinnar sýna þróun á vísindalegri þekkingu - og óvissu. Það má heita uggvænlegt að einungis sé miðlungsvissa fyrr því að það verði ekki alvarleg truflun á veltihringrás Atlantshafsins á þessari öld.  Frá 2021 hafa síðan bæst við rannsóknir sem benda til þess að líkur á hruni AMOC kunni að hafa verið vanmetnar.

Veltihringrás Atlantshafsins flytur varma norður á bóginn og hækkar þannig meðalhita á Íslandi og víða um austurhluta Norður Atlantshafs. Afleiðingar samdráttar færu mjög eftir því hversu mikill hann yrði, en á ársgrundvelli gæti kólnað um 2 – 3 gráður á Norður Atlantshafi og umhverfis það. Gerist það samfara mikilli hlýnun á nærliggjandi svæðum mun það líklega hafa mjög neikvæðar afleiðingar fyrir náttúrufar og þjóðarbúskap á Íslandi, og á Norðurlöndum. Skilyrði til landbúnaðar munu versna og veðurlag  breytast, bæði á því svæði sem kólnar og utan þess. Sem dæmi um afleiðingar utan Norðurlanda má nefna  úrkomubreytingar í hitabeltinu auk þess sem sjávarstaða við austurströnd Norður Ameríku myndi hækka.  Afleiðingarnar eru þó ekki þekktar í neinum smáatriðum, enda hefur þetta ekki verið rannsakað svo heitið geti. Í bréfinu er kallað eftir því að áhættumat verði gert fyrir Norðurlöndin.

Líkur þess að veruleg truflun verði á AMOC eru óþekktar á þessu stigi. En með hliðsjón af alvarleika  afleiðinga  er eðlilegt að reyna að lágmarka áhættuna. Ljóst er að aðlögun að þeim miklu breytingum sem hrun á AMOC myndi valda er ekki raunhæf leið. Eina þekkta leiðin til að forðast vendipunkta er að draga hratt úr hlýnun jarðar.  Því kalla höfundar bréfsins eftir því að Norræna ráðherraráðið taki skref til að draga úr áhættunni með því að leggja aukinn þunga á að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda eins hratt og unnt er svo hlýnun fari ekki mikið yfir 1.5°C mörkin í Parísarsamkomulaginu.

Hlekkur á bréf vísindamannanna

1. Liu, W., Xie, S.-P., Liu, Z. & Zhu, J. Overlooked possibility of a collapsed Atlantic Meridional Overturning Circulation in warming climate. Science Advances, 7 (2017). https://doi.org:10.1126/sciadv.1601666



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica