Fylgjast þarf með lóninu við Langjökul
Sérfræðingar Veðurstofunnar fóru í könnunarflug í gær. Mögulegt að reglulega muni hlaupa úr lóninu
Skyndilegt flóð varð úr Langjökli á mánudagskvöld og aðfaranótt þriðjudagsins 18. ágúst. Mikið vatnsmagn flæddi niður farveg Svartár sem alla jafna er vatnslítil á þessum árstíma og áfram niður í Hvítá. Í ljós kom að hlaupið átti upptök í lóni við jaðar Langjökuls suður af Eiríksjökli en lónið hefur stækkað samfara hörfun jökuljaðarsins á undanförnum árum, sjá meðfylgjandi ljósmynd. Óvenjumikil hlýindi hafa verið á svæðinu að undanförnu og því mikil leysing á jökli sem aukið hefur innrennsli í lónið og hækkað vatnsborð þess. Hér má sjá samanburð á myndum úr gervitungli fyrir og eftir hlaupið.
Lónstæði við jaðar Langjökuls skammt sunnan Eiríksjökuls, séð frá norðaustri, en mikið lækkaði í lóninu við jökulhlaup mánudaginn 17.
ágúst. Sjá má skýr ummerki vatnsborðs frá því fyrir hlaupið á jöklinum og einnig á vatnsbakkanum gegnt jöklinum ef nánar er að gáð. Til
suðurs sér í bungu Geitlandsjökuls og suður á Kaldadal. (Ljósmynd: Veðurstofan/Oddur Sigurðsson)
Veðurstofan rekur vatnshæðarmæli við Kljáfoss í Hvítá sem er um 30 km frá Húsafelli. Sá mælir sýnir flóðatopp upp á um 260 m³/s skömmu eftir miðnætti aðfaranótt þriðjudags. Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að rúmmál flóðsins hafir verið u.þ.b. 3,4 milljónir m³.
Við brúna yfir Hvítá ofan við Húsafell má sjá ummerki um að vatnsborðið hafi náð upp undir brúarbitana. Farvegur Hvítár niðri við Húsafellskóg var barmafullur að sögn sjónvarvotta. Mikill framburður barst með flóðinu og neðar í sveitinni er að finna dauða laxa á engjum og ummerki flóðsins sjást allt niður að Borgarfjarðarbrú.
Myndir úr könnunarflugi sýna talsverðar breytingar við jaðar jökulsins
Í könnunarflugi í gær, fimmtudag, sáu sérfræðingar Veðurstofunnar að hlaupið hafði runnið undir jökulsporðinn við suðvesturenda lónsins og um tveggja kílómetra leið undir jöklinum áður en það rann í farveg Svartár skammt sunnan Hafrafells, eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmynd. Lónið, sem var um 1,3 km² að flatarmáli fyrir hlaupið, hefur oftast haft afrennsli til norðurs og runnið úr því í Flosavatn. Vatnsborð lónsins lækkaði um u.þ.b. 5 m við flóðið og það tæmdist nánast.
Útfall jökulhlaups í Svartá þann 17. ágúst við jaðar Langjökuls sunnan Hafrafells. Greina má sprungur í yfirborði jökulsins þar sem farvegur hlaupsins undir jöklinum hefur sigið saman. (Ljósmynd: Veðurstofan/Oddur Sigurðsson)
Fylgjast þarf með lóninu
Það kemur í ljós á næstu vikum hvort útfall lónsins lokast aftur og vatn fer að safnast í lónið að nýju eða hvort sírennsli verður úr lóninu. Ef útfallið lokast er hugsanlegt að reglulega hlaupi úr lóninu á næstu árum. Líklegt er að lónið haldi áfram að stækka næstu árin vegna hörfunar jökuljaðarsins og því er ástæða til þess að fylgjast með þróun mála og leggja mat á hættu á frekari hlaupum.
Jöklar landsins hopa nú flestir og jökulvötn og lón við jaðra jöklanna taka breytingum af þeim sökum. Vatnaskil við jökuljaðra og inni á jöklum geta breyst og jökulár flutt sig á milli vatnasviða. Þessar breytingar eru meðal afdrifaríkustu breytinga af völdum hlýnandi loftslags hér á landi, og víðar í heiminum í grennd við jökla, og mikilvægt er að vakta þær og bregðast við þeim þar sem tilefni er til.
Ljósmyndirnar tvær hér að neðan sýna lónið við jaðar Langjökuls frá suðvestri, annars vegar, og hins vegar vesturenda þess þar sem úr lóninu hljóp undir jökulinn. Á síðari myndinni má sjá strandlínur sem sýna vatnsborð lónsins fyrir jökulhlaup og skýr ummerki um skriðstefnu jökulsins á landi fjær jökuljaðrinum sem jökulinn hefur nýlega hörfað frá. Lægð með snjóskafli frá síðasta vetri, sem sést á báðum myndunum, markar rennslisleið hlaupsins undir jöklinum og bendir til þess að áður hafi hlaupið úr lóninu.
Lónstæði við jaðar Langjökuls skammt sunnan Eiríksjökuls séð frá suðvestri. Ummerki um fyrra vatnsborð á jöklinum eru greinileg. (Ljósmynd: Veðurstofan/Oddur Sigurðsson)
Horft yfir suðvesturenda lónsins við Langjökul þar sem hljóp undir jökulinn (nærri hægri jaðri
myndarinnar). Lægð með snjóskafli markar rennslisleið hlaupsins undir jöklinum og bendir til þess að áður hafi hlaupið úr lóninu. Sprungur í yfirborði jökulsins við farveginn sýna að ísgöngin sem hlaupið flæddi um eru tekin að síga saman. (Ljósmynd: Veðurstofan/Oddur Sigurðsson)