Fréttir
Sentinel-1 bylgjuvíxlmynd frá Öskju - tímabilið frá 27. júlí 2021 til 22. júlí 2022
Sentinel-1 bylgjuvíxlmynd frá Öskju - tímabilið frá 27. júlí 2021 til 22. júlí 2022. Bylgjuvíxlmyndin sýnir yfirborðsfærslur við Öskju undanfarina 12 mánuði en litirnir sýna hvar landrisið hefur átt sér stað siðan 2021 fram til dagsins í dag. Breytingar á yfirborði tengjast grunnstæðu kvikuinnstreymi (á um 2 km dýpi) sem hófst samkvæmt mælingum í byrjun ágústmánaðar 2021. GPS mælistöð veðurstofunar OLAC er merkt inn á myndina sem svartur þríhyrningur. Þar hefur þennslan mælst um 35 cm á þessu 12 mánaða tímabili.

Fundur um þróun mála við Öskju

26.7.2022

Veðurstofa Íslands fundaði mánudaginn 25. Júlí með vísindamönnum frá Jarðvísindastofnun HÍ ásamt fulltrúum almannavarna. Fundarefnið var þróun mála í Öskju síðustu mánuði þar sem landbreytingar og jarðskjálftagögn voru rædd. Land hefur risið frá því í ágúst í fyrra. Skýrari mynd hefur nú fengist á landrisið á svæðinu með úrvinnslu og túlkun gervitunglamynda eftir að snjóa hefur leyst á svæðinu. Landrisið mælist nú mest um 35 cm og er miðja þess skammt vestan við Öskjuvatn. Landrisið stafar af þrýstiaukningu í rótum eldstöðvarinnar og er ástæða þess talin vera söfnun kviku grunnt í jarðskorpunni. Líkanreikningar benda til þess að dýpi kvikusöfnunarinnar sé um 2 km og að kvikan dreifi sér þar lárétt í jarðskorpunni í miðju eldstöðvarinnar. Rishraðinn er óvenjumikill sé m.v. sambærileg eldfjöll í heiminum. Skjálftavirkni hefur ekki verið mikil samfara þessu, hugsanlega vegna þess að áður en núverandi ristímabil hófst þá var viðvarandi landsig í Öskju síðastliðna áratugi. Einnig getur hluti aflögunar orðið á öskjusprungum sem geta hreyfst að hluta án skjálftavirkni.

Sviðsmyndir eru óbreyttar. Ef kvikustreymi verður viðvarandi kann risferlið að halda áfram með svipuðum hætti í nokkurn tíma. Búist er við að aukin skjálftavirkni verði skýr aðdragandi að frekari kvikuhreyfingum neðanjarðar eða eldgosi. Líklegasta sviðsmynd ef til eldgoss kemur er sprungugos í nærumhverfi öskjunnar. Mælingar á eldfjöllum með þroskuðum öskjum, eins og í tilfelli Öskju, sýna að þar geta orðið miklar jarðskorpuhreyfingar án þess að til eldgoss komi, jafnvel þannig að hreyfingar nemi meir en einum metra áður en til eldgoss komi. Ekki er þó hægt að útiloka að í tilfelli Öskju verði fyrirvarinn verði stuttur, jafnvel talinn í nokkrum klukkustundum.

Óvissustig Almannavarna er í gildi við Öskju og Veðurstofan fylgist áfram vel með svæðinu í samstarfi við Almannavarnir, lögregluna og Vatnajökulsþjóðgarð.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica