Fréttir
Oddur Pétursson á námskeiði í Kanada 1991
Oddur Pétursson á námskeiði í Kanada 1991

Frumkvöðull í snjóathugunum fallinn frá

Oddur Pétursson fyrrverandi snjóathugunarmaður hjá Veðurstofu Íslands jarðsettur í dag

1.6.2018

Oddur Pétursson var snjóathugunarmaður á Ísafirði frá 1984 til 2013 er hann lét af störfum sökum aldurs. Starf snjóathugunarmanna mótaðist á þessum tíma. Árið 1984 vann hann hjá Tæknideild Ísafjarðar og var þá falið að skrá snjóflóð, fylgjast með snjóalögum og mæla úrkomu. Reynsla af snjóeftirliti var þá ekki mikil hér á landi. Eftir að lög um varnir gegn snjóflóðum voru sett árið 1985 varð starfið fastmótaðra. Fram að þeim tíma höfðu flóð, sem ekki ollu tjóni, ekki verið skráð og lítið var um rannsóknir á snjóalögum. Oddur átti stóran þátt í að móta verklag við snjóathuganir hér á landi í samstarfi við nýtilkomna snjóflóðadeild á Veðurstofunni og var leiðandi í vinnubrögðum og túlkun á niðurstöðum.

Árið 1991 bauðst Oddi að fara í tveggja mánaða kynnis- og þjálfunarferð til Bandaríkjanna og Kanada. Hann vann þar við snjóflóðaeftirlit á þremur stöðum þar sem fjallvegir liggja um hættusvæði. Lengst dvaldist hann í Rogers Pass þar sem meginsamgönguæðar milli vestur og austurhéraða Kanada liggja um þröngt fjallaskarð. Þar voru margir snjóflóðasérfræðingar við störf og gott skipulag á snjóathugunum. Herflokkur sá um að skjóta niður snjóflóð með fallbyssu og til gamans má nefna að Oddur þurfti að ganga í kanadíska herinn með tilheyrandi pappírsvinnu til þess að geta tekið þátt í að sprengja niður snjóflóð.

Í lykilhlutverki við að bæta öryggi fólks gagnvart snjóflóðavá

Eftir ferðina til N-Ameríku fór Oddur að taka snjógryfjur og mæla snjóalög á skipulagðari hátt en áður og varð í framhaldi af því frumkvöðull í tækni og skipulagi snjóathugana hér á landi. Snjóathugunarmenn á öðrum stöðum landsins lærðu af honum og tóku upp þessi vinnubrögð undir hans leiðsögn. Samkvæmt Oddi þyngdist veðráttan smám saman á seinni hluta síðustu aldar fram til 1995 og stærri og stærri snjóflóð féllu í hans umdæmi, sem á þeim tíma var Ísafjörður og Hnífsdalur. Þar var Oddur snjóathugunarmaður þegar mannskæð snjóflóð féllu á Súðavík og Flateyri árið 1995 og fór hann fyrir mælingum á flóðunum og var í lykilhlutverki í skipulagi viðbúnaðar í hættuástandinu í kjölfar þeirra. Rólyndi hans, yfirvegun og staðarþekking kom að góðum notum við viðbúnaðinn dagana á eftir í byggðunum í kring. Í framhaldi af mannskaðasnjóflóðunum voru unnar viðbúnaðaráætlanir fyrir helstu snjóflóðabyggðarlög landsins og var þar að miklu leyti byggt á reynslu Odds og annarra staðkunnugra heimamanna sem þekkingu höfðu á snjóflóðasögu og snjóflóðaaðstæðum viðkomandi byggðarlaga.

Árið 1996 varð Oddur starfsmaður Veðurstofunnar og eftir það sá hann um athuganir og skráningu flóða fyrir Ísafjarðarbæ og Súðavík. Hann er frumkvöðull í snjóathugunum og eftir hann liggur mikið starf sem nú er byggt á til þess að bæta öryggi fólks gagnvart snjóflóðavá.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica