Fréttir
Jónas Hallgrímsson
Jónas Hallgrímsson

Frumkvöðull á sviði veðurathugana

Jónas Hallgrímsson var aðalhvatamaður staðlaðra veðurathugana á Íslandi

16.11.2018

Dagur íslenskrar tungu er haldinn í dag á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar til að heiðra framlag hans til íslenskunnar. En ljóðskáldið var líka náttúruvísindamaður og færði okkur mörg góð orð á því sviði. Það er hins vegar ekki á allra vörum að Jónas Hallgrímsson var aðalhvatamaður þess að komið var upp þéttu hitamælaneti á Íslandi. Þeir Trausti Jónsson og Hilmar Garðarsson tóku saman áhugaverða skýrslu á sínum tíma um Jónas Hallgrímsson og veðurathuganir á Íslandi. Í skýrslunni segir:  „Ekki er gott að segja hvenær hann fékk hugmynd um auknar veðurathuganir, en hún er orðin fullmótuð í ítarlegu frumvarpi hans um Veður-bækur til deildar Hins íslenska bókmenntafélags í Reykjavík sem dagsett er 9. apríl 1840 . Hann leggur þar til að Bókmenntafélagið standi fyrir stöðluðum veðurathugunum á prestsetrum um land allt. Hann bendir fyrst á almennt fræðilegt gildi slíkra athugana, en síðan einnig á efnahagslegt mikilvægi þeirra og segir m.a. orðrétt: „Vér Íslendingar höfum samt til skamms tíma ekki átt kost á að bera ættjörðu vora í þessu tilliti saman við önnur lönd svo að vér til að mynda getum með sannindum sagt hvað hér megi þrífast og hvað ekki, því oss hefir að kalla má gjörsamlega vantað réttar sagnir um veðráttufar vort; höfum vér þá og ekki lagt fram vorn skerf til hinnar almennu, vísindalegu rannsóknar um þessi efni“. Nánar má lesa um frumkvöðlastarf ljóðskáldsins á sviði veðurathugana á Íslandi í skýrslu þeirra Trausta og Hilmars á vefnum okkar.


Jónas Hallgrímsson fæddist þann 16. nóvember árið 1807 að Hrauni í Öxnadal. „Og hvernig var svo veðrið þegar Jónas fæddist? Að morgni 16. nóvember var sunnan hvassviðri eða stormur á Akureyri, úrkomulaust og hiti 5,6 stig á Reaumur kvarða (7°C). Síðdegis kólnaði, vindur gekk til norðurs og frysti. Þetta var hlýjasti dagur mánaðarins.“ Segir í lokaorðum skýrslu þeirra Trausta og Hilmars. Þessa mynd af fjallasýn í nágrenni fæðingarstaðar Jónasar tók Brynjólfur Sveinsson starfsmaður Veðurstofunnar við snjóflóðamælingar í Landfjalli í Öxnadal í febrúar 2014. Óvenjumikil ísing var í fjöllum eftir úrkomusamar, austlægar áttir undanfarna daga.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica