Fréttir
Grunnur samstarfsins liggur í aukinni þörf fyrir áreiðanlegri veðurspár sem undirbyggja og styðja ákvarðanatöku þegar kemur að vályndu veðri og áhrifum loftslagsbreytinga.
Grunnur samstarfsins liggur í aukinni þörf fyrir áreiðanlegri veðurspár sem undirbyggja og styðja ákvarðanatöku þegar kemur að vályndu veðri og áhrifum loftslagsbreytinga.

Framfarir í veðurspám með nýrri ofurtölvu

Fjögur lönd sameina krafta sína

10.11.2021

Veðurstofur Íslands, Danmerkur, Írlands og Hollands hafa tekið höndum saman um rekstur reiknilíkana og úrvinnslu veðurgagna með nýrri ofurtölvu sem staðsett verður á Veðurstofu Íslands. Markmiðið með samstarfinu er að stuðla að framþróun í skammtíma veðurspám og auka áreiðanleika gagna.  

Grunnur samstarfsins liggur í aukinni þörf fyrir áreiðanlegri veðurspár sem undirbyggja og styðja ákvarðanatöku þegar kemur að vályndu veðri og áhrifum loftslagsbreytinga. Fyrr á þessu ári lýsti Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (the Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) að fordæmalausar loftslagsbreytingar þýddu að mannkynið væri á “rauðu viðbúnaðarstigi” . Við erum að upplifa meiri öfga í veður mynstri en helsta ástæðan er loftslagshlýnun en þar sem spáð er ennþá aukinni hlýnun næstu áratugina er viðbúið að við munum sjá ennþá ýktari veður og erfiðara verður að spá fyrir hverju sinni.  

Samstarf þessara fjögurra veðurstofa gengur undir heitinu United Weather Centres – West en með samstarfinu eykst geta þjóðanna til að gæta að öryggi sínu gagnvart áhrifum aukinna öfga í veðri sem afleiðingar loftslagsbreytinga.  

Auk þess að veita nákvæmari skammtíma veðurspár, mun nýja ofurtölvan sem framleidd er af Hewlett Packard Enterprise (HPE), stuðla að framþróun á rannsóknum í loftslagsvísindum. Sú framþróun og samstarfið í heild sinni mun styðja við áætlanir stjórnvalda og atvinnulífs þegar kemur að aðlögun vegna áhrifa loftslagsbreytinga.   

Ofurtölvan á að vera komin í gagnið snemma árs 2023 og mun þá veita aðgang að nákvæmari háupplausna veðurspám sem bæta veðurþjónustu til framtíðar með áreiðanlegri veðurviðvörunum.

Slide2

Nauðsynlegt og metnaðarfullt samstarf  

Samstarf Veðurstofu Íslandsdönsku veðurstofunnarVeðurstofu Hollands og Veðurstofu Írlands, er hluti af stærra samstarfi á milli 10 ríkja um að keyra saman veðurlíkön og tilheyrandi ofurtölvur frá árinu 2027.   

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, segir að samstarf þessara þjóða eigi sér nokkuð langa sögu og þá ekki síst samstarf milli Danmerkur og Íslands. “Þetta samstarf í gegnum United Weather Centres er mjög mikilvægt varðandi frekari þróun í gerð veðurlíkana fyrir Ísland og athafnasvæði landsins í Norður-Atlantshafi og víðfemt þjónustusvæði Veðurstofunnar fyrir alþjóðaflugið. Veðurstofan leitar stöðugt leiða til að bæta þjónustu sína við íbúa og atvinnuvegi landsins. Þetta samstarf og rekstur þessarar ofurtölvu er liður í því”, segir Árni.  

Við gerð veðurspáa með veðurlíkönum þarf mikið magn upplýsinga um ástand lofthjúpsins og má þar nefna gögn frá veðurathugunarstöðvum, veðursjám og  gervitunglum. Til að vinnu úr slíku magni gagna þarf afkastamikla ofurtölvu. Með því að leiða saman krafta þessara landa í rekstri á nýrri ofurtölvu, er tekið stórt skref til framtíðar í veðurspám hvers lands fyrir sig, þar sem veðurspár verða uppfærðar ítarlega á klukkustundar fresti, sem er sérlega brýnt þegar veðurvá ber að garði. 

“Við viljum vera í stakk búin til að svara auknum kröfum um nákvæmari og ítarlegri veðurspár, bæði til að auka öryggi landsmanna og þeirra ferðamanna sem landið sækja. Loftslagsbreytingar kalla einnig á öflugri reiknigetu og meiri samvinnu við gerð loftlagssviðsmynda til þess að sem best mynd fáist á þær breytingar á veðráttu og veðurfari sem samfélagið stendur frammi fyrir og þarf að aðlaga sig að”, segir Árni. „Framtíðarsýn þessa hóps er síðan sú að víkka þetta samstarf þannig að það nái yfir líkön af fleiri kerfum jarðar; vatnafarinu, haffarinu og freðhvolfinu. Það liggja miklar áskoranir í því að skilja betur keðjuverkun breytinga í freðhvolfinu á önnur kerfi jarðar, svo sem lífríkið og hringrás vatnsins. Þar skiptir miklu máli að geta byggt upp þekkingu á þessu flókna samspili í gegnum reiknilíkön“.

Slide1

Umhverfisvæn lausn   

Ofurtölvan verður staðsett á Veðurstofu Íslands og standa framkvæmdir í tölvusal nú yfir en uppsetning á tölvunni sjálfri hefst í byrjun næst árs.

“Allar veðurstofurnar innan þessa samstarfs vilja leggja sitt að mörkum í báráttunni við loftslagsbreytingar með því að lágmarka kolefnisfótspor þeirrar þjónustu sem þær veita. Það er meðal annars þess vegna sem ofurtölvan er staðsett hér á Veðurstofu Íslands því við höfum aðgang að 100% endurnýjanlegum orkugjöfum. Svalt loftslag á Íslandi gerir það einnig að verkum að ekki þarf að eyða jafnmikilli orku í að kæla búnaðinn, sem sparar orku”, segir Árni forstjóri Veðurstofunnar að lokum. 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica