Fréttir
mynd

EUROVOLC – Evrópusamstarfsverkefni í eldfjallafræði hafið

23.2.2018

Yfir 70 sérfræðingar í jarðvísindum og veðurfræði frá níu Evrópulöndum hittust í Keflavík fyrri hluta mánaðarins til að hefja samstarf um verkefnið "EURopean Network of Observatories and Research Infrastructures for VOLCanology".

Verkefnið hófst 1. febrúar sl og stendur í þrjú ár. Það er rannsóknainnviðaverkefni í eldfjallafræði, styrkt af Horizon 2020 rammaáætlun ESB. Verkefnið leiðir Kristín S. Vogfjörð á Veðurstofu Íslands og tekur það til 18 samstarfsaðila frá níu Evrópulöndum; þar af eru þrír á Íslandi. Verkefnið er styrkt um 5 milljónir evra (um 630 millj. íslenskar krónur) en heildarumfang þess eru 6 milljónir evra. Helstu samstarfsaðilar í verkefninu eru Eldfjalla- og Jarðeðlisfræðistofnun Ítalíu (INGV) í Cantania á Sikiley og Jarðvísindastofnun Háskólans. Um fjórðungur styrkfjárins rennur til íslenskra stofnana, en auk Veðurstofunnar og Háskólans eru Almannavarnir einnig þátttakendur í verkefninu. Fjórum af 25 aðalverkþáttum verkefnisins stýrir jarðvísindafólk og verkefnisstjórar á Úrvinnslu og rannsóknasviði og Eftirlits og spásviði Veðurstofunnar.

EUROVOLC er samsett úr þrem mismunandi tegundum verkefna; svonefndra "Networking"-verkefna, rannsóknaverkefna og verkefna sem veita aðgengi að rannsóknainnviðum í eldfjallaeftirlits- og rannsóknastofnunum Evrópu. Bæði Veðurstofan og Háskóli Íslands munu veita aðgengi að rannsóknainnviðum sínum til umsækjenda sem hyggjast stunda rannsóknir á íslenskum eldfjöllum, en önnur eldfjallasvæði sem eru í boði eru Etna og Vesúvíus á Ítalíu og eldfjöll á Azoreyjum ásamt eldfjöllum á Reunion-eyju í Indlandshafi og á Gualdeloupe og Montserrat eyjum í Karíbahafi. EUROVOLC byggir á afrakstri og eða tengist öðrum stórum Evrópuverkefnum (EPOS, FUTUREVOLC og MED-SUV) sem miða öll að uppbyggingu rannsóknainnviða Evrópu í jarðvísindum, eflingu og samtengingu rannsóknaumhverfis jarðvísindafólks álfunnar. Verkefnið byggist á samstarfi íslenskra jarðvísindastofnana og styrkir stöðu íslensks jarðvísindafólks í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum.

Frekari upplýsingar veitir Kristín S. Vogfjörð á Veðurstofu Íslands.

mynd

Hluti þátttakendaá upphafsfundi EUROVOLC-verkefnisins 6. febrúar sl. Ljósmynd: Sigurlaug Gunnlaugsdóttir.

mynd/photo

Helstu eldfjallasvæði Evrópu. EUROVOLC.

mynd/photo

Önnur eldfjallasvæði þar sem Evrópulönd starfrækja eftirlit og stunda rannsóknir. EUROVOLC.

MYND/PHOTO

Hlutfallsleg dreifing styrkfjár milli Evrópulandanna sem taka þáttt Í verkefninu. EUROVOLC.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica