Fréttir
Graph_flowrate_mogi_is_15032024
Línuritið sýnir 6 tímabil, frá síðari hluta október 2023, þar sem kvikusöfnun hefur mælst undir Svartsengi. Þar sést að í síðustu þremur atburðum, skyggt með gráum bakgrunni, hefur það magn kviku (vinstri ásinn) sem safnast saman haldist stöðugt í kringum 400.000 rúmmetrar á sólarhring.

Engin skýr merki um að jarðhræringunum á Reykjanesskaga og við Grindavík ljúki á næstunni

15.3.2024

Það hefur komið fram í fréttum Veðurstofunnar að á meðan að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram eru líkur á öðru kvikuhlaupi og að það leiði til eldgoss á Sundhnúksgígaröðinni.

Áður en hægt verður að spá fyrir um tímasetningu á endalokum þeirrar atburðarásar sem er enn í gangi og tengist kvikusöfnun undir Svartsengi, þurfa að sjást skýr merki um að streymi kviku inn í söfnunarsvæðið hafi minnkað verulega á milli síðustu atburða. Túlkun Veðurstofunnar á þeim gögnum sem fyrir liggja sýna engin skýr merki um að það sé þróunin.

Gögn og líkanreikningar sýna að magn kviku sem streymir inn í söfnunarsvæðið undir Svartsengi á hverjum sólarhring hefur haldist stöðugt í síðustu þremur atburðum. Magnið sem bætist við hefur verið um 400.000 rúmmetrar á sólarhring. Það hefur ekki breyst á milli þeirra þriggja atburða sem orðið hafa frá áramótum.   Þetta eru eldgosin 14. janúar og 8. febrúar ásamt kvikuhlaupinu 2. mars (Sjá línurit hér að neðan).

Út frá þeim gögnum sem fyrir liggja um það stöðuga magn kviku sem safnast saman undir Svartsengi á degi hverjum, er of snemmt að fara að spá fyrir um lok þeirrar atburðarásar sem hófst í lok október á síðasta ári.

Þessu til viðbótar er mikilvægt að horfa til þess að á árunum 2020 til 2022 voru fjögur tímabil, með mislöngum hléum, þar sem kvikusöfnun mældist undir Svartsengi. Tæpir 16 mánuðir liðu síðan áður en kvikusöfnun, sem stendur enn yfir, hófst að nýju í lok október 2023.

Því miður er ennþá talsverð óvissa um hvenær hægt er að segja með fullri vissu að þessum kafla eldsumbrotanna á Reykjanesskaga og við Grindavík sé að ljúka.

Graph_flowrate_mogi_is_15032024

Línuritið sýnir 6 tímabil, frá síðari hluta október 2023, þar sem kvikusöfnun hefur mælst undir Svartsengi. Þar sést að í síðustu þremur atburðum, skyggt með gráum bakgrunni, hefur það magn kviku (vinstri ásinn) sem safnast saman haldist stöðugt í kringum 400.000 rúmmetrar á sólarhring.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica