Fréttir
GPS mælir á toppi fjallsins Þorbjarnar. Benedikt Ófeigsson, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum á Veðurstofu Íslands, tók þessa mynd í lok janúar 2020 stuttu eftir að hann lauk við uppsetningu mælisins í ljósaskiptunum. GPS mælar eru hluti af því mælaneti sem greina landris.

Ekkert landris mælist lengur vestur af Þorbirni

Fluglitakóði færður niður á grænan. Gera þarf ráð fyrir lotubundinni virkni á Reykjanesskaganum. Óvissustig almannavarna er ennþá í gildi.

2.6.2022

Frá því 26. maí dró verulega úr landrisi á svæðinu vestur af Þorbirni og síðustu 3-4 daga hefur ekkert landris mælst á GPS mælum. Eins hefur verulega dregið úr skjálftavirkni á svæðinu. Frá því 28. apríl til 28. maí reis land um alls 5,0-5,5 sm og fylgdi því umtalsverð skjálftavirkni. Síðusta daga hafa mælst um 150 upp til 300 skjálftar á svæðinu en tæplega 800 skjálftar mældust á sólarhring þegar mest var. Í ljósi þessa hefur fluglitakóða fyrir svæðið færður niður á grænan af gulum. Óvissustig almannavarna er þó ennþá í gildi.

Gera þarf ráð fyrir lotubundunni virkni

Líklegasta ástæða aukinnar virkni og landriss á svæðinu undanfarnar vikur eru kvikuhreyfingar. Ef það er tilfellið benda nýjustu gögn til þess að dregið hafi verulega úr þessum kvikuhreyfingum vestur af Þorbirni. „Það er ljóst að ennþá er talsverð virkni á öllum Reykjanesskaganum og í raun ekki hægt að útiloka að virknin geti aukist aftur og komi í lotum eins og dæmin sanna, en hvar og hvenær er erfitt að segja til um nákvæmlega“, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofunni. „Það er þensla í gangi austan við Fagradalsfjall sem bendir til kvikusöfnunar á miklu dýpi og á meðan hún er í gangi þurfum við að vera á tánum og vera tilbúin fyrir ákveðnar sviðsmyndir ef til eldgoss kemur. Í millitíðinni er svæðið vaktað og vísindamenn fylgjast náið með öllum breytingum sem verða á virkninni“, segir Sara að lokum.


GPS gögn frá SKSH stöð sem staðsett er 2 km vestur af Þorbirni og sýnir að landrisið byrja í lok apríl en hættir síðan fyrir um fjórum dögum. (Mynd: Veðurstofa Íslands, GPS gögn)


Myndin sýnir staðsetningu á staðfestum jarðskjálftum tímabilið 1. maí til 2. júní. (Mynd úr skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands)

Uppsafnaður fjöldi skjálfta fyrir tímabil 1. maí – 2. júní í kringum Svartsengi-Þorbjörn. (Mynd úr skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands)


Þetta graf sýnir þróun skjálftavirkninnar í kringum Þorbjörn frá 1. maí. (Mynd úr skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands)

Líkön nýtist vel við að afmarka kvikuhreyfingar

Í tengslum við eldsumbrotin og virknina á Reykjanesskaga hafa vísindamenn unnið líkön út frá skjálftagögnum, GPS gögnum og gervihnattamyndum til að áætla staðsetningu og magn þeirrar kviku sem er á hreyfingu undir jarðskorpunni. Með þessum líkönum er hægt að áætla hvort kvikan sé að hreyfast lárrétt eða lóðrétt og að einhverju marki afmarka möguleg umbrotasvæði ef til eldgoss kæmi. „Þegar kemur að vöktun á Reykjanesskaganum og viðbrögðum okkar við mögulegu eldgosi má segja að það sé mikilvægara að afmarka mögulegt umbrotasvæði, frekar en að segja til um hvort að eldgos hefjist í næstu viku eða eftir fjóra mánuði“ segir Michelle Parks, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sem unnið hefur að líkangerðinni. „Þetta er sérstaklega mikilvægt hvað varðar Reykjanesskagann þar sem umbrotasvæðin eru nálægt byggð og mikilvægum innviðum. Eins er þetta mikilvægt í því ljósi að við erum mögulega að horfa á atburðarás á Reykjanesskaganum sem líkja má við virknina í kringum Kröfluelda. Í Kröflueldum endaði um helmingur kvikuinnskota með eldgosi en önnur ekki. Þar hefur það áhrif hversu stór kvikuinnskotin eru og hversu grunnt þau ná og þar geta líkön gefið okkur ákveðnar vísbendingar“, segir Michelle.


Mynd sem sýnir afmörkun á kvikuhreyfingum út frá líkangerð. Á myndinni eru merkt fjögur kvikuinnskot sem orðið hafa frá því janúar 2020 þangað til í dag. Rauða brotalínan sýnir niðurstöður líkans á kvikuinnskotinu sem varð í síðasta mánuði. (Myndvinnsla: Michelle Parks/Ragnar Heiðar Þrastarson)



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica