Fréttir
Alþjóðlegur dagur vatnsins
Alþjóðlegur dagur vatnsins hefur verið haldinn frá árinu 1992

Dagur vatnsins

Dropinn holar steininn – Vatnið og loftslagsbreytingar

22.3.2020

Í dag er Alþjóðlegur dagur vatnsins. Í ár sameinast Alþjóðlegi dagur vatnsins og Alþjóðlegi veðurdagurinn, sem haldinn er á morgun 23. mars, um þemað „Loftslag og vatn“. Markmiðið með því að samræma áherslur daganna er að minna á og auka hlut vatns í umræðunni um loftslagsmál. Loftslagsbreytingar hafa áhrif á alla hluta vatnshvolfisins, þess ferskvatns sem er frosið, þess sem er geymt í grunnvatnsgeymum neðanjarðar og þess sem við sjáum á yfirborði í straum- og stöðuvötnum. Þetta á við á Íslandi alveg eins og í öllum löndum.

Mikið af ferskvatni á Íslandi er bundið í jöklum. Allar ísbreiður og flestir jöklar á jörðinni eru að minnka samkvæmt nýlegri skýrslu Milliríkjanefndar Sþ um loftslagsbreytingar (IPCC). Jöklar eru víða mikilvægir við miðlun vatns yfir árið þar sem leysingavatn frá þeim er mikilvægur hluti vatnsforðans hluta ársins. Ljóst er að breytingar á snjó og ís hafa haft margvísleg áhrif á sum samfélög manna síðan um miðja 20. öld. Þar er einkum um að ræða afleiðingar fyrir ferskvatnsframboð, vatnsafl, innviði af ýmsum toga, samgöngur, matvælaframleiðslu, ferðamennsku og útivist og nokkra aðra þætti.

Breyttar árstíðasveiflur hafa mikil áhrif á lífríki og náttúrufar

Breytingar sem spáð er að verði á snjó og ís munu hafa áhrif á vatnsauðlindir og hagnýtingu þeirra, m.a. á vatnsafl, áveitur í landbúnaði og vatnsgæði. Rekstri vatnsaflsvirkjana hefur í nokkrum tilvikum verið breytt og sumar þeirra endurbyggðar til þess að laga þær að meira eða minna rennsli jökuláa og annarra vatnsfalla sem eiga upptök í fjalllendi, og að breyttri árstíðasveiflu rennslisins. Á Íslandi og í Noregi hefur raforkuframleiðsla aukist af þessum völdum og vinnur Landsvirkjun nú um 8% meiri orku úr núverandi kerfi en áður vegna rennslisaukningar á síðustu árum.

Breytt árstíðasveifla rennslis, breytingar á hlutfalli úrkomu sem fellur sem snjór, aukin úrkomuákefð og lengri þurrkatímabil geta haft mikil áhrif á lífríki og náttúrufar, en einnig á náttúruvá s.s. flóð í ám, jökulhlaup, snjóflóð og skriðuföll. Þessar breytingar geta haft margskonar áhrif á innviði og má þar má nefna skemmdir á samgöngumannvirkjum, mengun drykkjarvatnsbóla, truflun í rekstri vatnsveitna og aukið álag á fráveitu- og ofanvatnskerfi. 

Aðlaga þarf þessa innviði að líklegum breytingum, bæði með því að taka tillit til væntanlegra loftslagsbreytinga við hönnun nýrra innviða, auka hlut blágrænnaofanvatnslausna í skipulagi og með því að betrumbæta eldri kerfi.

Áhrif loftslagsbreytinga á lífríki í ferskvatni eru flókin og mismunandi eftir gerð straum- og stöðuvatna og eftir aðstæðum á hverjum stað. Aukin snjó- og jökulbráðnun getur haft kælingaráhrif á ár og læki en hækkandi hitastig mun á hinn bóginn stytta tímann sem vötn/ár leggja eða að þau leggi yfirhöfuð ekki. Aukin frumframleiðni og aukinn vaxtarhraði dýra og minni fjölbreytileiki lífvera fylgir hækkun hitastigs í ám og vötnum. Sömuleiðis má gera ráð fyrir að kulvísum tegundum fjölgi á kostnað kulsækinna tegunda. Bleikja virðist t.d. vera sérstaklega viðkvæm fyrir hlýnun í grunnum vötnum og má nú þegar sjá skýr dæmi um fækkun hennar á Íslandi.

Vatnsbúskapur á Íslandi stýrist af viðkvæmu jafnvægi úrkomu og hitastigs

Á Íslandi hefur almennt verið litið svo á að við höfum gnægð af fersku vatni og örugga miðlun vatns frá jöklum og snjóbráð í fjöllum. Hvort tveggja er satt og rétt í dag en það stýrist af viðkvæmu jafnvægi úrkomu og hitafars. Við upplifum breytingar bæði á orsökum og afleiðingum þessa.

Á heimsvísu stendur mannkynið fyrir enn stærri áskorunum þegarkemur að vatni og loftslagsbreytingum hvort sem þær eru vegna flóða, þurrka eða mengunar vatnsbóla. Alþjóðlegur dagur vatnsins er ekki síst haldinn til þess að minna á þær áskoranir og þær aðgerðir sem fólk um allan heim getur tamið sér til þess að draga úr vatnsnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.

Þörf fyrir að bæta mælingar og vöktun

Í samanburði við hnattræn samræmd gögn um hækkandi hitastig eru gögn um vatnsbúskap mjög gloppótt í tíma og rúmi. Á alþjóðlegum dögum vatns og veðurs er athyglinni beint að þeirri staðreynd að ekki er hægt að hafa áhrif á einhverja þróun sem ekki er vöktuð, mæld og rannsökuð – staðreynd sem kemur kunnuglega fyrir sjónir í þeim faraldri sem nú herjar á samfélög. Það er því knýjandi þörf til þess að bæta mælingar, spár og styrkja vatnsbúskap til að kljást við þau vandamál sem snúa að of miklu, of litlu, eða of menguðu vatni.

Dropinn holar steininn

Skilaboð Alþjóðlega dags vatnsins eru skýr: Við megum engan tíma missa; Vatn er til varnar loftslagsbreytingu; Það verða allir að legga hönd á plóginn – því dropinn holar steininn

Frekari upplýsingar um daginn má finna á heimasíðu Alþjóðlega dags vatnsins.

Þessi samantekt er unnin í samvinnu við Íslensku vatnafræðinefndina.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica