Fréttir
Á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli á Akureyri er sprengingum beitt til að draga úr snjóflóðahættu á opnunartíma. Á myndinni sést snjóflóð sem sett var af stað með sprengingum áður en skíðasvæðið opnaði 18. janúar í fyrra. (Ljósmynd: Skíðasvæðið Hlíðarfjalli)

Um snjóflóðahættumat og eftirlit á skíðasvæðum

8.3.2024

Veðurstofa Íslands gerir snjóflóðahættumat fyrir skíðasvæði á Íslandi. Slíkt hættumat er ekki daglegt eftirlit eða spá um snjóflóðahættu frá degi til dags. Hættumat er lagt fram sem kort með skilgreindum hættusvæðum afmörkuðum með hættumatslínum og gilda ákveðnar reglur um nýtingu hættusvæðanna.

Í reglugerð um hættumat vegna snjóflóða á skíðasvæðum eru gerðar kröfur um að upphafsstöðvar skíðalyfta þar sem fólk safnast í raðir, séu utan ákveðinna hættusvæða og einnig skíðaskálar og aðrir staðir þar sem fólk safnast saman. Skíðalyftur og skíðaleiðir geta verið á skilgreindum hættusvæðum sem tiltekin eru í hættumatinu. Rekstraraðilar skíðasvæða eiga að sinna daglegu eftirliti með snjóflóðahættu og grípa til ráðstafanna ef hætta er talin geta skapast. Áætlun skíðasvæða um daglegt eftirlit með snjóflóðahættu er ekki háð því að vinnu við hættumat sé lokið en hættumat er innlegg í slíka áætlun.

Vinna við skíðasvæðahættumat er í fullum gangi og er verið að leggja lokahönd á hættumat fyrir Bláfjöll og Skálafell og unnið er að hættumati fyrir skíðasvæðin á Ísafirði sem áætlað er að klárist í lok ársins. Næst á dagskrá er Stafdalur en áætlað er að þeirri vinnu verði lokið seint á næsta ári. Veðurstofan sinnir einnig hættumati vegna ofanflóða í byggð og hafa þau verkefni notið forgangs að undanförnu.

Hættumati fyrir skíðasvæði fylgir líkanreikningar og skýrsla þar sem farið er yfir líklegustu upptakasvæði og farvegi snjóflóða á viðkomandi skíðasvæði og snjóflóðahætta metin þar sem fólk dvelur og safnast saman.

Munur á eftirliti með snjóflóðahættu, svæðisbundnum spám og skýrslum um hættumat

Veðurstofan sinnir ekki daglegu eftirliti með snjóflóðahættu á skíðasvæðum, en fyrir nokkur svæði á landinu er gerð svæðisbundin snjóflóðaspá þrjá daga fram í tímann. Spáin gildir fyrir stórt svæði og lýsir í grófum dráttum snjóalögum og líkum á snjóflóðum á öllu svæðinu. Mikilvægt er að blanda ekki saman skýrslum um hættumat og þessari reglulegu spá um snjóflóðahættu sem birt er á vefnum. Svæðisbundnar snjóflóðaspár koma ekki í staðinn fyrir staðbundið mat á snjóflóðahættu, en þær geta verið innlegg í það mat.

Skjamynd_SvaedisbundinSpa_08032024


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica