Fréttir

Breytingar í veður- og gróðurfari á landi má rekja til breytinga á sjávarhita

Alþjóðlegi veðurdagurinn er í dag. Tileinkaður samspili hafs, veðurs og loftslags

23.3.2021

Í dag, 23. mars, er alþjóðlegi veðurdagurinn. Þema dagsins í ár er „Hafið, loftslag og veður“ en hafið hefur áhrif á veðurfar. Árið 2020 voru áhrif aukinna gróðurhúsalofttegunda þó stærri í hnattrænu tilliti, en árið var með þeim hlýjustu síðan samfelldar mælingar hófust. Suðvestan við Ísland hefur árum saman verði svæði þar sem þróun sjávarhita er á skjön við þróunina víðast hvar annarsstaðar. Á undanförnum áratugum hefur þó hafið nærri Íslandi hlýnað verulega og hefur þess gætt á landinu, meðal annars í hita, úrkomu og gróðurfari.  Á Íslandi var árið 2020 undir meðaltali síðustu 10 ára en yfir meðaltali áranna 1961 – 1990.  Aðstæður í hafinu sunnan við landið voru einnig í svalara lagi.

Merkjanleg áhrif mannkyns eru nú jafnstór kröftum náttúrunnar

Árið 2020 var eitt heitasta ár á jörðinni frá upphafi mælinga. Árið fór nærri því að jafna met ársins 2016 og reyndar er munurinn á þessum tveimur árum innan óvissumarka í hnattrænum samantektum (mynd 1). Árið 2016 var ákaflega öflugur El Nino atburður í gangi í Kyrrahafi, en slíkir atburðir hækka hnattrænan hita iðulega. Árið 2020 var engu slíku til að dreifa, heldur var Kyrrahafið óvenju kalt, en slíkt gerist samfara La Nina atburðum.

“Árið 2020 var óvenju heitt og það þrátt fyrir kælandi áhrif frá La Nino atburðinum” sagði prófessor Petteri Taalas aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. “Það er merkilegt að hiti ársins 2020 var sambærilegur við hita ársins 2016 þegar einn öflugasti El Nino sögunnar átti sér stað. Þetta sýnir að merkjanleg áhrif mannkyns eru nú jafnstór kröftum náttúrunnar”.

Mynd1

Mynd 1:  Myndin sýnir hnattrænar hitabreytingar  síðustu 140 árin. Punktarnir sýna meðaltal hvers árs, en strikin tákna óvissumörk. Litlu munar á árunum 2016, 2019 og 2020 og því geta smávægilegar breytingar í mati á hita breytt röðinni hvaða ár er í fyrsta eða öðru sæti. Sýnd er samantektin frá Berkeley háskóla , en samantektir frá  öðrum stofnunum sýna mjög álíka niðurstöður.

Mynd2

Mynd 2: Myndir sýnir meðalbreytileika í hita á jörðinni 1901 – 2020 í gráðum á áratug. (línuleg hneigð hitabreytinga). Nánast allstaðar þar sem gögn eru nægilega góð hefur hlýnað, nema á svæði í Atlantshafinu suðvestan við Ísland. Óvissumat sýnir að niðurstöður eru ekki jafn áreiðanlegar nærri hafísröndinni og á heimskautasvæðum, m.a. vegna ósamfellu í gögnum framan af. Sýnd eru netsett gögn frá Berkeley háskóla, en sambærilegar niðurstöður fást hjá öðrum aðilum. 

Hlýnun er meiri yfir meginlöndum en hafsvæðum og hlýnun er meiri á heimskautasvæðum

Myndin hér að ofan sýnir verulega hnattræna hlýnun frá því snemma á 20. öld og nam hún að jafnaði um 0.94 °C á áratug. Þessi hlýnun er þó ekki samfelld, því eftir ákafa hlýnun fyrir miðbik síðustu aldar kólnaði aftur í nokkra áratugi áður en áköf hlýnun hófst að nýju á 8. áratug síðustu aldar. Þessi sveifla var mismunandi frá einum stað til annars, en nánast allstaðar hlýnaði þó á tímabilinu.  Hlýnun er meiri yfir meginlöndum en hafsvæðum og hlýnun er meiri á heimskautasvæðum.

Mynd3

Mynd 3: Þróun sjávarhitafrávika á hnattræna vísu (rautt) , á Atlantshafi (grænt) og á kalda svæðinu í Atlantshafi (blátt). Meðaltal fyrir svæðið 15-45°V  og 45-60°N (sjá reit á korti á myndinni hér að neðan) er notað til að tákna hitaþróun á kalda svæðinu og beina línan sýnir hvernig hefur kólnað að jafnaði á þessu svæði. Byggt á sjávarhita gögnum úr ERSSTv5 gagnasafni bandarísku veðurstofunnar NOAA og eru frávik reiknuð miðað við meðaltal áranna 1971 – 2000.

Hitabreytingar á Norður-Atlantshafi

Athygli vekur á mynd 4 hér að neðan, að suður af Grænlandi er svæði þar sem að jafnaði hefur ekki hlýnað, heldur kólnað á frá upphafi 20. aldar.   Þróun yfirborðshita sjávar á þessu svæði stingur í stúf við afganginn af heimshöfunum en þarna voru ákaflega hlý skilyrði fram yfir miðbik 20. aldar, en síðan kólnaði meðan það hlýnaði annarsstaðar. Síðustu ár hlýnaði aftur á þessu svæði og náðu hlýindin hámarki á fyrsta áratug þessarar aldar (mynd 3). Síðustu ár eru aðeins kaldari á þessu svæði og ef teiknuð er þróun sjávarhita frá 1980 til 2020 þá sést að þrátt fyrir hlýnun á Norður-Atlantshafi hefur svæði á miðju úthafinu kólnað á sama tíma. Þessi kuldapollur teygir sig þó ekki til Íslands og nærri landinu hefur hafið hlýnað. Ef einungis er skoðað síðasta ár og það borið saman við meðalástand tímabilsins 1980 til 2020 þá var kalda svæðið þó mun útbreiddara en áður og teygir sig nærri Íslandsströndum.

Vinstri

Haegri

Mynd 4: Efri: Meðalbreytiliki í sjávarhita frá 1981 til 2020 (°C á áratug).

Neðri: Hitafrávik ársins 2020 miðað við meðaltal áranna 1981 til 2020 (°C).

Þykka línan aðgreinir þau svæði sem hafa kólnað og hlýnað.

Sjávarhitagögn úr ERA5 endurgreiningu evrópsku reiknimiðstöðvarinnar ECMWF, í loftslagsgagnabanka Kópernikusar-áætlunarinnar.

Breytingar í veður- og gróðurfari á landi má rekja til breytinga á sjávarhita

Aðstæður á umræddu svæði í Norður-Atlantshafi sem sést á kortinu hér að ofan, eru háðar flæði hlýsjávar til norðurs og svalari sjávar til suðurs, auk þess sem vetrarvindar geta haft áhrif á hita yfirborðslagsins og blöndun þess við dýpri sjávarlög.  Í  skýrslu vísindanefndar árið 2018 kom fram að hitabreytingar yfirborðsjávar suðvestan við landið hafa áhrif á hitafar á Íslandi. Breytingar á umræddu svæði hafa þó ekki einar sér mikil áhrif á hitafar á Íslandi, en breytingar á sjávarhita nær landinu geta haft veruleg áhrif.  Sem dæmi um það hvernig breytingar í veður- og gróðurfari á landi má rekja til breytinga á sjávarhita sýnir skýrslan kort af því hvar hlýnaði mest að sumarlagi á síðustu áratugum og hvar úrkoman breyttist að sumarlagi. Þessar upplýsingar eru teknar saman á mynd 5 hér að neðan og einnig er bætt við gróðurfarsbreytingum á Íslandi (eins og þær koma fram í mælingu á hámarksgrænkustuðli) sem mældur er frá gervitunglamyndum.  Augljóst er að hlýnun og úrkomuaukning er mest norðan lands og vestan, og þetta eru einnig þau svæði þar sem grænkunin er mest.

Mynd5

Mynd 5: Breyting á hita (°C, kort til vinstri), úrkomu (mm/á mánuði, kort til hægri) og hámarksgróðurstuðli (NDVI, kort fyrir miðju) að sumarlagi á Íslandi á síðustu áratugum. Efri myndirnar tvær sýna mismunur meðaltala tímabilianna 2000 – 2014 og 1985 – 1999.  Þessar myndir er að finna í skýrslu Vísindanefndar um loftslagsbreytingar.

Mynd6

Mynd 6:  Breytingar í yfirborðshita sjávar  á hafsvæðinu umhverfis Ísland á síðustu áratugum. Myndin sýnir síðan breytingar í sjávarhita á sömu tímabilum og notuð voru til að reikna hita- og úrkomubreytingar á mynd 5. Myndin sýnir að á tímabilinu hlýnaði á öllu hafsvæðinu nærri Íslandi, en mest norðan og vestan við landið. Þessi sjávarhlýnun leiddi síðan til hlýnunar, úkomubreytinga og gróðurfarsbreytinga á landi. Mismunur meðaltala tímabilianna 2000 – 2014 og 1985 – 1999.   Uppruni gagna: Sjá mynd 4.


Árið 2020 var sérstaklega illviðrasamt

Á Íslandi hlýnaði ákaft frá lokum 20. aldar og fram yfir fyrsta áratug þeirrar 21. Árið 2016 var hlýjasta árið í langtíma mæliröðum, en það kom á hæla 2015 sem var það kaldasta á nýrri öld.  Þó árið 2020 væri hlýrra en 2015, var það kaldara en meðaltal síðusta áratugar. Árið 2020 var hinsvegar hlýrra en viðmiðunartímabilið 1961 – 1990. Árið 2020 var hinsvegar illviðrasamt sérstaklega á fyrsta þriðjungi ársins. Það var mjög úrkomusamt, og hefur ársúrkoma aldrei mælst meiri á Akureyri. Þá var aftakaúrkoma í desember á norðan- og austanverðu landinu og hefur aldrei mælst jafn mikil úrkoma yfir 5 daga tímabil og gerði á Seyðisfirði dagana 14. til 18. desember. Nánar má lesa um tíðarfar síðasta árs á vef Veðurstofunnar.

Mynd7

Mynd 7: Þessi mynd sýnir vik frá meðaltali 20. aldar. Eru hitafrávik ársins 2020 merkt sem punktar á myndina sem auðveldar samanburð við fyrri ár. Slíkur samanburður sýnir að þó árið sé hlýrra en 2015 á öllum stöðvum á myndinni og reyndar álíka hlýtt og sum önnur ár á þessari öld, eru mörg mun hlýrri ár á síðustu öld og einnig á þessari.

Fyrir vikið sýnir tafla í tíðarfarsyfirlitinu að árið 2020 er fjarri því að vera metár, er númer 8 – 42 í röðinni (sem fer nokkuð eftir lengd mæliraða). Fyrir stöðvarnar í töflunni þarf þó aldrei að fara lengra aftur en til ársins 2015 til að finna kaldara ár.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica