Fréttir
Third-pole
Mynd: NASA Scientific Visualization Studio

Breytingar á freðhvolfinu valda vítahring

Áhersla lögð á mikilvægi rannsókna og miðlunar á vísindalegri þekkingu 

23.11.2022

Veðurstofa Íslands, í samstarfi við Alþjóðaveðurmálastofnunina (WMO), stóð fyrir málstofu um breytingar á freðhvolfinu (e. cryosphere) og áhrif þeirra á náttúru og samfélag. Cryosphere er alþjóðlegt heiti sem nær yfir allt frosið vatn á hnettinum, hvort sem um er að ræða snjó, lagnaðarís, hafís, klaka í jörð eða jökulís. Orðið freðhvolf er íslenska heiti hugtaksins. Málstofan var haldin þann 16. nóvember síðastliðinn í tengslum við loftslagsfund Sameinuðu Þjóðanna, COP27. Hægt var að fylgjast með viðburðinum í beinu streymi en upptaka er aðgengileg hér

Nokkrir vísindamenn sem stundað hafa rannsóknir á freðhvolfinu kynntu niðurstöður sínar og ræddu einnig helstu niðurstöður alþjóðlegu ráðstefnunnar Cryosphere 2022 , sem haldin var í Hörpu fyrr á árinu. Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Skrifstofu Loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands, hafði umsjón með viðburðinum og stýrði pallborðsumræðum í lok hans.

Greinilegar vísbendingar um breytingar á freðhvolfinu 

Á málstofunni kynntu vísindamenn niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið á freðhvolfinu víðsvegar um heim. Rauði þráðurinn er sá að á síðastliðnum áratugum hafa flestir ef ekki allir þættir freðhvolfsins átt undir högg að sækja, jöklar eru að tapa massa, ísbreiður að bráðna, lagnaðarís brotnar fyrr upp og aukinnar þiðnunar gætir í efstu lögum sífrera. 

Fram kom að framlag Suðurskautslandsins til hækkunar sjávarborðs er enn óþekkt í tíma og rúmi og að oft sé talað um Suðurskautslandið sem „sofandi risa“. Vitað er að bráðnun hefur átt sér stað á ákveðnum svæðum þess. Aftur á móti sé þekking á samspili sjávar og íss á Suðurskautslandinu enn of lítil til þess að hægt sé að spá fyrir um framtíðina með mikilli vissu. Í því samhengi var haft eftir Robert DeConto, prófessor við Háskólann í Massachusetts að „mikil óvissa þýðir ekki endilega litlar líkur“.  

Freðhvolfið mikilvægt fyrir heilbrigði jarðar 

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, ávarpaði fundinn. Í máli hennar kom fram að freðhvolfið hafi hingað til hlotið of litla athygli. Nú fari áhugi á þessum eðlisþáttum jarðarinnar aftur á móti vaxandi og það á röngum forsendum; þ.e. að því sé veruleg hætta búin. Breytingar á freðhvolfinu geti aukið hættu á flóðum og haft gríðarleg neikvæð áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika. 

Svandis-COP
Mynd 1 Svandís Svavarsdóttir ávaraði málstofuna.

„Við sem búum á Íslandi vitum að snjór og ís getur hamlað okkar daglega lífi og jafnvel sett okkur í hættu á stundum. En við vitum líka að snjór og ís eru mikilvægir þættir fyrir heilbrigða jörð vegna þeirra áhrifa sem þessir þættir hafa á loftslagið,“ sagði Svandís. 

„Til þess að við getum notað okkur þekkingu byggða á vísindalegum grunni er mikilvægt að byggja brýr á milli vísindamanna, stefnumótenda og framkvæmdaaðila. Við erum stödd hér til þess að tengja vísindi, reynslu og stefnumótendur, sem er eina leiðin fram á við,“ sagði Svandís.  

Þriðji póllinn og áhrif breytinga á freðhvolfinu 

Dagfinnur Sveinbjörnsson, sendifulltrúi Arctic Circle – Hringborðs Norðurslóða í málefnum Þriðja póls, loftslags og hafsvæða, fjallaði um stöðu Þriðja pólsins gagnvart breytingum á freðhvolfinu. Þriðji póllinn er hugtak sem notað er yfir háfjallasvæði Asíu en í nánd við þau búa um það bil 25% mannkyns. Á Þriðja pólnum er stærsta hluta freðhvolfsins, fyrir utan heimskautasvæðin, að finna. Svæðið er mjög óaðgengilegt og einkennist af miklum andstæðum og flókinni stöðu stjórnmála.
Dagfinnur-COP
Mynd 2 Dagfinnur Sveinbjörnsson ræddi málefni Þriðja Pólsins í tengslum við breytingar á freðhvolfinu.

Fyrir um 15 árum höfðu vísindamenn ekki forsendur til þess að meta stöðu Þriðja pólsins gagnvart loftslagsbreytingum því lítið var um nákvæm, aðgengileg gögn um jökla og snjóhulu á svæðinu. Nú, þegar aukinna gagna hefur verið aflað um svæðið, náttúru þess og samfélag ætti að vera orðið gerlegt að fá skýrari mynd. Staða mála er þó enn flókin á svæðinu vegna vísbendinga um að minnkandi útbreiðsla hafíss á norðurslóðum hafi áhrif á Monsúnvinda. Þeir hafi svo bein áhrif á veðurfar og úrkomu á Þriðjapólssvæðinu. Þetta kallar á heildrænar rannsóknir, vöktun og miðlun gagna þvert á landamæri. 

„Breytingar á freðhvolfinu valda umfangsmeiri áskorunum en áður hefur þekkst, bæði á ákveðnum svæðum og um alla jörð. Þetta má sjá á Norðurheimskautinu, Þriðja pólnum og í tengslum Norðurheimskautsins og þeirra veðrakerfa sem hafa áhrif á vatnsbúskap Asíu. Þessar áskoranir kalla á aðgerðir og lykillinn að árangri er sú þekking sem byggir á vísindum. Framlag Alþjóðaveðurmálastofnunarinnar til rannsókna og miðlunar á vísindalegri þekkingu verður sífellt mikilvægara," sagði Dagfinnur. 

Mikilvægi loftslagsþjónustu

Dr. Karen Alley, aðstoðarprófessor við háskólann í Manitoba, gerði grein fyrir ályktunum sínum í kjölfar Cryosphere 2022. Hún dró sérstaklega fram þau tækifæri sem tækniframfarir hafa í för með sér á sviði rannsókna á freðhvolfinu. Þær geri vísindamönnum kleift að safna enn nákvæmari gögnum en áður og kanna svæði sem hafa hingað til reynst of erfið yfirferðar. Þó væri mikilvægt að tryggja áfram sess hefðbundinna rannsóknaaðferða til þess að ná samfellu í vöktun. 

Karen sagði það skipta miklu máli að vísindamenn væru gagnrýnir á gögn sín, niðurstöður og framsetningu. Þá vitnaði hún í orðatiltæki sem oft var slegið fram á Cryosphere 2022: „Öll módel eru röng en sum eru nothæf“. Það verður að hafa á bak við eyrað að við höfum oft skilning á þeirri óvissu sem er að finna í þeim sviðsmyndum eða spám sem settar eru fram. Það þýðir þó ekki að önnur óþekkt óvissa sé ekki til staðar. 

Tækniframfarirnar hafa leitt til þess að fyrir liggur ógrynni gagna af ýmsum toga er tengjast freðhvolfinu og loftslagsbreytingum almennt. Mikilvægt er að tryggja samræmingu þessara gagna og öfluga miðlun. Höfuðáhersla skyldi lögð á að gera þau aðgengileg öllum þeim sem áhuga hafa á að nýta sér þau og tryggja þannig þverfaglega heildræna nálgun. Í þessu samhengi varð fundarmönnum tíðrætt um mikilvægi loftslagsþjónustu með það að markmiði að brúa bilið á milli vísinda og samfélags. 

„Alþjóðaveðurfræðistofnunin gerir sér grein fyrir þörfinni og mun leggja sig fram um að flýta fyrir samþættingu á upplýsingum um freðhvolfið. Styðja þannig við rannsóknir á hnattrænni og staðbundinni áhættu vegna óafturkræfra breytinga á freðhvolfinu og afleiðingum þeirra, svo sem á vatnabúskap, hækkun sjávarstöðu, aukinni hættu á hamförum og svo framvegis,“ sagði Johan Stander, yfirmaður þjónustudeildar Alþjóðaveðurmálastofnunarinnar. 

Breytingar í freðhvolfinu valda vítahring 

„Það er ekki nóg að horfa á fyrri skýrslur IPCC og standa áfram í þeirri trú að bráðnun freðhvolfsins og áhrif hennar á heimskautasvæðin séu viðvörun og sönnun þess að loftslagsbreytingar séu raunverulegar. Nú erum við komin í vítahring þar sem breytingar á freðhvolfinu ýta undir breytingar á loftslagi jarðar,“ sagði Anna Hulda. 

Með hlýnandi loftslagi færast mörk sífrera sífellt norðar. Sífrerinn hefur að geyma lífrænan jarðveg sem safnast hefur þar upp yfir þúsundir ára. Jarðvegurinn inniheldur mikil kolefni sem hingað til hefur verið haldið frá andrúmsloftinu, frosið í jörðu. Bráðnun sífrera leiðir til losunar kolefnis út í andrúmsloftið sem ýtir undir gróðurhúsaáhrif með tilheyrandi hlýnun jarðar. Hún veldur frekari þiðnun sífrera með aukinni losun kolefnis. 

Annað dæmi um vítahring sem knúinn er áfram af breytingum í freðhvolfinu tengist geislun sólar. Ís og snjór er þeim eiginleikum gæddur að endurvarpa stórum hluta af geislum sólar út í geiminn. Vísindamenn spá nú hafíslausu norðurskauti í kringum 2030. Dökkt haf dregur í sig meiri geislun en fast land og því mun íslaust haf ýta undir hraðari hlýnun jarðar en þekkist í dag. 

„Freðhvolfið er að bráðna og mun halda því áfram. Sú framtíð sem blasir við okkur er framtíð sem við þurfum að laga okkur að,“ sagði Anna Hulda í lokaorðum sínum. 

Anna-hulda-COPMynd 3 Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands.

Ísland og Chile í samstarfsverkefni um verndun freðhvolfsins 

Sama dag og málstofa Veðurstofunnar um freðhvolfið fór fram ávarpaði Svandís Svavarsdóttir annan viðburð á COP27. Þar greindi hún frá auknum fjárframlögum Íslands til alþjóðlegra loftslagsmála auk þess sem hún kynnti sameiginlegt verkefni Íslands og Chile um verndun freðhvolfs jarðar. 

Í yfirlýsingu Íslands og Chile vegna verkefnisins kemur fram að hlýnun jarðar hafi þegar valdið gríðarlegum breytingum á freðhvolfinu. Alvarleg áhrif þess séu þegar komin fram, svo sem vatnsskortur vegna minnkandi jökla, hækkun sjávarborðs á heimsvísu vegna bráðnunar jökla og ísbreiða og hækkandi hitastigs sjávar, auk skriðufalla vegna bráðnunar sífrera. Þessar breytingar ógni lífi fólks og hafi þegar eyðilagt lífsviðurværi manna. Frumbyggjar á norðurhveli jarðar og á fjallasvæðum séu þeir sem fyrstir verða fyrir áhrifum vegna þessara breytinga. 



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica