Fréttir
Náttúra Íslands er stórbrotin og fær hún að njóta sín í nokkrum ljósmyndum í ársskýrslunni eins og svo oft áður. Hér er mynd sem Ragnar Th. Sigurðsson ljósmyndari tók við Bárðarbungu í árleglegri ferð Veðurstofunnar, Jöklarannsóknafélagsins og vísindamanna á Vatnajökul.

Ársskýrsla Veðurstofunnar kemur út á prenti í síðasta sinn

19.11.2020

Ársskýrsla Veðurstofu Íslands er óvenju innihaldsrík þetta árið. Tilefnið er 100 ára afmæli Veðurstofunnar sem var stofnuð árið 1920. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá stofnun Veðurstofunnar og er stiklað á stóru í sögu hennar í ársskýrslunni. Að auki er í skýrslunni hefðbundið yfirlit á náttúrufari ársins 2019.

Þetta er í síðasta sinn sem ársskýrslan er gefin út á pappír. „Það er ýmislegt sem kemur til“, segir Haukur Hauksson, samskiptastjóri Veðurstofunnar, en hann og Sigurlaug Gunnlaugsdóttir, útgáfustjóri Veðurstofunnar, unnu saman að ársskýrslunni þetta árið. „Við á Veðurstofunni vinnum að því að minnka pappírsnotkun stofnunarinnar og það að hætta að prenta ársskýrsluna má segja að sé táknrænt skref í átt að því markmiði“, segir Haukur.

Framvegis mun skýrslan verða gefin út rafrænt og verið er að skoða hvaða viðmót hentar best fyrir skýrslur Veðurstofunnar. „Rafrænt viðmót gerir okkur til dæmis kleift að vera með tengla í ýmislegt efni sem tengist efni skýrslunnar hverju sinni, eitthvað sem myndi ekki rúmast á fáum prentuðum síðum“, segir Haukur. „Veðurstofan vinnur að því að bæta þjónustuna á stafrænum miðlum stofnunarinnar og það að þróa útgáfu á rafrænum skýrslum er hluti af þeirri vinnu sem við erum í þessa dagana. Vefurinn okkar er auðvitað mikilvægasti glugginn og jafnframt stærsta verkefnið þegar kemur að stafrænum miðlum og vonandi sjáum við afrakstur þeirrar vinnu á næsta ári þegar við erum orðin 101 árs“, segir Haukur að lokum.

Hér er hægt að skoða Ársskýrsla Veðurstofu Íslands 2019 í mismunandi viðmóti.

Hala skýrslunni niður á PDFformi

Skoða PDF eintakið í „flettiglugga“

Tilraunaútgáfa fyrir snjalltæki og tölvur




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica