Fréttir
Framkvæmdastjórn Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar
Framkvæmdastjórn Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, kjörinn í framkvæmdastjórn Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar

21.6.2018

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, var kjörinn í framkvæmdastjórn Alþjóðaveðurfræðistofnunnarinnar ( WMO ) á þingi stjórnarinnar sem nú stendur yfir í Genf í Sviss. Framkvæmdastjórnin ( Executive Council ), sem hittist árlega, mun á þessu þingi leggja áherslu á að tryggja framgang þeirra verkefna Alþjóðaveðufræðistofnunarinnar sem auka getu aðildarþjóðanna til að takast á við aukna náttúruvá tengda loftslagsbreytingum. „Loftslagsbreytingar hafa mikil áhrif um allan heim og hamfarir af völdum veðurs og vatnsflóða eru að aukast á meðal aðildarþjóðanna“ segir Petteri Taalas, framkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. „Það er því mikil þörf á að bæta spár og þróa viðvaranakerfi til að auka getu þjóða til að takast á við og aðlagast loftslagsbreytingum.“

Vatnsbúskapur jarðar ein stærsta áskorun framtíðarinnar

Á þinginu, sem líkur 29.júní, er einnig sérstök áhersla lögð á viðbrögð alþjóðasamfélagsins við þeim áskorunum er tengjast vatnsbúskap jarðarinnar. Árni Snorrason, mun í því samhengi halda sérstakt erindi á þinginu og miðla þekkingu Veðurstofunnar sem fengist hefur í gegnum eftirlit og rannsóknir á vatnafari Íslands. Þær upplýsingar eru sérstaklega mikilvægar til að skilja afleiðingar loftslagsbreytinga á norðurslóðum, en vöktun og rannsóknir á vatnafari svæðisins skiptir máli fyrir skilning á vistfræði strandsvæða, eðli hafsstrauma, skipulag samgangna og nýtingu vatnsorku. „Hvernig við högum okkar vatnsbúskap í framtíðinni og hvernig við tökumst á við þær breytingar í þeim efnum sem þegar eru augljósar í mörgum löndum, verður ein stærsta áskorun alþjóðasamfélagsins á næstu áratugum“, segir Árni og leggur áherslu á að það sé mikilvægt að Ísland og önnur lönd á norðurslóðum eigi fulltrúa á þessum mikilvæga vettvangi sem þing framkvæmdastjórnarinnar er.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica