Fréttir
Copernicus_mynd2
Yfirborðshiti jarðar árið 2023 sem frávik frá meðaltali tímabilsins 1991-2020.

Árið 2023 var heitasta ár sögunnar

Meðalhiti jarðar nálgast 1,5°C mark Parísarsamningsins

10.1.2024

Samkvæmt yfirliti Copernicus um hitafar ársins 2023 náði meðalhiti jarðar fordæmalausum hæðum á árinu. Á árinu 2023 mældist hlýjasti mánuður frá upphafi mælinga auk þess sem að hnattræn meðalhitafrávik fóru einstaka daga yfir 2°C.

Copernicus_mynd1

Mynd 1 Þróun hnattræns meðalhita, vinstri myndin sýnir fimm ára meðaltal frá 1850 og hægri myndin sýnir ársgildi frá 1967. Hitatölur eru sýndar sem vik frá meðaltali tímabilsins 1850 til 1900.

Margskonar met slegin

Þann 9. janúar gaf loftslagsþjónusta Copernicus út yfirlit yfir hitafar ársins 2023. Þar er hiti ársins metinn sem 1,48°C umfram meðaltal áranna 1850 – 1900, sem er 0,17°C heitara en fyrra met, frá árinu 2016.

Í yfirliti Copernicus kemur fram að:

  • Staðfest er að árið 2023 var hnattrænn meðalhiti hærri en nokkurt ár síðan mælingar hófust, amk síðan 1850 (mynd 1).
  • Árið 2023 var 0,6°C heitara en meðaltal áranna 1991 – 2020 og 1,48°C heitara en meðaltal áranna 1850 til 1900, sem gjarnan er notað til viðmiðunar um tímann fyrir iðnbyltingu. Það er þann tíma áður en gróðurhúsaáhrif fóru að aukast vegna bruna jarðefnaeldsneytis (mynd 2).
  • Það er líklegt að meðaltal 12 mánaða tímabils, sem lýkur í janúar eða febrúar 2024, verði meira en 1,5°C umfram meðaltal fyrir iðnbyltingu.
  • Frá júní til desember á árinu 2023 sló sérhver mánuður hitamet, þ.e. var heitari en sami mánuður nokkuð annað ár (mynd 3).
  • September mánuður 2023 var heitasti mánuðurinn í ERA5 gagnasafninu en október, nóvember og desember voru álíka heitir og næstheitustu mánuðirnir í safninu. Þetta þýðir að auk þess að vera heitasta árið frá upphafi voru einstakir mánuðir á síðasta ári þeir heitustu og næstheitustu síðan mælingar hófust.

Copernicus_mynd2

Mynd 2 Yfirborðshiti jarðar árið 2023 sem frávik frá meðaltali tímabilsins 1991-2020.

Copernicus_mynd3

Mynd 3 Hækkun hnattræns meðalhiti hvers dags í samanburði við viðmiðunartímabilið 1850-1900, tímabilið fyrir iðnbyltingu. Myndin sýnir þrjú bil hækkunar, 1-1,5°C (appelsínugult), 1,5-2°C (rautt) og yfir 2°C (vínrauður)

Samantekt í samræmi við spár Veðurstofunnar

Í frétt, sem birt var á heimasíðu Veðurstofunnar í nóvember var fjallað um óvenjulega hita ársins 2023. Þar var sett fram spá um hversu heitt árið yrði og byggðist hún á tölum frá loftslagsþjónustu Copernicus fyrir fyrstu 10 mánuði ársins 2023. Sú spá leiddi í ljós að um yrði að ræða heitasta ár síðan mælingar hófust. Í fréttinni var því einnig velt upp hvort hitavik ársins yrðu yfir 1.5°C markinu, en þá er verið að vísa til annars marka Parísarsamningsins. Niðurstaðan var sú að líklega yrði meðalhiti ársins 2023 um 1,43°C (með 95% vikmörkum á bilinu 1,39 til 1,47°C) umfram meðaltal áranna 1850 – 1900. Því væri líklegt að árið yrði metár, en ólíklegt að hitinn færi yfir 1,5°C markið.

Áhrifa gætir víða

Í samantektinni frá Copernicus kemur einnig fram að óvenju mikið var um aftakaatburði víða um heim, þ.m.t. hitabylgjur, flóð, þurrka og gróðureldar. Talið er að kolefnislosun vegna gróðurelda hafi verið 30% meiri árið 2023 en árið 2022, sérstaklega vegna langvinnra gróðurelda í Kanada.

Markverð flóð voru m.a. skyndiflóð vegna staðbundinnar aftakaúrkomu og vegna ákafs rakaflæðis í lofti, svokallaðra rakaelfa, sem geta valdið víðfeðmri úrkomu og flóðum. Sem dæmi um þetta síðara má nefna atburði í janúar og mars í Kaliforníu og í Síle í júlí. Þá urðu einnig flóð í tengslum við monsún rigningar, hitabeltislægðir og stór veðrakerfi. Sem dæmi má nefna fellibylinn Freddy sem olli flóðum í suðaustur Afríku í febrúar og mars, fellibylina Hillary sem olli flóðum í Mexíkó og vesturhluta Bandaríknanna í ágúst, Otís í Mexíkó í október, Daníel á Miðjarðarhafssvæðinu í september og leifar fellibylsins Jasper í Ástralíu.

Þar sem þurr jarðvegur tekur verr upp úrkomu getur verið að í sumum tilvikum hafi þurr jarðvegur aukið á afrennsli. Dæmi um þetta eru flóð sem urðu í Sómalíu (Afríkuhornið) í haust. Þurrkasamt var á mörgum svæðum á jörðinni, sérstaklega í Mexíkó, í Amasón, á Pantanal svæðinu og í Vestur-Afríku. Hitabylgjur urðu víða og hitamet féllu. Markverð dæmi má nefna frá Suður-Evrópu, Norður-Afríku, hlutum Norður-Ameríku og Asíu og svo síðar í Suður-Ameríku, Suður-Afríku og Ástralíu.

Á sumum svæðum leiddu hitar og þurrkar til viðfeðmra gróðurelda, m.a. í Suður-Evrópu, Suður-Ameríku, á Hawaii og Kanada, þar sem skógareldar í Northwest Territories héraðinu juku verulega losun kolefnis til andrúmslofts.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica