Fréttir
Norðurljós
Norðurljós séð frá Bifröst í Borgarfirði 7. desember 2014. Fjallið Baula fyrir miðri mynd.

Árið 2016 eitt hið hlýjasta

Örstutt yfirlit um tíðarfar

29.12.2016

Tíðarfar 2016 var lengst af hagstætt, jafnvel mjög hagstætt og er árið eitt hið hlýjasta sem vitað er um hér á landi. Meðalhiti í Reykjavík er 6,0 stig og hefur aldrei verið marktækt hærri, reiknaðist þó 6,1 stig árið 2003 (hækkað úr 6,06 stigum). Á Akureyri er meðalhitinn um 4,9 stig og hefur aðeins þrisvar verið hærri, síðast 2014. Í Stykkishólmi er villumeðferð ekki lokið, en hugsanlegt er að árið verði þar það hlýjasta frá upphafi mælinga, 1846.

Fyrstu tveir mánuðir ársins voru heldur kaldari en venjulegast hefur verið á undanförnum árum og því var lengi vel talið ólíklegt að árið í heild yrði jafnhlýtt og raun ber vitni. Með marsmánuði hlýnaði og síðustu mánuðir ársins voru sérstaklega hlýir, ekki síst þó metmánuðurinn október.

Um landið sunnanvert var úrkoma lengst af undir meðallagi fyrstu 8 mánuði ársins, en síðustu mánuðirnir urðu aftur á móti mjög úrkomusamir, sérstaklega þó október. Úrkoma í Reykjavík varð um 15 prósent ofan meðallags árið í heild. Á Akureyri var ársúrkoma um fjórðungi ofan meðallags.

Vindhraði var neðan meðallags í flestum mánuðum og illviðri færri en algengast er.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica