Fréttir
Worldweatherday2024

Alþjóðlegur dagur veðurfræði

Í ár er lögð áhersla á loftlagsbreytingar

23.3.2024

Í dag (23. mars) er haldið upp á alþjóðlegan dag veðurs undir yfirskriftinni „í framvarðarsveit loftlagsaðgerða“ (e. At the frontline of climate action) Í ár er lögð áhersla á að loftslagsbreytingar eru sannarlega að eiga sér stað og ógna gjörvöllu samfélagi manna. Áhrifin eru þegar sýnileg og munu verða enn verri ef ekki er brugðist við þegar í stað.

Forsida-betri



Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem fjallaði um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Ísland segir: „Loftslagsbreytingar eru þegar byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi sem hefur í för með sér vaxandi áskoranir fyrir efnahag, samfélag og náttúru“. Þar er bent á að samhliða því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, eins hratt og unnt er, þurfi að aðlaga samfélagið að þeim breytingum sem eru óumflýjanlegar.

Árangursrík aðlögun að loftslagsbreytingum byggist á öflugum rannsóknum og góðu eftirliti og spám. Þar hafa veðurstofur aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaveðurfræðistofnunin lagt mikið til á síðustu árum og áratugum, með eflingu á rannsóknum og bættum spá- og eftirlitskerfum. Slíkt hefur nýst beint inn í stefnumótun um aðlögun sem nauðsynleg er á næstu áratugum. Veðurstofan hefur meðal annars aukið við getu til þess að spá fyrir aftakaveðri með samstarfi við nágrannaþjóðir um rekstur veðurlíkans og spár fyrir Ísland, Grænland og Norður-Evrópu í þéttu reiknineti.

Auk þess sem Veðurstofa Íslands hefur frá upphafi fylgst með þróun veðurfars hefur hún síðastliðna áratugi leitt samstarf íslenskra vísindamanna um stöðumat á áhrifum loftslagsbreytinga. Samhliða þeirri vinnu hefur Veðurstofan einnig haft forgöngu um að hefja aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum, og sett var á laggirnar skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar (SLA) á Veðurstofu Íslands vegna þessa. Hlutverk skrifstofunnar er meðal annars að brúa bilið á milli rannsókna og vöktunar og þeirra sem sinna ákvarðanatöku enda mikilvægt að áætlanir og stefnumótun um aðlögun byggi á sem bestum vísindum.

Veðurstofan vinnur, í samvinnu við samstarfsaðila innanlands og utan, að því að skapa sterkan þekkingargrunn fyrir þær ákvarðanir og aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að loftslagsverja samfélagið og gera því kleift að standa af sér fleiri storma á næstu áratugum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica