Fréttir
Anna Muniak veðurfræðingur á flugveðursvaktinni. Veðurstofan vaktar og gefur út spár fyrir flugumsjónarsvæði Íslands sem er annað stærsta flugumsjónarsvæði í heiminum að flatarmáli. Anna kláraði meistaranám í veðurfræði frá Háskólanum í Warclaw 2016 og hóf störf á Veðurstofunni í desember 2018.

Alþjóðlegur dagur kvenna og stúlkna í vísindum

11.2.2021

Í dag, 11. febrúar, fögnum við á Veðurstofunni alþjóðlegum degi kvenna og stúlkna í vísindum. Sameinuðu þjóðirnar settu þennan dag á laggirnar árið 2016 til að vekja athygli á mikilvægi þess að auka þátttöku kvenna og stúlkna í vísindum.

Eins og fram kemur á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna, er konur aðeins 30% þeirra sem stunda vísindarannsóknir í heiminum og hlutfall kvenna í raungreinanámi í háskólum er svipað, eða innan við þriðjungur allra háskólanema í raungreinum á heimsvísu. Undanfarinn áratug hefur engu að síður náðst mikill árangur í menntun stúlkna í heiminum, en það hallar enn mjög á konur í svokölluðum STEM-greinum eða í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði. Samkvæmt frétt Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) benda rannsóknir til þess að hefðir og staðalímyndir séu ljón í vegi stúlkna.

Á Veðurstofunni starfar stór hópur kvenna við vöktun og rannsóknir á náttúruöflunum. Menntun þeirra og viðfangsefni eru nánast jafn fjölbreytt og náttúra Íslands, en náttúran mun áfram krefjast mikils af vísindum framtíðarinnar og þannig veita stúlkum ómæld og áhugaverð tækifæri til að mennta sig og starfa á þessu mikilvæga sviði vísindanna.

Michelle Maree Parks við vinnu sína en hún hefur meðal annars útbúið fjölmörg líkön í Reykjaneshrinunni á seinasta ári og fyrir Bárðarbungu og Öræfajökul undanfarin ár.

Hér er stutt myndband sem gefur örlitla innsýn í starf nokkurra kvenna sem starfa í áhugaverðum heimi vísindanna hér á Veðurstofunni. Þetta eru þær Harpa Grímsdóttir, hópstjóri ofanflóðavöktunar, Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár, Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna, Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurþjónustu, Melissa Anne Pfeffer, sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar og Kristín Vogfjörð, hópstjóri jarðar og eldgosa.

Konur og vísindi á Veðurstofunni

Alþjóðlegur heimur vísindanna

Alþjóðleg samstarfsverkefni eru Veðurstofunni mjög mikilvæg. Á þessum vettvangi hefur framlag íslenskra kvenna í vísindum verið mikilvægt, en um leið eru þar tækifæri til að auka þekkingu hér á landi og vinna með fólki í vísindum – frá Noregi til Nýja Sjálands. Eitt slíkt samstarfsverkefni ber heitið ChEESE (Center of Excellence in the domain of Solid Earth). Það verkefni á sviði upplýsingatækni og miðar að uppbyggingu öndvegisseturs í háhraðareikningum og aðgengi að kóðum til háhraðahermunarreikninga í jarðvísindum. Þátttaka Veðurstofunnar tengist hermunarreikningum í jarðskjálftafræði og eldfjallafræði/gosmakkadreifingarlíkönum. Hér er myndband þar sem hluti af þeim konum sem tekur þátt í því í ChEESE lýsa verkefnum sínum og bakgrunni.

Konur og vísindi í CheEESE verkefninu



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica