Fréttir
snjóflóðavarnargarður
Snjóflóðavarnir/Avalanche levee, Siglufjörður.

Alþjóðlegur dagur hamfaraminnkunar 13. október 2017 – Örugg heimili

13.10.2017

Árið 1989 tilnefndu Sameinuðu Þjóðirnar 13. október Dag hamfaraminnkunar (International Day for Disaster Reduction). Þetta er í 28. sinn sem þessi dagur er nýttur til þess að vekja athygli á aðgerðum, aðferðum og viðbúnaði til að draga úr áhrifum hamfara á jarðarbúa og því sem er hægt að gera til þess að auka getu samfélaga til að takast á við hamfarir.

Í mars 2015 var samþykkt á vettvangi Sameinuðu Þjóðianna sáttmáli um aðgerðir til þess að draga úr áhrifum hamfara 2015-2030. Sáttmálinn er kenndur við borgina Sendai í Japan (Sendai Framework for DisasterRisk Reduction 2015-2030 ), en þar urðu miklar hamfarir eftir jarðskjálftann mikla og flóðbylgjuna sem varð í kjölfar hans 11. mars 2011. Í sáttmálanum eru að finna sjö alþjóðleg markmið, sem í stuttu máli eru eftirfarandi og miða að því að á tímabilinu hafi:

  1. verulega dregið úr dauðsföllum sem rekja má til hamfara
  2. verulega dregið úr fjölda þeirra sem verða fyrir áhrifum hamfara
  3. dregið úr efnahagslegum áhrifum vegna hamfara
  4. verulega dregið úr áhrifum af hamförum á mikilvæga innviði og röskun á undirstöðu þjónustu s.s. heilbrigðis- og menntakerfi
  5. fjölda landa sem hafa aðgerðaráætlun til að draga úr áhrifum hamfara á samfélagið aukist verulega
  6. alþjóðlegt samstarf til þróunarlanda aukist verulega með því að aðstoða við uppbyggingu áætlana til að framfylgja Sendai sáttmálanum
  7. aðgengi upplýsinga um spár, viðvaranir og hættu- og áhættumöt aukist verulega.
Á síðasta ári var áhersla Dags hamfaraminnkunar á markmið (a). Í ár er áherslan lögð á markmið (b), sem eru forvarnir, vernd og að draga úr fjölda þeirra sem verða fyrir áhrifum hamfara. Slagorð dagsins er því Örugg heimili eða á ensku Home Safe Home. Á vefsíðu sem tileinkuð er deginum má nálgast ýmsan fróðleik.

Sendai

Hvað hefur verið gert á Íslandi?

Veðurstofan hefur meðal annars það hlutverk að vinna að hættu- og áhættumati vegna náttúrvár og hefur undanfarna tvo áratugi stuðst við aðferðarfræði Sameinuðu Þjóðanna í þeim efnum. Megintilgangur áhættumats vegna náttúruvár er að draga verulega úr líkum á dauðsföllum vegna náttúruvár, lágmarka tjónnæmi samfélagsins og byggja upp þol þess. Gerð hættu- og áhættumats vegna náttúruvár mun gera okkur sem samfélag betur í stakk búin til að takast á við afleiðingar náttúruvár.

Frá því að snjóflóðin hörmulegu féllu 1995 hefur ýmsu verið áorkað sem miðar að því að draga úr áhrifum snjóflóða á samfélag okkar. Gert hefur verið áhættumat fyrir þá þéttbýlisstaði sem hætta stafar af snjóflóðum, unnið er að hættumati fyrir skíðasvæði landsins og ennfremur að úttekt á snjóflóðahættu í dreifbýli. Varnargarðar hafa verið reistir þar sem þörf er talin á, en sú uppbygging er enn í gangi. Til viðbótar hefur verið byggt upp öflugt eftirlits- og viðvörunarkerfi og rýmingaráætlanir gerðar. Allar þessar aðgerðir miða að því að gera þorp og bæi, þar sem snjóflóðahætta er ríkjandi, öruggari fyrir íbúana. Þetta fellur vel að slagorði dagsins: Örugg Heimili.

Upplýsingamiðlun er mikilvægur þáttur í þeirri vinnu sem gerð hefur verið og hefur Veðurstofan nýtt vefinn til að birta upplýsingar. Fyrir nokkrum árum var kortasjá fyrir ofanflóð gerð aðgengileg á vefnum.. Markmiðið er að auðvelda aðgengi að ofanflóðagögnum sem stofnunin aflar og varðveitir.

Veðurstofan hóf að vinna að hættu- og áhættumati vegna eldgosa 2011 í samvinnu við Jarðvísindastofnun Háskólans, Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, Landgræðsluna og Vegagerðina. Ein af afurðum þess verkefnis var gerð vefsjár um íslensk eldfjöll  og var það styrkt af Alþjóða flugmálastofnuninni ICAO. Þetta er uppflettirit þar sem hægt er að nálgast allar upplýsingar um hin 32 virku eldfjallakerfi á Íslandi.

Hafist var handa að vinna að hættu- og áhættumati vegna flóða og sjávarflóða 2015.

Þessi vinna og verkefni sem nefnd hafa verið hér að ofan fellur mjög vel að Sendai sáttmálanum og markmiðunum sjö. Það er von Veðurstofunnar að áframhald verði á þessum verkefnum, að fjármögnun þeirra tryggð þannig að hægt verði að ljúka þeim á komandi árum. Ennfremur er mikilvægt að víkka verkefnin þannig að hægt sé að taka fyrir allar tegundir náttúrvár.

Það er Ofanflóðasjóður og orku- og samgöngugeirinn sem styrkt hafa þessi verkefni.

Viðhorf aðalritara Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO)

Aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) Dr. Petteri Taalas heimsótti Veðurstofuna 12. október og gafst þá tækifæri til að ræða náttúruhamfarir sem verða vegna veðurs, svo sem fellibyljanna sem herjuðu á lönd í Karíbahafinu og Bandaríkin í lok ágúst og í september. Samvinna WMO og Sameinuðu Þjóðanna hefur aukist að undanförnu meðal annars vegna þeirra hamfara sem orsakast af veðri og veðurtengdum þáttum. Veðurstofan fylgist vel með framvindunni og tekur þátt í þessari þróun. Dr. Taalas taldi að samþætting vöktunar á náttúrvá, eins og gert er á Veðurstofunni, og svo áhættumat náttúruvár sem gert hafi verið á stofnuninni, væri einstakt í heiminum. Þetta myndi WMO leggja áherslu á að aðildarþjóðir gerðu, hver hjá sér, því þar væru veruleg tækifæri til þess að bæta þjónustan við samfélagið.

Tveir karlmenn

Við ofurtölvu dönsku veðurstofunnar DMI, sem Veðurstofa Íslands hýsir. Árni Snorrason forstjóri Veðurstofu Íslands og Petteri Taalas aðalritari Alþjóðaverðurfræðistofnunarinnar. Ljósmynd: Hafdís Karlsdóttir.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica