Fréttir

Alþjóðadagur Hamfaraminnkunnar haldinn í 31. sinn

Markmiðið er að vekja athygli á aðgerðum, aðferðum og viðbúnaði til að draga úr áhrifum hamfara á jarðarbúa 

13.10.2020

Í dag 13. október er Alþjóðadagur Hamfaraminnkunnar haldinn í 31. sinn. Árið 1989 tilnefndu Sameinuðu þjóðirnar 13. október, Dag Hamfaraminnkunnar ( International Day for Disaster Reduction ). Markmiðið er að vekja athygli á aðgerðum, aðferðum og viðbúnaði til að draga úr áhrifum hamfara á jarðarbúa og hvað er hægt að gera til að auka seiglu samfélaga til að takast á við hamfarir. 

Athygli vakin á mikilvægi góðra stjórnunarhátta 

Undanfarin ár hefur dagurinn verið nýttur til að vekja athygli á markmiðunum sjö sem sett eru fram í Sendai-rammaáætluninni sem Sameinuðu Þjóðirnar samþykktu í mars 2015. Seindai-rammaáætlunin gengur út á aðgerðir til að draga úr áhrifum hamfara 2015-2030. Hann er kenndur við borgina Sendai í Japan ( SendaiFramework for Disaster Risk Reduction 2015-2030 ) en þar urðu miklar hamfarir eftir jarðskjálftann mikla og flóðbylgjuna sem varð í kjölfar hans 11. mars 2011. Markmiðin sjö sem sett voru fram eru í stuttu máli eftirfarandi:  

  • Að verulega hafi dregið úr dauðsföllum, sem rekja má til hamfara. 
  • Að verulega hafi dregið úr fjölda þeirra sem verða fyrir áhrifum hamfara. 
  • Að dregið hafi úr efnahagslegum áhrifum vegna hamfara. 
  • Að verulega hafi dregið úr áhrifum af hamförum á mikilvæga innviði og röskun á undirstöðu þjónustu s.s. heilbrigðis- og menntakerfi. 
  • Að auka verulega fjölda landa sem hafa aðgerðaráætlun til að draga úr áhrifum hamfara á samfélagið. 
  • Að auka verulega alþjóðlegt samstarf til þróunarlanda með því að aðstoða við uppbyggingu áætlana til að framfylgja Sendai rammaáætluninni. 
  • Að auka verulega á aðgengi upplýsinga um spár, viðvaranir og hættu- og áhættumöt.    

Í ár var áherslan lögð á að vekja athygli á mikilvægi góðra stjórnunarhátta sem stuðla að aðgerðum „sem auka seiglu samfélaga og minnka tjónnæmni“ eins fram kemur í markmiðum Sendai samkomulagsins. Sem dæmi um slíka stjórnunarhætti og aðgerðir hér á Íslandi má nefna hvernig tekið hefur verið á ofanflóðamálefnum síðustu rúma tvö áratugi. Annað dæmi og nær okkur í tíma er átak stjórnvalda um uppbyggingu innviða eftir óveðrið sem gekk fyrir landið í desember 2019. Þar er meðal annars farið í stórt átak til að bæta vöktun á náttúruvá, en þar gegnir Veðurstofan stóru hlutverki.  



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica