Fréttir

Áhrif loftslagsbreytinga þegar of dýru verði keyptar

Alþjóðaveðurfræðistofnunin kynnti í dag nýja skýrslu um ástand loftslags jarðar

19.4.2021

Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) gaf út í dag skýrslu sem lýsir ástandi loftslags jarðar - „State of the Global Climate“. Skýrslan er samantekt unnin af fjölmörgum stofnunum og vísindamönnum og lýsir ástandi loftslags jarðar sem og afleiðingum loftslagsbreytinga.

“Loftslag jarðar er að breytast og áhrif breytinganna eru þegar of dýru verði keyptar, bæði gagnvart íbúum og náttúrunni. Við þessu þarf að bregðast og það strax í ár“, sagði António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, þegar skýrslan var kynnt í New York í dag.

Samkvæmt skýrslunni þurftu milljónir jarðarbúa að takast á við öfgar í veðri á síðasta ári vegna loftslagsbreytinga samhliða baráttunni við kórónuveiruna. Þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn hafi hægt á hagkerfum heims virðist faraldurinn ekki hafa hægt á loftslagsbreytingum.

Síðustu sex ár þau heitustu á jörðinni frá upphafi mælinga

Árið 2020 var eitt heitasta ár á jörðinni frá upphafi mælinga. Hitamet var slegið þegar hitinn fór í 38.0 °C í Verkhoyansk í Rússlandi 20. júní, sem er hæsta hitastig sem mælst hefur norðan heimskautsbaugs. Árið 2020 fór nærri því að jafna met ársins 2016 og reyndar er munurinn á þessum tveimur árum innan óvissumarka í hnattrænum samantektum (mynd 1). Árið 2016 var ákaflega öflugur El Nino atburður í gangi í Kyrrahafi, en slíkir atburðir hækka hnattrænan hita iðulega. Árið 2020 var engu slíku til að dreifa, heldur var Kyrrahafið óvenju kalt, en slíkt gerist samfara La Nina atburðum.

Síðustu sex ár eru heitustu ár frá upphafi mælinga og síðasti áratugur einnig sá heitasti.

“Árið 2020 var óvenju heitt og það þrátt fyrir kælandi áhrif frá La Nino atburðinum” sagði prófessor Petteri Taalas aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. “Það er merkilegt að hiti ársins 2020 var sambærilegur við hita ársins 2016 þegar einn öflugasti El Nino sögunnar átti sér stað. Þetta sýnir að merkjanleg áhrif mannkyns eru nú jafnstór kröftum náttúrunnar”.

Mynd1

Mynd 1: Myndin sýnir hnattrænar hitabreytingar  síðustu 140 árin. Punktarnir sýna meðaltal hvers árs, en strikin tákna óvissumörk. Litlu munar á árunum 2016, 2019 og 2020 og því geta smávægilegar breytingar í mati á hita breytt röðinni hvaða ár er í fyrsta eða öðru sæti. Sýnd er samantektin frá Berkeley háskóla , en samantektir frá  öðrum stofnunum sýna mjög álíka niðurstöður.

Stöðugar og áframhaldandi loftslagsbreytingar

Allir mælikvarðar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra sem sýndir eru í þessari skýrslu sýna stöðugar og áframhaldandi loftslagsbreytingar, aukingu í aftakaveðrum með eyðileggingu og tjóni fyrir einstaklinga og samfélög.

„Þessi neikvæða þróun mun halda áfram árum saman óháð því hvort okkur tekst að hemja losun gróðurhúsalofttegunda“, segir prófessor Petteri Taalas aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. „Þess vegna er mikilvægt að fjárfesta í aðlögun. Fjárfesting í kerfum til að vakta og fylgjast með þróun veðurs og vara við aftakaveðrum er mikilvæg leið til að aðlagast. Hjá sumum minna þróuðum ríkjum er gap í athugunarkerfum og brotalamir í veður-, vatns- og loftslagsþjónustu“, segir Petteri.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica