Fréttir
Hafís á Grænlandssundi 25. júlí 2006. Mynd: Matthew J. Roberts

Nauðsynlegt að auka samvinnu um veðurathuganir og rannsóknir á Norðurheimskautinu

Bráðnun hafíss á Norðurheimskautinu er áhrifavaldur í því afbrigðilega veðurfari sem við erum nú vitni að sunnar á hnettinum

27.3.2018

Áhrif hlýnunar síðustu áratuga í íslenskri náttúru eru margvísleg og má nefna hop jökla, breytingar á afrennsli og fjölbreyttara gróðurfar auk margvíslegra annarra breytinga á lífríki bæði á landi og í sjó.

Á Norðurheimskautssvæðinu og nærliggjandi svæðum eiga sér stað breytingar sem ekki hafa sést áður og eru loftslagsbreytingar þar hraðari og hlýnun meiri en annarsstaðar á jörðinni. Mælingar benda til þess að þessi vetur verði sá hlýjasti frá upphafi mælinga á Norðurheimskautssvæðinu. Meðal umhverfisbreytinga má nefna að bráðnun sífrera veldur óafturkræfum breytingum á náttúrufari og skemmdum á innviðum.

Aukin samvinna um rannsóknir og mælingar á veðurfarslegum þáttum á Norðurheimskautinu verður sífellt mikilvægari

Í Levi í Lapplandi er nýlokið fundi á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) þar sem fulltrúar fjölmargra stofnana, fyrirtækja og byggðarlaga sem hagsmuna eiga að gæta á norðurslóðum komu saman. Fundurinn er liður í því að auka samvinnu ólíkra hagsmunaaðila til að auka skilning á loftslagsbreytingum sem eiga sér stað á Norðurheimskautssvæðinu til að vera betur í stakk búin til að bregðast við þeim breytingum.

AMS_Lappland

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, fyrir miðju, ásamt David Grimes forseta Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (t.v.) og Petteri Taalas, framkvæmdastjóra Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (t.h.), við upphaf fundarins í Lapplandi. Mynd: Nina Kukkurainen

Framkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, Petteri Taalas, sagði í ávarpi sínu á fundinum í Lapplandi að áhrif loftslagsbreytinga á Norðurheimskautssvæðinu næðu langt út fyrir það svæði. „Það er ljóst að bráðnun hafíss á Norðurheimskautinu er áhrifavaldur í því afbrigðilega veðurfari sem við erum nú vitni að sunnar á hnettinum. Aukin samvinna um rannsóknir og mælingar á veðurfarslegum þáttum á Norðurheimskautinu verður því sífellt mikilvægari“, sagði Petteri.

Mikið í húfi

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, kynnti fyrir hönd 80 fulltrúa veðurfræðistofnanna landa innan Norðurskautsráðsins, þær áskoranir sem vísindasamfélagið stendur frammi fyrir þegar kemur að veðurathugunum og rannsóknum á Norðurheimskautssvæðinu. „Við verðum að skilja betur þær ógnir sem stafa af loftslagsbreytingum og áhrif Norðurheimskautssvæðisins á veðurkerfi jarðar. Þetta teljum við vera forgangsatriði fyrir loftslagsvísindin”, segir Árni. „Það er mikilvægt að þær ákvarðanir sem við tökum til að bregðast við loftslagsbreytingum séu byggðar á bestu mögulegu rannsóknum. Virðisaukinn úr rannsóknum er mestur þegar samvinna á milli stofnanna, fyrirtækja og stjórnvalda er virk og stöðug. Samvinna er einmitt leiðarstefið í þeim fjölmörgu verkefnum sem Veðurstofa Íslands tekur þátt í á alþjóðavettvangi, meðal annars sem aðili að Alþjóðaveðurfræðistofnuninni.  Við sem vísindasamfélag þurfum svo ekki síst að miðla þekkingu okkar og ráðgjöf til stjórnvalda, atvinnulífsins og almennings. Þetta er heilmikil áskorun, en það er mikið í húfi; Öryggi sjófarenda, lífsviðurværi byggðarlaga, rekstraröryggi orkufyrirtækja svo eitthvað sé nefnt“, segir Árni.

NorthPole_Obs

Mælanet á Norðurheimskautssvæðinu er ekki nærri eins þétt og annarsstaðar á hnettinum. Aukin samvinna á milli ríkja Norðurheimskautssvæðisins mun bæta þar úr. Mynd: ECMWF




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica