Fréttir
Breytingar á yfirborði mynda mynstur út frá upptökum stærsta skjálftans. Til norðausturs má sjá fleiri hreyfingar um misgengi á Reykjanesskaganum.

Áhrif jarðskjálftans á Núpshlíðarhálsi á yfirborð umtalsverð

Greining með aðstoð gervihnatta sýnir mynstur breytinga út frá upptökum skjálftans

30.10.2020

Í síðustu viku, kl. 13:43 þann 20. október, varð jarðskjálfti af stærð 5,6 á Reykjanesskaga, á milli Fagradalsfjalls og Kleifarvatns.  Upptök hans voru við Núpshlíðarháls um 5 km vestur af Seltúni og fylgdi honum töluverð eftirskjálftavirkni. Áhrifa skjálftans varð vart víða og hafa sérfræðingar Veðurstofunnar farið í vettvangsferðir til að kortleggja helstu ummerki, en einnig eru notaðar aðrar aðferðir til að greina og kortleggja áhrif skjálfta.

Áhrif skjálftans á Reykjanesskaga greind með aðstoð gervihnattar

Í jarðskjálfta á sér stað færsla á yfirborði jarðar og er þá talað um „aflögun“. Slíka aflögun er hægt að greina af mikilli nákvæmni með aðstoð gervihnatta með samanburðaraðferð sem byggir á bylgjuvíxlgreiningu. Slík greining flokkast undir fjarkönnun sem er að verða sífellt mikilvægari í vöktun náttúrvár t.d. til að greina þenslu í eldstöðvum eða fylgjast með óstöðugum hlíðum.


Mynd sem útskýrir “bylgjuvíxlmælingar” með gervihnöttum fengin að láni frá kollegum okkar hjá NASA. Gervihnöttur sendir bylgjur niður á yfirborð jarðar í tveimur ferðum. Ef einhverjar breytingar verða á yfirborði t.d. af völdum jarðskjálfta,  koma þær fram sem fasamunur á milli mælinga á bylgjunum sem endurkastast frá yfirborði. Þannig er hægt að greina með talsverðri nákvæmni hver breytingin á yfirborði er.


Upptök skjálftans er merktur með stjörnu. Litirnir  gefa til kynna færslur við upptökin (aðallega láréttar færslur m.v. sjónarhorn og flug gervitunglsins). Smellið hér fyrir stærri mynd.

Skýrt merki um aflögun sést við Skolahraun og sýnir það færslu um allt að 5 sm, aðallega láréttar færslur miðað við sjónarhorn og flug gervitunglsins. Til viðbótar má sjá aflögun í nágrenni Driffells og austan Keilis, en allar þessar færslur tengjast misgenginu sem hrökk í jarðskjálftanum. Fjölda yfirborðssprungna má sjá á svæðinu eftir jarðskjálftana.  

Gervitunglagreiningin staðfestir það sem jarðskjálftamælingar sýna, að þarna varð sniðgengisskjálfti á nánast lóðréttri sprungu sem liggur í norður-suður, en í sniðgengisskjálfta er brotahreyfing skjálftans til hliðar, ekki upp og niður. Hreyfingin er í samræmi við flekahreyfingarnar en flekaskilin liggja um þetta svæði, Ameríkuflekinn norðan sprungunnar færist til vesturs á meðan að Evrópuflekinn sunnan hennar færist til austurs. Brotabeltið sem liggur eftir Reykjanesskaganum og Suðurlandsundirlendi samanstendur af mörgum norður-suður sprungum eða misgengjum og hreyfingunni um það hefur verið lýst með svokallaðri „bókahillukenningu“, þar sem hreyfingarnar minna á bækur í hillu sem eru um það bil að detta og mynda þannig núningskrafta sína á milli.

Jarðskjálftinn er hluti af óvenju mikilli virkni á Reykjanesskaga sem hófst fyrr á árinu og samanstendur bæði af jarðskjálfta- og kvikuinnskotavirkni. Hún er enn í gangi og má búast við áframhaldandi jarðskjálftum á svæðinu. 

Hér eru upplýsingar frá kollegum okkar á USGS um hvernig túlka eigi bylgjuvíxlmyndir.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica