Fréttir
Breytingar á jaðri Breiðamerkurjökuls frá lokum 19. aldar.

Afkoma íslensku jöklanna var lítillega neikvæð árið 2020

6.7.2021

Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í um aldarfjórðung og er rýrnun þeirra einhver helsta afleiðing og skýr­asti vitnis­burð­ur um hlýn­andi loftslag hérlendis. Á árinu 2020 hopuðu jökul­sporðar víða um tugi metra en nokkrir brattir skriðjöklar gengu svolítið fram. Af þeim jöklum sem mældir eru af sjálf­boða­lið­um Jöklarannsóknafélags Íslands hop­aði Breiða­merkurjökull mest þar sem kelfir af hon­um í Jökulsárlón, milli 100 og 250 m árið 2020. Einnig brotnaði af Heinabergsjökli í lón við jaðarinn og styttist sporðurinn við það um rúmlega 100 m. Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi á vegum verkefnisins „Hörfandi jöklar“. Verkefnið er samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands, Jöklahóps Jarðvísindastofnunar Háskólans, Náttúrustofu Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarðs, fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

 

KB-LMI_Flaajokull_2020_LabeledKB-LMI_Flaajokull_1989_Labeled

Flugsýn af tungu Fláajökuls 1989 og 2020. Myndirnar byggja á ljósmyndum sem teknar voru úr flugvél 1989 og flygildi 2020 og landlíkönum sem reiknuð voru á grundvelli myndanna og sýna vel lækkun yfirborðs jökulsins á rúmlega 30 ára tímabili.  (Myndvinnsla: Kieran Baxter, Háskólanum í Dundee).

 

Afkoma ársins 2020

Afkoma stærstu íslensku jöklanna hefur verið nei­kvæð síðan 1995 með einni undantekningu, afkoma ársins 2015 var jákvæð í fyrsta sinn í 20 ár. Árið 2016 mældist afkoman aftur neikvæð eins og flest undan­farin ár og einnig fyrir Langjökul og Hofsjökul árið 2017 en Vatnajökull var þá nærri því að vera í jafnvægi. Allir þrír jöklarnir voru nærri jafnvægi 2018. Sumarið 2019 var mjög hlýtt og mældist afkoma allra þriggja jöklanna þá neikvæð en sumarið 2020 var nokkru kaldara. Afkoma allra jöklanna þriggja var neikvæð 2020 en ekki eins mikið og árið áður. Jökl­arnir hafa alls tapað um 250 km3 íss síðan 1995 sem er um 7% af heildarrúmmáli þeirra.

 

Lhv-mb-til-2020-rb

Árleg og uppsöfnuð afkoma Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls frá upphafi mælinga á hverjum jökli samkvæmt gögnum Jarðvísindastofnunar Háskólans, Landsvirkjunar og Veðurstofu Íslands. Þessir jöklar geyma yfir 95% af rúmmáli íss í jöklum landsins. Taflan sýnir vatnsgildið, þ.e. dýpi vatnslags sem dreift væri yfir jökulinn sem hann tapar/græðir á ári hverju.



Íslensku jöklarnir hafa rýrnað um u.þ.b. 600 km3 síðan undir lok 19. aldar

Gögn um útbreiðslu jöklanna á mismunandi tímum og afkomumælingar síðustu áratuga má nota til þess að greina breytingar á rúmmáli jöklanna síðan þeir voru nærri sögulegu hámarki á síðari hluta 19. aldar. Jöklarnir eru nú um 3400 km3 að rúmmáli og hafa tapað um 600 km3 á þessu tímabili. Rýrnunin var hröðust á árunum 1930–1950 og eftir 1995. Kortið af Langjökli hér til hliðar með jökuljöðrum á mismunandi tímum, sýnir dæmi um gögn sem liggja þessu mati til grundvallar.

Langjokull-kort-fyrir-frettabref

Jaðar Langjökuls um 1890, 1945-1946, um 1973, 2000, 2007 og 2019.

 

Nálgast má fréttabréfið í heild sinni hér.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica