Fréttir
Adda Bára Sigfúsdóttir
Adda Bára Sigfúsdóttir

Adda Bára Sigfúsdóttir jarðsungin í dag

18.3.2022

Adda Bára Sigfúsdóttir veðurfræðingur og deildarstjóri veðurfarsdeildar Veðurstofu Íslands lést þann 5. mars sl., 95 ára að aldri.

Adda Bára fæddist í Reykjavík þann 30. desember 1926. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1946 og eftir eins árs nám við Háskóla Íslands hélt hún til Noregs og lauk cand.real.-prófi í veðurfræði frá Oslóarháskóla í júní 1953. Hún hélt þá heim á leið og hóf störf á Veðurstofu Íslands þá um sumarið sem deildarstjóri nýstofnaðrar veðurfarsdeildar og gegndi því starfi til 1988 (var í leyfi 1971–1974). Allt frá 1946 hafði hún unnið flest sumur á Veðurstofunni í námsleyfum og eftir að hún lét af deildarstjórn vann hún að rannsóknum og úrvinnslu veðurfarsgagna í tímavinnu til 1998.

Í starfi sínu mótaði Adda Bára ný vinnubrögð og starfsaðferðir við úrvinnslu veðurgagna og ber þá ekki síst að nefna tölvuúrvinnslu þeirra sem hófst snemma á sjöunda áratugnum. Gerð var sérstök úttekt á úrvinnslunni í samstarfi við þróunarhjálp Sameinuðu þjóðanna. Reikniaðferðir voru þá samræmdar og nútímavæddar. Þá tók hún þátt í útreikningum á veðurmeðaltölum athugunarstöðva fyrir 30 ára tímabilin 1901–1930, 1931–1960 og 1961–1990. Úrvinnsla hitamælinga í Stykkishólmi frá upphafi mælinga þar 1845 og allt til 1970 var samræmd og gefin út. Ennfremur rannsakaði hún úrkomu og dreifingu hennar með norrænum samstarfsaðilum. Meginafurð þeirrar vinnu var Íslandskort sem sýndi meðalúrkomu áranna 1931–1960 sem jafnframt var fyrsta úrkomukort sem tók til landsins alls.

Adda Bára átti mjög langan starfsferil á Veðurstofunni, lengt af sem leiðtogi og stjórnandi á mikilvægu fagsviði. Hún var stjórnsöm, en hvetjandi í forystu sinni og veitti starfsmönnum sínum góðan stuðning. Hún var mjög nákvæm í vinnubrögðum, gerði miklar kröfur til starfsmanna og fylgdist náið með vinnu þeirra. Þá gætti hún vel að kjara- og réttindamálum þeirra.

Auk starfa sinna á Veðurstofunni var Adda Bára mjög virk í stjórnmálastarfi og þjóðmálaumræðu. Hún var sósíalisti að lífsskoðun og starfaði af krafti og metnaði fyrir Æskulýðsfylkinguna, Sameiningarflokk alþýðu – Sósíalistaflokkinn og síðar Alþýðubandalagið. Hún sat í borgarstjórn Reykjavíkur um 20 ára skeið og var varaformaður Alþýðubandalagsins fyrstu sex árin eftir að það var gert að stjórnmálaflokki árið 1968. Þá var hún aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra 1971–1974. Hún bar hina ýmsu þætti velferðarmála mjög fyrir brjósti og þá voru jafnréttismál henni mjög hugstæð.

Adda Bára ritaði allmargar greinar í tímarit um veðurfarsleg efni auk þess sem hún tók saman fjölda greinargerða um veðurfar innan ákveðinna landsvæða og byggðarlaga. Þá liggja eftir hana fjölmargar greinar um þjóðfélagsmál í blöðum og tímaritum.

 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica