Fréttir
Árni Snorrason forstjóri Veðurstofu Íslands og Aðalgeir Egilsson.

Aðalgeir Egilsson á Mánárbakka heiðraður

16.12.2016

Aðalgeir Egilsson á Máná á Tjörnesi hefur gegnt starfi veðurathugunarmanns í 60 ár og var hann heiðraður í dag á jólafundi Veðurstofu Íslands. Hann lætur nú af störfum eftir 60 ára samfellda þjónustu fyrir Veðurstofu Íslands.

Það var fyrir beiðni frá Fiskifélagi Íslands og fleiri um veðurskeytastöð á Tjörnesi að hún var sett niður á Máná. Í bréfi, dagsettu 18. maí 1956, til Egils Sigurðssonar, föður Aðalgeirs, var það rökstutt með því að veðurskeyti sem lesin væru í útvarpi væru til hagræðis og öryggis fyrir fiskimenn, en síldveiði var á þessum tíma mikil úti fyrir Tjörnesi á sumrin og útgerð frá Húsavík allan ársins hring.

Aðalgeir fæddist á Máná á Tjörnesi 10. september 1936 og ólst þar upp, annar af þremur börnum Egils Sigurðssonar og Dýrfinnu Gunnarsdóttur frá Keflavík í Hegranesi.  Eins og algilt var á þeim árum tók hann þátt í öllum þeim störfum sem aldur og geta réðu við.  Hann kvæntist Elísabetu Önnu Bjarnadóttur frá Syðri-Tungu á Tjörnesi og 1961 byggðu þau nýbýlið Mánárbakka og hafa búið þar síðan en hættu búskap 2004, en Aðalgeir hefur lagt metnað í uppbyggingu  minjasafns á Mánárbakka.


Máná á Tjörnesi 1956. Ljósmynd: Flosi Hrafn Sigurðsson.

Aðalgeir er af þeirri kynslóð veðurathugunarmanna sem helgaði Veðurstofunni stóran hluta af lífi sínu. Hann sinnti starfi sínu af alúð og vandvirkni og sá ávallt til þess að athuganir væru gerðar á öllum athugunartímum. Ef hann þurfti að bregða sér af bæ sinntu kona hans og Bjarni sonur þeirra veðurathugununum á meðan. Í bréfi, sem sent var fyrir hönd veðurstofustjóra þegar Aðalgeir hafði sinnt starfi veðurathugunarmanns í nokkrar vikur, kom fram að „líklegt“ þætti að Aðalgeir yrði góður athugunarmaður en „ekkert athugavert“ var þá við athuganir hans til þess tíma og sérstaklega tekið fram að daggarmark og rakastig væru rétt reiknuð.

Veðurstöðin á Mánárbakka hefur verið skilgreind sem strandstöð og var það í verkahring Aðalgeirs að fylgjast með sjólagi og öllu sem viðkemur hafinu og hafís, en einnig því sem getur talist markvert hvað varðar tíðarfar í sveitum. Í veðurskeytabókum hefur hann t.d. fært inn lýsingar á berjasprettu, falli kartöflugrasa og komu farfugla. Honum bar einnig að mæla öskufall og tilkynna um ofanflóð, jarðskjálfta og önnur óvenjuleg náttúrufyrirbæri.


Aðalgeir og Jonas Haraldsson, starfsmaður Veðurstofunnar, við uppsetningu sjálfvirkrar veðurstöðvar árið 2005. Ljósmynd: Sigvaldi Árnason.

Þegar Aðalgeir hóf að sinna veðurathugununum á Máná í júlí 1956, 19 ára gamall, voru einu mælitækin hitamælir og úrkomumælir en aðra veðurþætti þurfti að meta. Vindhraðamælir kom ekki fyrr en sjálfvirk veðurstöð var sett upp á Mánárbakka árið 2005. Lengst af hefur Aðalgeir því þurft að meta bæði vindátt og vindhraða. Frá 15. desember 2016 eru mannaðar athuganir aflagðar og sjálfvirk mælitæki notuð til að mæla skyggni og skýjafar, úrkomu og form úrkomu, auk hinna hefðbundnu sjálfvirku mælinga.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica