Fréttir
Hitakort

17 ára gamalt hitamet í ágúst slegið

26.8.2021

Afar hlýtt hefur verið í veðri síðustu daga, sérstaklega á norðan- og austanverðu landinu. Í gær fór hitinn víða yfir 20 gráður en hæsti hitinn mældist 28,4 gráður á Egilsstaðaflugvelli. Í fyrradag, 24. ágúst féll 17 ára gamalt hitamet  þegar hitinn fór upp í 29,4 gráður á Hallormsstað. Þar á undan hafði hæsti hiti mælst 29,2 gráður á Egilsstöðum 11. ágúst, 2004. Hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi var á Teigarhorni í Berufirði 22. júní 1939 en þá mældist hitinn 30,5°C.

En hvað veldur slíkum hita á landinu? Samkvæmt Elínu Björk Jónasdóttur veðurfræðingi, kemur þetta hlýja loft langt sunnan úr höfum og er beint upp að landinu af víðáttumikilli hæð yfir Bretlandseyjum og lágþrýstisvæði skammt vestur af Hvarfi. Veðrið í sumar hefur að mörgu leyti verið mjög einsleitt, og hefur staða veðrakerfana verið svipuð svo vikum skiptir. Ekki er útlit fyrir miklar breytingar á næstu dögum þó hlýjasti geiri loftmassans sé farinn austur fyrir land, og því ekki útlit fyrir að hitametið frá Teigarhorni verði slegið þetta sumarið.

Hlýindin norðan og austantil í júlí og ágúst eru í sumu tilfellum methlýindi á landinu. Meðalhitastigið á Akureyri í júlí hækkaði um heila gráðu frá síðasta meti. Slíkt veðurlag er vissulega í samræmi við það sem búast má við vegna  hnattrænna loftslagsbreytinga þar sem grunnástand lofthjúpsins hefur hlýnað, en eins og venjulega getur verið erfitt að rekja einstaka atburði til loftslagsbreytinga. Um áhrif loftslagsbreytinga á Ísland má lesa í Skýrslu vísindanefndar umloftslagsbreytingar frá 2018.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica