Fréttir
Austmannsbunga stendur uppúr Mýrdalsjökli norðaustast í öskjurima Kötlu
Austmannsbunga stendur uppúr Mýrdalsjökli norðaustast í öskjurima Kötlu.

100 ár frá gosi í Kötlu

12.10.2018

Í dag, 12. október, eru 100 ár frá því að gos hófst í Kötlu. Af þeim 32 eldstöðvum sem teljast virkar á Íslandi er Katla mögulega ein sú hættulegasta. Katla er fjórða virkasta eldstöðvakerfi landsins og hefur gosið a.m.k. 21 sinnum á síðustu 1100 árum. Frá landnámi og til ársins 1918 var meðallengd goshléa um 50 ár og því hefur Katla aldeilis látið bíða eftir sér.

Megineldstöð Kötlukerfisins er undir Mýrdalsjökli og sprungusveimur kerfisins teygir sig um 70 km norðaustur í átt að Síðujökli. Megineldstöðin liggur undir 700 m þykkum ís og í henni er ísfyllt askja.

Einkennisgos Kötlu eru basalt sprengigos en samspil kviku og íss veldur því að gjóska myndast sem dreifist yfir nærliggjandi sveitir, mismikil eftir stærð gosa. Ef jökull lægi ekki yfir megineldstöðinni er líklegt að gosin yrðu hraungos.

Katla hefur líka gosið súrum sprengigosum en þau eru mun sjaldgæfari en basaltgosin. Samfara Kötlugosum koma mikil jökulhlaup enda bræðir kvikan mikinn ís úr jöklinum. Hlaupin hafa komið niður Mýrdalssand á sögulegum tíma en í fyrndinni hafa þau líka komið niður Markarfljót.

Þriðja og sjaldgæfasta tegund gosa á Kötlukerfinu eru stór flæðigos á sprungusveimi kerfisins, en síðasta og jafnframt stærsta slíka gosið var Eldgjárgosið sem hófst ~ 939 e.Kr. en í því mynduðust um 20 km3 af hrauni og gjósku. Til samanburðar má nefna að í Holuhraunsgosinu 2014-2015 mynduðust um 1,5 km3 af hrauni.

Vöktun Kötlu á Veðurstofunni

Ef skjálftavirkni eykst í Kötlu hljómar sjálfvirk viðvörun í eftirlitssal Veðurstofunnar í Reykjavík. Þar er vakt allan sólarhringinn, alla daga ársins. Þessi viðvörun er hluti af kerfi sem nær yfir allt landið.

Mælakerfi náttúrvárvöktunar Veðurstofunnar er mjög umfangsmikið. Það byggir á jarðskjálftamælingum, aflögunarmælingum (GPS, þenslumælingum og gervitunglamyndum), vatnamælingum, gasmælingum, drunumælingum, vefmyndavélum og sértækum mælingum t.a.m. eftirliti með yfirborði jökulsins og þróun jarðhitakatla meðal annars til að fylgjast með jarðhitabreytingum og hugsanlegri söfnun bræðsluvatns í jöklum. Ennfremur er sérstakt eftirlit haft með öskudreifingu á meðan á eldgosi stendur. Sjálfvirk úrvinnslukerfi taka við mælingum og eru niðurstöður yfirfarnar af sérfræðingum jafn óðum og þær berast. 

KatlaMaelanet

Mælanet kringum Kötlu eldstöðina er þétt. Jarðskjálftamælar eru merktir sem SIL-stöðvar (svartir  þríhyrningar). Gasmæla á Sólheimaheiði og við Sólheimajökul vantar, en þenslumælir við Eystri-Skóga og fleiri fjarlægari mælar hjálpa einnig við vöktunina, t.a.m. drunumælar á Kirkjubæjarklaustri og í Gunnarsholti. Mælanetið tekur örlitlum breytingum milli ára og tilhneigingin er að það þéttist.

KatlaAustmannsbunga

Austmannsbunga stendur uppúr Mýrdalsjökli norðaustast í öskjurima Kötlu og er heppilegur staður fyrir mælingar. Þar er bæði jarðskjálftamælir og GPS-mælir. (Ljósmynd: Oddur Sigurðsson)

Þéttriðið mælanet vaktar Kötlu

Þar sem Katla er ein virkasta og hættulegasta eldstöð landsins, vakta mælar með ólíka eiginleika eldstöðina. Um tíu jarðskjálftamælar í nágrenni eldfjallsins senda gögn í rauntíma og sjálfvirk úrvinnsla reiknar stærð og staðsetningu skjálfta. Drunumælar, vatnamælar og gasmælar senda einnig gögn í rauntíma eða með nokkurra mínútna fresti, en GPS-mælingar nýtast helst við mat á langtímabreytingum og senda gögn á klukkustunda fresti (nokkrar stöðvar streyma þó einnig gögnum).


KatlaSkjalftar1

Grafið sýnir með rauðu jarðskjálftavirkni (3gja daga virkni) frá árinu 2011 (sjá y-ás til hægri). Árstíðabundin jarðskjálftavirkni, þ.e. aukin virkni  í júní, júlí og ágúst, er nokkuð áberandi og til glöggvunar eru þeir mánuðir skyggðir með ljósbláum lit. Í döggbláum lit er lofthiti mældur á Reynisfjalli. Nokkrar skýringar geta verið á því hvers vegna skjálftavirkni eykst síðsumars, t.d. getur aukið bræðsluvatn í skorpunni valdið skjálftavirkni, eins getur jökulfarglétting haft þau áhrif að skjálftavirkni eykst (Kristín Jónsdóttir o.fl., 2007).

KatlaSkjalftar2

Þetta graf sýnir skjálftavirkni síðan 2011. Mikil virkni er áberandi og stærstu skjálftar mælast yfir M4 að stærð. Virkni sl. ár hefur farið minnkandi.

Hvenær kemur Katla?

Jarðskjálftavirkni Kötlu hefur undanfarin ár einkennst af grunnum smáskjálftum í öskjunni sem fjölgar síðsumars og á haustin. Sennilega er aukin haustvirkni algerlega óháð kvikuhreyfingum. M.v. aðrar eldstöðvar á Íslandi þá er Katla ein sú skjálftavirkasta. Aflögunarmælingar síðustu ára benda ekki til mikillar aflögunar vegna kvikusöfnunar. Þrátt fyrir það er ýmislegt sem bendir til þess að grunnstæð kvika sé í efstu kílómetrum eldfjallsins. Til marks um það er umfangsmikið jarðhitakerfi innan öskjunnar.

Íbúar í Vík tala að jafnaði ekki um að Katla „gjósi“ heldur að hún „komi“ líkt og óboðinn gestur. Ómögulegt er að spá í aðdraganda næsta goss en líklegast er að aukinnar jarðskjálftavirkni verði vart og að breytingar mælist í aflögun, gasi og/eða jökulám Mýrdalsjökuls áður en kvika nær yfirborði. Einnig er fylgst vel með jarðskjálftaóróa og viðvörun er gefin ef órói vex yfir ákveðin þröskuld á skjálftastöðvum og þá er athugað hvort merki séu um eldgosaóróa. Auk ofangreindra framfara í mælingum, úrvinnslu og framsetningu eru haldnar reglubundnar eldgosaæfingar (VOLCICE og VOLCEX) í hverjum mánuði með ISAVIA og London VAAC, en báðar þessar stofnanir þjálfa starfsfólk sitt í viðbrögðum við eldgosum og í að viðhalda virkum samskiptum milli stofnananna. Viðbragðsaðilar eru því við öllu búnir skyldi Katla „koma“ einhvern daginn.

Frekari fróðleik um eldstöðvakerfið Kötlu má finna á vefsjá íslenskra eldfjalla (Catalogue of Icelandic Volcanoes).




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica