Veðurstofa Íslands 90 ára

hitamælaskýli - snævi þakin jörð
© Árni Sigurðsson
Veðurstöðin að Írafossi í Grímsnesi. Í forgrunni er skýli þar sem lofti og svifryki er safnað daglega til mengunarmælinga. Fjær er hitamælaskýli. Til vinstri eru úrkomusafnarar, annar með trektlaga vindhlíf.

Nýjar fréttir

Alþjóðaár jökla hafið

Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað árið 2025 jöklum á hverfandahveli, og ákveðið að 21. mars ár hvert verði sérstakur alþjóðadagur jökla. Alþjóðaárið verður nýtt til að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti. Að þessu sinni mun dagur vatns (22. mars) einnig verða tileinkaður jöklum. Lesa meira

Landris heldur áfram á Sundhnúksgígaröðinni en hraðinn minnkað örlítið

Uppfært 21. janúar kl. 14:10

GPS-mælingar sýna að hraði landriss hefur minnkað örlítið á síðustu vikum en varasamt getur verið að túlka einstaka GPS-punkta. Truflun á þessum árstíma veldur því að breytileiki milli daga er meiri vegna veðuraðstæðna. Í staðinn þarf að horfa á mælingar yfir lengri tíma, en þær sýna áframhaldandi landris.

Atburðarásin er því enn í fullum gangi og er að þróast mjög svipað og fyrir síðustu gos. Samkvæmt líkanreikningum mun rúmmál kviku undir Svartsengi ná neðri mörkum í lok janúar eða byrjun febrúar. Þetta þýðir að það má gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast frá þeim tíma.

Lesa meira

Tíðarfar ársins 2024

Árið 2024 var óvenjukalt ef miðað er við hitafar þessarar aldar. Á landsvísu var hitinn 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, og sá lægsti síðan 1998. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á Norðurlandi, en hlýrra við suðurströndina. Sumarið var blautt á landinu öllu, en aðrir mánuðir ársins voru tiltölulega þurrir. Árið í heild var þurrara en í meðallagi á austan-, sunnan- og suðvestanverðu landinu, en blautara en í meðallagi á Norður- og Vesturlandi, þar sem vætutíð sumarsins var einna mest. Loftþrýstingur var óvenjulega lágur frá júní og út ágúst og einkenndist sumarið af lægðagangi og óhagstæðri tíð. Á öðrum árstímum var tiltölulega hægviðrasamt og loftþrýstingur og vindhraði voru í kringum meðallag þegar litið er á árið í heild.

Lesa meira

Grímsvatnahlaupi lokið

Uppfært 20. janúar kl. 14:50

Órói sem mældist á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli og vatnshæð í Gígjukvísl hafa aftur náð svipuðum gildum og voru fyrir hlaup. Þar með er Grímsvatnahlaupinu, sem hófst fyrir um það bil 10 dögum, lokið. Skjálftavirkni í Grímsvötnum jókst ekki á meðan hlaupinu stóð en nokkrir skjálftar undir M2 mældust í síðustu viku. Þrýstiléttir vegna jökulhlaupsins hafði ekki í för með sér aukna virkni  í Grímsvötnum  meðan á hlaupinu stóð. Þess vegna  hefur fluglitakóði fyrir Grímsvötn verið lækkaður aftur í grænan, eftir að hafa tímabundið verið hækkaður í gulan þegar hlaupið náði hámarki. Þótt jökulhlaupinu sé lokið heldur Veðurstofa Íslands áfram að fylgjast náið með virkni á svæðinu.

Lesa meira

Áfram mælast skjálftar á miklu dýpi við Grjótárvatn

Uppfært 17. janúar kl: 11:20

Jarðskjálftavirkni heldur áfram að aukast við Grjótárvatn. Það sem af er janúar mánuði hafa tæplega 100 skjálftar yfir M1,0 að stærð mælst. Það er sambærilegt við fjölda skjálfta allan desember 2024 sem var mesti fjöldi skjálfta sem hefur mælst í einum mánuði á svæðinu. Í gærmorgun, 16. janúar, mældist skjálfti af stærð M3,2. Engar tilkynningar hafa borist til Veðurstofunnar um að skjálftinn hafi fundist í byggð en þó gætu íbúar á nærliggjandi svæðum hafa orðið hans varir. Þetta var stærsti skjálfti sem hefur mælst á svæðinu síðan virkni fór að aukast þarna í ágúst 2024, en þann 18. desember 2024 mældist skjálfti af stærð M3,1.

Lesa meira


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica