Veðurstofa Íslands 90 ára

Stiklað á stóru í sögu Veðurstofunnar

Veðurstofa Íslands 90 ára

Guðrún Pálsdóttir 30.12.2010

  • 1920 - 1. janúar: Íslendingar taka formlega við þeim veðurathugunum sem danska veðurstofan hafði haft með höndum síðan 1872. Veðurathugunarstöðvarnar eru 19 að tölu. Sett er á laggirnar veðurfræðideild á Löggildingarstofunni, sem er undir stjórn Þorkels Þorkelssonar, til að sinna þessu verkefni. Starfsemin fellur undir atvinnumálaráðuneytið.
  • 1920 - 17. janúar: Fyrsta veðurspáin samin. Síðsumars sama ár er fyrsta veðurspáin birt.
  • 1920: Aðild að alþjóðlegri samvinnu um veðurskeytasendingar.
  • 1920: Farið er að vinna úr veðurskýrslum frá veðurstöðvum. Niðurstöðurnar eru birtar í Íslenskri veðurfarsbók á árunum 1920 til 1923 og er hún fyrsta útgáfa stofnunarinnar. Útgáfa Veðráttunnar hefst 1924.
  • Upp úr 1920: Söfnun frétta um hafís við strendur landsins hefst.
  • 1925 - 1. janúar: Löggildingarstofan er lögð niður og veðurfræðideild hennar verður að sjálfstæðri stofnun sem fær heitið Veðurstofan. Þorkell Þorkelsson er forstjóri hinnar nýju stofnunar.
  • 1925: Jarðskjálftamælingar hefjast á Veðurstofunni. Áður höfðu jarðskjálftar verið mældir í Reykjavík á árunum 1909-1914.
  • 1926 - 15. júní. Fyrstu lög sett um Veðurstofuna. Fær hún þá heitið Veðurstofa Íslands. Starfssvið hennar skyldi vera: a) að safna gögnum til rannsókna á loftslagi landsins. b) að vinna úr veðurskýrslum frá veðurstöðvum. c) að safna daglegum veðurskeytum, innlendum sem erlendum og senda út fregnir um veðurútlit. d) að safna nákvæmum fregnum um hafís. e) að sinna alþjóðasamvinnu í veðurfræði. f) eftirlit með landskjálfta- og segulmagnsmælingum, krefðist ríkisstjórnin þess og fjárveiting væri fyrir hendi. Þá skyldi svo fljótt sem ástæður leyfðu reist sérstök bygging fyrir Veðurstofuna.
  • 1926: Landinu skipt í átta veðurspásvæði.
  • 1926: Veðurskeyti fyrst lesin í útvarp.
  • 1928: Veðurfregnir fyrst fluttar í útvarp.
  • 1928: Fyrsta ferð á alþjóðlega ráðstefnu (líklega). Veðurstofustjóri sækir ráðstefnu um veðurskeyti og veðurspár í London.
  • 1929: Sett mjög ítarleg reglugerð um stofnunina.
  • 1930: Veðurathuganastöðvum fjölgar úr 19 í 36 á einum áratug.
  • 1932: Segulmælingar hefjast en standa ekki lengi.
  • 1942: Farið að gera sérstakar flugveðurathuganir.
  • 1946: Teresía Guðmundsson skipuð veðurstofustjóri.
  • 1946: Veðurstofunni falið að veita flugveðurþjónustu á Norður-Atlantshafi.
  • 1947: Vatnamælingum komið á fót á Raforkumálaskrifstofunni.
  • 1947: Samgöngumálin skilin frá atvinnumálaráðuneytinu og samgöngumálaráðuneytið verður til. Veðurstofan verður ein af stofnunum þess.
  • 1948: Gerður samningur við Alþjóðaflugmálastofnunina um flugveðurþjónustu á Íslandi - ICAO-samningurinn. Nýr samningur var síðan gerður 1956.
  • 1951: Fyrsti síritandi vatnshæðarmælirinn tekinn í notkun í Ölfusá við Selfoss.
  • 1952: Flugveðurstofan á Keflavíkurflugvelli tekur formlega til starfa og verður aðalveðurstofa Íslands, en er samt hluti af Veðurstofu Íslands.
  • 1952: Háloftaathuganir hefjast á Veðurstofunni.
  • 1953: Veðurstofunni skipt í deildir; Skrifstofu, Áhaldadeild, Veðurspádeild, Veðursfarsdeild, Loftskeytadeild, Jarðeðlisfræðideild og Flugveðurstofuna á Keflavíkurflugvelli.
  • 1956: Íslensk vötn koma út með fyrsta yfirliti um vatnafar landsins alls.
  • 1956: Vetrarmælingar Vatnamælinga á hálendinu hefjast.
  • 1957: Samfellar mælingar hefjast á heildarmagni ósons í andrúmsloftinu. Áður hafði nokkuð verið mælt 1952-1955.
  • 1958 - 27. mars: Sett eru ný lög um Veðurstofuna.
  • 1958: Mengunarmælingar hefjast.
  • 1959: Farið að útvarpa veðurspám til tveggja daga. Fram að því hafði einungis verið um sólarhringsspár að ræða.
  • 1963: Hlynur Sigtryggsson skipaður veðurstofustjóri.
  • 1964: Komið upp mjög fullkominni jarðskjálftastöð á Akureyri. Leysti hún af hólmi gamlan jarðskjálftamæli sem settur var upp 1951.
  • 1964: Vatnamælingagögn fara í tölvuvinnslu hjá Skýrsluvélum ríkisins.
  • 1965: Bylting í veðurathugunum á hálendinu. Mönnuð veðurathuganastöð tekur til starfa á Hveravöllum.
  • 1967: Farið að taka á móti gervitunglamyndum.
  • 1967: Vatnamælingar verða deild í Orkustofnun.
  • 1967: Veðurfregnir hefjast í sjónvarpi.
  • 1968: Fyrsta landsnet jarðskjálftamæla fullbúið. Það samanstóð af sex jarðskjálftastöðvum.
  • 1968: Stórflóð á Suðurlandi.
  • 1972: Mælingar hefjast á sýrustigi í úrkomu og brennisteinsmengun í úrkomu og andrúmslofti.
  • 1973: Veðurstofan flytur í núverandi húsnæði að Bústaðavegi 9.
  • 1976: Farið að lesa allar veðurfregnir, veðurlýsingar og veðurspár, beint af Veðurstofunni.
  • 1977: Veðurstofan eignast sína fyrstu fjarskiptatölvu og fær einakafnot af hraðvirkri fjarskiptalínu frá Bracknell.
  • 1978: Veðurstofunni falið að annast snjóflóðavarnir og snjóflóðaeftirlit.
  • 1979: Veðurspáþjónustan á Keflavíkurflugvelli sameinuð starfseminni í Reykjavík.
  • 1979: Hafísrannsóknadeild stofnuð á Veðurstofunni.
  • 1979: Þenslumælum komið fyrir í borholum.
  • 1980: Spásvæðaskipting endurskoðuð. Landinu skipt í níu veðurspásvæði.
  • 1982: Veðurrannsóknadeild stofnuð.
  • 1984: Sérstök tölvudeild stofnuð á Veðurstofunni. Stofnunin eignast sína fyrstu úrvinnslutölvu.
  • 1984-1985: Vatnshæðarmælakerfi Vatnamælinga endurskoðað í samstarfi við hagsmunaraðila - enn forsenda samninga um vatnamælingar og vatnafræðileg gögn.
  • 1985 - 7. júní: Sett eru ný lög um Veðurstofuna.
  • 1988: Samningur gerður um rekstur sjálfvirkra veðurdufla á Norður-Atlantshafi. Veðurstofan sér að mestu um sjósetningu og rekstur duflanna.
  • 1988: Samfelldar afkomumælingar hefjast á Vatnamælingum.
  • 1988: Snjóflóðavarnadeild sett á laggirnar.
  • 1989: Uppbygging SIL-jarðskjálftamælakerfisins hefst.
  • 1989: Fyrsta rannsóknaverkefni Veðurstofunnar styrkt af Evrópusambandinu, NACD, fer af stað.
  • 1989: Páll Bergþórsson skipaður veðurstofustjóri.
  • 1990: Veðurstofan setur upp sína fyrstu sjálfvirku veðurstöð.
  • 1990: Fyrsta norræna loftslagsverkefnið sett á laggirnar.
  • 1990: Sett upp veðursjá á Miðnesheiði.
  • 1990: Veðurstofan verður ein af stofnunum umhverfisráðuneytisins.
  • 1994: Magnús Jónsson tekur við starfi veðurstofustjóra.
  • 1994: Komið á beinu fjarskiptasambandi við Veðurspámiðstöð Evrópu í Bracknell.
  • 1994: Skipulagsbreytingar gerðar á Veðurstofunni og rekstrareiningum fækkað verulega.
  • 1995: Mælingar hefjast á þrávirkum lífrænum efnum og þungmálmum í svifryki.
  • 1995: Vefur Vefurstofunnar opnaður.
  • 1995: Ofanflóðastarfsemi Veðurstofunnar stórefld í kjölfar snjóflóðanna í Súðavik og á Flateyri.
  • 1996: Fyrsta rannsóknaverkefni Veðurstofunnar styrkt af Evrópusambandinu og stjórnað af Veðurstofunni, PRENLAB, fer af stað.
  • 1996: Eldgos í Gjálp og stórhlaup úr Grímsvötnum.
  • 1997: Vatnamælingar verða fjárhagslega sjálfbær eining.
  • 1999: GPS-mælingar hefjast á Veðurstofunni.
  • 2001: Röð norrænna loftslagsverkefna fer af stað.
  • 2004: Skiplagsbreytingar gerðar á Veðurstofunni. Henni er skipt í þrjú svið, Veðursvið, Eðlisfræðisvið og Rekstrarsvið.
  • 2006: Stórflóð víða um land.
  • 2008 - 1. janúar: Vatnamælingar að fullu skildar frá Orkustofnun og verða sjálfstæð rekstrareining undir umhverfisráðuneytinu.
  • 2008 - 11. júní: Lög samþykkt um nýja Veðurstofu Íslands.
  • 2009 - 1. janúar: Veðurstofan og Vatnamælingar lagðar niður og starfsemin sameinuð í nýrri stofnun undir nafni Veðurstofu Íslands. Árni Snorrason verður forstjóri.

Fleiri afmælisgreinar

Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica