Veðurstofa Íslands 90 ára

Afmælisfundur

Veðurstofa Íslands 90 ára

Jóhanna Margrét Thorlacius 2.12.2010

Í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofu Íslands er boðað til afmælisfundar á Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2, hinn 14. desember 2010.

Fundurinn hefst kl. 8:45 og honum lýkur með móttöku sem hefst um kl. 16:30.

Fyrir hádegið verða loftslagsrannsóknir ræddar. Fjallað verður um áhrif loftslagsbreytinga á jökla, vatnsafl og virkjanir, loftslagsreikninga og vindorkuverkefni. Eftir léttan hádegisverð verður umfjöllunarefnið eldgosavöktun og eldgosarannsóknir. Fjallað verður um hlutverk Veðurstofu Íslands vegna eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli, vöktun á jarðvá með tilliti til eldgosa, flóðavöktun, jökulhlaup, gosmökk og öskudreifingu.

Fundurinn hefst með ávarpi umhverfisráðherra. Því næst ávarpar Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar, fundinn og stiklar á stóru í 90 ára sögu stofnunarinnar. Eftir hádegið ávarpar samgönguráðherra fundinn og að erindum loknum tekur Sveinbjörn Björnsson prófessor saman niðurstöður fundarins. Að loknum fundi verður móttaka með léttum veitingum.

Dagskrá afmælisfundarins með heitum erinda og fyrirlesara er í meðfylgjandi skjali (pdf 0,6 Mb).

Allir eru velkomnir og eru gestir beðnir að skrá sig með því að senda tölvupóst á netfangið afmaeli (hja) vedur.is eða hringja í síma 522 6000.

Sólstafir
Sólstafir. Myndin er tekin 13. september 2010 kl. 19:45. Ljósmyndari: Ólafur Sigurjónsson.

Stiklað á stóru

Veðurstofa Íslands hefur gegnt því hlutverki í 90 ár að vakta náttúruna, varðveita gögn og miðla þeim. Starfsemin hófst 1. janúar 1920 með stofnun Veðurfræðideildar innan þáverandi Löggildingarstofu. Löggildingarstofan var lögð niður í árslok 1924 og varð Veðurfræðideildin þá sjálfstæð undir heitinu Veðurstofan. Með fyrstu lögum um stofnunina 1926 fékk hún nafnið Veðurstofa Íslands.

Starfsemi Veðurstofunnar stórefldist í kjölfar síðari heimsstyrjaldar er Ísland tók að sér flugleiðsöguþjónustu á Norður-Atlantshafi, þ. á m. veðurþjónustu vegna millilandaflugs, og lögbundin verkefni Veðurstofunnar hafa aukist mjög í tímans rás.

Veðurstofan og Vatnamælingar voru sameinaðar í nýrri stofnun undir nafni Veðurstofu Íslands í ársbyrjun 2009 en kerfisbundnar vatnamælingar hafa farið fram allt frá 1947 ásamt mælingum á jöklabúskap, kortagerð og flóðarannsóknum.

Verkefni Veðurstofunnar taka nú til veðurs, loftslagsbreytinga, jarðskjálfta, eldgosa, ofanflóða, vatnsflóða, jökulhlaupa, hafíss og mengunar. Veðurstofan vinnur að rannsóknum og vaktar og sendir út viðvaranir ef hætta vofir yfir af völdum náttúrunnar.

Veðurstofan starfrækir fjölþætt kerfi veðurstöðva, jarðskjálftamæla, GPS-færslumæla, vatna- og flóðamæla og sinnir eftirliti víða um land. Hún hefur yfir að ráða veðursjá á Miðnesheiði og hefur nýlega fengið tímabundið til afnota öfluga færanlega ratsjá, sem greinir ösku í andrúmslofti. Ratsjáin verður fyrst um sinn staðsett miðja vegu milli Heklu og Mýrdalsjökuls, en verður svo færð eftir þörfum.

Veðurstofan tekur þátt í og er í forystu fyrir alþjóðlegum rannsóknarverkefnum svo sem á sviði loftslagsrannsókna. Hún á í samstarfi við innlenda og erlenda eftirlits- og rannsóknaraðila og er í nánu samstarfi við almannavarnir og almenning í landinu. Á vefsíðum hennar má finna gögn úr umfangsmiklu mælakerfi, sem almenningur og vísindamenn um víða veröld geta gengið að og eru einstæð í heiminum.

Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica